Gott eða illt

Gott eða illt

Nei, það er afstaðan að maður sjálfur eða eitthvert heimsefni sé nafli alls. Broddur ræðu Jesú rímar við fyrsta boðorðið: Hverju trúir þú? Heldurðu framhjá Guði t.d. með því að dýrka sjálfan þig -dýrka eitthvað annað en Guð?

Biblíur rata gjarnan til þeirra sem meta Ritninguna mikils og ferðasögur Biblíunnar eru margvíslegar. Ég eignaðist Biblíu fyrir fimm árum síðan, sem er ekki aðeins falleg hið innra heldur líka hið ytra, bundin í fallegt skinn og silfurslegin. Það þarf engan biblíófíl, bókelskling eða biblíuvitring, til að sjá að þetta er mikið lesin bók. Og mig langar til að segja ofurlitla sögu – sem inngang að íhugun dagsins.

Árnabiblían Ég var að byrja prestsstarf í Hallgrímskirkju og leysti kollega og nafna af í nokkra mánuði. Ég hafði sungið í einum kórnum, þekkti því starfsfólkið í kirkjunni og mörg voru vinir mínir. Það var því ánægjulegt að koma til starfa fyrsta vinnudaginn. Eftir kaffibolla, hlátra og elskulegar móttökur héldu allir á sínar vinnustöðvar og við prestarnir á okkar. Inn á skrifstofunni minni var eitthvað á skjalaskápnum, sem ég hafði ekki séð áður þegar ég kom til að taka við lyklum. Þarna var bókastafli, greinilega gamlar bækur, hugleiðingar Hallgríms Péturssonar, Passíusálmar og ýmsar velktar guðsorðabækur af mikilli notkun. Þetta hljóta að vera gjafabækur flaug í gegnum hugann. Voru þær merktar? Og svo sá ég kunnuglega Biblíu. Blóðið þaut fram í kinnar mínar. Ótrúlegt. Ég þekkti þessar bækur því þarna voru komnar bækur af Sjafnargötu, bækur af heimili þar sem ég hafði verið heimagangur í æsku. Og djásnið í bókastaflanum var Biblía, gefin í sextugsafmælisgjöf 1937 hinum góða dreng Árna Þorleifssyni. Það lá við að ég tryði ekki mínum eigin augum. Þessa Biblíu hafði ég handleikið svo oft í bernsku minni og öll unglingsárin og þótti vænt um. Síðan hafði ég ekki séð hana í meira en þrjátíu ár, þar til á þessum degi í Hallgrímskirkju.

Árni þessi var vinur foreldra minna og reyndar höfðu þau kynnst í hans skjóli. Þegar þeim fæddist drengur bað hann um að sá stutti fengi líka að bera nafn hans. Ég ber því nafn Árna Þorleifssonar og hann var guðfaðir minn. Hann var með öllu óskyldur foreldrum mínum, en þau höfðu tengst honum traustum vinaböndum - og þar sem ég var afalaus gekk hann mér í afa stað. Þgar ég var orðinn unglingur hafði hann tapað sjón og ég fór vikulega til að lesa fyrir hann. Oft vildi hann að ég læsi úr Biblíunni. Ég tók upp bókina góðu, en hann ákvað hvaða kaflar skyldu lesnir. Honum þótti gott að ég læsi fyrir sig og ég naut samfélags þessa góða manns og lærði að lesa í Biblíunni. Síðan lést hann og bækur hans og Biblíur hurfu mér einnig. En minningin um dýrlinginn Árna lifði. Hann bað fyrir veröldinni, öllu sínu fólki og mér einnig. Hann var mér fyrirmynd um tilbeiðslu, innri slípun anda og sálar. Árni var góður maður, helgur maður.

Svo varð samsláttur atburða í tíma. Biblían var afhent kirkjunni nokkrum dögum áður en ég hóf störf og lenti óvænt í mínum höndum eins og teikn. Hvaða verkfæri fær prestur betra en Biblíu við upphaf prestsstarfs? Tákn um verkefnin framundan, um ábyrgð prests að rannsaka ritningarnar, boða orðið, ganga erinda hins góða boðskapar, vera trúr, leyfa lífsorði Guðs að streyma um sig og í samhengi kirkjunnar. Skýr áminning af hæðum. Taktu og lestu þú Guðs þjónn.

Þegar ég lauk starfi í Hallgrímskirkju var mér gefin þessi Árnabiblía sem vegarnesti. Svo kom hún með mér á skrisfstofu mína í Neskirkju og er mér síðan tákn um kristindóminn, um hlutverk kennimannsins, að lesa, íhuga, slípast hið innra til þjónustu. Og miðja þess máls er hver?

Hið innra og ávextirnir Við fáum nokkurt svar í guðspjalli dagsins. Það fjallar um hið góða eða illa, hvort heilbrigði ríkir eða sjúkleiki. Í guðspjallinu er vísað til líkingar úr náttúrinni. Hvernig gengur ávaxtatré að lifa og dafna? Er það gott eða vont, ber það ávöxt? Er hann góður eða vondur? Á uppskerutíma getum við skilið þá áherslu. Á ýkjutíma í samfélagi okkar getum við skilið alvöru þess máls einnig. Og við getum alveg skilið að rætt skuli um hvort menn skili sínu eða ekki, hvort menn geri vel eða illa. Þá reynslu höfum við flest að til séu góðir menn, karlar og konur, sem segja og gera gott. En kannski finnst okkur nokkuð harkalegt, að Jesús segi í guðspjallinu að einhverjir séu nöðrukyn, slönguættar. En Jesús sagði að vísu margt með hjálp svonefnds ýkjustíls, til að fólk staldraði við og hugsaði sinn gang. Gott og vel, en svo segir hann eitthvað sem er lítt skiljanlegt. Allt er fyrirgefið í þessum heimi, allt getur Guð umborið, jafnvel það að mæla gegn Jesú sjálfum. Aðeins eitt er ekki fyrirgefið og það er að mæla gegn Heilögum anda. Hvað þýðir það?

Marga þanka hafa menn sett á blað í skýringarritum aldanna um það mál. Þegar samhengi textans er skoðað og lesið í hliðstæðurnar virðist boðskapur Jesú vera sá, að ef maðurinn er úr tengslum við Guð þá er allt í rugli, eru þeir á röngum vegi og ganga með ranghugmyndir um sjálfa sig, veröldina og lífið. Að hallmæla gegn Heilögum anda er einfaldlega trúleysi, að hafna Anda Guðs í okkur, sem segir að Guð sé Guð og maðurinn sé heimilislaus án trúar og ástartengslanna við Guð. Að mæla gegn Heilögum anda er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, það er afstaðan að maður sjálfur, flokkur, málefni eða málstaður í veröldinni sé nafli hennar. Jesús reynir okkur og broddur ræðu hans er: “Hverju trúir þú? Guði eða einhverju öðru? Er haldreipið þitt í veröldinni eitthvað annað en Guð. Heldurðu framhjá Guði, með því að dýrka sjálfan þig eða eitthvað annað en Guð?”

Hvernig er fyrsta boðorðið og hver er áhersla þess? Rifjaðu upp. Það er um afstöðuna til Guðs. Það var það stóra mál, sem var íhugunarefni og kenning Jesú í texta dagsins. Það er líka æviviðfangsefni manna á öllum öldum.

Úr góðum sjóði Að vera góður er þá það að leyfa Guðs góða anda að móta, hreinsa samviskuna, veita leiðsögn varðandi hvað er hollt og gott í lífinu, hvað er réttlæti í pólitíkinni o.s.frv. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði – jú , jú. Það getum við þá samþykkt – og vondur maður ber vont fram úr sjóði sínum. Og svo hnykkir Jesús á með því að ramma inn þessa ræðu í hið stærsta heimsslitasamhengi. Við verðum dæmd fyrir ónytjuorðin, til góðs eða ills. Það er til uppgjör í lífinu. Við erum ábyrg. Guðspjall dagsins er þá uppgjörstexti, eins konar trúarlegt milliuppgjör, eins og milliuppgjörin eru hjá fyrirtækjum eða áfangapróf, sem gerð eru á námsferli. Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trúin er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára. Trúin varðar núið, Guð er hér, innan í þér, í guðsþjónustunni, í veröldinni.

Hið kristna erindi Þetta er þá samhengi og boðskapur dagsins. Nú er vetrarstarf kirkjunnar að hefjast. Kórarnir byrja æfingar á næstunni, fræðslustarfið hefst nú í vikunni. Barnastarfið byrjar um næstu helgi. Hvernig ætlum við að efla börnin, hvernig ætlum við að gera þau að góðum konum og körlum? Við gerum allt, sem í okkar valdi stendur, starfsfólks og foreldra, til að veita þeim vegarnesti. En er það sem við veitum nægilegt? Það er auðmýkjandi og vekjandi að spyrja sig um ábyrgðina og horfast í augu við hana. Okkur er falið að halda á lofti krossi Krists, hinu trúarlega efni og gera það með skynsemd, yfirvegun og ofstækislausum heiðarleika. Það er ábyrgðin sem við berum. Þar er hið trúarlega erindi prests, kirkju, foreldra, safnaðar, þín og mín.

Ávöxtur í lífi okkar Það var gamall maður, sem hlustaði á boðskapinn úr snjáðri Biblíu sinni. Hann kunni reyndar heilmikið utanað, en þráði að fá að heyra, þurfti að endurvinna boðskapinn. Og kannski vildi hann láta mig læra að lesa, læra að hlusta eftir hinu safaríka orði, vildi að ég yrði maður sem hefði gnægð hjartans, talaði af góðum sjóði, mælti engin ónytjuorð sem yrðu til tjóns í hinu stærra lífssamhengi. Hinn blindi vildi heyra. Og þar erum við komin í hring. Blindur þarf að heyra, ég þurfti að heyra, mér er ætlað að lesa og miðla, þú þarft að hlýða á hin góðu orð og miðla þeim, starfsfólkið í kirkjunni þarf næði til að vinna með hið guðlega erindi. Við þurfum að miðla boðskap Jesú Krists, trúnni á hann, hinu kirkjulega samhengi til nýrrar kynslóðar, til samferðafólks okkar.

Hver er rót þín? Er hún góð? Hefur þú borið góðan ávöxt á sumartíð þinni, á vaxtartíma lífsins? Ertu baðaður góðum boðskap til að miðla? Veturinn er að byrja í lífi okkar allra og við förum af stað með þetta guðspjall: “Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.” Hvar stend ég í því samhengi. Hvar stendur þú?

Amen

Prédikun 12. sunnudag eftir þrenningarhátíð,  30. ágúst, 2009

Lexía:  Slm 40.2-6 Stöðugt vonaði ég á Drottin og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt. Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr fúafeni, veitti mér fótfestu á kletti og gerði mig styrkan í gangi. Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng til Guðs vors. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni. Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér ekki til dramblátra eða þeirra sem fylgja falsguðum. Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert jafnast á við þig. Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau, en þau eru fleiri en tölu verði á komið.

Pistill:  Jak 3.8-12 …en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

Guðspjall:  Matt 12.31-37 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“