Sjónvarpsstríð

Sjónvarpsstríð

Það geysar stríð austur í Írak, og svo sem ekki í fyrsta sinn í veraldarsögunni, en hvernig sem á því stendur þá erum við Íslendingar allt í einu komnir í það hlutverk að styðja opinberlega þá aðila sem þarna hafa kosið að leggja til atlögu...

4. sd. í föstu – 30. mars 2003 Fjölskyldumessa í Hallgrímskirkja í Saurbæ í umsjón Laugarnessafnaðar.  Textar: 2. Mós. 16.11-18 – Fil. 2.1-5 + Jh. 6.47-51  

Hervald og vopn Þó við hér í kirkjunni í dag viljum vera á fjölskylduvænum nótum og gefa börnunum tækifæri til að gleðjast hér með okkur um leið og þau fræðast, þá fer ekki hjá því að það eru um margt víðsjárverðir og alvarlegir tímar sem við lifum á, og margt sem þarfnast ígrundunar og alvarlegrar umfjöllunar af okkar hálfu hér í dag. Það geysar stríð austur í Írak, og svo sem ekki í fyrsta sinn í veraldarsögunni, en hvernig sem á því stendur þá erum við Íslendingar allt í einu komnir í það hlutverk að styðja opinberlega þá aðila sem þarna hafa kosið að leggja til atlögu við þjóð, sem undanfarinn áratug og meira en það, hefur búið við rýran kost vegna viðskiptabanns. Við Íslendingar, sem eigum allt okkar undir því að þjóðir heimsins leysi deilumál sín friðsamlega og helst á sameiginlegum vettvangi, ef því verður við komið, höfum nú tekið okkur stöðu með þeim, sem í krafti hervalds og vopna eru farnir að fara með einskonar lögregluvald í heiminum - farnir að deila og drottna - og skilgreina það fyrir okkur hinum hvað sé rétt og hvað sé rangt; hvað fái að lifa og hvað þurfi að deyja í nafni réttlætisins. M.ö.o., við, sem fram að þessu höfum talið okkur vera sæmilega kristna þjóð, erum orðinn aðilar – þó með óbeinum hætti kunni að vera - að stríðsrekstri Bandaríkjamanna og Breta austur í Írak.  

Börn og bardagar Frægur Bandarískur guðfræðingur og siðfræðingur, Stanley Hauerwas að nafni, hefur sagt að það sé ekki á neinn hátt verjandi fyrir kristna menn að standa í stríði, og við sem teljum okkur þekkja guðspjöllin og boðskap Jesú Krists, og viljum leitast við að gera vilja hans að vilja okkar,  vitum að það er erfitt – ef ekki fullkomlega ómögulegt - að ætla sér að finna þar réttlætingu fyrir stríðsrekstri af nokkru tagi. Þegar Jesús segist vera kominn til að færa sverð en ekki frið, þá er það ekki til að við mennirnir getur ráðist hver gegn öðrum, heldur til þess að við getum hafið stríð gegn okkar eigin löstum og sniðið vankantana af sjálfum okkur. Okkur er ekki ætlað að ráðast gegn öðrum, og því hljótum við sem kristnar manneskjur að harma þá stöðu, sem búið er að koma okkur í sem þjóð af ráðamönnum okkar. Í sambandi við stríðið hefur einnig verið að því spurt, hvernig það horfi við börnunum, sem komast ekki hjá að fylgjast með þessu öllu með einum eða öðrum hætti, og að því hefur verið spurt hvernig foreldrar eigi að mæta spurningum barna sinna um stríðið. Og svarið sem gefið hefur verið af sálfræðingum er að vitaskuld eigi að tala um þetta við börnin, og það fremur á opinskáan hátt en ekki. Það er hins vegar athyglisvert að kynnast því hvernig börnin geta brugðist við þessu stríðstali öllu, og það var nú í vikunni sem leið, að ég var með samverustund á leikskólanum okkar hér í hreppunum sunnan Skarðsheiðar, og eins og stundum brá ég á leik með brúðurnar Guðfinnu og engilinn Gabríel, sem ég læt stundum tala við börnin, og ræða eitt og annað sem snertir lífið og tilveruna. Að þessu sinni var það stríðið í Írak sem bar á góma, og ekki var annað að heyra en að börnin á leikskólanum vissu vel af því sem þarna austur frá hefur verið að gerast. Ein stúlkan í hópnum, björt yfirlitum, skemmtileg og skýrmælt, lét þá skoðun í ljós í samtalinu við brúðurnar, að stríðið væri nú ekkert til að hafa áhyggjur af, því það væri bara í sjónvarpinu, það væri í rauninni ekki í alvörunni, og ekki var annað að heyra á börnunum en að þetta gæti fyllilega verið svona, og stríðið væri bara í sjónvarpinu en ekki alvörunni. Ég brosti með sjálfum mér að þessari athugasemd hennar, og reyndi að láta brúðurnar svara henni einhverju skynsamlegu, sem ég ekki lengur man hvað var.  

Sjónvarp og síbylja Þessi athugasemd hennar fékk mig hins vegar til að leiða hugann að því, að hve miklu leyti líf okkar fer fram í tengslum við sjónvarpið, og hvernig það í rauninni getur gegnsýrt líf okkar, því þó sjónvarpið hafi að sönnu fært okkur nær mörgu í samtíð og sögu;  upplýst okkur og uppfrætt á margvíslegan hátt, þá getur það líka firrt okkur og með síbylju sinni gert okkur ónæm fyrir svo mörgu. Daglega getum við í sjónvarpinu fylgst með ástum og örlögum, dauða, missi og þjáningum fjölda fólks, og spurningin sem ég vil varpa fram í þessu sambandi er hvort sjónvarpið geti ekki átt þátt í að fjarlægja okkur hvert öðru, gera okkur ónæmari og jafnvel afskiptalausari um tilfinningar og líðan, og þegar stríðsátök brjótast út í beinni útsendingu, þá er eins og ekkert sé sjálfsagðara, því við erum svo vön að horfa á stríð og allskyns átök í sjónvarpinu, að okkur finnst eins og ekkert sé eðlilegra. Einnig mætti í þessu sambandi spyrja um áhrif tölvunnar og allra tölvuleikjanna. Við þekkjum örugglega sögur af börnum og jafnvel unglingum, sem framið hafa eitthvert það óhæfuverk sem ekki verða aftur tekið, en talið það vera nánast í lagi, því rétt eins og í tölvuleikjunum hlyti að vera hægt að byrja upp á nýtt og láta allt  verða jafngott aftur.                 Við skulum hins vegar ekki fara í grafgötur með það, að stríðið í Írak er ekki bara sett á svið fyrir sjónvarp, heldur er þetta stríð raunveruleiki milljóna manna – manna sem líða og þjást og syrgja, og þurfa stöðugt að búa við ótta og áhyggjur. Og þessar áhyggjur þeirra, ótti og þjáningar eru ekki neinn sýndarveruleiki úr sjónvarpinu heldur áþreifanlegar og raunverulegar þeim sem frammi fyrir þeim standa.  

Hagur annarra Þessi ótti og þessar þjáningar eru hins vegar fjarri okkur, sem búum hér uppi á Íslandi, og höfum svo mikið af öllu, að helstu áhyggjur sumra lúta að því hvort fara eigi í sumarfríinu til Frakklands eða Flórída. Stríðið í Írak er hins vegar blákaldur veruleiki fjölda fólks og veruleiki sem íslensk stjórnvöld hafa því miður átt þátt í að kalla eftir og styðja, en það hlýtur sannarlega að vera okkur umhugsunarefni, sem hér erum í dag og viljum í lífi okkar leitast við að gera vilja Guðs að vilja okkar. Við skulum hins vegar minnast þess, að okkur er í nafni Krists ætlað að halda ótrauð áfram við að gera það sem rétt er, og leitast við að öðlast þann frið í hjarta okkar, sem er æðri öllum skilningi, því sú er sannarlega köllun okkar. Við skulum hér að síðustu minnast þeirra orða Páls postula úr Filippíbréfinu, sem lesin voru hér áðan, “að okkur ber ekkert að gjöra af eigingirni eða hégómagirnd, heldur er okkur ætlað að vera lítillát og meta aðra meira en okkur sjálf; líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig hag annarra.” Sá sem gerir sér grein fyrir því, að sérhver maður ber í rauninni mynd Krists í hjarta sínu, því hann er skapaður í Guðs mynd, veit um leið að hann má ekki kalla illt yfir aðra menn, heldur verður að koma fram við þá eins og þeir séu sjálfur Kristur. Þannig er okkur ætlað að læra að virða hvert annað, ala önn hvert fyrir öðru og ganga fram í kærleika óháð því hverrar þjóðar við kunnum að vera, trúar eða kynþáttar. Megi friður Krists ná að ríkja í hjarta okkar allra. Amen!