Að loka augunum - eða ljúka upp hjartanu?

Að loka augunum - eða ljúka upp hjartanu?

Ódæðið í Ameríku vekur okkur til umhugsunar um hugarfar og afstöðu okkar eigin þjóðar og okkar sjálfra. Við viljum trúa því að við séum fordómalaust fólk sem mætum hverri manneskju eins og hún er, óháð því sem ef til vill gerir hana ólíka okkur sjálfum. En því miður hefur ýmislegt komið á daginn undanfarnar vikur sem ekki ber þjóðfélagi okkar fagurt vitni.

Þennan morgun hér í Grensáskirkju heyrum við aldagamlar ritningar tala skýrt inn í aðstæður ranglætis og ótta sem því miður eru veruleiki svo víða enn þann dag í dag. Í fimmtu Mósebók (5Mós 15.7-8, 10-11) erum við minnt á að lífið og landið og hvaðeina sem við teljum okkar eign er gjöf, gjöf frá Guði.

Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.

Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Boðskapur Biblíunnar er einfaldur: Mættu þeim sem skortir með örlæti, í friði og réttlæti. Guð hefur gefið þér landið og lífið. Láttu gjöfina ganga. Ekki sýna þeim sem skortir harðýðgi með því að loka hendi þinni fyrir þeim. Ljúktu upp hendi þinni í þakklæti fyrir allt sem þú hefur þegið, gefðu fúslega. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té“ segir Jesús (Matt 10.8). Því fylgir blessun að vera farvegur gjafa Guðs inn í líf annarra, leyfa lífinu að flæða í stað þess að stífla það og skerða, færa fram frið og réttlæti í stað ótta og ranglæti.

Réttlæti og friður kyssast

Í fyrsta Jóhannesarbréfi heyrum við um kærleikann sem Guð hefur á okkur, kærleikann sem við trúum á og eigum að vera stöðug í með því að lifa „eins og Kristur lifði hér á jörð“. Þá getum við verið „full djörfungar á degi dómsins“, þegar kemur að reikningsskilum, því „ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni“ (sjá 1Jóh 4.16-21). Við getum borið höfuðið hátt, óttalaus, full djörfungar, og lifað í elsku og trúfesti, friði og réttlæti.

Og svo heyrum við um veisluna á himnum þar sem ættfaðirinn Abraham situr í öndvegi, eins og sumir hópar Gyðinga sáu himnadýrðina fyrir sér á tímum Jesú (Lúk. 16.19-31). Boðskapur dæmisögunnar um ríka manninn og Lasarus gæti verið að skerpa á því að það sem gildir er lífið núna, afstaða okkar núna. Við vitum að við eigum að ljúka upp hendi okkar fyrir þeim sem skortir, það segir Móse og spámennirnir, við vitum að við eigum að elska og lifa eins og okkar upprisni frelsari gerði. Við eigum að vita betur en að hunsa neyð þeirra sem þarfnast okkar, láta sem við sjáum ekki skortinn sem þó blasir við, við eigum að vita betur en að leyfa ranglæti og ótta að stýra viðbrögðum okkar. Bíðum ekki með að gera rétt, bíðum ekki með að framganga í friði. Það er núna sem við eigum að lifa þann frið og réttlæti sem Biblían boðar og við lesum til dæmis um í Davíðssálmi 85:

Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar.
Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna
og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans. 
Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann
svo að dýrð hans megi búa í landi voru.
Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
Trúfesti sprettur úr jörðinni
og réttlæti horfir niður af himni.
Þá gefur Drottinn gæði
og landið afurðir.
Réttlæti fer fyrir honum
og friður fylgir skrefum hans.

Réttlæti og friður, friður og réttlæti. Það er á þessum grunni sem 16. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna stendur, biblíulegum grunni sem sannað hefur gildi sitt.

Rétturinn að mega draga andann

Á kirkjan.is var að kvöldi sjómannadagsins vitnað í ræðu forseta Íslands í Grindavíkurkirkju sama dag. Forsetinn gerði morðið á George Floyd að umtalsefni, ódæðisverk sem breyttist í sannleiksmerki, tákn um djúpstætt misrétti, kerfisbundið ranglæti og rótgróna kynþáttahyggju sem nú yrði að linna. „Því hvaða réttur er dýrmætari en sá en að mega draga andann?“ sagði Guðni. Floyd var sviptur honum. Kristinn siður hlyti að taka undir þau orð um þann rétt og lýsa andúð sinni á óréttlætinu, er haft eftir forsetanum á kirkjan.is.

Réttlæti og friður í stað ranglætis og ótta, já undir það tökum við heilum huga hér í dag. Lífið er gjöf sem við tökum á móti í þakklæti og viljum efla, ekki skerða. Forsenda þess að við erum á lífi, andardrátturinn, einnig gjöf og það er dýrasti réttur hverrar manneskju að fá að draga andann. Þann rétt hefur ekkert okkar umboð til að skerða.

Ódæðið í Ameríku vekur okkur til umhugsunar um hugarfar og afstöðu okkar eigin þjóðar og okkar sjálfra. Við viljum trúa því að við séum fordómalaust fólk sem mætum hverri manneskju eins og hún er, óháð því sem ef til vill gerir hana ólíka okkur sjálfum. En því miður hefur ýmislegt komið á daginn undanfarnar vikur sem ekki ber þjóðfélagi okkar fagurt vitni.

Í skugga fordóma

Eitt dæmi er viðtalið við Díönu Katrínu Þorsteinsdóttur sem sýnt var á Stöð 2 á föstudaginn var. Díana lýsir uppvexti í skugga fordóma alla skólagöngu sína. Hún er 21s árs, hálfur Tælendingur en alin upp á Íslandi og hefur alla tíð mátt þola að gert sé grín að uppruna hennar og útliti. Þetta höfum við látið viðgangast og látum viðgangast allt fram á þennan dag. Það erum við sem þjóðfélag, foreldrar, uppalendur, frændur og frænkur uppvaxandi kynslóðar sem berum ábyrgðina. Það sem við segjum og það sem við segjum ekki bitnar á börnum. Í stað elsku og trúfesti þrífst hatur og sviksemi, í stað friðar og réttlætis fær óttinn og ranglætið dafnað.

Við höfum sem samfélag áður þurft að horfast í augu við hugarfar sem bæði leynt og ljóst hefur valdið samborgurum okkar sársauka. Við munum eftir umræðunni um hjónaband samkynhneigðra en þann 27. júní næstkomandi eru 10 ár síðan ein hjúskaparlög tóku gildi (Lög nr. 65 22. júní 2010). Ég var ein af þeim sem var hikandi gagnvart því stóra skrefi og hlaut að vonum bágt fyrir frá mörgum. Þegar það síðar rann upp fyrir mér að hik mitt gagnvart því sem ég sé nú sem sjálfsögð mannréttindi gæti stuðlað að því að viðhalda djúpstæðu misrétti og kerfisbundnu ranglæti hlaut ég að breyta afstöðu minni.

Því minnsta hik gagnvart fullum réttindum fólks til að ráða lífi sínu innan lögmæltra marka getur verið dauðans alvara. Á netinu má finna upplýsingar um 12 lönd þar sem samkynhneigð getur verið dauðasök samkvæmt sjaría-lögum. Miskunnarlaust ofbeldi og ofsóknir er að finna miklu víðar eins og nokkur þeirra sem hafa fengið hæli á Íslandi geta vitnað um. Ég tók þá ákvörðun að vilja ekki eiga þátt í því með viðhorfi mínu að skerða rétt fólks til lífs og fagna því að í heilan áratug hefur Ísland verið í fararbroddi hvað þessi réttindi varðar.

Flýjum ekki rödd réttlætis og friðar

Þegar ranglætisverk eins og morðið á Georg Floyd knýja ýmsar birtingarmyndir undirliggjandi fordóma upp á yfirborðið getum við látið umræðuna verða til að vekja okkur til sjálfsskoðunar. Við erum öll hvött til að kafa dýpra, horfast í augu við afkima sálarinnar, ómeðvitaða fordóma og skeytingarleysi gagnvart neyð náungans. Ekkert okkar vill valda öðrum sársauka og þrengingum en samt getur kæruleysisleg eða vanhugsuð afstaða okkar gert einmitt það – og stuðlað að því að viðhalda ranglætinu. Lokum við augunum í afneitun eða ljúkum við upp hjartanu í umhyggju?

Því allt sem við teljum okkar, einnig það sem okkur þykir kannski jafn sjálfsagt og að draga andann, er gjöf. Við höfum lífið að láni og okkur ber að efla það eins og okkur er unnt, ekki skerða það. Við þurfum að vakna til meðvitundar um okkur sjálf, hvernig rótgróin og ómeðvituð afstaða okkar kemur í veg fyrir að við lifum eins og Kristur lifði hér á jörð, í friði og réttlæti.

Trúið mér, við höfum öll okkar ófriðar og ranglætisviðhorf sem þarfnst umbreytingar. Ég hef horft innávið og játað fyrir sjálfri mér, Guði og annarri manneskju eigin lífsniðurbrjótandi afstöðu á ákveðnu sviði og beðist fyrirgefningar. Ég hef valið meðvitað að taka ekki þátt í að lífláta fólk með afstöðu minni á neinu sviði. Því hvern dag þarf ég, þurfum við sem manneskjur í sundruðum heimi, að eiga við eigin undirliggjandi hugsanir og ómeðvituð viðhorf sem gætu átt þátt í að ranglætisverkin fá þrifist. Hvern dag þurfum við að muna og lifa að við tilheyrum Kærleikanum sem læknar brostin tengsl, Lífinu sem feykir í burtu dauðanum í hjartanu, Friði Guðs og Réttlæti sem frekar vill líða órétt en valda slíku eins og Jesús kenndi og sýndi og lifði.

Ég bið þess að við mættum öll vakna til meðvitundar um ranglætið sem birtist svo áþreifanlega með lífláti George Floyd og ekki flýja röddu réttlætisins sem kallar eftir nýrri nálgun í stóru sem smáu. Megi Heilagur andi, máttur umbreytingarinnar, vinna sitt verk í okkur í dag, einn dag í einu.

Guð gefi frið og réttlæti í heimi, frið og réttlæti milli þjóða, frið og réttlæti inn í samfélögin, frið og réttlæti inn á heimilin. Megi friðar- og réttlætisverkið hefjast í mínu hjarta og þínu. Amen.