Um daginn sat ég með syni mínum, tæpra fjögurra ára gömlum, yfir sjónvarpinu. Við höfðum skemmt okkur yfir barnaefni með fjörugri tónlist og æsilegum ævintýrum. Nú sló skyndilega þögn á sjónvarpið og í hönd fór dagskrárliður sem sker sig úr öðru því efni sem á skjánum er. Markhópur þessa þáttar er þröngur og þótt hann hafi verið við lýði í áratugi má slá því föstu að aðeins lítill hluti landsmanna fylgist með.
Táknmál
Venjulega skipti ég um stöð um leið og þátturinn hefst. Í þetta skiptið varð forvitni sessunautar míns til þess að ég hikaði við að velja annað efni og staldraði við á stöðinni. Jú, þetta er hinn gamalkunni liður, Fréttaágrip á táknmáli. Sonur minn, í sífelldri leit að nýjum fróðleik, kallaði eftir skýringum þar sem þulurinn hreyfði varir og hendur samkvæmt reglum þessa tungumáls sem fæstir heyrandi einstaklinga kunna nokkur skil á.
Þar sem eyrun nema ekki hljóð þarf annað að koma til. Allir þurfa að tjá þau orð sem á hjartanu hvíla og allir þurfa að geta meðtekið þau áhrif sem umheimurinn miðlar. Þessum skilaboðum breytum við oftar en ekki í orð. Orð þurfa að berast. Orð gera okkur kleift að mynda hugsanir sem ekki verða táknaðar með hlutum.
Í upphafi var Orðið
Orðin eru allt um kring. Þau gleðja og særa, upplýsa og blekkja, orðin sýkna og dæma, skýra og flækja. ,,Í upphafi varð Orðið", segir í aðfararorðum Jóhannesarguðspjalls. Þar er vísað til sjálfs lögmálsins sem sköpunin lýtur í stóru og smáu. Þetta lögmál teygir sig inn í sálu okkar mannanna og tengist þar gjörðum okkar og siðum.
Samskipti okkar byggja á orðum og ekki aðeins hvert við annað. Við tölum við okkur sjálf. Í hljóðri hugsun, orðum við það sem á huga okkar hvílir. Hver kannast ekki við samtal sálarinnar þegar til dæmis freistingar blasa við?
Einhverjar rökræður eiga sér stað í huganum, með og á móti eins og í höfði okkar fari fram ráðstefna! Sérfróðir halda því reyndar fram að við þær aðstæður beitum við ólíkum hlutum heilans sem ræða saman á þennan sérstaka hátt. Börkurinn er víst rödd skynseminnar en frá heilastofninum berast frumstæðari skilaboð sem miða að því að uppfylla hvatir okkar. Allt fer þetta fram með orðum, þeim sömu og við tjáum með vörum okkar og nemum með eyrunum nú eða með þeim hætti sem fréttamaðurinn gerði á skjánum í algerri þögn.
Boðorð
Á þessum degi eru orð til umfjöllunar í kirkjunni. Þau birtast okkur með ýmsum hætti í textum dagsins. Í lexíunni voru boð-orðin rifjuð upp, þessar leikreglur sem gætu svo vel birst okkur í samtali sálarinnar þegar við vegum og metum löngun okkar og betri vitund. Þar er bæði gert ráð fyrir siðviti og vilja til að forðast skaða og bæta heim, en um leið er gengið út frá því að í eðli okkar búi hvatir sem séu þegar verst lætur, alveg stórskaðlegar.
Boðorðin hefjast flest á sömu orðum: Þú skalt ekki, þú skalt ekki, þú skalt ekki… Þessi orð óma næstum eins og svipuhögg, hvert á fætur öðru og við fáum þá mynd af manninum að honum er tamt að gera sitthvað sem hann ætti alls ekki að gera. Við tölum um þau sem boðorð – en með réttu ættum við að kalla þau bannorð. Eða lýsir það ekki betur inntaki þeirra?
Þú skalt ekki hafa aðra Guði, þú skalt ekki leggja nafn Guðs við hégóma, þú skalt ekki myrða, stela, drýgja hór, þú skalt ekki ljúga, ekki girnast. „Þú skalt ekki“ hljómar hvað eftir annað og í bakgrunni bannsins er sú vitund að við seilumst einatt út fyrir þau mörk sem okkur eru sett. Eins og skilaboð þessi eigi rætur að rekja til okkar betri vitundar og beinist að því að hjálpa okkur að hafa stjórn á okkar frumstæðari og óheftari þáttum.
Og allt snýst það um að setja manninum mörk. Frelsið takmarkast af nefi náungans, það afmarkast af því að nýta hið forgengilega en tilbiðja það ekki. Að setja dögunum skorður, helga hluta þeirra næði og íhugun, setja orðum okkar skorður og gæta þess sem frá munni okkar kemur.
Boðorð og bannorð, þarna liggja mörk hegðunar okkar og hugsunar.
Þessi hvassi tónn boðorðanna er í raun nærgöngul spurning um það hver haldi um þá stjórnartauma sem eru í okkar lífi. Hver er guð þinn? hvað lætur hann þig gera? Færa hann þig til þess að beita náunga þinn ofríki? Hrifsarðu til þín það sem hann á? Ásælistu mikilvægustu verðmætin hans? eignirnar, orðstírinn, fjölskylduna, jafnvel lífið sjálft? Ertu stöðugt með hugann við það sem náungi þinn á, svo mjög að þú sérð ekki þín eigin verðmæti?
Tvíeggjað sverð
Þetta eru orðin Biblían flytur okkur. Postulinn talað um þau sem orð Guðs og hann lýsir því á áhrifamikinn hátt. Hann segir það vera lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði. Það smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.
Og þannig birtist þetta orð okkur í guðspjallinu. Þar er Kristur ómyrkur í máli. Hann talar til guðlausrar kynslóðar sem heyrir ekki raustu Guðs sem þó talar frá hjarta þeirra og samvisku. Þar greinir hann á milli þeirra sem hlýða á þetta orð, meðtaka það og greina, og hinna sem ekki hlusta og skilja. Greinarmunurinn er einmitt skilningurinn og viljinn til að hlýða því orði sem frá Guði er sprottið. “Hví skiljið þér ekki mál mitt?” spyr Kristur áheyrendur sína í guðspjallinu. Orðin hans verða eins og táknmálið í sjónvarpinu sem við feðgarnir horfðum skilningsvana á. Hulinn boðskapur og táknheimur sem við höfðum ekki tileinkað okkur. Þegar hann boðar þessum andstæðingum sínum orð Guðs þá bregðast þeir við með sama skilningsleysi.
Að baki orðum hans býr sársauki og angist. Og í framhaldi lýsir hann þeim títtnefnda Djöfli sem á vísan stað á vörum margra, eins og sterkt suðrænt krydd sem eykur áhrifamátt orðanna. Hann lýsir honum sem föður lyginnar. Rétt eins og orðin geta falið í sér sannleika, lögmál, reglu og það annað sem miðar að uppbyggingu og farsæld - eru orð lyginnar til marks um sundrungu, eyðileggingu og dauða. Faðir lyginnar stendur gegn öllu því sem satt er og rétt.
Stundum er eins og við greinum átök á milli þessa tveggja afla, ekki aðeins innra með okkur sjálfum heldur í umhverfi okkar, í heiminum. Við skynjum þessa lýsingu Jesú á verkum hins illa. Þar skiptir sannleikurinn engu máli, allt miðar að því að efla þrönga eiginhagsmuni og brjóta það niður sem miðar að því að byggja upp.
Sannleikurinn ekki áferðarfagur
Sannleikurinn er ekki alltaf áferðarfagur. Boðorðin - líkjast fremur bannorðum með hinu taktfasta höggi: Þú skalt ekki, þú skalt ekki. Nei, þetta er engin fagurgali enda þekkjum við sannleikann fyrir það sem hann er. Hann býr ekki til skrumskælda mynd af lífinu. Hann upphefur ekki hjá okkur löngunina til að drottna yfir öðrum og sundra því sem gott er.Þegar við hlýðum á boðorðin tíu er þar vissulega hvass tónn, endurtekinn eins og sársaukafull högg. En í grunninn býr í þessum texta mikil umhyggja og mikið traust á okkur sem manneskjum.
Það er svo merkilegt að þessi hörðu orð Krists beinast að þeim sem sannarlega voru trúaðir. Annars vegar gyðingar sem tekið höfðu trú á hann og svo hinir margnefndu farísear - elíta hinna trúuðu gyðinga, þeir sem fylgdu í stóru og smáu sjálfu lögmálinu. Þetta eru þeir sem Jesús hrekur hvað oftast. Miklu mýkri var hann í garð þeirra sem báru það með sér að vera á villigötum. Bersyndugir nutu samvistum við hann en hinir sem höfðu hið fróma yfirbragð en voru þegar dýpra var skyggnst á valdi lyginnar.
Orð Guðs er það sem skilur á milli. Þeir sem meðtaka það eru sælir og það birtist í lífi þeirra með þeim hætti sem Kristur sjálfur lýsti. Þeir vinna ekki að þröngum eiginhagsmunum heldur láta þeir stjórnast af æðri sannfæringu, hvar sem þeir starfa og vinna í sínu lífi.
Já, þar sem við feðgarnir sátum yfir skjánum reyndi ég að útskýra fyrir þeim stutta hvernig tungumál þetta væri sem heyrnarskertir nota til tjáningar. Þarna hafa orðin annað form en þau gera í því samtali sem flestum er tamara. Í þessu tilviki hreyfðust varir og hendur og varir samkvæmt þessu málfræðikerfi, því lögmáli sem tengir orðin saman og gerir þau skiljanleg, greinir á milli réttrar notkunar og rangrar.
Orð Biblíunnar birtist okkur einnig í því lögmáli sem leiðbeinir okkur í samskiptum við umhverfi okkar, náungann og skapara. Það teygir sig inn í vitund okkar og birtir okkur fyrirgefninguna sem okkur breyskum mönnum stendur opin. Og með sama hætti verður hið frelsandi Orð Guðs til þess að leiða okkur í gegnum lífið með sannleikann að leiðarljósi.