Sl. 30.1-6, Fi. 4.8-13 og Jh. 9.1-11
Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.“
Það var margt um manninn hér í Keflavíkurkirkju á miðvikudagskvöldið var eins og svo oft. Kóræfing var í fullum gangi í stóra salnum. Bjarmafundur stóð yfir í fundarsalnum og í skrúðhúsinu voru góðir gestir, konur úr Kvenfélagi Keflavíkur. Sjálfur var ég í þeim góða félagsskap en við undirbjuggum í sameiningu þá guðsþjónustu sem hér fer fram. Við ræddum um sálmana, skiptum verkum á milli kvennanna, völdum verðugt verkefni sem við vildum styrkja með samskotum í messunni og loks lásum við saman textana sem tilheyra þessum sunnudegi og ræddum túlkun þeirra.
Leðjan og fleira framandlegt
Við leituðum þráðarins rauða í textunum og ræddum líka hvað það er sem gefur hverjum þeirra sérstöðu. Hvað finnst okkur stangast á við þær hugmyndir sem við höfum á þessu sviði? Hverjir voru óvinir sálmaskáldsins? Þurfum við ekki sérstaklega styrk í meðbyr eins og postulinn segir. Sérstaklega stöldruðum við þó við frásögn guðspjallamannsins um það þegar Kristur spýtir í moldina og smyr henni á auga mannsins. Hvaða tilgangi þjónar sú frásögn? Verður ekki leðjan full áberandi í sögunni?
Jú, við ræddum vissulega um margta fleira þar sem við vorum samankomin hér í kirkjunni. Skemmtilegar sögur flugu og eitthvað komu þreytulegir frasar til umræðunnar líka – orkufyrirtæki og kaupréttarsamningar – en ég lofa því að ekkert verður frekar um það rætt hér í þessari predikun! Líf og fjölbreytni
Og þegar við kvöddum kirkjuna, ómaði tónlistin um safnaðarheimilið og mannlífið var fjölbreytt sem fyrr. Þá varð mér hugsað til þess þegar ég kvaddi þessa góðu gesti okkar hversu lifandi samfélag kirkjan okkar er og hvað hún rúmar ólíka starfsemi. Listsköpun, stuðningur og þátttaka leikmanna í helgihaldinu, allt er þetta hlufi af því starfi sem á heima hér í kirkjunni. Svona er þetta hérna hjá okkur og svona er þetta víðast um hinn kristna heim.
Það er því rétt að spyrja sig að því mitt í öllum fjölbreytileikanum og lífinu – hvað það er sem sameinar alla þessa hópa sem til hennar leita. Hvað er það sem gefur öllu því samnefnara sem tilheyrir kirkjunni og flykkir sér undir merkjum hins kærleiksríka Guðs? Víst geta svörin við því verið margbreytileg rétt eins og samfélagið sjálft samanstendur af ólíkum hópum sem leita til kirkjunnar á ólíkum forsendum.
Ólíkar skoðanir í guðspjallinu
Við fáum að kynnst þessum fjölbreytileika í guðspjallinu sem hér var lesið. Þar er vöngum velt yfir gömlu og sígildu heilabroti sem sótt hefur á manninn í gegnum aldirnar: hvað veldur því þegar ógæfan slær fólk og hvers vegna hún virðist hún ljósta suma en aðrir sleppa. Sannarlega eru þær margar sjálfshjálparbækurnar sem kenna það að hver sé sinnar gæfu smiður – í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem alast upp við örbyrgð og fátækt hafa með einhverjum hætti ekki fundið réttu aðferðina til þess að hala inn fé og gæfu.
Ekki þarf heldur úthugsað hugmyndakerfi til þess að á fólk leiti sú hugsun að hörmungar og böl sem á það sækir séu verðskulduð á einhvern hátt. „Af hverju gerðist þetta fyrir mig? Hvað hef ég gert til þess að verðskulda slík örlög og slíkt hlutskipti?“ Svona spyrja margir sem hafa mátt þola þung högg í lífinu og erfið kjör. Því var það ekki að furða þótt lærisveinarnir hafi borið vangaveltur sínar undir meistara sinn: hvað getur skýrt það þegar barn fæðist blint. Varla hafði það sök barnsins sjálfs sem engin verk hafði unnið er það kom í heiminn í þessu ástandi – og voru það þá foreldrarnir?
Hugmyndakerfið hrynur
En maðurinn sem situr þarna í þjáningu sinni, einsemd og umkomuleysi verður einhvern veginn eins og svar við þessari spurningu. Hvaða gildi hafa slíkar heimspekilþrautir þegar sjálf neyðin mætir okkur augliti til auglitis? Sjáið viðbrögð Krists og hversu gerólík þau eru þeim hugmyndum sem þarna höfðu verið færðar í orð. Spyr hann um sökudólga? Spyr hann um gátur tilvistar og eilífðar sem aldrei verða okkur að fullu upplýstar? Leitast hann við að greiða í því fínriðna neti mannlegrar tilveru sem við sjálf erum svo þéttofin í að við greinum þar ekki hið ytra útlit og mörk?
Nei, Kristur svarar ekki þeim spurningum. Hann horfir á manneskjuna sem dýrmæta og mikilvæga, ekki síst í öllu umkomuleysi sínu, og vill bæta kjör hennar. Hann vill veita henni styrk. Hjálparþurfi manneskjan svarar í raun spurningunni á sinn hátt. Komdu manninum til hjálpar! Liggðu ekki á liði þínu og eyddu ekki dýrmætum tíma þínum í innihaldslausar bollaleggingar þegar heimurinn þarfnast þín!
Duftið verður að leðju
Því frásögnin sjálf er eins og ein stór kennslustund í því hvernig kristnum mönnum ber að styðja og efla þann sem á um sárt að binda og glímir við erfiðar raunir. Hún hrifsar okkur frá þeim sviðum tilverunnar sem okkur hættir svo mjög við að festast í. Þeim sem við í æðruleysisbæninni hér í upphafi nefndum með orðunum: „það sem ég ekki fæ breytt“. Við báðum Guð um að kenna okkur að sætta okkur við slíkt hlutskipti. Einmitt þetta, að hætta okkur ekki inn á þær brautir tilverunnar þar sem þekking okkar og reynsla hrekkur ekki til.
Því afleiðingar þess geta verið margvíslegur og sjaldnast góðar: sektarkennd yfir því að bera sök á því sem ekki var á okkar valdi að breyta. Fordæming þegar aðrir eiga í hlut. Fjarlægð frá því að taka á vandanum með þeim hætti sem aðstæðurnar krefjast, hringferðir í óvissu vanþekkingar. Kristur vísar okkur með ljósi sínu leiðina út úr þeim vanda. Hann opnar augu okkar eins og hann opnaði augu mannsins í frásögninni. Hann gerir þurran jarðveginn að gróðurmold eins og þegar hann breytir duftinu í leðju sem hann ber á hinn blindfædda. Lífgefandi leirinn tekur við af dauðu efninu.
Trúin veitir styrk
Það er einmitt lykilatriðið í öllum þeim textum sem hér hafa verið lesnir – lexíu, pistli og guðspjalli: „Ég tigna þig Drottinn því þú hefur bjargað mér“ segir í Sálminum og í bréfi postulans stendur: „ Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ Trúin veitir okkur styrk. Hún veitir hverjum þeim sem til hennar leitar festu til að standa á, kraft til þess að ganga og ekki síst – eins og kemur fram í guðspjallinu: leiðarljós til þess að fylgja. Mitt í öllu því auðuga litrófi sem kirkjan okkar er stendur þessi boðskapur óbifaður. Kristin trú veitir okkur styrk. Þannig verður lærdómur þessarar guðsþjónustu sem þær kvenfélagskonur hafa glætt svo ríkulegu lífi sá að ljós heimsins fæðir af sér nýja sýn og nýtt líf sem verður okkur öllum styrkur til þess að mæta erfiðleikum í eigin lífi og létta byrðir náungans sem þarf svo mjög á okkur að halda.
Vissulega er fjölbreytnin mikil og tilefnið er margvíslegt fyrir því að sækja kirkjuna. Sumir sækja í hið gefandi samfélag, aðrir leita huggunar í mótlæti, enn aðrir í hina auðugu listsköpun, en öll værum við snauð og ráðvillt ef ekki væri lífgefandi boðskapur kristninnar, áminning hennar um kærleika og virðingu fyrir hverjum einstaklingi. Gildir það einu hvaðan við komum og hvert við leitum í þeim efnum. Trúin gefur okkur vængi til mikilla verka.