Kona segir frá

Kona segir frá

Þessum orðum er ekki ætlað að vera ritdómur um æviminningabækur Guðrúnar Láru Ásgeirsdóttur. Þetta eru fyrst og fremst þakkarorð fyrir þriggja binda frásögn sem geymir merka sögu kirkju og samfélags þar sem prestskonan er annars vegar, sögu sem ekki má gleymast.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
13. janúar 2018

Margur liggur enn í lestri jólabóka enda var fjöldi útgefinna bóka um síðustu jól meiri en oft áður. Kenndi þar margra grasa og voru bækur af sjálfsævisögulegum toga býsna margar enda áhugi fyrir þeim ætíð þó nokkur. Segja má að fólk úr öllum stéttum og stöðum láti að sér kveða í þeim bókaflokki og gildir einu hvort viðkomandi er bílasali, útgefandi, athafnamaður, bóndi eða læknir – og lengi mætti telja! Allir hafa einhverja sögu að segja með ævi sinni hvort heldur hún kemur svo sem út á bók eða ekki. Engin saga er annarri ómerkari þegar öllu er á botninn hvolft en allt snýst um sjónarhornið sem hver og einn hefur þegar hann eða hún skyggnist um víðáttur ævinnar. Sennilega eru fleiri minningabækur og ævisögur fólks úr þjóðardjúpinu gefnar út hér á landi en í öðrum. Kannski er það enn og aftur hið margumrædda fámenni hér norður frá við ballarhafið fræga sem kann að skýra það sem og sterkur þráður einstaklingshyggju, samofinn ríkri samkennd í litlu samfélagi.

Sumar bækur eru metsölubækur áður en þær eru jafnvel komnar út á prent. Bókaþjóðin er tekin tröllataki í bókauglýsingum og verður hver og einn að greina sannleikann í þeim ef hann er þar á annað borð að finna. Kapphlaupið í jólabókaatinu snýst um að koma bókum á framfæri með sem áhrifaríkustum hætti vegna þess einfaldlega að þær eru söluvarningur um leið og þær eru ákveðið menningarform. Margar bækur fá mikla athygli sem þær eiga fyllilega skilið enda oft um menningarleg þrekvirki að ræða hvort heldur verk fræðilegs eðlis, ljóð eða skáldsögur – og allt þar á milli.

Á síðustu þremur árum hefur Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, kennari, látið frá sér fara athyglisverðar minningabækur og kom sú þriðja og síðasta út nú fyrir jólin. Þær bera allar titilinn: Á meðan ég man – atburðir ævi minnar. Alls eru þessi þrjú bindi 786 blaðsíður. Þessi útgáfa hefur ekki farið hátt og er kannski ekki ætlað það en bækur þessar segja merka sögu. Meginhluti sögunnar er vissulega persónusaga hennar og fjölskyldunnar en inn í hana fléttast hlutverk hennar sem konu í sveit, þorpi og um tíma í stórborg, eiginkonu prests, eða sem prestsfrúar eins og gjarnan var sagt hér fyrrum. Margt er ærið hversdagslegt en annað því frábrugðið og mikið ævintýri – enda rennur lífið um hinn kunna farveg hversdagsins þar sem við berumst um lengur eða skemur. En hversdeginum er ætíð mætt með þakklæti og glaðværð – og yfir öllu hvílir blær ástarsögunnar og lífsgleðinnar; sögunnar um ungu konuna „sem var líka alveg til í að verða maddama.“ (Sjá fyrsta bindi, bls. 196). En hún brá sér líka í mörg önnur hlutverk en maddömunnar sem hefur þó ætíð skipað æðsta sessinn.

Um margt er Guðrún Lára óvenjuleg kona og kemur það einkum fram í hinum mikla dugnaði hennar, óbilandi kjarki og endalausri atorku. Allt er knúið áfram af kröftugri lífsgleði hennar og bjartsýni. Hún er áhrifakona hvar sem hún kemur og máttarstólpi samfélags bæði sem sjálfstæður einstaklingur og sem eiginkona prestsins. Prestssetrið í sveit eða þorpi leggur upp rammann sem og heimili þeirra í Kóngsins Kaupmannahöfn þá sr. Ágúst Sigurðsson, gegndi þar prestsþjónustu meðal Íslendinga.

Frásögn hennar er skýr, skipuleg og afdráttarlaus, og prýdd fjölda mynda úr einkalífi og kirkjulífi. Þær geyma mikla sögu sem ekki hefur komið áður fyrir sjónir hins almenna lesanda. Allar myndir tveggja seinni bindanna eru í lit. Mikill fjöldi fólks er nefndur á nafn í þessari sögu og þarf engan að undra þar sem höfundur virðist búa yfir ríkulegum samskiptahæfileikum og hrífur fólk með sér. Auk þess sem það sýnir á svo einstæðan hátt hvað margir verða í raun og veru á vegi okkar í lífinu enda þótt það sé vitaskuld misjafnt frá einum manni til annars. En ef við hefðum nú bara öll haft rænu á því að festa nöfn þeirra í minni okkar eða á blað í virðingar; þakkar- og umhyggjuskyni þá væru kannski minningar okkar sjálfra drýgri en ella.

Eins og í öllum bókum sem rekja ævi fólks og minningar er ekki allt lesið frá orði til orðs. Sumt er vel lesið af þeim sem vel þekkir til fólks og staðhátta hverju sinni og jafnvel oft meðan annar lætur hornalestur duga á einni síðu en sökkur sér svo ofan í þá næstu.
Stundum er sagt til hróss að höfundar minningarbóka og ævisagna hlífi engum – í frásögnum af sumum atburðum sé jafnvel um að ræða uppgjör eins og gjarnan er sagt. Slíku er ekki til að dreifa hér enda þótt höfundur segi hispurslaust frá og láti einlægar tilfinningar sínar í ljós og skoðanir á því sem hún telur að betur hefði verið gert eða ósagt látið. En henni er engu að síður ljóst sem glöggri konu að á langri ævi falla orð af vörum samferðamanna á sviði lífsins sem sögð eru á röngum stöðum og í hugsunarleysi.

Saga prestsfrúarinnar er að mestu leyti óskráð saga enda þótt nokkrum svipmyndum hennar sé brugðið upp til að mynda í ævisögum - og minningum sumra presta. Já, prestsfrúarinnar er sagt, enda þótt karlar kæmu síðar til sem makar kvenpresta – samfélagið var gerbreytt frá því sem áður var. Prestsfrúin veitti forstöðu heimili þar sem gestagangur var oft mikill og heimilið var að hluta til opinber vettvangur. Hér fyrr á tímum gegndi kona prestsins mikilvægu hlutverki í sveitinni eða þorpinu og stóð við hlið eiginmannsins við kirkjudyr að messu lokinni sem nokkurs konar tákn um að hún væri ákveðinn hluti þessa embættis. Sú tíð er nú liðin.

Þessum orðum er ekki ætlað að vera ritdómur um æviminningabækur Guðrúnar Láru Ásgeirsdóttur. Þetta eru fyrst og fremst þakkarorð fyrir þriggja binda frásögn sem geymir merka sögu kirkju og samfélags þar sem prestskonan er annars vegar, sögu sem ekki má gleymast. Þessar minningabækur verða notadrjúg heimild fyrir þá sagnfræðinga sem kunna síðar að skrá sögu prestskonunnar. En þetta er samtímis hvatning til lesenda um að minnast þessarar sjaldsögðu sögu með virðingu og þökk – og taka hana sér jafnvel í hönd og lesa.