Til þess að heimurinn trúi

Til þess að heimurinn trúi

Þegar andstæðir hagsmunir takast á út frá ólíkum sjónarmiðum og hugsanagangi kostar það bæði þolgæði og einlæga trú að standa gegn djöfullegu aðdráttarafli ofbeldis og eyðingar, sem nærist á sjúklegum metnaði og drambi. Það kostar hugrekki og auðmýkt að tileinka sér æðstuprestsbæn Krists og taka undir með honum og gera hreystiverk hans að sínu.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
06. apríl 2006
Flokkar

Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: [...] Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig. Jh 17.1a, 20-23

Hvað merkir það að vera í kirkjunni, í söfnuði?

Við heyrum þessa spurningu oft þegar við erum að reyna að gera okkur grein fyrir því af hverju kirkjan er til, af hverju kirkjur eru byggðar, af hverju erum við skráð í ákveðinn söfnuð eða kirkjudeild. Þetta er kannað og það eru sendir út spurningalistar og staða kirkjunnar í nútímanum er greind og skýrslur skrifaðar. Svörin eru margvísleg en ekki alltaf skýr.

Það er nauðsynlegt og gagnlegt að glíma við þessar spurningar því að við þurfum að gera kirkjuna og boðskap hennar sýnilega í heiminum í dag. Hún þarf að koma fólki við vegna þess að boðskapur hennar fjallar um mikilvægustu spurningar mannsins, alls staðar og á öllum tímum.

Í seinni heimstyrjöldinni átti íslenska þjóðkirkjan frumkvæði að því að taka frá einn dag til að biðja fyrir friði í heiminum, og tilgangurinn er að sameinast öðrum kirkjudeildum og öllum mönnum með góðan vilja til að biðja um einingu og sátt meðal manna, ólíkra hópa og þjóða.

Í upphafi 20. aldarinnar tók samkirkjuhreyfingunni að vaxa ásmegin, ekki síst þegar ljóst var að stórstyrjöld var í aðsígi. Menn sáu hvað átök um kenningarleg atriði voru til mikillar óþurftar þegar þau skiptu kristnum mönnum í stríðandi fylkingar og hve andstætt það var sjálfum kjarna kristindómsins.

Guðfræðingar frá hinum mismunandi kirkjudeildum fóru að ræða saman um ágreiningatriði í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar og þeir fundu ný sjónarhorn og margt kom í ljós sem sameinaði. Skipulögð samtök sinntu fátæku og stríðshrjáðu fólki. En þetta kom ekki í veg fyrir tvær heimsstyrjaldir sem áttu sér upptök í menningarríkjum Evrópu. Eftir heimstyrjöldina síðari varð mönnum æ ljósara mikilvægi þess að sátt um trúaratriði og samvinna um hjálparstarf yrði að haldast í hendur. Mikilvægir áfangarnir í þessari samvinnu voru stofnun Heimssambands lútherska kirkna í Lundi í Svíþjóð árið 1947 og ári síðar stofnun Heimssamband kristinna kirkna.

* * *

Kalda stríðinu er lokið og enn höldum við almennan bænadag. Víglínurnar hafa ekki horfið heldur færst til. Margir óttast nýtt heimsstríð á milli hins kristna vestræna og hins múslímska heims. Múslímsk hryðjuverkasamtök hafa haldið heimsbyggðinni í gíslingu síðan skýjakljúfar New York borgar voru sprengdir í loft upp 11. september 2001. Hrottalegum einræðisherra hefur verið steypt af stóli í Írak en í kjölfar þess skellur á borgarastríð og bandamenn okkar Bandaríkin eru eina ferðina enn flæktir inn í flókin innanríkisátök annarra þjóða.

Er nokkurt vit í því að koma saman og biðja fyrir þessum heimi? Er þetta ekki margreynt ráð sem ekki dugar? Er ekki best að viðurkenna raunveruleika stríðsins og reyna fyrst og fremst að koma sér hjá því og hagnast á því, ef það er mögulegt?

* * *

Texti dagsins er úr hinni svokölluðu æðstuprestsbæn Jesú. Hann er að kveðja lærisveina sína og yfirgefa þennan heim og ekki kæmi manni það á óvart að hann hafi verið feginn í aðra röndina að losna undan því gífurlega álagi sem það hefur verið að vera leiðtogi og frelsari fólksins í landi gyðinga á tímum átaka og upplausnar. Hann er nýbúinn að neyta síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum og eftir bænagjörðina fer hann yfir lækinn Kedron og inn í grasgarðinn og þar er hann tekinn til fanga. Predikunarferðum hans um landið þvert og endilangt er lokið og hann er reynslunni ríkari. Hann hafði farið víða, talað við marga, læknað, huggað og áminnt. Hann hafði umgengist heiðna menn, útlendinga og fólk sem aðrir forðuðust að eiga samneyti við og fordæmdu. Hann kom í hús þeirra sem unnu fyrir hið hataða hersetulið Rómverja. Hann gjörþekkir lærisveina sína - hinn hvatvísa og tilfinninganæma Símon Pétur sem afneitaði honum, ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar. Samt kallaði hann þennan sama Símon Pétur klett sem hann mundi byggja kirkju sína á. Hann vissi að Júdas mundi svíkja hann í hendur hermanna prestanna og faríseanna.

Allt þetta margvíslega fólk með sínar ólíku hagsmuni, siði og skoðanir voru kirkjan hans. Það eru tímamót en hann er ekki að yfirgefa kirkjuna sína heldur búa hana undir starf hennar og hlutverk í heiminum.

Þetta er úrslitastund og Kristur biður æðstuprestsbænina fyrir framtíð kirkju sinnar og felur hana forsjón Guðs á grundvelli nýs sáttmála sem hann innsiglaði á krossinum. Þessi bæn er stjórnarskrá kirkjunnar, grundvöllur hennar og leiðarljós í 2000 ár. Kristur biður að allir séu þessir einstaklingar, hópar og þjóðir eitt, eins og hann sjálfur og Guð faðir, séu eitt.

Það er ekkert hik í þessari bæn Jesú og fjölbreytileiki og breyskleiki fólksins sem hann biður fyrir og gengur í dauðann fyrir dregur ekki úr honum kjarkinn. Orð hans og verk eru hreystiverk eins og stendur í gömlum íslenskum sálmi.

Jesús veit hvað hann er að segja og hann talar af reynslu – reynslu sinni af Guði sem hann átti innilegt persónulegt samband við, hann talar út frá heilagri og spámannlegri köllun – sem hinn Guðs útvaldi sendiboði. Nú lýkur hann sendiför sinni í mannheim með bæn og fararblessun.

En hann sleppir ekki hendinni af lýð sínum. Heilagan anda sendir hann þeim og hann boðar endurkomu sína og það kallar biblían dómsdag þegar allt verður endurýjað og hlutirnir gerðir upp. Kristnir menn vænta endurkomu Krists og þeir búa sig undir hana og þeir sjá heiminn, átökin og nýja möguleika í ljósi hennar. Réttlætið sigrar að lokum, tárin verða þerruð af hvörmum þeirra sem syrgja og sjúkir verða heilir og þjáðir fá hvíld.

Kristur biður:

Ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt

* * *

Þessi bæn hefur vissulega verið með og í kirkjunni þrátt fyrir allt og af henni hefur samkirkjuhreyfingin sem ég nefndi áðan sprottið. Hún hefur blessað starf þeirra sem ræða um ágreiningsmálin eins og til dæmis kenninguna um réttlætingu af trú sem virtist lengi mynda óbrúandi gjá milli kaþólskra og mótmælenda. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að það er nánast ekkert sem skilur á milli og sá skoðanamunur sem enn er varðandi þessa miðlægu kenningu má rekja til ólíks skilnings á helgisiðum og kirkjulegum embættum.

Kristniboðar hafa unnið ómetanleg líknar- og hjálparstörf í löndum þar sem stríð og náttúruhamfarir hafa geisað. Heimsráð kirkna hefur látið til sín taka í réttindamálum minnihlutahópa og þjóða sem beittar hafa verið langvinnu ofríki og kúgun. Á nýafstöðu þingi þess í Brasilíu var sent út merkilegt bænaákall um mikilvægi þess að vernda vatnið sem sameiginlega auðlind mannkynsins. Á vegum þessara samtaka fara fram einlægar og hreinskilnar umræður milli trúarbragðanna, milli kristinna manna og múslíma. Biðjum fyrir því að þær megi skila árangri.

Bæn Jesú felur það í sér að við erum eitt þótt við tilheyrum ólíkum söfnuðum og kirkjum. Helgisiðirnir, kenningarlegar áherslur og ólíkar hefðir veita okkur öryggiskennd og efla samstöðu innan hópsins en það má ekki verða til þess að við missum sjónar af þeirri staðreynd að hirðirinn er einn, að Guð er einn og að við erum öll eitt í kærleikssamfélagi við hann.

Biðjum fyrir því að þessi stefna verði einnig ráðandi í heiminum.

* * *

Þegar andstæðir hagsmunir takast á út frá ólíkum sjónarmiðum og hugsanagangi kostar það bæði þolgæði og einlæga trú að standa gegn djöfullegu aðdráttarafli ofbeldis og eyðingar, sem nærist á sjúklegum metnaði og drambi.

Það kostar hugrekki og auðmýkt að tileinka sér æðstuprestsbæn Krists og taka undir með honum og gera hreystiverk hans að sínu. En launin, ávextirnir, eru meiri og betri en hægt er að hugsa sér.

Það er í þessari trú sem við, kirkjan, mætir til leiks og biðjum fyrir heiminum. Með Kristi biðjum við fyrir heiminum og öllum mönnum – hverrar trúar og þjóðar sem er, að þeir verði allir eitt - og að allir trúi að það er hann sem sendi okkur.