Í sumar eyddi ég löngum stundum á gervigrasvöllunum við Melaskólann með fimm ára syni mínum. Þar var gjarnan fyrir hópur barna og spilaði fótbolta. Þessi kynslóð verður vafalítið í framtíðinni kennd við EM, þau hafa drukkið í sig stemmningu sumarsins. Rétt eins og stórmeistarafjöldinn sem kom í kjölfar einvígis Fishers og Spasskýs 1972, má búast við hinu sama með EM-kynslóðina. Einhver eiga eftir að tryggja foreldrum sínum áhyggjulaust ævikvöld, ef þau eiga eftir að gera garðinn frægan á þessum erlendu grænu grundum fótboltavallanna!
Reglur á leikvellinum
Já, þarna var margt kappsfullra barna sem öttu kappi í búningum KR, landsliðsins, stórliða erlendis, merkt eigin nafni eða einhverra stórstjarna. Þegar svo vantaði í lið á öðrum völlum á skólalóðinni litu þau á okkur feðgana, mig tæpra fimmtugan og Guðjón minn rúmlega fimm og spurðu sisvona: ,,Viljið þið spila?” Við tveir höfum vafalítið verið undarlegt fótboltalið en við þáðum þetta alltaf með þökkum og komum okkur fyrir í öðrum megin á vellinum.
Þetta gátu verið tvísýnar rimmur og ekki vantar gáfurnar og hæfileikana í þessa krakka. Sjálfur var ég forvitinn um fyrirkomulagið í þessu samfélagi barna sem bjó ekki að neinu fullorðnu yfirvaldi. Auðvitað voru reglur útlistaðar í fljótheitum áður en leikar hófust. Og hitt vakti ekki síður ánægju mína hversu liðlegir leikmenn voru við son minn sem var jafnan sá yngsti á vellinum. Vissulega spöruðu þau ekki kraftinn þegar Golíatinn eða Gúlíverinn, ég stóð í markinu. Öðru máli gilti um það þegar þau mættu þeim stutta. Þá hægðu þau á ferðinni og spörkin voru miklu lausari.
Úr þessu varð svolítil mannfræðirannsókn, nefnilega sú að í þessum boltasparki giltu bæði orðaðar reglur og óskráðar. Það er í raun fagur vitnisburður um það hversu mannleg samfélög taka á sig form og snið svo að allir fái notið sín, stórir sem smáir.
Þú skalt ekki
Lexía dagsins kallast nú heldur betur á við slíka þanka. Boðorðin tíu eru alkunn. Þau eru nokkurs konar yfirlýsing. Þó eru þau ekki frá grasrótinni, eða þeirri sem sparkar á gervigrasinu – heldur eru boðorðin sett fram sem yfirlýsing að ofan. Já, þarna er almættið að verki og í upphafi er stefnan skýr, af hverju Ísraelsmenn eiga að fylgja þessum reglum. Drottinn markar sér sess í upphafi textans: Lýsir því hvernig hann veitti þrælum lausn og gaf þeim nýtt líf á nýjum slóðum. Þeir þakka fyrir frelsið með því að fylgja þessum boðum sem eru mis-ýtarleg en eiga það sammerkt að setja mannlegu lífi og athöfnum ákveðnar skorður.
Í fyrstu virðist þetta ekki vera hugljúf lesning. ,,Þú skalt ekki”, ,,þú skalt ekki” hljómar í sífellu, næstum eins og vandarhögg sem dynja á óþekkri mannsálinni. Orðalagið dregur upp þá mynd af manninum að hann hendi sér sínkt og heilagt út fyrir öll velsæmismörk í samskiptum sínum við systkini sín. Stöðugt þarf að slá á fingur, stíga á tær, setja skorður. Ekki stela, ekki myrða, ekki ljúga einhverju upp á fólk, ekki girnast, ekki girnast – já það er tvítekið og fylgir næsta merkileg upptalning í kjölfarið.
Þó eiga boðorðin tíu margt sameiginlegt með leikreglum á völlunum við Melaskólann. Þau byggja á þeirri sýn að frelsi er er ekki það sama og hömluleysi. Mannlífið þarf að vera í ákveðnum skorðum ef ekki á illa að fara og allir eiga að fá að njóta sín. Og það sem meira er, leikreglur af þessum toga eru einmitt settar fram til þess að verja hag þeirra sem ella stæðu höllum fæti, geta ekki með hnefanum eða liðsaflanum undirokað aðra.
Einræðisherrar og kúgarar vilja engar reglur. Þarfir þeirra einna skipta máli og aðrir þurfa að beygja sig fyrir duttlungum þeirra. Annað gildir um samfélög þar sem allir þurfa í meginefnum að fylgja sömu ákvæðum. Þar sem bannað er að stela, myrða, ljúga upp á fólk og annað sem skaðað getur hag þess, heilsu og velferð – verður um leið til yfirlýsing þess efnis að hver einstaklingur búi yfir ákveðnum verðmætum sem ekki verða frá honum tekin. Þú skalt ekki stela – eignarrétturinn er friðhelgur. Sama hversu öflugur sá er sem girnist eigur og verðmæti, þjófnaður er óásættanlegur. Hið sama gildir um lífið, orðstír okkar, fjölskyldu og einkalíf.
Leikreglur samfélags
Eru þessi boðorð ekki ætluð þeim sem með völdin fara? Það sem einkennir það samfélag sem byggir á gyðingkristnum arfi – þeim hinum sama og byggir tilvist sína á boðorðunum tíu – er einmit sú vitund og viðurkenning að enginn er hafinn yfir lögin. Ofar öllu því sem mannlegt er, ríkir eitthvert yfirvald sem allir þurfa að lúta, sama hvaða stöðu þeir kunna að hafa.
En þetta eru leikreglur samfélags, nauðsynlegir skilmálar til þess að leikurinn verði ekki ósanngjarn og ranglátur. Hjálpræðið býr ekki í þessum reglum. Þegar Kristur kemur fram á sjónarsviðið er hann spurður um það hvert boðorðanna sé æðst. Svarið sem Jesús gaf var að vitna í hið fyrsta boðorð og teygja á því. Ef við skoðum þessi atriði þá sjáum við að sumt á sér ríkari sess en annað. Fyrsta boðorðið og þau tvö síðustu snúast ekki um hendur okkar, eða munn, eða annað það sem við kunnum að gera eða segja. Þau fjalla einmitt um huga okkar og sál. Þetta byrjar jú allt hið innra með okkur.
Og ekkert endurspeglar siðferði okkar og upplegg, en framkoman við minni máttar.
Kristur var að sama skapi ómyrkur í máli þegar hann talaði til yfirvalda sem misbeittu valdi sínu. Þegar við hlýðum á boðorðin tíu er þar vissulega hvass tónn, endurtekinn eins og sársaukafull högg. En í grunninn býr í þessum texta mikil umhyggja fyrir þeim sem minni máttar er. Og, í svari Krists bendir hann á að upptök breytni okkar liggja í hugarþelinu og afstöðunni. Þess vegna breytist þungi boðanna, frá verkum yfir í það sem í hjartanu býr. Það mikilvægasta segir Kristur, er það sem við elskum. Elskaðu Guð þinn og gættu þess að gera ekkert annað að þínu æðsta yfirvaldi, ekki auð, ekki völd, ekki annað fólk, ekkert af því er þér samboðið. Manneskjan er dýrmætari en svo að hún eigi að lúta nokkru því sem skapað er.
Og hvernig veistu hvort trú þín beinist í rétta átt? Jú, það birtist í umhyggjunni fyrir náunganum. Það er einkenni á hverju góðu hugarþeli – hveru því samfélagi sem grundvallað er á góðum gildum.
Það fór ekki á milli mála að þetta samfélag sem þreifst í sumarfríinu á völlunum við Melaskólann hafði sitt siðferði á hreinu og vissu þau gamalkunnu sannindi að reglur þurfa að gilda ef allir eiga að fá að njóta sín – ekki síst þeir sem minnstir eru. Það er einmitt eðli allra góðra leikreglna – þær vernda ekki hina sterku og öflugu, heldur eiga þær einmitt að tryggja hag þeirra sem ekki geta leitað réttar síns með liðsstyrk sínum og mætti. Slíkar leikreglur þurfa ekki guðlegan innblástur, þær þekkjum við í öllum samfélögum. En ástin til Guðs, trúin á Guð á sér engu að síður þann prófstein sem ástin til náungans er.