Orð Jesú eru ekki fjöldaframleidd

Orð Jesú eru ekki fjöldaframleidd

Í dag er 21. sunnudagur þrenningarhátíðar en þessi dagur er uppskeruhátíð innan kirkjunnar. Á uppskeruhátíðinni komum við saman frammi fyrir Guði og þökkum fyrir gjafir jarðar. Þökkum honum fyrir uppskeru ársins og biðjum þess að uppskerur næstu ára megi vera gjöfular og öllum til bóta. Nú undanfarin misseri hafa bændur, hér sem og annarsstaðar, verið að uppskera því sem þeir hafa sáð. Við sjáum meðal annars nýjar kartöflur í búðum, heyrum af og sjáum nýslátrað kjöt og ef við erum heppin þá finnum við sviðalyktina líka þegar verið er að svíða lappir og hausa...

Í dag er 21. sunnudagur þrenningarhátíðar en þessi dagur er uppskeruhátíð innan kirkjunnar. Á uppskeruhátíðinni komum við saman frammi fyrir Guði og þökkum fyrir gjafir jarðar. Þökkum honum fyrir uppskeru ársins og biðjum þess að uppskerur næstu ára megi vera gjöfular og öllum til bóta.

Nú undanfarin misseri hafa bændur, hér sem og annarsstaðar, verið að uppskera því sem þeir hafa sáð. Við sjáum meðal annars nýjar kartöflur í búðum, heyrum af og sjáum nýslátrað kjöt og ef við erum heppin þá finnum við sviðalyktina líka þegar verið er að svíða lappir og hausa. Svo fáum við alltaf fersk egg, ýmist í búð eða á býlum. Við hér í Austur – Skaftafellssýslu njótum þeirrar blessunar að geta nálgast allar helstu kjötvörur hér heima í héraði beint frá býli, það er að segja lambakjöt, nautakjöt og svínakjöt. Það sama má segja um vörur eins og kartöflur og egg. Svo erum við farin að sjá nýjar vörur á boðstólnum eins og Repjuolíu, kartöflukonfekt og pestó. Að njóta þessarar blessunar er dásamlegt og alls ekki sjálfgefið.

Hér áður fyrr og í raun enn þann dag í dag erum við sem búum hér á þessu svæði í hálfgerðu einskinsmannslandi. Afhverju segi ég það, jú af því að það er langt í næsta stóra þéttbýlisstað. Þetta verður til þess að við verðum að vera sjálfum okkur nóg. Við verðum og höfum í gegnum áratugina lært að sjá fyrir okkur sjálfum. Nú í dag tekur það reyndar mun skemmri tíma að fara á milli staða en áður fyrr en það kemur uppá móti að það er dýrt að ferðast. Benzíndropinn er dýr og oft á tíðum þá borgar það sig engan veginn að keyra langar leiðir til, að við höldum, að nálgast ódýrari vöru en í heimabyggð.

En auðvitað getum við alveg farið í Nettó og keypt allar okkar vörur þar, hvort sem það er klósettpappír, tómatsósa eða frosið kjöt úr frystirnum, og jafnvel allt merkt X-tra vöruflokknum.

Fyrir mér er það allavega þannig að mér finnst gaman að vita hvaðan vörurnar koma sem ég kaupi. Gaman að vita hver hefur meðhöndlað þær. Ég efast um að það góða fólk sem vinnur í stórmörkuðum landsins viti frá hvaða bæ kjötið er sem er í kjötpokanum sem ég ætla að kaupa. Í dag er það þannig að það stendur ekki á pokanum hvaðan kjötið kemur. Það stendur bara lambakjöt – nýslátrað og merki sláturhússins. Ég veit það fyrir sjálfan mig að ef ég veit hvaðan maturinn kemur þá er hann einfaldlega miklu betri. Gott dæmi um það er að í þau 10 ár sem ég bjó í Reykjavík þá leitaði ég eftir Hornfirskum kartöflum og fór jafnvel á milli búða ef ég fann þær ekki, bara útaf því mér fannst þær miklu betri en aðrar kartöflur.

En við erum misjöfn eins og við erum mörg og sumum er alveg sama um hvaðan maturinn kemur, það skipir suma engu máli þótt maturinn sem það lætur ofaní sig sé fjöldaframleiddur og þau hafa enga tengingu við matinn. Og auðvitað þurfa bændur sláturhús því annars væri nú ekki hægt að selja kjöt annarsstaðar en í heimabyggð eða úr landi sérstaklega þar sem sú sala á bara eftir að aukast þar sem fleiri og fleiri eru að átta sig á því hvað við eigum rosalega gott kjöt. Þess vegna þurfum við oft fjöldaframleiðslu.

Orð Jesú voru hins vegar ekki fjöldaframleidd. Orð Jesú voru og eru enn einstök, Jesús pakkaði þeim í neytendavænar umbúðir sem allir skildu og skilja enn. Orð Jesú renna aldrei út, það er enginn stimpill með síðasta söludegi á orðum Jesú, orð hans varir að eilífu.

Jesús setti líka fram nýjungar eins og margir bændur hér í kring eru að gera. Jesús setti fram og boðaði nýja trú. Trú á hinn algóða Guð, Guð sem er tilbúinn að aðstoða ef þess þarf. En það voru ekki allir sammála honum og hans boðun. Margir voru sérstaklega ósáttir með hve fylgi hans jókst hratt sem varð til þess að vald annarra minnkaði. Þessir valdhafar vildu því fá vald sitt aftur og fóru að sækja að Jesú. Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans." (Jóh. 4.34)

Forsagan að þessum orðum Jesú er sú að á þessum tíma voru farísearnir farnir að sækja harðar að Jesú enda hann farinn að ná athygli marga. Jesús fær veður af afbrýðisemi farísea og dregur sig í hlé og fer hálfpartinn huldu höfði, verður að fara um Samaríu á leið sinni frá Júdeu til Galíleu. Á leið sinni sest hann við brunn einn, sest við Jakobsbrunn, á meðan fara lærsveinarnir í borgina Síkar að ná í mat. Samverska konu ber þar að og biður Jesús hana að gefa sér vatn. Þetta þótti konunni einkennilegt enda voru Gyðingar ekki vanir samneyti með samverjum. Eftir að Jesús var búinn að eiga langar og innihaldsríkar guðfræðilegar samræður við konuna við brunninn, snéru lærisveinarnir aftur með mat en þá neitaði Jesús matnum og sagðist hafa mat að eta sem þeir vissu ekki um. „Skyldi einhver hafa fært honum mat“ spurðu lærsveinarnir hver annan. Þeir vissu ekki að Jesús var ekki að tala um mat til að næra líkamann, nei hann var að tala um annarskonar mat, annarskonar næringu. Jesús hafði vikum og mánuðum saman frætt þá um og átt trúarlegar upplyftandi samræður um andlega fæðu, en þrátt fyrir það þá sáu lærisveinarnir bara fisk og brauð þegar talað var um mat. Þeir stóðu honum næst og áttu að vita betur, en þeir bara náðu ekki og skildu ekki hvað Jesús átti við.

Lærisveinarnir voru og eru ekki einir um að skilja ekki muninn á næringu og næringu. Þetta tvennt er nefnilega ekki það sama. Nú í dag sjáum við endalausar auglýsingar um hollustufæði, fæðubótarefni í duftformi og megrunarkúra eins og Lág kolvetnakúrinn sem er búinn að vera mikið í umræðunni undanfarið. Öll þessi næring er góð til síns brúks á sinn hátt en hin næringin, andlega næringin er alveg jafn mikilvæg. Við megum ekki hugsa svo mikið um líkamlega næringu að við gleymum hinni andlegu. Andleg næring skilar góðu andlegu jafnvægi sem svo skilar sér í meiri gleði, minni reiði og minni sárindum. Og við vitum að gleðin smitar útfrá sér, bros smitar og þegar okkur líður vel þá gefum við meira af okkur hvort sem það er í formi vinnu eða einhvers annars. Enda hefur það sýnt sig að gott andlegt jafnvægi gefur meiri og betri afköst sem mun svo skila sér til samfélagsins.

Hina andlegu næringu fáum við með því að setjast niður og eiga stund með okkur og með Guði. Við opnum hjarta okkar fyrir honum. Leyfum honum að vera þátttakandi í lífi okkar, aðstoða okkur þegar við þurfum á því að halda og einnig að vera með okkur á gleðistundum. Við nærumst andlega þegar við komum saman í kirkju og við þökkum Drottni Guði vorum fyrir lífið, hlýðum á orð hans og íhugum þau, hlustum á lofsöngva til Drottins og syngjum jafnvel með. Við nærum sálina líka þegar við setjumst við matarborðið með matardiskinn fyrir framan okkur og þökkum Guði fyrir matinn sem okkur er færður. Og við skulum muna eftir þessu næst þegar við setjumst að borðum. Við skulum þakka fyrir matinn og við skulum þakka fyrir lífið sem okkur er gefið.

Munum að næra sálina, trúum á Jesús því hann er brauð lífsins, þann mun aldrei hungra er til hans kemur og þann mun aldrei þrysta sem á hann trúir.

Amen.

Guðspjall: Jóh 4.34-38