Eyland

Eyland

Eins og á við um allar góðar framtíðarsögur felur frásögnin í sér viðvörun til samtímans og snarpa ádeilu.

Nýverið las ég skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland. Hún er það sem við köllum dystópía, lýsir myrkri og ógnvekjandi framtíð. Það er andstæðan við útópíuna, sem er öllu kunnari. Sögusviðið er Ísland með öllum þeim stöðum og örnefnum sem okkur eru kunnug. Hér á höfuðborgarsvæðinu er það Austurvöllur, Smáralind og hið stórkarlalega Korputorg. Sagan gerist líka í Þykkvabænum og víðar á Suðurlandi en hefst raunar og endar einhvers staðar í afdölum.

Einangrun

Í sögu þessa kunna fréttamanns er Ísland með öllu einangrað. Engar fregnir berast að utan og tilraunir til að senda fólk af stað til að ná tengslum við umheiminn skila ekki árangri. Ekkert spyrst til þeirra sem héldu á brott í skipum og flugvélum og enginn veit hvað veldur. Skemmst er frá því að segja að tengslaleysið dregur fram allt það versta í fólki. Við tekur bæði stjórnleysi og einræði – sem eru reyndar engar andstæður. Í stjórnleysinu grasséra smákóngar sem ríkja með ofbeldi og einræðið þrífst ágætlega með uppivöðslusama ofbeldishópa. Í sögunni eru þeir kenndir við okkar góðu björgunarsveitir sem sýnir í hnotskurn hvað allt verður öfugsnúið þegar eitthvað er lokað og hleypir engu inn né út. Lífið á eylandinu einangraða verður í senn erfitt, hættulegt og stutt.

Lesturinn rifjaðist upp fyrir mér er ég hugleiddi þessa texta sem hér voru lesnir. Hver og einn þeirra fjallar um samfélag og þar getum við bæði séð fyrir okkur dystópíu og útópíu – harmsýn og fagra framtíð. Eylandið í sögunni minnir um margt á þá þróun sem á sér stað í heiminum á okkar dögum. Þar rísa múrar og þar er óttinn víða við völd. Við skynjum að margir sækjast eftir hlutskipti sem líkist um margt þeirri dökku mynd sem þarna er dregin upp. Full ástæða er til að vara við slíku. Sú hugsun sækir á hugann í textum dagsins.

Í lexíunni, fylgjumst við með ferð Ísraelsmanna yfir eyðimörkina til fyrirheitna landsins. Vonleysi grípur fólkið og þá brenglast öll hugsun svo að jafnvel þrælakistan í Egyptalandi verður að ákjósanlegum stað í minningunni. Hungrið sverfur að og mannskapurinn tekur að mögla, eins og segir í textanum. Sagan af því undraverki þegar lynghænur og mannakorn berst af himnum ofan verður kallar síðan fram þennan draum hinna hungruðu þegar gæðin streyma til okkar fyrirhafnarlaust. Í þekktu málverki eftir hollenska listamanninn, Pieter Brugel, eldri frá lokum 16. aldar má sjá hvernig hann sá fyrir sér hið fullkomna líf í landi allsnægta. Fólkið lá þar afvelta af áti þar sem gæsirnar fljúga steiktar á diskana! Enginn þurfti að vinna og öll gæði komu fyrirhafnarlaust.

Í eyðimörkinni fékk langþreytt og hungrað fólkið einnig mat af himnum ofan. Þeirri himnasendingu fylgdi á hinn bóginn áminning um það að allt þarf að vera í réttum skorðum. Sjónum okkar er óðara beint að þessu brothætta samfélagi, sem hafði skömmu áður kosið þrældóm fremur en frelsi. Þau fengu reglur um hversu miklu mætti safna og í lok frásagnarinnar má sjá að þar var hvorki of né van. „Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.”

Já, er ekkert er nýtt undir sólinni, hvort heldur hún skín á eyjaskeggja við nyrsta haf eða á skrælnaða jörðina fyrir borni Miðjarðarhafs. Samfélag byggir á reglum og stundum leitar maðurinn þess sem heftir og bindur og um leið verður alltaf hætta á því að menn taki sér meira en góðu hófi gegnir. Allt þetta birtist okkur í sögum annarrar Mósebókar af ferð Ísraelsmanna yfir eyðimörkina. Hennar minntust menn á föstunni hið forna og má segja að við gerum enn þótt fasta Jesú í eyðimörkinni sé okkar fyrirmynd.

Gott samfélag

Pistillinn er svo óður til hins kristna samfélags. Þar sjáum við mynd af samfélagi sem er ólíkt dystópíunni sem að framan er lýst. Nei, þetta er fögur framtíðarsýn. Þar segir postulinn: ,,Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.”

Tökum eftir andstæðunum sem mæta okkur í þessum textum. Óttinn og vonleysið annars vegar og svo á hinn bóginn, kjarkurinn og gleðin sem leiða af sér samstöðu og samhug. Hér eru það leikreglur hin kristna samfélag. Það byggir í grunninn á því hugarfari sem hver og einn á að byggja á. Ekki það að manneskjan sé eyland, heldur einmitt hluti af heild. Og í því samehengi skiptir það sköpum að við förum fram með réttu hugarfari.

Að lokum er það guðspjallið. Þar talar Kristur til lýðsins sem þekkti að sönnu frásögnina af því þegar fólkið snæddi mannakorn í eyðimörkinni. Sá atburður birtist okkur í stefnumóti himna og jarðar, þegar hin himneska fæða kemur til fólksins sem reynir að þrauka í skorti sínum og endurnærir það. Þetta er sú samlíking sem Jesús tekur. Ég er brauð lífsins segir hann og þetta brauð stígur niður af himni. Og rétt eins og í sögunni fornu þá mettar það manninn, en saðning sú er ekki eingöngu kviðfylli heldur mætir hún hverri þörf mannsins. Leit hans að tilgangi, að lífsfyllingu, að réttlæti, kærleika og gleði. Þegar við tökum á móti Jesú sem hinu lifandi brauði þá birtist okkur þessi veruleiki og hann er að sönnu eftirsóknarverður.

Í þessum orðum kallar Jesús okkur að borðinu sem hann segir vera umgjörðin utan um samfélag kristinna manna. Já, hér er vísað fram til þeirra tíma er Jesús braut brauðið og gaf sínum lærisveinum og sagði þeim að eta þetta í sína minningu. Allir eru velkomnir að borðinu með kostum sínum og göllum. Þar er ekki spurt að ytri einkennum, uppruna eða öðrum þeim þáttum sem valda því að fólk er dregið í dilka. Nei í altarisgöngunni eigum að mæta með hugarfari því sem postulinn talar um: hlýju og samúð og kærleika til náungans. Og um leið verður brauðið að tákni fyrir það hvernig það samfélag á að vera sem byggir á kristnum grunni. Þar er ekki ofgnótt en heldur ekki skortur. Sá veruleiki blasir við okkur í dag að á sama tíma og fólk sveltur heilu hungri köstum við matvælum á glæ í gríðarlegu magni. Takið ekki meira en þið þurfið og gætið að náunganum. Þetta eru leikreglur hins kristna samfélags.

Eyland

Við eigum ekki að loka okkur af. Það eru hugsanlega skilaboðin í sögunni Eyland sem hér var vísað til.

Eins og á við um allar góðar framtíðarsögur felur frásögnin í sér viðvörun til samtímans og snarpa ádeilu. Höfundurinn virðist greina þróun heimsmála á þann hátt að þar stefni í óefni einmitt vegna þess að samfélögin eru að loka dyrum hvert á annað. Eylöndum fjölgar, múrar eru á teikniborðinu en áður en þeir rísa og teygja sig eftir landamærum hafa þeir risið í huga fólksins. og það er eitt sem stuðlar að því myndun þeirra. Það er óttinn. Og hann tekur á sig ýmsar myndir. Þegar dregin er upp mynd af einangruðu landi, eylandi mitt í hafinu án tengsla við umheiminn er nærtækt að ætla að það vísi ekki síður til þess hvað einkennir hugarfar margra á okkar dögum og raunar þau hjólför sem heimsmálin virðast vera að festa sig í.

Gegn þeirri óheillaþróun ættum við að vinna og við tökum til okkar hvatningu postulans að ganga fram í þeim kjarki sem Kristur veitir til góðra verka.