Flæði kærleikans

Flæði kærleikans

Inn í vanmátt okkar, kærleiksþurrð, tengslaleysi og sundrung, frá Guði, okkur sjálfum og öðru sem lifir, koma orð Jesú. Hér heyrum við orð hans eins og Jóhannes guðspjallamaður skynjaði þau og skildi. Boð Jesú, orð Jesú er skýrt: Hann kallar okkur til að lifa með sér í kærleika, að lifa kærleika sinn út til heimsins.

Við þekkjum öll tvöfalda kærleiksboðorðið, eins og við köllum það. Í samstofna guðspjöllunum, Markúsar-, Matteusar- og Lúkasarguðspjalli, gefur Jesús það sem svar við spurningum fræðimanna og lögvitringa um hvert sé æðst allra boðorða (Mark), hvert sé hið æðsta boðorð í lögmálinu (Matt), hvað eigi að gera til að öðlast eilíft líf (Lúk). Sem sagt: Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Hvað er það sem skiptir öllu máli, meira en nokkuð annað?

Mark 12.28-31 Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“
Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Matt 22.34-40 Þegar farísear heyrðu að Jesús hafði gert saddúkea orðlausa komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi reyna hann og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“
Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Lúk 10.25-28 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“

Í svari sínu vitnar Jesús í sína Biblíu, hebresku Biblíuna, sem við nefnum Gamla testamentið. Grundvöllur gyðinglegrar trúar er ástin á Guði, að elska Guð og þjóna Guði, snúa sér til Guðs af öllu hjarta, sálu og mætti, og ganga á öllum vegum Guðs. Þetta er ekkert einhliða boð, fyrirskipun út í bláinn, nei hún hvílir á þeirri sannfæringu að „Drottinn Guð elskar þig“ (5Mós 23.5).

5Mós 6.4-5 Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn. Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.

5Mós 10.12-13 Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?

2Kon 23.25 Um Jósía konung: Enginn konungur á undan honum hafði eins og hann snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum eins og lögmál Móse bauð.

Jós 22.5 En gætið þess vandlega að halda boð það og lögmál sem Móse, þjónn Drottins, lagði fyrir ykkur, að elska Drottin, Guð ykkar, ganga á öllum vegum hans, halda öll boð hans, bindast honum og þjóna af öllu hjarta og allri sálu.

3Mós 19.18 Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

Og eins og kærleikur Guðs er forsenda ástar okkar á Guði er afleiðingin skýr: Að elska náunga sinn eins og sjálfa sig. Þessi ástarþríhyrningur á sér upphaf í Guði, sem er kærleikur, eins og við heyrðum í síðari ritningarlestrinum, kallar fram ást í hjarta, sálu og huga okkar og hefur afleiðingar í því að við beinum mætti okkar að því að elskan flæði áfram, finni sér farveg út til alls sem lifir.

Þess vegna er kærleikurinn upphaf lögmálsins, allt lögmálið felst í ástinni, þetta er hið konunglega boðorð Ritningarinnar.

Róm 13.8-10 Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Gal 5.14 Allt lögmálið felst í þessu eina boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 

Jak 2.8 Ef þið uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ þá gerið þið vel. 

Við ættum ekki að þurfa á nákvæmum útlistunum á hvernig kærleikurinn virkar í verki, flóknu laga- og regluverki sem segir okkur nákvæmlega hvernig á að bregðast við í ólíkustu aðstæðum. Þess ætti ekki að vera þörf. Kærleikurinn er nóg.

En vegna syndarinnar, sundrungar okkar frá uppsprettu kærleikans, Guði, vegna þess tengslarofs sem býr djúpt í sál mannkyns, virðist kærleikurinn ekki vera nóg. Við þurfum sífellt að leiðrétta okkur og annað fólk, sífellt að vera á varðbergi gagnvart kulda hjartans, frosti hugans, vanmætti sálarinnar, máttleysi kærleika okkar. Okkur er um megn að elska okkur sjálf, hvað þá annað fólk og fyrirbæri lífsins.

Inn í vanmátt okkar, kærleiksþurrð, tengslaleysi og sundrung, frá Guði, okkur sjálfum og öðru sem lifir, koma orð Jesú. Hér heyrum við orð hans eins og Jóhannes guðspjallamaður skynjaði þau og skildi. Boð Jesú, orð Jesú er skýrt: Hann kallar okkur til að lifa með sér í kærleika, að lifa kærleika sinn út til heimsins.

Jóh 15.12-17 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.

Vinir Jesú sem vitum allt sem Jesús veit. Vinir Jesú, sem hann hefur útvalið og ákvarðað til að fara, fara og bera ávöxt. Við vitum ekki hvernig, við kunnum ekki að elska, ónýtir þjónar erum við (Lúk 17.10), við erum vanmáttug og sundruð og finnum ekki þennan kærleika sem þó er það eina sem Guð biður okkur um.

Góðu fréttirnar eru að Guð er uppspretta lífs okkar, uppspretta kærleikans, uppspretta allra ávaxta lífs okkar.

Sálm 36.8-10 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð,
mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
Þau seðjast af nægtum húss þíns
og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna
því að hjá þér er uppspretta lífsins,
í þínu ljósi sjáum vér ljós.

Komum til Guðs, komum til hans sem lagði allt í sölurnar, komum og látum uppbyggjast, þiggjum nærandi ást Guðs sem gefur kraftinn til góðra verka (sbr. 1Pét 2.2-10). Gefum Guði vanmátt okkar og allt það sem aðskilur okkur frá hjarta Guðs, frá sálu Guðs, frá huga Guðs, frá mætti Guðs. Tökum við gjöf kærleikans sem streymir þaðan inn í okkar hjarta, sálu, huga og mátt, og áfram út, út til alls sem lifir.

1Jóh 4.10-16 Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
   Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. 
 Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.