Réttið úr ykkur og berið höfuðið hátt

Réttið úr ykkur og berið höfuðið hátt

Við, kristið fólk, eigum sannarlega ekki að biðjast afsökunar á sjálfum okkur eða samtökum okkar, sem í þessu tilviki heitir Þjóðkirkja Íslands. Við eigum að sýna það í orði og verki að við erum stolt af því að vera kristin og styðja kirkjuna okkar. Tölum vel hvert um annað og sýnum samstöðu – án þess þó að falla í þá gryfju að rægja þá sem eru á móti okkur.

Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“

Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. Lk 21.25-33

Líkamsstaða segir töluvert um líðan og sjálfsmynd manneskjunnar. Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum af einhverju tagi er oft niðurlútt og beygt, bókstaflega. Axlirnar falla fram og höfuðið niður og allur líkaminn verður einhvern vegin inn í sig. Manni verður erfitt um andardrátt, örðugt að draga andann djúpt. Við fáum hnút í magann, þyngsli fyrir brjóstið og kökk í hálsinn. Allt gerir þetta að verkum að lífsmagnið, súrefnið, á sér ekki greiðan aðgang að lungunum og hindrar þar með lífið að flæða um æðarnar, sem aftur myndar bólgu í vöðum og dregur okkur enn meira niður.

Í bók eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, sem heitir Mót hækkandi sól (Salka 2005), er því lýst hvernig hugarfar okkar og tilfinningar hafa áhrif á líkamsstöðuna: “Þegar við erum reið eða hötum einhvern þá berum við svo þunga byrði á herðum okkar að við getum engan vegin staðið upprétt” (bls. 69). Kraumandi reiði veldur vanlíðan og varnar okkur að lifa lífinu til fulls.

Líklega könnumst við flest við eitthvað þessu líkt, því fáir komast í gegn um lífið áfallalaust. Til að vinna gegn slíkum líkamlegum einkennum áfallastreitu þurfum við að átta okkur á því hvað er að gerast og grípa síðan til aðgerða: Tala við einhvern sem við treystum og fara líka út að ganga, einbeita okkur að því að ná andanum, soga að okkur hið lífgefandi loft og losa þannig um ytri og innri spennu svo að við getum staðið upprétt, verið manneskjur með fullri reisn.

Við finnum hvað líkamanum líður betur þegar við temjum okkur góða líkamsstöðu. Þetta geta sjúkraþjálfarar kennt okkur. Eftir því sem ég best veit er jarðsamband mikilvægt góðri líkamsstöðu, að finna iljarnar vel í gólfinu og ná þannig betra jafnvægi. Og svo er spottinn góði – að finna eins og togað sé í hvirfilinn og lengt á hryggsúlunni, hakan hvorki of hátt né of lágt og axlirnar niður og aftur. Við eigum að vera rótfest og grundvölluð í kærleika Krists (sjá Ef 3.14-19) og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur (Ef 4.15).

Heilsufræði fyrir byrjendur?

Nú finnst ykkur líklega að þið séuð frekar stödd í heilsufræðitíma fyrir byrjendur en í Hallgrímskirkju á öðrum sunnudegi í aðventu. Ég hef mér til afsökunar að guðspjallið gefur tilefni til smá fyrirlesturs um líkamsstöðu:

En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd
segir Jesús (Lúk 21.28). Við eigum ekki að vera eins og þjakað fólk, þjáðar manneskjur í eymdadal mannlífsins. Við eigum þvert á móti að bera okkur vel, koma fram með þeirri reisn sem tilheyrir fylgjendum Hans sem sigraði dauða og djöful.

Fólk sem ber sig vel finnur ekki aðeins betri líðan á líkama og sál heldur nýtur einnig meiri virðingar samferðafólksins. Þetta þekkjum við öll. Við, kristið fólk, eigum sannarlega ekki að biðjast afsökunar á sjálfum okkur eða samtökum okkar, sem í þessu tilviki heitir Þjóðkirkja Íslands. Við eigum að sýna það í orði og verki að við erum stolt af því að vera kristin og styðja kirkjuna okkar. Tölum vel hvert um annað og sýnum samstöðu – án þess þó að falla í þá gryfju að rægja þá sem eru á móti okkur. Verum uppbyggileg og kærleiksrík í allri framgöngu. Það talar hærra en niðurrif og skætingur.

En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists
segir Páll postuli í pistli dagsins (Róm 15.4-7) og bætir við, okkur til áminningar og hvatningar:

Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.

Angist, ráðaleysi, ótti og kvíði

Hugum nánar að orðum Jesú sem vitnað var í áðan: En þegar þetta tekur að koma fram... er lausn yðar í nánd. Hvað er að koma fram? Lausn undan hverju er í nánd? Guðspjall dagsins lýsir því (Lúk 21.25-33):

Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“

Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Þetta er lýsing síðustu tíma, endurkomu Krists. Á ýmsum tímum hafa menn séð tákn þess að nú geti veröldin ekki haldið áfram með sama hætti og hingað til. Þegar ég var unglingur var það kjarnorkuváin sem hæst bar í þeirri umræðu. Núna er það líklega umhverfismengunin og breytingar á veðurfari sem fólk óttast mest, auk hinnar gríðarlegu stríðsvæðingar og almennu mannvonsku sem fréttirnar sjá um að mata okkur á allan sólarhringinn. Það þarf ekki að tíunda hér.

Mikilvægast er að við eigum von, að mannkyn á sér framtíð í Guði, þó blikur séu á lofti veraldar. Hvenær heimurinn eins og við þekkjum hann tekur enda vitum við ekki. En það nægir mér að vera þess fullviss að allt er það í hendi Guðs. Því þurfum við ekki að vera gripin sömu angist og það ráðalausa fólk sem ekki á sér þessa von. Við eigum ekki að falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina, heldur rétta úr okkur og bera höfuðið hátt. Guð er Guð vonarinnar og við skulum biðja þess og vænta að hann fylli okkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að við séum auðug að voninni í krafti heilags anda (Róm 15.13).

Lausnin

Því lausn okkar er í nánd. Ef til vill er hún ekkert mikið nærri nú en þegar þessi orð voru sögð og síðan skrifuð, sé miðað við mannlegt tímatal. Um það vitum við fátt. Okkur er ekki gefið að vita tíma og tíðir, þó margt bendi til þess að endurkomu Krists sé ekki langt undan.

Lausnin er í öllu falli jafn nærri og fyrrum - í hinum andlega veruleika. Mannsonurinn kom og kemur og mun koma. Hann kemur hvern dag inn í líf okkar, kvisturinn sem andi Drottins hvílir yfir eins og Jesaja spámaður orðar það (Jes 11.1 og áfram):

Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
Og sýnin sem fylgir um úlfinn sem býr hjá lambinu, ljónið sem bítur gras eins og nautið og barnið, nývanið af brjósti, sem stingur hendi inn í bæli höggormsins, er framtíðarsýn okkar, sýnin um réttláta veröld þar sem illskan er út rekin (Jes 11.9):
Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Lifum vonina, hnarreist og hugdjörf!

Það er vonin um að þessi framtíðarsýn nái fram að ganga sem knýr veröldina áfram. Það er hin kristna von um dýrðarríki Guðs sem gerir vinnuna okkar þess virði að sinna henni; sem gefur uppeldi nýrra kynslóða gildi; sem hvetur okkur til að hlú hvert að öðru í þessum heimi sem svo oft er fullur mannvonsku og niðurrifs. Það er vegna þessarar vonar sem við söfnum fyrir brunnum til handa Afríkubúum nú á aðventunni. Vegna hennar hefur lífið tilgang. Án hennar allt til einskis unnið.

Því það er fullvissan um að veröldin verði Guðs ríki´um síð, eins og segir í sálmi sr. Friðriks Friðrikssonar, sem gerir það að verkum að okkur finnst taka því að andmæla myrkrinu og bera fram ljósið:

Hann kemur, hann kemur, sá dýrlegi dagur, hans dagsbrún vér heilsum með fagnaðargný, þótt niðdimmt sé ennþá í eymdanna dölum, frá eilífðartindum samt roðar á ský. Hann kemur og græðir öll syrgjenda sárin og sefar með vonfylling heilagra tárin.
Þess vegna, kæru systkin í Kristi, skulum við rétta úr okkur og bera höfuðið hátt. Látum ekki hið illa sigra okkur en sigrum illt með góðu (Róm 12.21). Höfum í huga orð sem gamall maður gaf mér fyrir áratug og ég þreytist ekki á að fara með á hverri aðventu:
  • Gerðu aðeins það sem þú vildir vera að gera – þegar að Jesús Kristur kemur aftur.
  • Vertu aðeins þar sem þú vildir vera - þegar að Jesús Kristur kemur aftur.
  • Hugsaðu aðeins það sem þú vildir hugsa - þegar að Jesús Kristur kemur aftur.
  • Segðu aðeins það sem þú vildir segja - þegar að Jesús Kristur kemur aftur.
Lifum vonina – hugdjörf og samhuga!