Mér er minnistætt í barnæsku hve fólk í götunni þar sem ég ólst var hjálpfúst. Oft var ég í pössun hjá fólkinu sem bjó á efri hæðinni - sem tók alltaf vel á móti mér, stundum kom nágranni okkar við þegar hann var á leið út í búð og spurði hvort okkur vantaði eitthvað og bílinn okkar - gamli Skodinn - sem bilaði svo oft - en þá komu oft nágrannar með góð ráð. Lítil atvik og minningar sem minna á hjálpfýsi og kærleika. Svipaðar sögur þekkjum við mörg sjálf og í endurminningum frá fyrri tíð má lesa um mikla fórnfýsi og gestrisni - sem segja frá fólki sem lagði oft mikið á sig fyrir náunga sinn oft óumbeðið. Hefur eitthvað breyst í gegnum árin? Þykir enn þá jafn sjálfsagt að rétta hjálparhönd? Gefum við okkur tíma til að leggja hönd undir bagga? Eða leitum við eftir aðstoð og biðjum um hjálp þegar við þurfum þess? Á hvern reiðum við okkur þegar við þörfnumst aðstoðar – ættingja, vini, kunningja, nágranna eða ókunnuga?
Að þiggja aðstoð og hjálp
Nýlega sá ég þátt á erlendri sjónvarpsstöð sem fjallaði um fólk sem vildi taka upp heilbrigða lífshætti og læra að borða hollan mat. Fólkið tók þátt í tilraun sem fólst í því að það bjó meðal ættbálks í Afríku, sem voru þekktir fyrir hreysti og heilbrigði. Frumbyggjarnir kenndu fólkinu að veiða, leggja gildrur, skjóta af boga og safna fræjum. Einnig að elda mat samkvæmt sínum hefðum. Þannig átti fólkið að læra að komast af í óbyggðum Afríku og lifa af því sem náttúran gaf. Fylgst var náið með þeim af læknum og sálfræðingum. Tilraunin fór fljótlega út um þúfur - mun fyrr en vísindamennirnir höfðu gert ráð fyrir og tilraunin skilaði engum árangri.
Í fyrstu var fólkið áhugasamt, lagði sig fram við veiðarnar og við að leita að ætilegum jurtum og því sem náttúran gaf. Lítill árangur var af veiðunum og í gildrurnar veiddust aðeins smádýr. Ætilegum jurtum sem safnaðar var þótti fólkinu bragðlaust og einhæft til lengdar. Fljótt svarf hungrið að - pirringur kom upp í hópnum, vonbrigði og ásakanir gengu á víxl. Margir gengu nærri sér bæði andlega og líkamlega. Andinn í hópnum varð verri og verri þegar á leið og sumir gáfust upp.
Ættbálkafólkið fylgdist úr fjarlægð með óvenjulegum samskiptum þátttakendanna sem notuðu orð sem þau höfðu aldrei heyrt áður, sáu framkomu sem var þeim framandi og veittu því athygli að ágreiningur var oft leystur með hávaða og látum. Andspænis vonleysi, hungri og áhyggjum nágranna þeirra - naut fólkið í ættbálkinum lífsins með hvert öðru í traustu samfélagi hjálpfýsi og trygglyndis. Allir virtust hafa allt til alls - þó enginn lifði við alsnægtir - bjó í kyrrlátu og afslöppuðu umhverfi. Stutt í bros og hlátur, gleði og hlýleg samskipti.
Fyrir utan aðstoð við veiðar og kennslu voru samskipti milli fólksins í ættbálknum og þátttakendanna í tilrauninni lítil. Þeim fannst líf frumbyggjanna fábrotið og óspennandi - hafði lítinn áhuga að kynnast því frekar eða lifnaðarháttum þess. Sótti sjaldan til þeirra með aðstoð eða ráð og ræddi ekki við þau um vandmál sín sem þau mætti í óbyggðum Afríku. Það var sem þau gætu ekki trúað því að fólk sem ætti svo lítil efnisleg gæði gæti gefið þeim ráð og veitt þeim hjálp. Að eiga og eignast allt er oft viðkvæðið á vesturlöndum - víst er mikilvægt að líða ekki skort, en auður og velferð fer ekki alltaf saman - hvað gagnar auður og ríkidæmi andspænis frið, von og kærleika - að eiga trausta vini og gott samfélag. Að geta allt og vita allt
Í ríkidæmi hagvaxtar og velsældar vesturlanda fleygir vísindum og tækni fram og á hverjum degi virðist maðurinn finna svör og lausnir við flóknum og erfiðum spurningum. Þá er auðvelt að halda að maðurinn geti sigrast á öllu og honum séu enginn takmörk sett. Getur verið að þátttakendurnir í tilrauninni hafi trúað því í hjarta sínu að þeim væri ekkert um megn? En síðan þegar á reyndi hafi hindranirnar verið of margar - vonbrigðin of mikil og þrótturinn svo lítill. Þá getur verið erfitt að leita aðstoðar og biðja um hjálpa - viðurkenna og opinbera eigin vanmátt og vanþekkingu. Að geta allt, vita allt og kunna allt virðist oft vera viðmið og krafa nútímans. Það er því erfitt þegar á reynir að játa við vitum ekki alltaf allt, kunnum ekki allt og getum ekki allt.
Saga um átkök við stein
Einu sinni var lítill drengur að leika sér í sandkassa. Hann lék sér með bílana sína, fötuna og nýju skófluna. Þar sem hann var á fullu við vega- og gangnagerð í sandinn tók hann allt í einu eftir stórum steini í miðjum sandkassanum. Hann byrjaði að losa steininn og eftir mikið erfiði tókst honum að mjaka steinum út í horn sandkassans. Drengnum var að verða ljóst að líklega myndi hann aldrei ná steinunum upp úr kassanum - steinninn var of þungur. En drengurinn gafst samt ekki upp. Hann reyndi að ýta, lyfta undir, rugga og mjaka steininum. Þegar hann svo hélt að það væri að takast datt steinninn aftur í sama farið. Hann reyndi aftur og aftur, en allt kom fyrir ekki - þetta var vonlaust. Að lokum brast drengurinn í grát.
Faðir drengsins hafði allan tímann fylgst með átökunum út um stofugluggann. Þegar hann sá tárin renna niður rjóðar kinnarnar fór hann út til sonar síns og spurði: „Hvers vegna beittirðu ekki öllu afli?“ Með tárvot augu svaraði drengurinn, „En ég gerði það.“ „Nei, sonur minn,“ leiðrétti faðirinn. „Þú beittir ekki öllu afli. Þú baðst mig ekki um að hjálpa þér.“ Að þessum orðum sögðum beygði pabbinn sig niður, tók steininn og henti honum út úr sandkassanum.
Er kærleikurinn á valdi mannsins?
Öll höfum við tekist á við erfiða og þunga steina í lífinu. Fæstum getum við lyft þeim hjálparlaust og oft þörfnumst við aðstoðar, stuðnings og samfylgdar á grýttri leið. Í pistlinum sem lesinn var frá altarinu áðan segir "Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir." Það minnir okkur á að við erum svo oft hjálparþurfi og ekkert megnum við án hvers annars eða almáttugs Guðs. Því er fátt dýrmætara en að eiga traust samfélag öryggis og friðar í kærleika. Hornsteinn þess samfélags er að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. En það er krafa sem krefst mikils - krefst vöndunar og ögunar - krefst þess sem er utan okkar mannlegu getu og minnir á að ekki er allt á okkar valdi - ekki einu sinni kærleikurinn sem við öll þráum að eiga og starfa eftir. Þannig opinberar trúin vanmátt okkar og breyskleika - að við þurfum aðstoð - aðstoð við að breiða út kærleika Guðs sem er opinberaður í Jesú Kristi. Þess vegna felum við okkar í hendur kærleiksríkum Guði sem elskar okkur af fyrra bragði. Þiggjum af ævarandi kærleika hans - kærleika sem breiðir yfir allt, umber allt og vonar allt og treystum því að allt megnum við fyrir hjálp almáttugs Guðs, sem leiðir og styður.
Af kærleiksmaraþoni
Í dag hafa unglingarnir í æskulýðsfélagi kirkjunnar hér á Vopnafirði látið gott af sér leiða fyrir náungann og samfélagið, m.a.. gengið í hús og boðið fram aðstoð sína. Í upphafi gætti feimni og óöryggis - óvissa hvernig fólk tæki þeim eða brygðist við óvæntum góðverkum þeirra. En brátt breyttist feimnin og óöryggið í ákafa og gleði - því jú auðvitað tóku allir þeim vel. Upptendruð deildu þau reynslu sinni og þakklætinu sem þau mættu. Ég er viss um að upplifunin sem stendur eftir í huga þeirra er að við skiptum hvert og eitt máli og með hjálpsemi og góðum verkum getum gefið af gleði og kærleika - haft góð áhrif á hvert annað og líf hvers annars - haft áhrif á að gera þennan dag að góðum degi.
Frásögn guðspjallsins segir frá því þegar Jesús gaf blindum manni sjón - guð gefi að augu okkar megi vera opin á tækifærin sem styrkja, trú, von og kærleika. Í Jesú nafni amen.
Flutt við Taize helgi- og kyrrðarstund í Vopnfjarðarkirkju.