Mælum af

Mælum af

Nú þegar við mælum okkur af hér í Neskirkju spyrjum við okkur hvernig við getum orðið að liði í því hlutverki sem okkur er ætlað. Þar er auðvelt að villast af leið. Þegar við sinnum þjónustunni við Krist í auðmýkt og einlægni verður starf okkar, Guð til dýrðar og náunganum til heilla.

Gleðilega hátíð! 60 ár eru liðin frá vígslu þessarar kirkju og við höldum veislu af því tilefni. Árafjöldinn er vissulega ekki heilt hundrað eða hálft, aldarfjórðungur einn eða fleiri – Neskirkja er ekki einu sinni orðið löglegt gamalmenni, eins og við segjum stundum.

Mælum af

Hér hafa engu að síður orðið talsverðar breytingar sem haldast í hendur við þetta rúnaða ártal. Við erum svo gott sem nýkominn hingað til þjónustu við sr. Steinunn Arnþrúður og leggjumst á árar með þeim góða hópi sem fyrir er að móta hér starf í sátt við Guð og menn. Okkur finnst tilvalið að grípa tækifærið, og mæla af, eins og orðið afmæli er jú dregið af.

Við metum gang mála í fortíð, samtíð og framtíð og höldum hátíð, afmælishátíð. Viðburðirnir renna svo saman við önnur tímamót, þegar við minnumst þeirrar byltingar sem siðaskiptin voru og eiga upptök sín í þeim atburði þegar Lúther andmælti aflátssölu páfakirkjunnar, þann 31. október 1517.

Í afmælisveislum slá vinir og vandamenn í glas og deila sögulegum atburðum úr lífi afmælisbarnsins með öðrum gestum. Það höfum við líka gert, á sinn hátt. Við höfum fundið gamlar ljósmyndir og sendibréf, fræðarar og sagnamenn hafa rifjað upp frásagnir. Minningar eru farvegur þakklætis og tengjast því hvernig við metum gott og illt fela í sér vitund. Þær veita líka innsýn í það hver við erum.

Sögur hafa verið sagðar af Ágústi Pálssyni, höfundi Neskirkju sem fæddist í torfbæ norður í Þistilfirði þar sem hann bjó fyrsta áratug ævinnar. En hann tileinkaði sér nýja strauma á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og kom til baka sem einn af módernistunum sem litu lífið og viðfangsefni þess öðrum augum en hefðbundið mátti teljast.

Þyrping af kofum?

Neskirkja var líka nýtsárleg og hafði annað snið en aðrar kirkjur á Íslandi. Hið framandlega vekur oft harkaleg viðbrögð eins og dæmin sýna. Eins og ,,þyrping af kofum,” sagði Jónas frá Hriflu þegar hann leit teikningarnar. En Neskirkja líkist engu slíku. Það vottaði hinn heimsþekkti arkitekt Eliel Saarinen er hann fékk teikningarnar sendar og gaf handbragðinu hin bestu meðmæli. Og þessi nútímamans maður sem Ágúst var, velti því meira að segja fyrir sér hvernig Neskirkja myndi taka sig út í augum vegfarenda sem áttu eftir að aka eftir hinu furðustóra Hagatorgi og þaðan meðfram kirkjunni. Krossinn sem upphaflega var settur ofan á helgidóminn hafði tvö þvertré og vísuðu armar hans því til allra höfuðátta. Þar með blasti krossinn eins við öllum þótt byggingin sjálf sýndi á sér nýjar hliðar. Er það ekki skemmtileg hugsun sem vert er að staldra við þegar við spyrjum um tilgang og eðli?

Nú trónir reyndar annar kross, og tvívíður, ef við getum sagt svo, nú á toppi kirkjunnar. Og grenitrén byrgja sýn að byggingunni en um miðja síðustu öld áttu fáir von á því að slíkur stórviður myndi dafna í henni Reykjavík. Reyndar má bæta því við, að vinsælust þeirra hugmynda, sem streymt hafa inn á vefinn Betri Reykjavík nú á vordögum gengur út á að tyrfa yfir Hagatorgið og nærliggjandi götur og hafa þar lystigarð. Allt á sinn blómatíma og kannske heyrir sjálfur einkabíllinn að senn sögunni til.

Séð frá ýmsum hliðum

Svona sögur gefa okkur innsýn í það hver við erum, hvers eðlis það samfélag er sem myndar Neskirkju. Við mælum okkur sjálf af á þessum tímamótum, skoðum hlutverk okkar sem er eins og kirkjan sjálf síbreytileg eftir því hvaðan við nálgumst hana, en ákveðnir þættir þar eru eins, sama hvaðan á þá er litið, rétt eins og upprunalegi krossinn ofan á kirkjunni.

Þetta er í raun viðfangsefnið í guðspjalli dagsins þar sem sagt er frá konunni sem þvoði fætur Jesú. Öll guðspjöllin fjögur segja jú frá henni og hver útgáfan hefur sín sérkenni eftir því hver segir frá, ekki ósvipað því þegar við skoðum eitthvert fyrirbæri frá ýmsum hliðum. Sameiginlegt þeim er að kona nokkur ber rándýr smyrsl á fætur Jesú og nærstaddir taka að mögla og tuða. Þeir segja að vel mætti selja andvirðið og gefa fátækum.

Hversu satt og rétt er það nú annars? Hvers vegna að spreða með svo forgengilega hluti, þegar fólk á ekki í sig og á? Ég er reyndar ekki viss um að veislugestur í stórafmæli myndi beinlinis lyfta stemmningunni upp á æðra plan ef hann benti á gjafir og svignuð veisluborð og gerði sambærilegar athugasemdir. Þó væru þær náttúrulega dagsannar eins og þessi gagnrýni á meðferð fjármuna.

Já og fréttamaður þráspurði fermingarbörn í sjónvarpsþætti á föstudaginn um það hvort þau væru ekki bara að fermast fyrir gjafirnar. Ég veit ekki með ykkur, en í þessu samtali mér fannst börnin sýna mun meiri þroska í fullorðinn spyrillinn.

Fátækt

Ef við hugleiðum líf og starf þess sem naut fótaþvottarins þá sjáum við hversu mjög starf hans var helgað þeim sem voru fátækir og utangarðs. Jesús boðaði þeim fagnaðarerindi, rétti við hag þeirra og bætti hlutskiptið. Hann hvatti til að fólk gæfi með sér og setti sig í spor þeirra sem stóðu höllum fæti. Síðar áttu þeir söfnuðir sem við hann voru kenndir eftir að beita sér í þágu bágstaddra. Reyndar á heimurinn mikið að þakka kristnu hjálparstarfi þar sem eingöngu er unnið að því að bæta hag náungans og ekki er spurt um trúarbrögð í því sambandi.

Tilsvör Krists benda okkur á hinn bóginn á þá staðreynd að kristin trú er ekki ósvipuð listaverki eins og því sem Neskirkja er – að á því eru margar hliðar sem gera verkið að því sem það er. Kristin trú horfir jafnan á uppruna verkanna, ekki verkin sjálf. Af góðu tré vaxa góðir ávextir og við vinnum ekki náunganum gang í þeim tilgangi að réttlæta okkur sjálf.

Réttlæting af trú

Nei, kærleiksverkið sprettur af góðu hjarta sem slær í þeim tilgangi að bæta heiminn og hlúa að sköpunarverkinu. Fátækt verður ekki upprætt nema með því að við endurmetum samfélagsgerð okkar. Í því sambandi skiptir staða kynsystra konunnar í guðspjallinu meginmáli eins og dæmin sanna, og helst í hendur við aukna hagsæld og jafnrétti.

Þjónusta þessarar konu er okkur fordæmi að því hvernig við eigum að lifa og starfa. Að baki býr sú hugsun að hin sístæðu viðfangsefni mannanna á leið okkar frá vöggu til grafar gera kröfur um róttækar breytingar á því hvernig við hugsum og breytum. Ekkert breytist ef við erum ekki tilbúin að byrja á okkur sjálfum.

Neskirkja birtir okkur þessa hugsun þar sem kristið samfélag þorir að feta nýjar leiðir og er tilbúið að mæta alls kyns mótlæti í því sambandi. Þetta er að sama skapi inntak siðaskiptanna sem eru ekki einstakur atburður heldur sísætt ferli endurskoðunar og endurmats sem á að einkenna alla kristna menn.

Nú þegar við mælum okkur af hér í Neskirkju spyrjum við okkur hvernig við getum orðið að liði í því hlutverki sem okkur er ætlað. Þar er auðvelt að villast af leið. Þegar við sinnum þjónustunni við Krist í auðmýkt og einlægni verður starf okkar, Guð til dýrðar og náunganum til heilla.