Einhvern tíma er núna: Draumur Martins Lúthers Kings

Einhvern tíma er núna: Draumur Martins Lúthers Kings

Hér er spurt um forgangsröðun og gildismat. Hvort er mikilvægara: að viðhalda ofgnóttarlífsstíl minnihluta jarðarbúa sem þrífst á áþján heimsins, lífsstíl sem meira að segja hin góða sköpun Guðs er byrjuð að kikna undan eða að bregðast nú þegar við jafnvel þótt það kosti það að lífskjör hinna velmegandi í heiminum skerðist?
Mynd

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 27. ágúst 2023. Guðspjall dagsins: Lúkas 13.10-17.

Á morgun, 28. ágúst, eru 60 ár síðan dr. Martin Lúther King yngri lét í ræðu hin frægu orð falla: „Ég á mér draum“. Við vitum öll hver Martin Lúther King var. Hann var óumdeildur leiðtogi í baráttu blökkumanna í Bandaríkjunum fyrir sjálfssögðum mannréttindum, baráttu gegn kúgun, ofbeldi og mismunum sem var og er raunveruleiki þeldökkra í vestrænum samfélögum – ekki aðeins Bandaríkjunum – þrátt fyrir að auvirðilegt þrælahaldið hafi að nafninu til verið afnumið fyrir löngu, kúgunarkerfi sem mun um eilífð vera svartur blettur á sögu Vesturlanda, sögu af efnahagslegum uppgangi og fordæmalausri velmegun en velmegun sem í grunninn byggist á blóði og svita þræla.

Það hefur m.a. verið rifjað upp á þessum tímamótum að innan Alríkislögreglunnar, FBI, hafi verið haft á orði að Martin Lúther King væri „hættulegasti negri í Bandaríkjunum“, „the most dangerous negro in America”. J. Edgar Hoover, forstjóri Alríkislögreglunnar, óttaðist ekkert frekar en að upp risi „svartur messías“ að baki hverjum þeldökkir íbúar landsins myndu fylkja sér og rísa upp gegn ranglætinu – enda njósnaði FBI um King og áreitti og hafði í hótunum við hann um árabil.

Ræðu Kings, sem hann hélt frammi fyrir kvartmilljón manns við lok mannréttindagöngu til Washington 28. ágúst 1963 og var sjónvarpað beint út um gjörvöll Bandaríkin, hefur verið lýst sem þáttaskilum í mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Hann  beindi spjótum sínum ekki aðeins að mismunun og kúgun blökkumanna heldur að efnahagslegum ójöfnuði almennt séð og ekki síst stríðsrekstri sem þegar öllu er til skila haldið allir tapa á nema auðvaldið sem stendur að baki hernaðariðnaði heimsins. Hann benti á það í boðskap sínum að arðráns- og hernaðarhyggjan sem liggur stjórnmála- og hagkerfi heimsins til grundvallar bitnaði á öllum, ekki bara þeldökkum heldur einnig hvíta almúgamanninum sem berðist í bökkum og þess vegna væru örlög þeirra samtvinnuð – örlög okkar allra væru samtvinnuð – eða með öðrum orðum: Við værum þegar allt kæmi til alls á sama báti. Þess vegna höfðaði hann ekki aðeins til síns eigin fólks en beindi ekki síst orðum sínum til hvítra samlanda sinna. Aðeins með því að allir tækju höndum saman væri hægt að byggja upp réttlátt samfélag.

En í ræðunni, þar sem hann stóð við hið mikla minnismerki Abrahams Lincolns, benti King á þá sorglegu staðreynd að 100 árum eftir að þrælahald hefði verið afnumið með lögum væru bandarískir blökkumenn ekki enn orðnir frjálsir. Þeir væru enn í fjötrum aðskilnaðar og hlekkjum mismununar. Tilskipun Abrahams Lincolns um frelsi til handa ánauðugum Bandaríkjamönnum hefði komið eins og hamingjurík dögun sem myndi benda endi á hina löngu nótt ánauðarinnar en einni öld síðar byggi blökkumaðurinn á afskekktri eyju fátæktarinnar í miðju reginhafi velmegunar.     

Spurningin sem hlýtur að vakna í ljósi þessara orða Kings er sú hvort að hann hafi ekki talað fyrir daufum eyrum þegar hann reyndi að höfða til samvisku hvítu millistéttarinnar og ráðandi afla vegna þess einfaldlega að þeir sem hafa vilja ógjarnan missa það sem þeir hafa en helst eignast meira – og þeirri köldu staðreynd að efnahagsleg velmegun eins byggist að einhverju leyti á arðráni annars?

„Ég á mér þann draum,“ sagði King, „að einhvern tíma muni þessi þjóð rísa upp og lifa inntakið í sinni eigin grundvallarjátningu“ og vísaði í þessi orð sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna: „Vér álítum þetta sjálfsögð sannindi, nefnilega, að allir menn séu skapaðir jafnir.“ Og King hélt áfram. „Ég á mér þann draum,“ sagði hann, „að einhvern tíma muni börnin mín fjögur tilheyra þjóð þar sem þau munu ekki dæmd eftir húðlit sínum heldur eftir skapgerð sinni og mannorði.“

Hversu sorglegt er það ekki að þessi orð skuli enn eiga við – meira að segja hér á Íslandi!

En þrátt fyrir að King talaði um að hann ætti sér draum, þá var hann ekki að hugsa um framtíðina. Nei, þvert á móti – og kannski þótti hann þess vegna svo hættulegur í augum þeirra sem vildu halda óbreyttu kerfi. Það var ekki á morgun, ekki í næstu viku, ekki á næsta ári eða eftir 10 ár, heldur í dag, sem varð að gera drauminn að veruleika. „Við höfum komið hingað“, sagði hann, „á þennan helga stað til þess að minna Ameríku á knýjandi mikilvægi augnabliksins. Þetta er ekki tíminn fyrir þann munað að slaka á eða taka eitt skref í einu. Tíminn er kominn til þess að gera raunveruleika úr fyrirheitum lýðræðisins. Tíminn er kominn til þess að klifra upp úr dimmum og hrjóstrugum dal aðskilnaðar upp á sólríkan stíginn þar sem ríkir jafnrétti kynþáttanna.“

En kerfisbundið lögregluofbeldi gagnvart blökkumönnum og hin viðsjárverða staða sem er uppi í dag varðandi uppgang kynþáttahyggju sýnir okkur að það er sama þótt gefnar séu út tilskipanir og yfirlýsingar af stjórnvöldum ef hugur fylgir ekki máli hjá almenningi, borgurunum hverjum og einum. Staðan í Bandaríkjunum er lýsandi dæmi þar sem viðauki við stjórnarskrá og tilskipun Abrahams Lincolns á sínum tíma dugðu ekki til vegna þess að það var og er ekki nægilega ríkur vilji hjá nógu mörgum borgurum landsins til þess að raungera sýn stjórnarskrárákvæða og lagabókstafs.

Að breyttu breytanda má kannski segja að hið sama sé uppi á teningnum varðandi stöðu lífríkisins í dag. Það eru haldnar ráðstefnur og leiðtogar heimsins skrifa upp á hinar og þessar yfirlýsingar um aðgerðir í loftslagsmálum en lítið er um efndir – kannski vegna þess að verkefnið virðist svo óyfirstíganlegt og vegna þess að til þess að raunverulegur árangur náist þurfa allir jarðarbúar að taka höndum saman um aðgerðir. Og það er hægara sagt en gjört að ná þeim samtakamætti – þó ekki nema væri meðal leiðtoga þeirra átta milljarða manna sem lifa á Jörðinni nú um stundir.

En það verður að gerast. Við getum ekki leyft okkur þann munað að slaka á og slá því endalaust á frest að hætta að menga og arðræna Jörðina af því að það þarf að halda neysluhagkerfinu gangandi til þess að fóðra neytendur á neysluvarningi, bæði matvælum og hvers kyns velsældarvarningi – og gerð er sú krafa að matvælin séu sem ódýrust vegna þess að neytandinn verður að hafa nóg aflögu til þess að kaupa þar að auki allan óþarfann sem er yfirleitt ekki svo ódýr. Því verður að mínu viti ekki á móti mælt að í baráttunni um heill heimsins og þeirra sem hann búa takast á tveir herrar, Mammón og Guð lífsins, skapari himins og jarðar, sem hefur skapað allt til þess að það lifði. En í hinu kapítalíska heimshagkerfi leikur enginn vafi á því hvorum herranum skuli þjóna. Forgangsröðunin er á hreinu á þeim bænum: hámarksgróði fjármagnseigandans er í forgangi, velsæld manneskjunnar, já heilu samfélaganna, og heilsa lífríkisins eru ávallt aukaatriði.

Jesús er einmitt að vekja viðmælendur sína til umhugsunar um forgangsröðun í guðspjallinu. Hvort var mikilvægara að bregðast við neyð konunnar, sem hafði verið kreppt í 18 ár, eða að fylgja mannanna reglum um það hvað mátti gera og hvað ekki á hvíldardegi? Jesús var ekki í vafa en bendir í leiðinni á hræsni samkundustjórans: ef málið snerist um húsdýr í hans eigu myndi hann ekki hika við að sinna grundvallarþörfum þess á hvíldardegi. Röksemdarfærsla Jesú byggist á því að leiða af hinu síðra til hins æðra: Ef það gildir um búfénað, þá gildir það enn frekar um manneskjur. Og hér var ekki aðeins um grundvallarþörf konunnar að ræða heldur áþján sem hafði þjáð hana í heil 18 ár og komið í veg fyrir að hún gæti lifað lífinu til fulls. Þess vegna er Jesús alls ekki sammála þeim rökum að konan ætti að koma á öðrum degi en hvíldardegi; hún var þarna í samkunduhúsinu ásamt honum sem var fær um að lækna hana og það varð að grípa tækifærið. Hún hafði ekki efni á þeim munaði að bíða. Samkundustjóranum var hins vegar nokk sama þar sem málið snerti hann ekki persónulega en særði hins vegar þá hugmynd sem hann hafði um helgi hvíldardagsins og þá líklega hann persónulega sem einhvers konar yfirvald í þeim efnum.  Engu að síður sá hann enga sök í því að brynna sínum eigin skepnum á hvíldardegi – enda voru hans eigin hagsmunir í húfi.

Það má að mínu viti líta á krepptu konuna sem táknmynd fyrir kúgun af hvers kyns toga. Bogið bak hennar er líka blóðrisa bak ambáttar á bómullarakri í Mississippi; hennar kreppta ástand er vonlaus fátæktargildran sem meirihluti mannkyns finnur sig í, streðandi líkt og húsdýr daginn út og daginn inn við að framleiða ódýran mat og glingur fyrir óseðjandi neyslusamfélag. Og síðast en ekki síst er sjúkleiki hennar táknmynd fyrir ástand sköpunarinnar. Og þá getum við íhugað fyrir hvern Satan er táknmynd, sem Jesús gerir ábyrgan fyrir áþján konunnar.

Hér er spurt um forgangsröðun og gildismat. Hvort er mikilvægara: að viðhalda ofgnóttarlífsstíl minnihluta jarðarbúa sem þrífst á áþján heimsins,  lífsstíl sem meira að segja hin góða sköpun Guðs er byrjuð að kikna undan eða að bregðast nú þegar við jafnvel þótt það kosti það að lífskjör hinna velmegandi í heiminum skerðist?

Með því að lækna krepptu konuna sýnir Jesús samkundustjóranum og okkur í hverju besta guðsþjónustan felst – það er með því að sýna náungakærleika í verki. Það ætti þar af leiðandi að vera æðsta markmið kristinnar kirkju og sérhverrar kristinnar manneskju.