Tæming eigin máttar

Tæming eigin máttar

Þessi vers eru styrkur í þeim þrengingum sem mannlegt líf ber með sér. Þegar við finnum okkur veik og vanmáttug megum við vita að Jesús Kristur er staddur þar með okkur. Og ekki nóg með það: Þegar Jesús er með okkur í ölduróti lífsins er möguleikinn á viðsnúningi, á umbreytingu vanmáttar til máttar, ætíð opinn – ef hendur okkar og hjarta eru opin til að taka á móti.

Í bréfinu til Hebrea segir (5.7-10):

Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.
Og nokkru áður segir í sama bréfi: „Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar“ (Heb 4.15). Hér er undirstrikað að Jesús var sannur maður, að öllu leyti mannlegur nema að hann leið ekki vegna eigin syndar heldur syndar heimsins sem villist af leið kærleikans. Hann grét ekki yfir sjálfum sér heldur okkur, tár hans voru mín tár og þín. Í Filippíbréfinu vitnar postulinn í sálm úr sínu frumkirkjulega samhengi sem segir að Jesús hafi tæmt sjálfan sig til að geta verið mannkyni allt (2.5-8). Guðfræðin notar í þessu samhengi gríska hugtakið kenosis sem byggir á sögninni kenoo, hér þýtt með „svipti sig öllu“:
Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.
Nú er fastan hafin og því horfum við til þjáningar Jesú og leitumst við að skilja hvað felst í sjálfstæmingu hans; að hann sem sannarlega er Guð skuli hafa svipt sig öllu og lægt sjálfan sig til að ganga inn í mannleg kjör. Það er okkur ef til vill framandi að heyra um sár andvörp og tár Jesú, ekki síst ef myndin af hinum sigrandi konungi er ofarlega í huga okkar. Líklega kjarnast einmitt meginmismunur ólíkra guðfræðistefna um þetta atriði, hvort litið er á Jesú Krist sem mann fyrst og fremst, mikilvæga fyrirmynd einvörðungu, eða sem Guð dýrðarinnar og mennskan þá látin liggja á milli hluta. Leiðin sem hefðbundinn kristin guðfræði hefur farið frá upphafi er að sjá hvorttveggja mætast að fullu og sönnu í Jesú Kristi, guðdóminn og mennskuna.

Að Jesús hafi svipt sig öllu, tæmt sig, merkir ekki að hann hafi gengið út úr guðdómi sínum. Það sjáum við t.d. af kraftaverkafrásögunum. Jesús er sannur Guð og sannur maður í senn, bæði þá og nú sem uppstiginn við hægri hönd Guðs þar sem hann biður fyrir okkur (Róm 8.34). En hér er maðurinn Jesús í forgrunni í samlíðan með mannkyni. Við munum eftir bæði baráttu hans í eyðimörkinni eftir skírnina við upphaf starfstímans (Matt 3.13-4.11) og eins í Getsemanegarðinum, kvöldið fyrir krossfestinguna þar sem hann biður í „hryggð og angist“ (Matt 26.36-46). Í öðru Korintubréfi (13.4) er hreinlega sagt að Jesús hafi verið krossfestur „af því að hann var veikur en Guð er máttugur og lætur hann lifa“. Jesús var veikur vegna hinnar algjöru samsemdar við okkur. En við megum líka samsama okkur honum í styrkleika hans, eins og segir áfram í öðru Korintubréfi: „Og einnig ég er veikur eins og hann en Guð veitir mér kraft og ég mun lifa með Kristi.“ Síðar í sama bréfi segir postulinn:

Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur þá er ég máttugur (2Kor 12.9-10).
Þessi vers eru styrkur í þeim þrengingum sem mannlegt líf ber með sér. Þegar við finnum okkur veik og vanmáttug megum við vita að Jesús Kristur er staddur þar með okkur, hann sem jafnvel steig niður til heljar, eins og við segjum í postullegu trúarjátningunni (byggt á 1Pét 3.19, Róm 10.7 og Ef 4.8-10). Og ekki nóg með það: Þegar Jesús er með okkur í ölduróti lífsins er möguleikinn á viðsnúningi, á umbreytingu vanmáttar til máttar, ætíð opinn – ef hendur okkar og hjarta eru opin til að taka á móti. Engin þjáning hefur verið mér sársaukafyllri, sagði kona nokkur við mig þegar hún lýsti erfiðri lífsreynslu, en að finna mig fjarri Guði og léttirinn ósegjanlegur þegar ég fól mig frelsara mínum á hönd á nýjan leik. Þannig getum við verið máttug í Kristi, einnig í veikleika okkar, eins og Jesús Kristur er fyllilega mennskur í guðdómi sínum og að fullu Guð í mennsku sinni.

Og tæming eigin máttar kann að vera það besta sem hendir á lífsins leið því þannig skapast rúm fyrir máttugan kærleika Guðs til umsköpunar og viðreisnar: „Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig“ (Fil 3.21) segir í þriðja kafla Filippíbréfsins. Það grundar í ávexti hinnar algjöru tæmingar og er lýst í sálminum forna sem fluttur hefur verið í kristinni kirkju um árþúsund (Fil 2.9-11):

Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.
Amen.