Afi Jesú

Afi Jesú

Vegna samfélagsáfalla, vegna náttúrumengunar og sára á líkama Krists er upp runnið nýtt skeið í veraldarsögunni, skeið Heilags Anda. Nú er þörf guðfræði og lækninga, sem tekur sárin alvarlega.

Mikil umræða varð um fjölskyldulíf Jesú á Lynghagaróló í liðinni viku. Á uppstigningardegi stormaði sex ára sonur minn inn í hús og spurði: „Hvar er pabbi?“ Og hann fékk það svar að pabbi væri að vinna. „Ég verð að fá að tala við hann.“ Og drengurinn fékk það svar að það yrði að bíða því hann væri ekki heima. Og hann var afar ósáttur, svo ósáttur að mamman vildi gjarnan vita hvað ylli uppnámi drengsins. Hún spurði því hvort hún gæti ekki leyst vanda hans. En hann kvað þvert nei við slíku. Og það þótti henni enn merkilegra því drengurinn er alinn upp við að mömmur geti allt til jafns við pabba – þó pabbi viti meira um fótbolta en mamma, alla vega um Chelsea og Bayern München og meistaradeild Evrópu! Drengurinn var því spurður enn og aftur um hvað hann vildi tala við pabba. „Ég ætla að spyrja pabba um það, sem við vorum að tala um á róló. Hver er afi Jesú!“

Þegar stórt er spurt verður stundum lítið um svör. Mamman var sammála drengnum, að það væri kannski best að pabbi svaraði þessari spurningu. Afi Jesú, hver er hann, hvað heitir hann? Hvernig er hann og við getum þá kannski líka spurt um ömmu Jesú líka. Þegar ég kom heim sagði kona mín mér frá stöðu vesturbæjar-guðfræðinnar og trúmálaumræðunni á róluvellinum hjá drengjunum.

Sannleiksandinn og huggarinn Ég veit ekki hvernig umræður um Jesúfjölskylduna hefur þróast síðustu daga, en spurningin tengist guðspjallstexta dagsins, sem er um Anda Guðs. Hver er hann og hvað er hann? Jesús Kristur talar um hann sem sannleiksanda. Og Jesús segist senda hann og bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra og voru þeir eitt og hvað merkir það?

Hann kallar þennan Anda líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki, parakletos (παράκλητος) þýðir m.a. verjandi, t.d. eins og lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos jafnvel merkt leiðtoga, sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandanna, kallar til fylgis og árangurs.

Það er ekki bara knýjandi spurning um hver sé afi Jesú, heldur ekki síður hvernig sonur og faðir tengjast? Það hefur nú löngum verið sagt, að Heilagur Andi sé vanvirta eða jafnvel týnda persónan í þrenningunni. „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna“ segir fólk stundum. Og börnin glíma við þessa hugsun. Hún er erfið og dýptir hennar eru vandséðar og erfitt að sjá til botns. Jesús Kristur talaði um Anda, sem yrði sendur eftir að hann væri farinn. Flækjustigið er því hátt. Margir hafa talið, að Jesús talaði um þennan anda sem nokkurs konar annan Jesú sem myndi koma. Og með útvíkkun þeirrar hugsunar telja múslimar t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning Kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði einhvers konar avatar eða að nýir messíasar kæmu, nýir Jesúsar, nýjar guðsbirtingar. Jesús er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra eru eining. Á sínum tíma gripið til leikhúsmáls til skýringar á hvernig tengslin væru. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, væri með mismunandi grímur eins og notaðar voru í leikhúsum til forna. Og grímurnar tákna persónu, enda nafnið persona notað um þær. Á miðöldum var persona þýtt með orðinu grein á íslensku og þess vegna segir í helgikvæðinu Lilju um guðdóminn: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum.

Við getum haft mismunandi skoðanir á þessari túlkun og þróun þrenningarkenningarinnar. Snjallir túlkendur, skærustu gáfumenn og Einsteinar í margar aldir þróuðu marbreytilegar skýringar kenningarinnar. Mismunandi tíðir hafa kallað fram mismunandi túlkun og hið ríkulega guðshugtak kristninnar hefur merkingarplús, dýpt sem hefur þjónað með mismunandi hætti og í samræmi við þarfir hvers tíma. Nú er komið að áherslubreytingu, tel ég. Síðustu áratugir kalla á breytta guðfræði. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Við höfum þörf á öflugri heilags anda guðfræði. Til hvers? Til að græða sár í náttúru, á líkama Krists og okkar innri manns. Heilags anda guðræði varðar ekki bara persónulíf okkar heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf. Og i dag tala ég ofurlítið um eina vídd þess máls – um vatnið og Anda Guðs.

Haf náðarinnar Adrian Hafsteinn var skírður fyrr í þessari athöfn. Nöfnin hans vísa bæði til hafs. Adrían vísar til hafsins austan Ítalíuskagans. Og seinna nafnið bendir til sjávar einnig. Foreldrarnir Neringa og Björgvin hittust í Eurovisionpartíi fyrir nákvæmlega sex árum, 20. maí 2006. Og þar sem þau nefna drenginn sinn vatns- eða sjávar-nöfnum er ekki úr vegi að segja líka, að þau hittust fyrst á Vatnsleysuströnd og nefna drenginn þó tveimur vatnsnöfnum! Þau hafa húmor fyrir svona skemmtimálum.

Adrian Hafsteinn var áðan borinn að skírnarlauginni og þar er haf himinsins, uppsprettulind heilsu og hamingju, sem Guð gefur. Samkvæmt kenningunni er Andi Guðs í skírnarvatninu og sá andi kemur og tekur sér bólfestu í Adriani Hafsteini. Og það er sami andinn, sem hefur verið að starfi allt frá upphafi sköpunar heimsins. Þegar í öðru versi Biblíunnar kemur þessi andi við sögu. Þar segir: „Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ Þetta er baksvið og baksýn alls vatnabúskapar heimsins æ síðan.

Skírn Jesú er af öllum kirkjuhefðum kristninnar tengd helgun vatns og á Íslandi blessar prestur rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar vatn í Nauthólsvík á hverju ári – ég legg til að við tökum upp vatnsblessun líka í okkar kirkju. Í hverri einustu skírn eru höfð yfir orð, sem vísa til starfa andans í upphafi sköpunar heimsins. Vatn er frumþáttur lífs, en vatni er hægt að spilla og vatn getur líka orðið tákn dauðans engu síður en lífsins. Alvara lífs og dauða er táknuð í skírninni. Orðin, sem presturinn notar við helgun skírnarvatnsins, eru forn og komin til okkar frá Marteini Lúther. Og merkingin er, að Guð skapar lífið, Guð verndar lífið og Guð helgar lífið. Þar er þrenningin táknuð og vatnið verður tákn annars vegar eyðingar en hins vegar lífs. Og Guð vill bara líf en ekki dauða. Neringa og Björgvin vilja litla drengnum sínum allt það besta. Nú hefur hann verið borinn í hús Guðs, fyrir honum beðið og hann þegið blessun. Ég bið foreldra hans og fjölskyldu, sem og okkur öll að minnast þess, að vatnið er tákn um blessun Guðs og alla æfi mun drengurinn - með nöfnum sínum - minna á þann sannleik. Hinn góði Andi er líka sannleiksandi, huggari, sem blessar hann og alla alltaf og ævinlega.

Hin heilaga fjölskylda Við vitum hver eru afar og ömmur Adrians Hafsteins. Rólóspurningunum má svara með margvíslegu móti, en ég get fullyrt að fjölskyldustíll Jesú er að umvefja og blessa. Það er hið mikilvæga. Andi hans er ást, sem ekki aðeins er huglæg og innan í okkur, heldur sá Andi sem allt skapar, bjargar og blessar.

Við þurfum að þora að opna alla okkar guðfræði og stækka allar okkar spurningar. Rólóspurningarnar mega hljóma en miklu fleiri líka. Ég met það svo, að vegna áfalla í samfélögum manna um allan heim, vegna náttúrumengunar og sára á líkama Krists, kirkjunni, sé nú komið að nýju skeiði í veraldarsögunni, guðfræði og kirkju – skeiði Heilags Anda. Nú er komið, að þeirri tegund guðfræði sem tekur alvarlega vá í náttúru og samfélagsspillingu af manna völdum.

Við höldum áfram að bera börn til lindar eilífðar, höldum áfram að gleðjast yfir fegurð mannlífs og náttúru. Við erum kölluð til ábyrgðar og megum trúa því, að Guð sé nærri öllu lífi, litlum dreng, þér sem syngur í kór, blómum sem bifast hér á flötinni utan kirkju og í öllu lífi þessarar flóknu en undursamlegu veraldar. Afi Jesú er ást, Andi Jesú er ást og við erum börn ástarinnar.

Amen.

Prédikun í Neskirkju á 6. sunnudegi eftir páska, 20. maí, 2012.

Textaröð: A Lexía: Esk 37.26-28 Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill: 1Pét 4.7-11 En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Jóh 15.26-16.4 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.