Lífsnautn samkvæmt skipun

Lífsnautn samkvæmt skipun

Leikurinn liggur kristinni trú við hjartastað. Segja má að leikurinn og hin endurnærandi hvíld sé ein aðal vinnutilgátan sem lögð sé fram í hinni helgu bók í glímunni við lífsgátuna.

Mig langar að sýna ykkur svolítið sem ég á. Ég er hérna með lítinn leikfangahest og hvíta kisu úr plasti. Þegar Begþóra Hildur afastelpan mín segir: Afi viltu koma í leikinn? Þá er þessi hestur og þessi kisa hluti af veröldinni sem við eigum saman. Þau hafa marga hildi háð, hesturinn og kastalakisan eins og hún heitir vegna þess að hún er svolítið royal með svona gyllta kórónu á sér og tilheyrir bleikum kastala með rennibraut og ýmsum fleiri hægindum. Inn í leikinn sem staðið hefur síðan í fyrravetur hafa dregist margar presónur. Hinn bleiki og íturvaxni Barbapabbi og hin svarta og dulúðuga Barbamamma koma gjarnan í heimsókn í kastalann á bleikumBarbýjeppa með kerru í eftirdragi þar sem kúldrast í einni hrúgu ýmis skilgetin afkvæmi þeirra; Barbakær, Barbafín, Barbaþór og fleiri. Með í bleiku Barbýkerrunni er síðan sjálf Halló Kittý ásamt einum brúnum Dúblóbangsa í sömu stærð og áferð að ógleymdri kanínu nokkurri sem er frænka þeirra. Þá eru aldrei langt undan grái fíllinn, bleika svínið, brúni björninn og hvít tík með tvo hvolpa í sama lit. Leikurinn okkar Bergþóru Hildar er eins og lífið. Iðulega er bara allt venjulegt og persónur og leikendur eru svona mest eitthvað að dudda, en í gærmorgun dró til tíðinda þegar Barbamamma og Barbapabbi gengu í hjónaband í kirkjunni sem er staðsett undir antikstólnum í stuðvesturhorni stofunnar. Hesturinn gaf þau saman og svo var slegið upp veislu í kastalanum og tertan sem jafnan er borin fram við hátíðleg tækifæri stóð fyrir sínu og m.a.s. brúni björninn át nægju sína.

„Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.” Las hann Leifur Þorsteinsson hér fyrir okkur áðan. „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.”

Það er alveg ferlegt hvað Boðorðin tíu eru misskilin og mikið bullað með þau í menningu okkar.  Margir halda að þau séu safn neikvæðra skipana um allt sem skuli bannað og nenna þess vegna ekki að pæla í þeim, auk þess sem þau segi nú ekki annað en sjálfsagað hluti eins og það að ekki skuli stela, ljúga, drepa fólk og drýgja hór, hvað sem það nú annars er.

En hefur þú hugsað út í það að í boðorðunum tíu talar guð sem þarf að hvíla sig!?  Það er þó alltént athyglisvert. Við trúum á guð sem þarf að hvíla sig.  Þar talar líka guð sem ekki kynnir sig með nafni heldur rifjar upp fyrri kynni svo að allir kveiki: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.”  - manstu eftir mér? Og kröfurnar sem hann setur fram, boðorðin tíu, eru sögð í ljósi þeirrar reynslu sem viðmælandinn á af samskiptum við þennan guð. Þetta er guð sem leiðir fólk úr ánauð, guð sem rýfur vítahringi.

  • Ekki hafa aðra guði, segir hann. Vertu með mér og leyfðu mér að vera með þér.
  • Ekki leggja nafn mitt við hégóma, segir hann svo. Já, gerðu ekki trúna að tæki í eigin höndum. Leyfðu mér bara að höndla þig en ekki þú reyna að höndla með mig.
  • Haltu hvíldardaginn heilagan, segir þessi guð. Þ.e.a.s. hvíldu þig reglulega  og gleymdu ekki að leika þér!

Enginn getur sagt að þetta sé ekki merkilegt!

Það er mjög merkilegt að í Boðorðunum tíu er fyrst höfðað til reynslu og tengsla sem eru fyrir hendi milli Guðs og manns – Þú manst eftir mér. Ég er Guð sem hjálpaði þér þegar þú varst á vondum stað! Síðan erum við minnt á að vera ekki með hégóma eða belging í trúarefnum og í þriðja lagi beinlínis krafin  um að njóta lífsins, hvíla okkur nóg og leika okkur.

Og þetta þrennt er sagt áður en kemur að öllu hinu sem við vitum; að rétt sé að virða foreldra sína, drepa ekki fólk, drýgja hór, ágirnast eða stela.

Grái fíllinn fór hressilega yfir strikið í brúðkaupsveislunni í gær þegar hann fór að sprauta vatni úr rana sínum yfir gestina. Þetta byrjaði vel því hann og bleika svínið voru að leika sér og svínið hló og velti sér þegar fíllinn sprautaði á það því það er svín. En þegar hann snéri sér að öðrum veislugestum kárnaði gamanið og kastalakisan var mjög lengi að fyrirgefa gráa fílnum því hún er fín kisa sem ekki vill láta vaða yfir sín mörk. Hún faldi sig inni í kastalanum og neitaði að koma út jafnvel eftir að runnið var af fílnum æðið og hann orðinn skikkanlegur. Það rifjaðist upp fyrir Bergþóru Hildi að hún vildi ekki láta afa þvo sér um hárið í sturtunni í sundlauginni og þá fékk hún sjálf að ráða sínum haus og hárþvotturinn var settur í hendurnar á mömmu og pabba. Allir þurfa að fá að halda sínum mörkum, líka kastalakisan.

Guð Biblíunnar heitir ekkert. Hann er bara Guð sem er og svo gerir hann það sem hann er. Hann elskar fólk af því að hann er ást. Hann frelsar fólk af því að hann er frjáls. Hann þolir ekki hégóma og belging heldur krefst heilinda vegna þess að hann er heill. Og svo biður hann okkur í lengstu lög að njóta lífsins vegna þess að hann er sjálf nautnin, gleðin, leikurinn, endurnæringin.

Einfaldasta leiðin sem ég þekki til þess að taka við gæðum Guðs er sú að leika við barn. Það er bara svona ‘instant’ aðferð. Í leiknum gerist allt sem gerast þarf og kakan er aldrei búin.  Jesús var allur í þessu ef marka má guðspjöllin. Hann var alltaf að leggja til að fólk skyldi horfa á lífið í gegnum augu barnanna, þá sæi það í fókus. “Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.” Sagði hann í þekktri ræðu. (Matt. 18) Og hefur þú heyrt orðin sem Gabríel erkiengill mælti við Sakaría þegar hann tilkynnti honum um soninn Jóhannes sem Elísabet kona hans mundi ala: Og hann mun ganga fyrir [Guði] í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.“ (Lúk. 1.17) Fólk má halda hvað sem það vill um engla en það er gagnlegt að vita að allt sem englar segja í Biblíunni eru stórfyrirsagnir í því samhengi. Hér talar sjálfur Gabríel erkiengill og það er verið að kynna Jóhannes skírara til sögunnar og greina frá þeim tilgangi hans að „snúa hjörtum feðra til barna sinna...”  S.s. spámaðurinn sem undirbjó komu Jesú, Jóhannes skírari, átti það erindi að fá feður til þess að fókusera á börnin sín.  Þannig er þá skjalfest með tilvísun í sjálfan Gabríel að einn meginn tilgangur Jesú-hreyfingarinnar frá upphafi sé sá að börn hafi meira af fullorðnum að segja. Hvernig er best að gera það? Nú, með því að leika sér!

Leikurinn liggur kristinni trú við hjartastað.  Segja má að leikurinn og hin endurnærandi hvíld sé ein aðal vinnutilgátan sem lögð sé fram í hinni helgu bók í glímunni við lífsgátuna.

Boðorðin tíu minna okkur vissulega á sjálfsagða hluti. Við eigum að varðveita tengslin milli kynslóða með því að láta virðinguna ríkja, við eigum ekki að taka líf af öðru fólki eða stela eigum þess. Við eigum ekki að láta hvatvísi eða græðgi ráða gjörðum okkar í ástarmálum, og það sama gildir á öllum sviðum mannlegra samskipta. En þessir sjálfsögðu hlutir eru ekki nóg.

  • Við þurfum að kannast við sögu okkar og þekkja hinn góða hug sem býr að baki lífinu og sífellt leysir úr ánauð. Annars endum við með því að gera eitthvað að guði sem er enginn Guð, eins og t.d. peninga, frægð eða völd.  Það er kallað skurðgoðadýrkun í Biblíunni og er tómt vesen eins og dæmin sanna.
  • Og við verðum líka að játa vanmátt okkar og þiggja handleiðslu Guðs í stað þess að vera alltaf í eigin hégóma að rembast við að vera eitthvað. Það er bara svo slítandi og skemmandi.
  • Loks megum við til að hvíla okkur og endurnærast í leik svo að við njótum lífsins. Því til hvers væri að halda öll boðorðin og gera allt rétt ef lífið væri í sjálfu sér ekkert gott?

Amen