Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: Effaþa, það er: Opnist þú.Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.Menn undruðust næsta mjög og sögðu: Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla. (Mark. 7.31-37)
Lítil stúlka opin og hvatvís var á leiðinni í afmæli til vinkonu sinnar. Um það leyti sem hún var að ganga út úr dyrunum heima hjá sér að þá uppgötvuðu foreldrar stúlkunnar sér til skelfingar að þeir höfðu gleymt að kaupa afmælisgjöf til þess að senda barnið með í boðið.
Ráðagóður heimilisfaðirinn bætti fyrir mistökin með því að finna vel með farna bók upp í bókaskáp, hann pakkaði henni vandlega inn og lét dóttur sína hafa, með því fororði að hún mætti alls ekki segja afmælisbarninu hvaðan bókin kæmi, það væri algjört leyndarmál. Litlu stúlkunni þótti þetta merkileg skilaboð og lagði síðan af stað með bros á vör.
Stúlkan hljóp nú eins og hún ætti lífið að leysa í afmælið, hún var bæði sein og svo lá henni svo á að segja afmælisbarninu fréttirnar. Á sama tíma og hurðin opnaðist hjá afmælisbarninu ruddist litla stúlkan inn móð og másandi, rétti strax fram gjöfina og sagði:
„Ég ætla bara að láta þig vita það að þetta er bók, pabbi tók hana úr bókaskápnum og pakkaði henni inn.“
Það er ekki víst að þessi skondni afmælisgestur hefði endilega tekið þetta svona skýrt fram nema vegna þess að afmælisgjöfin kom frá öðruvísi stað, það var ekki farið út í búð eins og venjulega, auk þess sem hinn leyndardómsfulli boðskapur hefur án efa hljómað framandi í eyrum barnsins.
Þetta minnir óneitanlega á fólkið, sem hlustaði andaktugt á frelsarann þegar hann bannaði þeim að segja frá hinu sérstæða atviki við Galíleuvatn, "en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því."
Skrýtin og skemmtileg saga sem segir okkur líka það hversu spennandi það er að segja frá leyndarmáli, að ég tali nú ekki um hvað það getur verið lýjandi ábyrgð að þegja yfir leyndarmáli. Það getur verið virkilega erfitt, hversu smávægilegt eða stórvægilegt sem það nú er.
* * *
Guð reyndi fólkið við vatnið, ekki segja frá kraftaverkinu, hinum leyndardómsfulla atburði. Hvers vegna ekki? Jú, stundin var ekki komin. Hann var ekki upprisinn. Hjálpræðisverkið var ekki fullkomnað.
Hugsið ykkur! Jesús gat rekið út djöfla, lægt storma, læknað sjúka, en hann gat ekki fengið fólkið til þess að þegja. Máttur Guðs orðs er mikill, það er ekkert hægt að þaga yfir því?
Þess utan að þá er Guðsorð ekki bara miðlað með orðum, það berst með svo margvíslegum hætti, hegðun, atferli, framkomu, réttri breytni, já í endalausum myndum. Lækningar eru líka miðlun Guðs orðs, því þær stuðla að lífi, þær viðhalda lífi, þær koma reglu á óreglu, rétt eins og Orðið gerði í upphafi er það skapaði ljós inn í myrkrið.
Hin nýja sköpun Jesús Kristur heldur verkinu áfram með því að lækna og það leggur um leið áherslu á það að orð Guðs er ekkert "Galdraorð" vegna þess að Guð er stöðugt að verki í sköpun sinni, það er hin svokallaða sístæða sköpun.
Verkið var hins vegar ekki fullkomnað þegar hér var komið sögu. Fólkið við Galíleuvatn fékk ekki boð um að fara og gjöra allar þjóðir að lærisveinum, segja frá dýrðinni, við vitum að sú skipun kom aldrei fyrr en eftir upprisudýrð Jesú Krists.
Það opnar augu okkar fyrir því að þeir sem trúa á hinn upprisna frelsara geta einir skilið mikilvægi þess, sem átti sér stað í boðun Jesú? Það var því ekki að ófyrirsynju að Guðssonur hvatti fólk til þess að trúa:
„Óttast þú eigi, trú þú aðeins.“
Það var verið að undirbúa jarðveginn, lífsins sigur var hið eina mark og mið. Jesús komst að því að fólkið við Galíleuvatn gat ekki þagað yfir lækningarkraftaverkinu, þá mátti allt eins búast við því að það gæti ekki þagað yfir því kraftaverki, sem öllu máli skipti, sigri lífsins.
* * *
Er hægt að þegja yfir upprisunni? Það gerðu ekki fyrstu kristniboðarnir, konurnar við gröfina, það gerum við ekki heldur í dag, rödd mín fær að hljóma hér í Seljakirkju árið 2004 og ekki bara hér, heldur inn á öll heimili landsmanna.
Það er stórkostlegt til þess að vita að með þessu fær Guðs orðið enn þann dag í dag greiðan aðgang, það er í boði og okkur öllum gefst tækifæri til að opna eyru. Það má ítreka það að á meðan að Guðsorð og Guðspjall fær að hljóma, að þá eru ekki sagðar slæmar eða vondar fréttir, gleymum því ekki að Guðspjall þýðir á frummáli góðar fréttir.
Þegar um er að ræða góðar fréttir hvað er það þá svo sem sem fær okkur til þess að slökkva á viðtækjunum? Eflaust geta ýmsar ástæður legið þar að baki, en sú sísta væri kannski sú að vilja ekki horfast í augu við það orð sem hér fær að hljóma sem raunverulegt sannleiksorð.
Ef sú er ástæðan að þá verður þér í sömu andrá og þú slekkur á útvarpinu litið út um gluggann í stofunni þinni og auður kross kirkjunnar blasir við þér.
Þú dregur fyrir og kveikir á sjónvarpinu og þar hlaupa vöðvastæltir knattspyrnumenn inn á völlinn og krossa sig bak og fyrir. Þú slekkur á sjónvarpinu og þá hringir frænka í þig og fer að spjalla um Kristsmynd Gibsons. Guð er allt um kring í máli og myndum, Guð er samofin veruleikanum.
Og sannleikurinn þegir ekki, hann er ekki málhaltur, hann talar skýrt. Krossinn heldur áfram að ná til skilningarvita okkar, þar til þau meðtaka og læknast, krossinn sýnir það að þar er hjálpræðisverk Guðs allt heim og saman komið, kraftaverk dagsins er aðeins örlítill undirbúningur að því, Guð vill ekki bara lækna þig, hann vill fyrst og fremst lækna þig frá fráhvarfi trúar.
„Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja.“
Segir spámaðurinn Hósea, sem í Gt. líkir sambandi Guðs og Ísraelsþjóðar við hjónaband, þar sem þjóðin er í hlutverki ótrúrrar eiginkonu.
Góð líking, því traust er grundvallaratriði í sérhverju sambandi, hjónabandi, samskiptum einstaklinga, samfélagshópa, þjóða, við vitum það að brotalöm í gagnkvæmu trausti skilur eftir sár, lækning slíkra sára er kraftaverk á við það, sem menn sáu Jesú lækna svo vel við vatnið.
Það er alltént þannig að leyndardómsfullur upprisuatburður hefur haft og mun hafa rík lækningaráhrif á mannkyn hvað svo sem við höfum til málanna að leggja um það. Sú fullkomnun á hjálpræðisverki Guðs, sá sannleikur sýnir einlægt traust og elsku Guðs, sem varpar stöðugt ljósi á þá hluti sem við reynum í ófullkomleika okkar að þegja í hel, sem við reynum að fela, það skiptir ekki máli þótt þeir séu faldir kyrfilega, það nægir ekki einu sinni að fela þá á bak við friðhelgi heimilanna.
Guð kemur til fólksins, Hann fylgist með okkur, Adam og Eva gátu ekki falið sig fyrir Guði í garðinum, Jónasi tókst ekki að flýja mikilvægt verkefni sem honum var falið af Guði, augu Páls postula opnuðust, honum tókst ekki að loka augunum fyrir Guði, Drottinn Guð kemur hljóðlega og læknar þig.
Það fer enginn ofan af því að upprisuatburðurinn, sem öll boðun og verk Jesú miðast að, hefur náð að ljúka upp augum, eyru hafa opnast og haft tungna hefur losnað. Þetta kraftaverk í Galíleuhéraði tákngerir trúnna á Jesú Krist. Sýn, heyrn, mál, öll skilningarvit opnast og verða svo fyrst raunveruleg eftir dauða og upprisu Jesú Krists.
Auður krossinn sýnir að Jesús hefur uppfyllt allar væntingar okkar, ekki brást Jesús væntingum fólksins við vatnið, ekki einu sinni í þeim heiðnu byggðum, þar sem hann var staddur, þar var að sjálfsögðu þörf fyrir Jesú, en ekki hvað?
Þar voru ljóslega margar óuppfylltar væntingar, sem Jesús sá um að uppfylla. Þar sjáum við að það er sama frá hvaða jarðvegi þú kemur, grýttum eða sléttum, þú getur öðlast hlutdeild í lífi Jesú, hlutdeild sem fyllir upp í líf þitt og afnemur allt sársaukafullt tómarúm, við erum aldrei of oft minnt á það.
* * *
Við vitum að fólk á erfitt með að fara leynt með það þegar væntingar þess eru uppfylltar. Það var jú líka ein ástæðan fyrir því að Jesús fékk ekki dulist rétt eins og hinn kristni sannleikur.
Jesús fór hljóðlega og hann tók daufan og málhaltan manninn afsíðis, hann var ekki að auglýsa verk sín, þurfti þess ekki, þau stóðu fyrir sínu. Það er vissulega í mótsögn við þá lækningaprédikara, sem í dag hafa víða viðkomu og setja upp stórar og miklar kraftaverkasýningar og hafa það eitt að markmiði að boða til sín eins marga áhorfendur og hægt er með stórum auglýsingaplakötum.
Það vekur að sjálfsögðu upp spurnir hvort þeir séu að trana sér fram á kostnað þeirra, sem eru í raunverulegri neyð og líða raunverulegar þjáningar. Kraftaverk gerast dags daglega, í kirkjum, á heimilum, hér og þar, fyrir tilstilli hinnar kristnu fyrirbænar og hún virkar best í kyrrð og yfirvegun, ekki í múgæsingi í stórri höll. Þar má halda rokktónleika!
Verkið er fullkomnað og við megum segja frá. Litlu stúlkunni þótti ráðagóði faðirinn svo fullkominn og leyndarmálið hans, að hún lét bara vaða þegar í boðið var komið. Einn liður í starfi kirkjunnar er að þegja ekki yfir orði Guðs, láta það berast til sem flestra. Jesús Kristur opnaði eyru fólks vegna þess að það er tákn um líf, Orðið sanna er lífgefandi.
Litla stúlkan var áköf í að segja fréttirnar, hún hljóp móð og másandi. Tákn um lífskraft, tákn viljans, tákn atorkunnar. Það er svo merkilegt að þó við búum í kristnu samfélagi að þá er fjöldi fólks, sem hefur ekki fengið að kynnast Jesú, snerta hann, njóta þeirra gæða sem í Kristi felast.
Þar gefst okkur tækifæri til færa góðar fréttir mitt í öllum slæmu fréttum fjölmiðla. Þessar góðu fréttir eru svo góðar að það er ekki einu sinni hægt að gera þær slæmar og svo megum við taka kraft, vilja og atorku stúlkunnar okkur til fyrirmyndar. Það er fagnaðarerindið um Jesú Krist, sem gefur líf, sem líknar og sem vill viðhalda allri Guðs góðri sköpun.
Við sem viljum bera út þessar góðu fréttir getum ávallt átt athvarf í orkuveri trúarinnar, sem er kirkjan. Það er líknandi og mannbætandi samfélag stofnað af Guðs góða anda.
* * *
Vetrarstarf kirkjunnar leysir nú sumarstarf hennar af hólmi. Þér býðst margþætt starf í kirkjunni þinni. Hún er jú fyrir alla, börn, konur og karla! Hún er samfélag í trú og gleði!
Hlustið, með öll skilningarvit opin, eftir skilaboðum kirkjunnar, hún lætur vita af margþættu safnaðarstarfi, fjölsbreyttar guðsþjónustur fyrir unga sem aldna, unglingastarf og starf fyrir foreldra ungra barna, hverskonar fræðslusstarf, Alfa námskeið, Biblíulestrar, fermingarnámskeið, leikskóla og grunnskólaheimsóknir, tólfsporastarf, kærleiksþjónusta ásamt ýmsu öðru.
Öll þessi flóra er rekin áfram af mætti bænar til Guðssonar, er hvetur, huggar og síðast en ekki síst læknar hverja þá sál, sem biður, leitar og knýr á.
Bolli Pétur Bollason er prestur í Seljakirkju. Flutt í útvarpsmessu á 12. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, þann 29. ágúst 2004.