Hvaða klisja er það?

Hvaða klisja er það?

Og þessi dagur er sannarlega hlaðinn ritúali, rétt eins og hæfir alvöru hátíð sem þessari. Um þessar mundir er jú takturinn góður hjá fólki. Við höfum væntanlega hugmynd um það hvað við snæðum, hverja við hittum, hvað við horfum á og hvernig við fögnum þessum tímamótum. Já hver er munurinn á klisju og ritúali? Hann liggur í því að sú fyrrnefnda býr ekki yfir sömu merkingu, inntaki og tilfinningu og ritúalið.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
31. desember 2024
Flokkar

Að heyra í kaffivélinni og sitja á móti þér með bolla

Það gerir mig glaðan

Hvaða klisja er það?

Segi heimskulega hluti bara til að sjá þig brosa

Það gerir mig glaðan

Hvaða klisja er það?

 

Svona hefst ástaróður MC Gauta til eiginkonu sinnar. Hann dregur fram alls kyns þætti hversdagslega sem sögulega í lífi þeirra og lýsir þeim tilfinningum sem þeir vekja í brjósti hans. Svo spyr hann eins og í þessum texta: hvaða klisja er það?


Klisja eða ritúal?

 

Já, hér orðar listamaðurinn þessa þætti í tilveru okkar sem virðist í fyrstu ekki líklegir til að tróna yfir öðrum og eins og furðar sig á því hvers vegna þetta er honum svo mikilvægt. Klisjan er einmitt það sem hefur orðið fangi endurtekningar, mögulega yfirdrifin lýsing á fánýtum hlutum. En svarið við endurtekinn spurningu er vitaskuld einfalt: Þetta er engin klisja. Við hérna í kirkjunni eigum meira að segja dásamlega fallegt orð sem rammar svo vel inn taktinn, já rytmann í lífi okkar. Við köllum það ritúal.  

 

Þið sem hafið vanist helgihaldinu í kirkjum áttið ykkur væntanlega á því að liðirnir eru í föstum skorðum. Á hátíðum eins og þessari bregðum við reyndar aðeins út af vananum og syngjum hástemmdar nótur séra Bjarna á Siglufirði, þess hins sama og bjargaði þjóðlögum okkar frá því að týnast og gleymast. Þar eru þó sömu stefin og hina hefðbundnu sunnudaga.

 

Eftir stuttan inngang kemur miskunnarbænin, í framhaldinu dýrðarsöngur og svo flytjum við textana sem predikun þessi á að fjalla um, heimfæra og vonandi tengja við hugsanir okkar og tilvist.

 

Já, hvaða klisja er þetta? Nei, þetta er einmitt ekkert í þá veru, heldur býr hér að baki ákveðin mannsmynd, eða við getum jafnvel talað um spegil í því sambandi. Við byrjum jú á því að játa takmörk okkar þegar við biðjum um miskunn okkur til handa. „Guð faðir í himnaríki miskunna þú oss“ söng kórinn hér rétt áðan. Einhver kann að spyrja hver þörfin sé á slíkri miskunn eða hvort yfirhöfuð sé tilefni til að bera fram svo auðmjúka bón. Svarið er á þá leið, að forsendan sé sú að öll erum við takmörkuð á einhvern hátt. Já, við gerum mistök af ýmsum toga, það er einfaldlega hluti þess að vera manneskja.

 

Vitundin um slíkt held ég reyndar að sé ástæða þess að við tengjumst öðru fólki. Þátttaka í félagi, vinátta, ástarsamband, eins og í lagi rapparans, eða trúarsamfélag grundvallast á því að við játum það að einhver getur bætt okkur á þeim sviðum þar sem við þurfum á að halda. Slík auðmýkt ætti að koma í veg fyrir að við reynum að drottna yfir öðrum, heldur mætum þeim á jafnréttisgrunni.

 

Dýrðarsöngurinn, sá hinn sami og englarnir sungu yfir hirðunum við Bethlehem kemur í kjölfarið. Já, það er gleðin yfir því að við erum ekki ein í þessari veröld og því fylgir um leið bæn um frið og velþóknun Guðs.

 

Svona gerum við aftur og aftur í helgihaldinu okkar. Því lýkur svo með elstu bæninni í Biblíunni, bæn Arons þar sem við biðjum Guð um blessun okkur öllum til handa. Þar er svo þessi fróma ósk um að Guð láti „ásjónu sína lýsa yfir okkur“. Hvað merkir það í trúarsamfélagi sem hefur almennt þá hugmynd að enginn geti litið Guð augum og lífi haldið?

 

Andstæðan er baksvipur Guðs, þegar Guð hylur andlit sitt. Þá hellist myrkrið yfir og óskapnaðurinn, glundroðinn tekur við. Með þessu, óskum þess að við njótum farsældar í þessu lífi sem öðru. Við biðjum þess að við getum mætt mótlæti af styrk og æðruleysi og stöndum saman þegar á þarf að halda.

 

Síðasta orðið sem prestur flytur svo í helgihaldinu er nú heldur betur gildishlaðið. Það er orðið „friður“ þýðing á hinu hebreska „shalom“. Þar mætir okkur hið ákjósanlega jafnvægi í lífi okkar, gott samfélag, vitund fyrir takmörkum okkar og styrkleika og sú dýrmæta kennd að náð Guðs hvíli yfir okkur öllum.


Rytmi og ritúal

 

Af hverju að rifja þessa takföstu hrynjandi guðsþjónustunnar, upp nú við aftansöng á gamlársdag? Jú þetta er „ritúalið okkar.“ Það er takturinn. Við erum með einn góðan taktgjafa í brjósti okkar, það er hjartað. Það byrjar að slá þegar í móðurkviði og svo lýkur slættinum ekki fyrir dagar okkar eru að baki.

 

Og þessi dagur er sannarlega hlaðinn ritúali, rétt eins og hæfir alvöru hátíð sem þessari. Um þessar mundir er jú takturinn góður hjá fólki. Við höfum væntanlega hugmynd um það hvað við snæðum, hverja við hittum, hvað við horfum á og hvernig við fögnum þessum tímamótum. Já hver er munurinn á klisju og ritúali? Hann liggur í því að sú fyrrnefnda býr ekki yfir sömu merkingu, inntaki og tilfinningu og ritúalið.  

 

Nú hafa fræðimenn staldrað við þetta hugtak, ritúal, og rýnt í það hvaða merkingu það kann að hafa fyrir fólki almennt. Þessi fyrirsjáanlega endurtekning er nefnilega lykilatriði þegar kemur að því að njóta varanlegra tengsla við annað fólk. Það getur einmitt falist í því að hella upp á kaffi á morgnana, koma saman að vinnudegi loknum, taka þátt í gefandi starfi saman, setja upp jólaskrautið og taka það svo aftur niður. Þetta geta verið orð, verkaskipting, greiðasemi, atlot og svo auðvitað þetta mögulega skiptir mestu máli í þessu sambandi.

 

Nefnilega eitt sem ekki hefur verið nefnt í samhengi messunnar, það er sjálf máltíðin.

 

Þegar við göngum til altaris í kirkjunni er það bundið sama fyrirsjáanleika og annað hérna. Við neytum þessara látlausu veitinga sem vísa þó svo langt út fyrir sig í tíma og rúmi. Þetta köllum við kvöldmáltíð og skilaboðin eru þau að við erum öll í sama liði, eins og vinir eða fjölskylda sem setjast að borðum. Þetta er þungamiðjan í ritúalinu

 

Og vitið þið hvað? Þegar höfunda bóka Biblíunnar reyndu að koma orðum að sjálfu himnaríkinu, já reyndu að orða þessa háleitu sýn, sem hugur okkar og skynjun fá ekki túlkað með viðunandi hætti, þá tóku þau dæmi af máltíð. Þeir tóku líkingu af því þar sem fólk sest saman að borðum. Þar er ekkert hungur og þar er engin einsemd. Þetta var það besta sem þeim datt í hug og þarf ekki að undra.

 

Þessi er einmitt eitt mikilvægasta atriðið þegar kemur að ritúali daganna, að setjast að borðum saman.


Endurtekningin

 

Guðspjallið gamlárskvölds talar um endurtekninguna. Það segir frá fíkjutréi sem ekki ber ávöxt og örlög þess eru ráðin í samtali á milli eiganda garðsins og garðyrkjumannsins. Sá fyrrnefndi vill höggva það upp með rótum og skapa skilyrði fyrir önnur tré. Hinn biður því griða og hvetur til þess að það fái staðið eitt ár í viðbót.

 

Vísað í sígilt táknmál sem hinir fyrstu áheyrendur þekktu vel. Fíkjutréð átti við Ísraelsþjóðina en í túlkun hins Nýja testamentis má ekki síður heimfæra það upp á allt mannkyn. Þarna er mannkynið sjálft vegið og metið. Horft er til þess afraksturs sem lifir af verkum þess og dáðum. Hvað stendur eftir? Þykja ávextirnir fýsilegir? Víst eru þeir það ekki allir.

 

Sá sem kemur því til varnar talar máli sögumannsins – Krists sjálfs. Varnir hans byggja ekki á því að hnekkja dómi eigandans, sem hlýtur þá að vera faðirinn almáttugi. Nei, hann hvetur til þess að trénu verði miskunnað og hann bendir á það að í eðli þess sé að finna eitthvað dýrmætt og merkilegt sem muni gera því kleift að standast þær væntingar sem til þess eru gerðar. Gefum því eitt ár til viðbótar.

 

Eitt ár til viðbótar, hér talar hringrásin til okkar.

 

Allt þetta orðum við hér í guðsþjónustunni. Hún dregur fram mynd af okkur sem breyskum einstaklingum en beinir hug okkar hvert að öðru og til hins háleita, þar sem við lítum upp til skapara okkar og lausnara. Við hugleiðum takmörk okkar en skynjum um leið hvernig við getum bætt hvert annað upp og í máltíðin getum við jafnvel í hinu biblíulega samhengi sagt að samfélag okkar nái ákveðinni fullkomnun. Þetta er orðað svo fallega í textanum góða þar sem fyrsti kaffibolli dagsins kallar fram þau hughrif.


Blessunaróskir

 

Og nú bið ég þess að við eigum öll gott samfélag hér á síðasta kvöldi þessa árs 2024. Hugleiðum það þegar við horfum á fólkið í kringum okkur, veltum því fyrir okkur þegar við rifjum upp liðnar stundir með ástvinum, sumum hverjum sem eru ekki lengur með okkur, hversu mikilvægt samfélagið er sem við eigum hvort með öðru. Greinum á milli þess sem skiptir máli og alls hins, klisjunnar sem skilur ekkert eftir. Gefum gaum ritúalinu sem bindur þetta allt saman, tengir okkur hvort við annað á líðandi stundu þar „allt er á fljúgandi ferð liðið hjá“ eins og við sygjum svo hér í lokin.

 

Já, Guði sé lof fyrir gleðilegt ár og góðar og frjósamar tíðir.