„Þú nýtur viðurkenningar Guðs …“

„Þú nýtur viðurkenningar Guðs …“

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Jesús svaraði: „Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.’ Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Fræðimaðurinn sagði þá við hann: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“

Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Og enginn þorði framar að spyrja hann. (Mark. 12.28-34)

Yvette

Yvette er 36 ára. Hún býr í San Francisco, en er fædd og uppalin í Frakklandi. Snemma varð sundrung í sambandi hennar við foreldra sína, líf sitt og sjálfsmynd. Yvette fæddist nefnilega sem drengur, en smám saman rann það upp fyrir henni að hún var í raun kona.

Kynskiptin tóku sinn tíma, en skurðaðgerðin var ekki framkvæmd fyrr en eftir margra ára töf. Sú aðgerð hafði ekki aðeins þá þýðingu að Yvette fékk loksins að vera sú sem hún var, heldur leiddi aðgerðin til þess að hún neyddist til að kveðja fyrir fullt og fast bæði fjölskyldu sína og allt sitt fyrra líf. Hún flutti til Bandaríkjanna og þegar henni gekk ekki að sjá fyrir sér með öðrum hætti gerðist hún vændiskona. Hún seldi líkama sinn fyrir penginga og til þess að halda það út varð hún fíkill. Hún reyndi allt, bæði áfengi og eiturlyf.

Einhvers staðar þarna niðri á botni tilverunnar hittir hún aðra konu, prest að nafni Lucy. Lucy hefur stofnað nýjan söfnuð, söfnuð fyrir hvern og einn þann sem ekki var velkominn annarsstaðar; hin útbrunnu, samkynhneigðu, afbrotamennina, öll þau sem litin eru hornauga.

Lucy tekur Yvette alvarlega. Smátt og smátt getur Yvette sagt einhverjum frá lífi sínu, sem bæði vill og kann að hlusta. Samt líður langur tími áður en Yvette þorir að segja frá öllu, en kvöldið sem það gerist koma tárin. Þau streyma niður vanga hennar og hlé verður á samtalinu. Það ríkir þögn. Lengi. Svo spyr Yvette Lucy þeirrar spurningar, sem á henni brennur: - Lucy, þessi Jesús þinn… Heldur þú að hann Jesús þinn geti viðurkennt mig?

Svarið sem Lucy veitir breytir lífi Yvette. Hún þorir að verða kristin. Hún skilur að Guð veit allt um hana, en er allt annað en óttaslegin þess vegna. Hún finnur að hún er leyst úr viðjum, einmitt vegna þess að Guð veit og hún getur farið að þora að treysta því að hún njóti viðurkenningar Guðs - einmitt eins og hún er.

Í dag vinnur Yvette í söfnuði Lucy. Það er hún sem tekur á móti fólkinu við dyrnar. Það er hún sem útdeilir messuskrám og hún er líka ein þeirra sem útdeilir kvöldmáltíðinni.
Frístaður flóttamanna

Fyrir nokkru fékk ég að vera með í guðsþjónustu í söfnuðinum þeirra, „The City of Refuge“, frístað flóttamannanna. Ég mun aldrei gleyma þessari guðsþjónustu. Flestir þátttakenda voru svartir og margir þeirra áttu erfitt líf. Það sást á andlitum þeirra. Það sást á hreyfingum þeirra og fötum. Þau höfðu ekki öll sofið vel nóttina á undan og fæst höfðu vinnu eða stað að búa á. Mörg þeirra gengu um með allar eigur sínar í stolinni kerru úr einhverjum stórmarkaðanna.

Svona var það ef til vill, hugsaði ég, í fyrsta kristna söfnuðinum. Uppistaðan í honum var fólk sem hafði mætt Jesú, fengið ný tækifæri og nýja von vegna þess að þau þorðu að sjá sitt eigið líf í nýju ljósi. Þau lifðu enn við þröngan kost, voru úr hópi hinna útskúfuðu og margir litu þau hornauga, en eitthvað hafði gerst sem gaf þeim nýja von. Engar kröfur mættu þeim, engin boð og bönn, heldur kærleikur, sem veitti þeim kjark til að yfirgefa hið gamla og halda áfram í trausti til Guðs, til sjálfra sín og annarra. Guð kom þeim á óvart, sá Guð sem segir: - Þú nýtur viðurkenningar. Nákvæmlega eins og þú ert.

Margt hefur gerst í sögu okkar síðan þá og aftur og aftur verða kröfur, boð og bönn í fyrirrúmi þannig að fagnaðarerindið verður vara sem vöntun er á. Við eigum í þrætum um hver Guð sé og við drögum alls konar markalínur varðandi hver megi vera með í hinu kristna samfélagi og hver ekki. Við gefum okkur að kristin manneskja verði að vera svona og ekki hinseigin og verði að trúa á ákveðinn veg til að vera vera nógu góð fyrir Guði og þá ná kröfurnar yfirhöndinni.
Þorðu að treysta

Lucy hóf safnaðarstarf sitt til að komast frá öllum markalínum sem loka fólk úti og opna í staðinn traustinu leið - traustinu á því að ást Guðs er máttugasti krafturinn og að hún er aldrei krafa heldur gjöf. Lucy segir:

Það er aðeins þegar við þorum að treysta því að við séum elskuð af Guði að við getum elskað hvert annað og þá verður það hvorki krafa né byrði heldur sjálfsagt mál. Við getum hreinlega ekki annað en elskað þegar við höfum mætt Guði, sem segir aldrei: „Þú verður …“ eða „Þú skalt …“ heldur hvíslar hvert augnablik: - Þú nýtur viðurkenningar. Nákvæmlega eins og þú ert!

Að þora að treysta þessu, eins og Yvette gerði að lokum, er fyrsta skrefið inn í predikunartexta dagsins: Að æðsta, mikilvægasta boðorðið eigi sér upphaf í því sem Guð gerir í mínu lífi. Það er ekki ég sem á að breyta sjálfum mér og reyna að þvinga fram meiri kærleika, heldur fæ ég fyrst og fremst að þiggja kunnáttuna til að geta séð sjálfan mig nákvæmlega eins og ég er og treysta því að ég sé nógu góður í augum Guðs. Þaðan í frá verður sjónarhornið allt annað og boðið um að elska Guð og elska náungann verður ekki krafa sem kemur að utan, heldur sjálfsagður hluti þess drífandi kraftar, sem innra með mér býr, á meðan ég er borinn uppi af þeim Guði sem hvíslar:

Þú nýtur viðurkenningar. Nákvæmlega eins og þú ert.

Dr. Bo Larsson er aðstoðarmaður K. G. Hammar, erkibiskups í Svíþjóð. Hann er sérfræðingur á sviði prédikunarfræði og kenndi á námskeiði um það efni í Skálholti dagana 29. september til 1. október 2002. Þessi prédikun var flutt í Hallgrímskirkju á 18. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 29. september 2002. Sr. María Ágústsdóttir, héraðsprestur þýddi hana af sænsku á íslensku.