Ritningartextar: Ds. 91:1-4; Hebr. 13:7-8 ; Jóh. 4:34-38
Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu: Blessuð hans orð, sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Altari Guðs Þegar við göngum í hús Guðs, göngum við mót náðinni, náðinni, sem Guð gefur í kærleika sínum og opinberast í nafni Drottins Jesú Krists. Messan hefst á því að gengið er til móts við altarið, sem í myndrænum skilningi er staður Drottins, í senn hásæti Guðs og staðurinn þar sem krossinn var settur niður. Inngangan miðar að því að sameina söfnuð Guðs frammi fyrir þessum áhrifamikla stað. Stórbrotin upphafstónlist undirstrikar hina einlægu bæn og eindregnu játningu, sem inngangan tjáir. Upphafsorð hverrar guðsþjónustu eru þessi: Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Þannig hefst hátíð sunnudagsins. Hún er Guði helguð og í ákalli sínu, leitar söfnuðurinn, - leitum við, ásjár í skjóli hins hæsta og í skugga hins almáttka.
Við treystum á þennan stað, af því að frá honum hljóma fyrirheit Guðs. Orð hans er upplesið og tjáð, trúfesti hans boðuð, hann frelsar þig frá snöru fuglarans, frá ógninni, frá drepsótt eyðingarinnar, hann skýlir þér, þú átt í honum skjól og hæli og þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. (sjá Ds. 91).
Það er mikil blessun yfir slíkum stað og það felur í sér mikið öryggi að eiga slíkt skjól. Þess vegna er messa kristinnar kirkju gleðifundur, fagnaðarstund.
Upphvatning trúarinnar Upphvatning, kjarkur og viska til að takast á við lífið, spurningar þess og úrlausnarefni, kviknar gjarnan í skjóli altarisins. Þannig er iðkun trúarinnar nægtabrauð til næsta dags. Okkur hefur að vísu ekki tekist að gera allt, eða bregðast ávallt rétt við í því sem miður fer. Okkur hefur ekki enn hér á Íslandi tekist að koma upp skjóli fyrir alla þegna landsins og okkur hefur ekki tekist að forða öllum börnum okkar frá snöru fuglarans, sem situr um þau í skúmaskotum samfélagsins og hremmir þau í vítahring eiturefna og eyðingar. Það er aumt og við finnum til þess. En við skulum ekki láta hugfallast, því að orð Drottins er stöðugt á himnum og miskunn hans varir að eilífu (Ds. 119). Jesús Kristur er hinn sami í dag og þegar hann var ofsóttur og krossfestur, erindi hans er ekki lokið og upprisa hans til eilífs lífs er staðfesting þess.
Þetta er ekki orðflótti, eins og sagt er þegar við treystum okkur ekki að nota eitthvert orð, af því að það er of augljóst of ágengt. Þegar við játum trú okkar og treystum á kærleika Guðs í nafni Jesú, þá er það ekki flótti frá raunveruleikanum, eins og margir halda, í efa sínum eða örvæntingu. Heldur er það fullvissa trúarinnar um að Guð sé nálægur, lifandi í orði sínu og máttugur í fyrirheiti sínu. Við förum ekki í kirkju til þess að bregða okkur á flótta eða hlaupast undan skyldum okkar. Við göngum í Guðs hús til þess að búa okkur undir lífið, eins og það er, í allri sinni eymd og allri sinni dýrð, því að það er trú þess manns, sem treystir á orð Drottins, að án fulltingis hans, verði eymdin aldrei buguð, sárin grædd, eða sorgin sefuð, né heldur dýrðarinnar notið, sem sköpun Guðs gefur möguleika til og manninum stendur til boða, til sáluhjálpar, gleði og lífsfyllingar.
Máttarstólpar Hinir fornu spámenn, tóku sig út úr samfélagslegri vosbúð, hófu upp raust sína og bentu á orð Guðs, miskunn hans og leiðandi hönd. Ezekíel, sem ungur maður, var kallaður til þess hlutskiptis að vera þjóð sinni, sem var í útlegð og vegavillt, að vera henni ráðunautur og vegvísir í ógöngunum og finna hvatningarorð í skortinum. Hann tók það bókstaflega og hlýddi kallinu: Tak þú bók þessa og et hana og tala þú síðan við Ísraelsmenn. Og hún var sæt í munni sem hunang. (sbr. Ezek. 3). Ef við líkjum því við rúsínubrauð, þá voru þær rúsínur áreiðanlega með steinum, því orð Guðs krefst þess að brotið sé til mergjar og kjarni orðsins fái snert við bragðlaukum mannlífsins. Ezekíel er í dag einn hinna miklu spámanna, sem snúið hafa heilli þjóð til betri vegar, en fyrst og fremst verið henni huggun og hvatning.
Marteinn Lúter var einn máttarstólpanna á guðsríkisbraut. Hann fann líkn og lækningu örvæntingar og ótta í orði Drottins og hann öðlaðist kraft og einurð til þess að gefa þjóð sinni orð Guðs á eigin tungumáli. Um leið varð heimsbyggðinni ljóst, að orð Guðs er jafn litríkt, kröftugt og safaríkt og ávallt fyrr. Seint verður slíkt stórvirki metið að verðleikum. Áhrif hans náðu hingað til lands og Biblían fékk íslenskan hljóm, íslenskt mál, aðeins fáum árum síðar. Orð Guðs á móðurmáli Það er því með mikilli þökk, að við tökum við endurnýjaðri þýðingu Biblíunnar á íslenska tungu nú í þessu augnabliki samtíðarinnar. Mikil alúðarvinna hefur hér verið lögð af mörkum og mikill metnaður er að baki hinni nýju þýðingu, þar sem nálgun við lesandann verður skarpari og skiljanlegri en fyrr. Hvílíkt ríkidæmi má það vera fámennri þjóð, sem vill halda einkennum sínum, sögu og menningu, að eiga slíkan dýrgrip á augljósu og skýru tungumáli, sem um leið er vitnisburðurinn um almáttugan Guð og kærleika hans í Jesú Kristi. Ef fara ætti að nýrri tillögu um aðlögun útlendinga að landi og menningu, þá héti það “integrasjón”, og myndum við þá “integrera” hina nýju þýðingu. En máttur íslenskrar tungu felst m.a. í því, að þar er hugtakið hverjum manni ljóst, um leið og hann hefur áttað sig á stofni orðsins, - hefur fundið merginn. Og þegar maður áttar sig þannig á gagnsæi íslenskrar tungu, þá meðtekur maður auðveldar það orð, sem er frá Guði komið og er Guð sjálfur.
Fylgdarmaðurinn Hallgrímur Pétursson er spámaður sinnar samtíðar í þeim gamla skilningi þess orðs, að hann reis upp úr meðalmennsku og lágkúru tíðarandans, ekki sem aðfinnslumaður, heldur sem hin gefandi og leiðandi. Bænir hans eru innblásnar trúarstyrk, frjálsri hugsun, heilsteyptri tjáningu og leiftrandi listgöfgi. Veraldleg gæði Hallgríms voru brotabrot af því sem þekkist í dag. Enginn dagur var honum auðveldur og hjartasárin urðu mörg á hans lífsbraut. En honum óx ásmegin stöðugt og jarðneskur skortur hans snerist til ríkidæmis, af því tagi, sem hefur orðið þjóðinni vegarnesti allt fram á þennan dag.
“Láttu Guðs hönd þig leiða hér...”. Sú hvatning, sú hlýja leiðsögn, sú heita bæn er yfirskrift þessa stóls. Hún er valin af gefandanum, Dr. Sigurbirni, af mikilli kostgæfni, og hún er svo ljós og skýr, að hvert mannsbarn nærist af henni og styrkist, sé hún höfð yfir. Þannig er bænamaðurinn og listaskáldið frá 17. öld ennþá maður samtímans. Og betri fylgdarmann finnum við vart börnum okkar og framtíð.
Gleði uppskerunnar Jesús bendir á fullþroska akra. Hann biður okkur að líta í kring um okkur og sjá. Augu sem treysta honum sjá möguleika líðandi dags. Það er ekki eftir neinu að bíða. Sáðmaðurinn og vökvunarmaðurinn hafa þegar gengið um, af trúmennsku, fórnfýsi og staðfastri von. Við getum snúið okkur að uppskerunni strax. Og þegar fögnuðurinn lýtur að því að láta gott af sér leiða, þá hlýtur það að teljast eftirsóknarvert. Þannig verðum við líka þátttakendur í töðugjöldum trúarinnar.
Tími Drottins er runnin upp. Fagnaðarerindið er sú heilaga vitund kristins manns, að Jesús er, hann lifir og hann er hinn sami um eilífð. Við þökkum það og lofum nafn hans. Við göngum frá altari hans full trausts og eftirvæntingar. Við skulum sá og vökva. Guð gefur vöxtinn. Amen.