Um þekkingu og dómgreind: Jesús, Mill og Páll Skúlason

Um þekkingu og dómgreind: Jesús, Mill og Páll Skúlason

Orð Páls Skúlasonar um að vera meira maður, ekki meiri maður eru umhugsunarverð í ljósi orða lexíunnar: „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum“. Og orð Mills um gildi þess sem hann kallar almenna menntun andspænis vélrænni sérhæfingu beinir óneitanlega huga manns að faríseunum og lögvitringunum í guðspjallinu.
Mynd

Prédikun flutt í Seltjarnarneskirkju 9. október 2022.

Lexía: Okv 16.16-19; pistill: Ef 4.1-6; guðspjall: Lúk 14.1-11

Það er víst staðreynd að aldrei í mannkynssögunni ku hlutfallslega jafn stór hluti almennings um víða veröld hafa notið grundvallarmenntunar. Og sú öld sem við lifum á hefur í samanburði við fyrri aldir svo mikla yfirburði varðandi þekkingu, tækni og vísindi – og framfarirnar eru svo örar – að með æ styttra millibili má síendurtekið tala um byltingu á hinum og þessum sviðum. En þrátt fyrir þá miklu þekkingu og vísindalegu getu sem rannsóknir og menntun hafa haft í för með sér á umliðnum öldum þá er það ekki sjálfgefið að það verði ávallt til þess gagns sem efni standa til. Sú trú var t.a.m. ríkjandi í á ofanverðri 19. öld og í upphafi þeirrar tuttugustu að með uppgangi tækni og vísinda heyrði þróun samfélaga óhjákvæmilega til betri vegar, svo að tala má um félagslega þróunarhyggju í því sambandi, en tvær heimsstyrjaldir þar sem æ fullkomnari tækni var beitt við voðaverkin kváðu þær raddir snarlega í kútinn.

Það má líklega deila um það en ég hugsa að vart sé til skelfilegri vitnisburður um dómgreindarskortinn sem haldist getur í hendur við mestu gáfur og fremstu vísindi en þróun, framleiðsla og beiting kjarnorkuvopnanna sem lögðu Nagasaki og Hiroshima í rúst í lok seinna stríðs og halda áfram að ógna heimsfriði og tilvist lífs á Jörðinni.  Hvernig getur það verið að kórónu sköpunarverksins – líkt og biblíuleg trú telur manninn vera – eru svo mislagðar hendur?

Í spánýrri bók um erfðafræðilega sögu mannsins sem ber titilinn Hybris eða Hroki kemst einn fremsti fornerfðafræðingur heims, Þjóðverjinn Johannes Krause, að þeirri niðurstöðu á grundvelli rannsókna sinna á erfðamengi mannsins að fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum hafi átt sér stað vissar stökkbreytingar í erfðaefni hins viti borna manns, homo sapiens, sem leiddu til þess að hann sætti sig ekki lengur við friðsæla og sjálfbæra tilveru safnarans og veiðimannsins heldur varð gripinn óslökkvandi þrá til að eignast og eignast sífellt meira, þar til hann hafði lagt undir sig alla plánetuna. Og nú sé mannkynið að vakna upp með timburmenn, eins og hann orðar það, og það er eingöngu undir því sjálfu komið að ráða bót á vandræðunum sem það er búið að koma sér í. Í raun er Krause að lýsa sögu dýrategundar sem býr yfir nánast takmarkalausri getu til þess að auka við þekkingu sína og færni á öllum mögulegum sviðum en hefur ekki endilega alltaf til að bera skynsemi eða dómgreind í sama mæli.

Í guðspjalli dagsins er Jesús einmitt að benda á það sama – þótt það liggi kannski ekki í augum uppi við fyrstu sýn. Jesús er þar boðsgestur í húsi eins af höfðingjum farísea á hvíldardegi en það var viðtekin venja að bjóða gestum til aðalmáltíðar hvíldardagsins um hádegisbil að lokinni guðsþjónustu en á hvíldardegi voru snæddar þrjár máltíðir mót tveimur á virkum dögum. Jesús veit að farísearnir og lögvitringarnir eru sérfræðingar í ákvæðum lögmálsins og fylgja afar strangri og þröngri túlkun á því hvaða verk skuli teljast leyfilegt að vinna á hvíldardegi og hver ekki og því ögrar hann þeim meðvitað með því að lækna fyrir augum þeirra mann sem þjáist af bjúg eða vatnssýki eins og það er kallað. Síðan spyr hann faríseana og lögvitringana spurningar sem afhjúpar hræsnina sem felst í þröngri túlkun þeirra á lögmálinu. Hann bendir á staðreynd sem enginn getur neitað: að jafnvel á hvíldardegi myndi hver sem væri bjarga húsdýri sínu úr sjálfheldu og gera þannig góðverk á sínu eigin húsdýri einmitt vegna þess að það er hans eign. Og síðan beitir hann í raun grundvallarreglunni um að elska náungann eins og sjálfan sig með því að benda þeim á að þar með sé einnig sjálfsagt að gera góðverk á náunga sínum á hvíldardegi. Þannig varpar Jesús ljósi á að jafnvel þótt þeir séu sérfræðingar og búi yfir mestri mögulegri þekkingu á orðum lögmálsins þá skorti þá það sem sé mikilvægara en það er skynsemin til þess að sjá hlutina í samhengi, sjá skóginn en ekki bara tréð og beita þekkingu sinni á lögunum í samræmi við þann tilgang sem ætti að vera tilgangur hvers lagabókstafs, þ.e. að vernda mennskuna – en það er viðhorf sem lesa má úr orðum Krists á öðrum stað þar sem hann segir að maðurinn sé herra hvíldardagsins.

Lexían fjallar einmitt um mikilvægi þess að afla bæði þekkingar og þróa með sér skynsemi og dómgreind en hvort tveggja er meira virði en bæði gull og silfur að mati hinnar fornu speki. Hebreska orðið sem þýtt er með orðinu þekking tengist uppeldi og menntun í skilningi þekkingarmiðlunar en orðið sem þýtt er með skynsemi það hvernig þeirri þekkingu er beitt. Þessi hugsun, sem birtist okkur hér í þrjú þúsund ára gömlu spakmæli, á jafnt við í dag sem þá, þó svo að himinn og haf sé á milli fornaldarinnar og nútímans í þekkingarlegu og tæknilegu tilliti. Andspænis upplýsingaofgnótt og upplýsingaóreiðu nútímans hefur líklega aldrei verið mikilvægara að uppeldi og menntun miði ekki aðeins að miðlun þekkingar heldur ekki síður að því að fólk öðlist skynsemi til þess að greina hismið frá kjarnanum og til þess að greina rétt frá röngu.

Páll Skúlason heitinn, prófessor í heimspeki og rektor Háskóla Íslands, viðraði svipað viðhorf til menntunar og birtist í Orðskviðunum, í erindinu Viðhorf til menntunar sem hann flutti 1977 og birtist í bók hans Pælingum áratug síðar. Þar er hann að fjalla um menntakerfið og inntak menntunar og kemst að þeirri niðurstöðu að „hið tæknilega viðhorf til menntunar“ sé „afmenntandi“ eins og hann orðar það. Þar heldur hann því fram að fullnægjandi menntun geti ekki fyrst og fremst falist í því að öðlast tæknilega færni heldur hljóti hún fyrst og fremst að felast í þroska og „skólar séu eða eigi að vera leiðir til þroska.“ Síðan skrifar Páll í beinu framhaldi:

Með þroska á ég einfaldlega við vöxt eða fullkomnun þeirra eiginleika sem eru mönnum eðlislægir. Að menntast er þá að verða meira maður – ekki meiri maður – í þeim skilningi að þær gáfur eða eiginleikar sem gera manninn mennskan fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega … Menntunin sjálf er ævinlega sjálfsmenntun í þeim skilningi að það er lífveran sjálf, maðurinn, sem þroskast, vex og dafnar.

Páll rökstyður mál sitt með tilvitnun í rit breska heimspekingsins John Stuart Mill um hlutverk háskóla þar sem segir m.a.:

Menn geta orðið hæfir lögfræðingar án almennrar menntunar, en það er komið undir almennri menntun að þeir verði heimspekilega þenkjandi lögfræðingar, sem leita eftir og eru færir um að skilja undirstöður hlutanna, í stað þess að troða minni sitt fullt af smáatriðum.

Orð Páls Skúlasonar um að vera meira maður, ekki meiri maður eru umhugsunarverð í ljósi orða lexíunnar: „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum“. Og orð Mills um gildi þess sem hann kallar almenna menntun andspænis vélrænni sérhæfingu beinir óneitanlega huga manns að faríseunum og lögvitringunum í guðspjallinu.

Auk Mills vitnar Páll í útvarpsræðu Sigurðar Guðmundssonar, skólameistara Menntaskólans á Akureyri, frá árinu 1937, og lýkur síðan grein sinni á eftirfarandi orðum:

Í orðum þeirra Mills og Sigurðar skólameistara felst sú skoðun á menntun að hún sé hvorki bókleg þekking né verkleg kunnátta eingöngu – heldur þroski þeirrar gáfu sem gerir manninn að eilífri gátu andspænis sjálfum sér og veröldinni – gátu sem sífellt verður að takast á við og gagnrýna frá öllum hliðum – eigi menntunin, menningin, ekki að líða undir lok. 

Í ljósi þess ástands sem við stöndum frammi fyrir með stafrænni upplýsingaóreiðu nútímans, áróðri og hatursfullri skautun á flestum sviðum, má ljóst vera að aldrei hefur verið mikilvægara að stuðla að „almennri menntun“ í þeim skilningi sem Páll lýsir, menntun sem hefur heilbrigða dómgreind að meginmarkmiði – enn mikilvægara í dag en fyrir 3000 árum og jafnvel enn mikilvægara en árið 1937, á tíma Þriðja ríkisins sem beitti rökhyggju og vísindum og tæknilegri fullkomnum – já og jafnvel heimspeki og guðfræði – sem verkfærum í dæmalausri helför sinni gegn mennskunni í þágu grímulausrar illsku.  Og af hinu sama leiðir að mínu viti að það er jafn nauðsynlegt í dag og á öllum tímum að kristin trú og siðfræði séu hluti af þeirri almennu menntun – en jafnframt að það sem Páll Skúlason segir um manninn á einnig við um trúarboðskapinn og guðfræðilegar forsendur hans: að hann er eilíf gáta „sem sífellt verður að takast á við og gagnrýna frá öllum hliðum“ til þess að koma í veg fyrir misnotkun hans.


Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.