Orgeldagur og uppskerutíð

Orgeldagur og uppskerutíð

Það er gleðidagur í söfnuðinum hér í Garðabæ í dag. Gleðidagur vegna vígslu nýs orgels, sem svo margir hafa lagt sig fram um að yrði að veruleika. Ytri ásýnd orgelsins ber þess merki að orgelsmiðurinn hafi hannað hljóðfærið þannig að form og lögun þess hæfðu því húsi er hýsir það. Tónar þess minna á dýrð í hæstum hæðum eins og við syngjum í sumum sálmum.

@biskupislands prédikar. Að baki henni sitja sr. Friðrik og @kristinthorunn

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er gleðidagur í söfnuðinum hér í Garðabæ í dag. Gleðidagur vegna vígslu nýs orgels, sem svo margir hafa lagt sig fram um að yrði að veruleika. Ytri ásýnd orgelsins ber þess merki að orgelsmiðurinn hafi hannað hljóðfærið þannig að form og lögun þess hæfðu því húsi er hýsir það. Tónar þess minna á dýrð í hæstum hæðum eins og við syngjum í sumum sálmum. Sr. Gunnþór Ingason orti fallegt ljóð við vígslu orgels í Hafnarfjarðarkirkju fyrir nokkrum árum. Í einu versinu kemst hann þannig að orði:

Kirkjutónlist trúarskynjun glæðir, tign og helgi lífsins bendir á, frið í sálu og fögnuð lífi gæðir, fegurð þá sem birtist Guði hjá. Orgeltónar vísa í himinhæðir, helga líf svo andans glóð má sjá, ljós af hæðum listatóna fæðir, lífgar skyn og heyrn sem nema þá.

Lúter, sem kirkja okkar er kennd við sagði að tónlistin væri Guðs gjöf og öllu öðru æðri og víða í Biblíunni má sjá að tónlistin hefur verið þáttur í helgihaldi og tilbeiðslu frá örófi alda. Það heyrðum við til dæmis í textunum sem lesnir voru við vígslu orgelsins áðan.

Biblíutextar þessa sunnudags fjalla um uppskeru. Þennan sunnudag er fjallað um uppskeru í kirkjunum. Í dag fögnum við þeirri uppskeru er sáð var til þegar ákveðið var að láta smíða nýtt orgel í kirkjuna. Margir hafa lagt fram fé og einnig safnað til að gera orgelkaupin möguleg. Orgelið á án efa eftir að glæða tónlistarlíf safnaðarins.

Einn var sá maður er afkastaði miklu í starfi sínu sem organisti. Jóhann Sebastían Bach sem var organisti við Tómasarkirkjuna í Leipzig í byrjun átjándu aldar samdi eins og kunnugt er kantötur, passíur, messur, magnifikat og óratóríur á sínum ferli. Kantötur eru tónverk sem samin eru út frá Biblíutexta dagsins og voru þær unnar upp úr lúterskum sálmalögum. Bach var kristinn maður og lúterskur og samdi eina kantötu á viku, fyrir hvern sunnudag kirkjuársins og eru um 200 þekktar og talið að um 100 hafi glatast. Og þetta eru engin smáverk. Þau taka 10 – 30 mínútur í flutningi. Afkastageta hans var mikil og þess njótum við sem á eftir komum og fáum að heyra og taka þátt í. „Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra“ segir í guðspjalli dagsins. Þau orð eiga við hér þegar minnst er afkastagetu snillingsins Bach.

Organistar þurfa því ekki að vera í vandræðum með að finna orgelverk því bæði Bach og fjölmargir aðrir hafa samið orgelverk í gegnum tíðina og eru enn að eins og við heyrðum á norrænu kirkjutónlistarmóti sem haldið var í Reykjavík fyrir ári og á fleiri kirkjulistahátíðum þar sem orgelið var í forgrunni. Tónlistarmenn eru fingrafimir á hljóðfæri sitt. En sennilega eru engir eins fimir og organistar sem spila ekki einungis með höndunum heldur einnig fótunum. Og það get ég sagt af eigin reynslu að það er töluverð kúnst að sitja á orgelbekknum þegar spilað er samtímis með höndum og fótum. En þegar leikninni er náð hljómar orgelið eins og heil hljómsveit. Ég varð vitni að mikilli fimi tveggja organista í Péturskirkjunni í Róm. Ég var þar stödd í messu og þar voru mættir fleiri en einn organisti og fleiri en einn kór. Í miðjum takti skiptu organistarnir. Annar hætti að spila og hinn tók við. Þetta gerðu þeir án þess að nokkur heyrði að skipt hefði verið um organista.

„Ég er á hljómleikum í hverri viku“ sagði kona ein við mig fyrir stuttu. „Ég fer ekki í Hörpuna til þess og ég þarf ekkert að borga fyrir þessa tónleika“ sagði hún. „Sunnudagsmessan í kirkjunni minni eru mínir vikulegu tónleikar“ sagði hún og bætti við „og ég tek þátt í þessum tónleikum“. Hún syngur sálmana og hlustar hrifin á forspilið og eftirspilið. Í kirkjum landsins fer fram mikið menningarstarf.

Trú og list hafa haldist í hendur alla tíð í kirkjunni enda höfða þær systur báðar til tilfinninga og upplifana. Báðar vekja þær lotningu í hugum okkar og tilbeiðslu í hjarta okkar. Sagt hefur verið að trúin sé alvara en listin sé leikur. Og þannig er lífið einnig. Heilbrigt líf er alvara en það er líka leikur. Það er kallað orgelleikur þegar spilað er á orgelið. Sá leikur er göfugur og gagnlegur bæði fyrir þann er spilar og þau er hlusta. Sá leikur gleður þegar þannig stendur á og sá leikur huggar þegar þannig stendur á.

Það er uppskerutíð hér í dag og það er uppskerutíð á hverju hausti. „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn“ segir Páll í bréfi sínu til Korintumanna eins og við heyrðum lesið áðan. Þar talar hann til fólks sem nýverið hafði tekið trú á Krist og hafði ekki áttað sig á því að sendiboðarnir Apollós og Páll væru aðeins þjónar sem leiddu fólk til Krists en ekki Guð sjálfur. Og þannig er það með alla þjóna og öll tæki sem við höfum í þjónustunni. Þau eru ekki Guð, heldur leið fyrir okkur til að komast nær Kristi og boðskap hans. Tónar orgelsins næra trú okkar og vekja hjá okkur löngun til að lofa Guð og þakka. Tónarnir koma ekki frá orgelinu nema spilað sé á það. Organistinn gegnir því miklu hlutverki í helgihaldinu.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ Einkennileg orð eru þetta sem koma frá munni Jesú, en eru svar hans þegar lærisveinarnir biðja hann um að fá sér að borða. Hann telur sig hafa brýnna verk að vinna en að matast. Jesús hefur verk að vinna. Hann hefur næringu að bjóða. Andlega næringu sem er einnig nauðsynleg hverjum manni. Jesús veit samt sem áður að líkamleg næring er nauðsynleg til að viðhalda lífinu og gefa kraft til að lifa því. Það staðfesta margar frásagnir guðspjallanna.

Hvað er nauðsynlegt, hvað er gagnlegt, hvað gefur lífinu gildi? Þessar spurningar brenna á vörum flestra manna einhvern tímann á ævinni. Við heyrum oft orðin og notum þau líka „ég hef ekki tíma til að“ Við gefum okkur ekki tíma til þess sem máli skiptir og geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Við erum líkami, sál og andi og verðum að hlúa að þessu þrennu í lífinu. Jesús minnti oft á það að við verðum að hlú að lífi okkar öllu. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman sagði hann til dæmis. Og í dag minnir hann á það hlutverk sitt að gera vilja þess er sendi hann.

Að gera vilja Guðs. Hvað þýðir það? Við getum reynt að telja það upp og við getum líka reynt að telja upp það sem er ekki vilji Guðs. Hvernig getum við yfirleitt vitað hvað er vilji Guðs? „Ég og faðirinn erum eitt“ sagði Jesús. Jesús er því sá sem getur sagt okkur hver er vilji Guðs. Ef við lesum guðspjöllin þá sjáum við hann, heyrum hann, finnum hann. Hann var ekki meðvirkur. Hann gerði og sagði það sem hann vildi og var það ekki alltaf eftir vilja samferðamannanna. Hann benti á það sem betur mátti fara í samfélaginu. Hann stóð með þeim sem aðrir fyrirlitu. Hann gerði kraftaverk. En fyrst og fremst setti hann manninn í öndvegi. Hann setti heilbrigði og velferð mannsins öndvegi. Hann fórnaði lífi sínu fyrir heill allra manna.

Fæstir fara þá leið að fórna lífi sínu, en fjölmargir fórna sér fyrir aðra, gefa af tíma sínum, gefa af sjálfum sér. Safnaðarstarf byggist til dæmis upp á því að fólk gefi af sjáfu sér, gefi af tíma sínum. Flestir sem bera uppi safnaðarstarf gera það án þess að fá greitt fyrir það. Í fyrra var ég á fundi hjá Hjálparstarfinu og þar voru meðal annars sjálfboðaliðar sem mæta einu sinni til tvisvar í viku og útdeila fötum eða aðstoða á annan hátt. Þau voru spurð. Hvað viljið þið fá fyrir hjálpina? Þau svörðuðu öll. Við þurfum ekki meira en við fáum, sem er gleðin yfir því að geta orðið að liði og hjálpað öðrum. Samhjálp er eitt af því sem Kristur hvetur til. Ef ekki hefði komið til samhjálpar við að safna fyrir orgelinu værum við ekki að hlusta á það í dag. Samhjálp er hér einnig á fleiri sviðum. Ég veit að um daginn var safnað fyrir línuhraðlinum og þakka ég fyrir það og þann góða hug sem að baki býr. Það skiptir marga miklu máli að lækningatæki séu til og í góðu lagi. Við eigum að hjálpast að við það að gera lífið fallegt og gott. Það sem hjálpar okkur til þess er meðal annars að koma saman í Jesú nafni eins og við gerum hér í dag og nærast af Orði Guðs og flutningi þess í tali og tónum. Hér er færinu sáð, sem vex og dafnar og veitir góða uppskeru.

Til hamingju með nýja orgelið. Til hamingju orgelsmiður með verkið þitt og kæri söfnuður með framtak ykkar. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Vídalínskirkju 21. su. e. tr. 20. okt. 2013. Ps 91:1-4; 1.Kor. 3:6-9; Jóh. 4:34-38.