Að drottna og þjóna

Að drottna og þjóna

Í svari Krists birtist okkur jú valkostur við hina ánetjandi löngun til að stjórna. Og það er þjónustan.

Þakklátur hef ég nú þjónustu í þessum helgidómi. Að koma til starfa á nýjum vettvangi er talsverð áskorun eins og flestir þekkja. Í þessu tilviki er hún einstaklega ánægjuleg. Móttökur hafa verið hlýjar og greinilegt er að hugur er í fólki að vinna áfram að því að styrkja þennan söfnuð í hvívetna. Mun ég glaður leggja mitt af mörkum til þeirrar vinnu og taka þátt í að finna þau svið þar sem þessi söfnuður vill leggja mesta alúð í að sinna. Já, hvar viljum við ekki aðeins standa okkur vel - heldur sýna árangur sem með réttu getur talist framúrskarandi? Spennandi tímar eru framundan!

Módernískt listaverk

Neskirkja er merkilegur helgidómur og þegar frá uppafi, markaði kirkjan straumhvörf í fleiri en einum skilningi. Með henni var kirkjuleg þjónusta í hinni ört vaxandi höfuðborg færð á nýtt svið, en Dómkirkjan og Fríkirkjan í Reykjavík höfðu einar þjónað borgarbúum.

Árið 1940 var borginni skipt í þrjár sóknir og þar skyldu rísa þrjár nýjar kirkjur: Hallgrímskirkja, Laugarneskirkja og Neskirkja. Nessókn teygði anga sína út á Gróttu í vesturátt og meðfram suðurströndinni allt austur í Kópavog. Fjórum árum síðar vann Ágúst Pálsson samkeppni um hönnun þessarar byggingar. Tillaga hans var byltingarkennd og á undan sinni samtíð. Fram að því höfðu kirkjubyggingar á Íslandi tekið mið af Dómkirkjunni, með turni, kirkjuskipi og forkirkju. Neskirkja er af öðrum toga.

Kirkjan, sem vígð var á pálmasunnudag árið 1957 er í raun módernískt listaverk. Þetta var djarfur stíll sem bar með sér bæði framsýni og bjartsýni. Eins og gengur hefur ekki allt sem byggt var í þessum anda staðist tímans tönn og fremur þótt til marks um stílbrot þar sem lítið tillit var tekið til þeirra mannvirkja sem í kringum stóðu. Sú hefur ekki verið raunin með Neskirkju sem nú er friðuð samkvæmt lögum og þykir meðal best heppnuðu bygginga í anda þessa stíls. Má segja að það sem eitt sinn þótti róttækt og nýskapandi hafi með tíð og tíma orðið sígilt og sögulegt.

Frumkvöðlaandinn hefur fylgt kirkjunni og þeim söfnuði sem hún þjónar. Hér hafa verið stigin stór og merkileg skref til uppbyggingar. Fólkið er hér í forgrunni og fer vel á því að þegar safnaðarheimilið reis við kirkjuna var það réttnefnt kirkjutorg. Þar kemur fólk saman á margvíslegum mótum í gleði og sorg, til fræðslu og uppbyggingar. Nú, eða þá til þess að fá sér bolla af ærlegu ítölsku kaffi.

Um leið verður sjálf kirkjan eins og predikun um það hvernig form sem kann að vera framsækið fær um síðir stöðu hins viðurkennda og samþykkta, ef vandað er til allra verka og ryður brautina fyrir nýja hugsun og nýtt útlit.

Nýstárlegur boðskapur

Já, talandi um hið nýstárlega, hvað finnst okkur um boðskapinn í guðspjalli dagsins? Hvaða furða er það sem úr munni frelsarans fer þar sem hann virðist blanda saman stöðum og hlutverkum og nefnir í einni andrá þjóna og þá sem æðstir eru. Hann segir að sá sem vill vera æðstur og mestur eigi að verða allra þjónn. Eru hlutföllin ekki öll úr skorðum gengin? er turninn ekki á röngum stað? Eitt sinn fór ég með þessi orð yfir ungmennum í æskulýðsstarfi og þau greindu á augabragði það sem virðist vera mótsögn, já og stílbrot í hefðbundnu samhengi. Þrællinn og hinn fremsti, eru alveg örugglega andstæður?

Hversu flókið verður nú verk guðfræðingsins að ritskýra og túlka þennan texta þannig að hann fái einhverja merkingu sem nútímamaðurinn getur skilið og fellt sig við?

Já, - ,,þið vitið að höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu," segir Jesús. Og við vitum það líka. Við þekkjum svo mörg dæmi um slík stórmenni sem láta menn kenna á mætti sínum. Í sinni einföldustu mynd felst það í því, að láta þann sem undirokaður er, framkvæma eitthvað stangast á við hagsmuni hans sjálfs. Vissulega hafa lærisveinar Krists þekkt vald-hafa sem beittu órétti og kúgun til að viðhalda styrk sínum og mætti. Þótt langur tími sé liðinn, og langt sé á milli, ættum við sem hér erum ekki heldur að eiga í vandræðum með að nefna slíka valdsins menn í huga okkar og hugleiða þær afleiðingar sem af verkum þeirra hefur hlotist.

Freisting valdsins

Það er allt annað en ákjósanlegt að lúta slíku valdi og um leið er hlutskipti þess sem með valdið fer ekki eins öfundsvert og margur kynni að ætla. Dæmin sýna að skilin eru óljós milli þess að valdið sé tæki þess sem með það fer og hvort það fer að stýra gjörðum hans. Þá tekur það á sig mynd hverrar annarrar fíknar. Völdin taka völdin, þau grafa undan ákveðnum þáttum en ýta undir aðra.

Sá sem ánetjast þeim, leitar ekki virðingar, kærleika og samfélags með þeim sem með honum eru. Hann vill hafa stjórn. Með sama hætti getur verið torvelt að greina einhverja sýn sem býr að baki gjörðum hans. Oft eru hugmyndastefnur, trúarkenningar eða háleitar hugsjónir notaðar til að réttlæta ýmis konar valdabrölt. En er það annað en yfirskyn? Að baki býr þessi eina hvöt, að ná völdum og viðhalda þeim.

Á fyrsta sunnudegi í föstu, þegar freistingar eru, samkvæmt hefðinni, til umræðu í kirkjum landsins birtist okkur þessi texti. Og við tengjum völdin við þá freistingu sem mögulega er hvað skæðust og áhrifaríkust. Einmitt þá sem tengist þeirri löngun að stýra og stjórna, drottna og láta aðra kenna á valdi.

Píramídi valdsins

Völdin eru auðvitað mismikil og stundum skipum við okkur upp og niður eftir því hversu miklu við fáum stýrt og stjórnað. Sá turn þrengist smám saman eftir því sem ofar dregur. Völd eru takmörkuð auðlind og eftir því sem hver og einn ræður meiru verður minna til skiptanna og færri deila með sér hnossinu. Efst trónir sá sem mestu ræður. Augu allra og eyru beinast í sömu áttina, upp á við. Á hvern hlustar þá sá sem skipar öndvegissætið í valdapíramídanum? Líklega engan, en allir mæna upp til hans og þaðan berast boðin.

Lærisveinar Krists voru að metast um það hver þeirra væri æðstur. Voru þeir ekki að leita sér að vænlegum stað í þessum kunnuglega turni?

Upp úr þeim vangaveltum kemur svar Jesú, þar sem hann blandar saman því sem í auga ungmennisins virtust vera hreinustu andstæður. Verður eins og bygging sem hefur allt önnur form en búast má við. Píramídinn stendur ekki undir nafni sem slíkur.

Vissulega er það merkileg íþrótt og djúp fræði að túlka fornan boðskap Biblíunnar svo hann samræmist því sem við þekkjum. Í þessu tilviki fer þó best á því að taka hann hreinlega á orðinu. Í svari Krists birtist okkur jú valkostur við hina ánetjandi löngun til að stjórna. Og það er þjónustan. Illu heilli átti forngrískan - sem orð þessi eru rituð á í Nýja testamentinu aðeins eitt orð yfir það sem við í dag köllum ýmist þræla eða þjóna. Já, því þrældómurinn virðist fremur hlutskipti þess sem lætur undan löngun sinn eftir því að drottna.

Að drottna og þjóna

Það er mikill munur á því að drottna og að þjóna. Þjónninn vinnur í krafti æðri hugsjónar. Hann vill breyta. Hann vill hafa áhrif. Valdafíkn leiðir til árekstra þar sem fólk olnbogar sig áfram upp brattann. Þau eru jú takmörkuð auðlind. Þjónustan er það ekki. Þjónn sem fær fleiri þjóna í lið með sér fær enn ríkara tækifæri til þess að láta drauma sína rætast. Slíkt er því ekki vandamál. Þau markmið sem hann setur sér eiga sér uppsprettu innra með honum. Þau byggja á siðviti hans, köllun og upplagi. En þau stefna út á við, miða að því að ryðja brautina fyrir réttlæti og kærleika í þessum heimi, minnka þjáningar systkina okkar eða eins og Kristur sjálfur orðaði það: ,,að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa”.

,,Sá ykkar sem vill verða æðstur verði allra þjónn." Fá þessi orð aukna þýðingu og mögulega nýja merkingu? Því vel að merkja, mitt í auðmýkt þjónustunnar birtist viljinn til að hafa áhrif. Löngunin til að móta, til að breyta og efla. Leiðtoginn sprettur upp úr þessum jarðvegi og við þekkjum hann af því að hann er ólíkur valdsins mönnum. Mögulega er nafn hans á allra vitorði, mögulega ekki. Mögulega er hann í forystuhlutverki, mögulega ekki.

Ef til vill getum við hugleitt einhvern slíkan þjónandi leiðtoga sem við höfum sjálf fengið að kynnast í lífi okkar. Var það foreldri, afi eða amma, kennari, einhver manneskja sem við höfum litið upp til og töldum okkur geta lært sitthvað gott af? Skynjuðum við ekki í fari hennar æðruleysi, rósemd en um leið einbeittan vilja til þess að láta gott af sér leiða? Slíkir einstaklingar ala ekki á metingi og tortryggni, nei þvert á móti, þeir skapa traust og kærleika, þá þætti sem glæða mannlegt samfélag einstöku lífi og krafti og gera okkur kleift að ná ótrúlegum markmiðum.

Biblían er uppfull af slíkum leiðtogum. Þessi stóru nöfn sem við lesum um í hinni helgu bók, óbilandi forystufólk, Móses, Jesaja, Jóhannes skírari, Páll postuli, konurnar sem gengu upp að gröfinni og boðuðu fyrstar upprisu Krists. Þau leituðu ekki síns eigin, ekki sinnar dýrðar heldur unnu þeir í krafti æðri sannfæringar. “Ég á að minnka til að hann geti vaxið” sagði Jóhannes.

Barnið og leiðtoginn

Einn eftirlætis leiðtogi minn er í hópi nafnleysingjanna sem við lesum um í Biblíunni. Sögusviðið var úti í óbyggðum. Jesús var þar að predika yfir fólkinu, sem hafði safnast þar saman, en fólkið tók að hungra og þar var engin fæða handa öllum skaranum. Hvað var til ráða? Ástandið var að verða óbærilegt. Þá gekk þetta barn inn á sögusviðið. Drengur með nokkra fiska og brauð og lagði fram það litla sem hann átti. í framhaldi gerist kraftaverkið. Fólkið fékk gnægð matar og afgangur varð.

Þessa sögu segjum við gjarnan fermingarbörnum sem safna fyrir vatnsbrunnum í Afríku. Hvert það smáræði sem hver og einn safnar getur haft mikil áhrif. Þarf ekki leiftrandi mælsku eða persónutöfra. Vilji er allt sem þarf, vilji til að bæta og græða. Við reynum að sýna þeim að þau geta sjálf verið í hlutverki þess sem hefur frumkvæði og forystu. Og hér sjáum við hinn þjónandi leiðtoga að verki, sem skorar á hólm hinar erfiðustu aðstæður í þeim tilgangi að bæta líf systkina sinna.

Þegar kemur að því að breyta þessum heimi til hins betra, ráðast á stóru áskoranirnar sem mæta mannkyni er ólíklegt að þau sem einblína á völdin geti áorkað miklu til batnaðar. Það eru þau sem Kristur talar um í guðspjallinu sem munu vinna að breytingum. Foringinn verði þjónn, þetta verður ekki skýrara í munni frelsarans.

Maslow-píramídi kirkjunnar

Píramídarnir eru af ýmsum toga. Einn þeirra er kenndur við Maslow og þar bendir hann á það hvernig við þurfum að fá ákveðnum grunnþörfum uppfyllt áður en við getum leitað æðri markmiða. Fólkið úti í eyðimörkinni var ekki líklegt til að meðtaka boðskap Krists ef það var aðframkomið af hungri.

Jú, þessi þverstæðukenndu orð Krists eiga margt sammerkt með nýstárlegri hönnun þessarar byggingar. Þau kunna að stríða í fyrstu gegn því sem við teljum gott og gilt og eðlilegt en prófsteinn reynslunnar sannar gildi þeirra.

Í samfélagi eins og því sem hér starfar, getum við látið eftir okkur þá hugsun að traustið sé sú undirstaða sem annað byggir á. Það skipar sér í kjarna Maslow-píramída kirkjunnar. Ef traustið er ekki til staðar verða náðargáfurnar lítils virði. Foringjar sem starfa í anda þjónustu eru líklegri en aðrir til að byggja upp slíkan grunn og efla hann svo allt annað starf megi blómstra.

Og nú þegar þessi söfnuður frumkvöðla tekst á við þær áskoranir sem mæta honum á þessum tímum, sem eru auðvitað þeir bestu og hinir verstu eins og flestir aðrir tímar, þá bið ég þess að sá andi verði við lýði sem Kristur talar um í guðspjallinu. Sjálfur mun ég leggja mitt af mörkum til að Nessókn verði það samfélag þjónandi leiðtoga sem mun leggja nýjar brautir á tímum stórra breytinga innan kirkju og menningar.