Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. Lk 21.25-33
Ungur maður í Finnlandi, 18 ára að aldri, gekk um skólann sinn og hóf skothríð, nokkrir samnemendur hans féllu í valin, þá létust skólastjórinn og ungur kennaranemi, og að lokum féll vígamaðurinn sjálfur fyrir eigin hendi. Lífsviðhorf hans höfðu einkennst af reiði og beiskju, fyrirmyndir hans í lífinu voru þeir Adolf Hitler og Friedrich Nietzsche hann bjó við svokallaðar eðlilegar heimilisaðstæður.
Ungur maður, 19 ára að aldri, hóf skothríð í verslunarmiðstöð í Nebraska í Bandaríkjunum, hópur fólks, sem þar var að sinna erindum, særðist illa og átta manns dóu, ungi maðurinn féll síðan fyrir eigin hendi, í sjálfsvígsbréfi hans kom fram að hann vildi verða frægur.
Fimm börn á aldrinum 3-9 ára fundust látin heima hjá móður sinni í Þýskalandi, en hún liggur undir grun að hafa drepið börnin sín á mjög grimmilegan og ofbeldisfullan hátt. Önnur móðir í austurhluta þýskalands tók sömuleiðis líf þriggja barna sinna. Móðureðlið er ekki undanþegið.
Ég veit að ykkur finnst eflaust ekkert hátíðlegt við það snemma á helgri aðventu að heyra þessi vátíðindi, ætlar presturinn ekki að greina frá gleðifréttinni um komu frelsarans eða hvað? Það á sannarlega að standa upp úr, ég neita því ekki, en það er víst þannig að kristin kirkja fæst ekki bara við það sem er hátíðlegt og gleðilegt, hún fæst umfram allt við raunveruleikann, við dýpstu sannindi lífsins, hvort sem þau eru björt eða dimm.
Það skín ekki bara bjarmi frá heilögum fæðingaratburði í Betlehem, þar ríkir jafnframt ótti og skuggi, Heródes konungur sá til þess. Bjarminn frá þeim atburði er hins vegar og verður ætíð sterkari en skugginn, sem betur fer, því þar er líka vonina að finna.
Þessar sláandi fréttir, sem ég greindi frá hér í upphafi, hafa allar átt sér stað á mjög stuttu tímabili, rétt fyrir og við upphaf aðventu. Þvílík ógæfa, þvílíkur harmur, hrópum við öll í kór! Þessar fréttir hljóta að snerta við okkur er það annars ekki?
Sjáum við þetta nokkuð fyrir okkur eins og hvern annan tölvuleik? Það þarf heldur mikla ónæmni ef svo er. Ófáir bloggarar stíga fram á ritvöllinn og lýsa yfir undrun sinni, senda samúðarfullar athugasemdir, það eru margir þarna úti sem finna til með fórnarlömbunum, sem betur fer! Þegar við hættum að finna til með öðrum, þegar við byrjum að taka svona fréttum eins og sérhverju daglegu brauði, þá verðum við að klípa okkur í handlegginn og athuga með þeim hætti, hvort við séum ekki örugglega ennþá í lífi.
Já, þessar fréttir eiga að snerta við okkur og jafnvel mun meira en áður, því heimurinn hefur farið ört minnkandi á tækniöld og löndin, þar sem öll þessi ógæfa hellist yfir eru, ef svo má segja, hinumegin við hornið. Þá skulum við ekki gleyma því að við erum farin að sjá mjög dramatíska glæpi eiga sér stað í túninu heima, þó ekki af þessari stærðargráðu, en hér á friðsömu ástkæru Íslandi henda enn sem komið er, minni en samt sem áður ljótir glæpir.
Hvað veldur? Við höfum spurt og spyrjum enn. Veikindi? Alveg örugglega stór þáttur, ungu mæðurnar í þýskalandi voru lagðar inn á geðdeild í beinu framhaldi. Við tölum fyrst og fremst um veikindi, það eru gjarnan fyrstu viðbrögð og það er vissulega mjög nauðsynlegt að líta þannig á málin, annars eigum við heldur erfitt með að meðtaka fréttir sem þessar. Staðreyndin er bara hreinlega sú að við göngum alls ekkert öll heil til skógar og mannshugurinn, mannssálin er margflókin. Páll postuli lýsir henni á áhugaverðan hátt þegar hann segir.
“Allt hið góða sem ég vil geri ég ekki, allt hið vonda sem ég vil ekki, geri ég.”
Þið væntanleg fermingarbörn, sem hér eruð stödd í kirkjunni í dag, munið eftir því ef til vill, þegar við vorum að ræða um einmitt þetta í fermingarfræðslunni, þegar við fórum í gegnum manngildið og það að mannslíf bæri að vernda og hlúa að, umfram allt annað.
Þegar við tölum um hið margflókna sálarlíf manneskjunnar, og það gera ekki bara sálfræðingar og prestar, það gerum við öll, að þá getum við samt ekki einblínt einvörðungu á þátt andlegra veikinda og sjúkdóma. Við verðum sömuleiðis að velta fyrir okkur félagslegum þáttum, áhrifum samfélags, áhrifum fjölmiðla, við þurfum að velta fyrir okkur bakgrunni og uppvexti manneskjunnar, fyrirmyndum.
Finnski ógæfumaðurinn var hugfanginn af Hitler og Nietzsche . Báðir þessir menn voru gríðarlegir áhrifamenn og skarpgreindir. En hver voru markmið þeirra? Hitler vildi búa til hreinan kynstofn og til þess þurfti að afmá fólk af jörðinni, sem var ógnun við þann stofn. Nietzsche lagði áherslu á tilvistarleysi Guðs, “Guð er dauður,” eru kunn orð frá þessum svartsýna heimspekingi, sem taldi að manninum hefði tekist að drepa Guð. Umræddar fyrirmyndir, sterkar og ógnvænlegar í senn, voru ekki grundvallarástæða ógæfunnar t.d. í Finnlandi, nei auðvitað ekki, en þær voru án efa hvatning þar á bak við, og því dreg ég alls ekki úr mikilvægi fyrirmynda.
Þá getum við ekki horft framhjá þætti trúar í þessu samhengi. Trúin er máttugt afl og þau gildi, sem t.a.m. eru sprottin af Guðstrú, eru það áhrifarík og mótandi fyrir sálarlíf manneskjunnar, að það væri hreinlega óábyrgt að hundsa þann mikilvæga þátt, hvernig sem á það er litið.
Eitt af stórum gildum trúar á annað æðra en okkur sjálf eflir siðvitund. Það eitt gerir okkur sterka grein fyrir því að við erum ekki ein í þessum heimi. Siðvitundin klípur okkur og við hrökkvum við og áttum okkur á að við erum til, við berum ákveðnar skyldur og ábyrgð gagnvart umhverfi okkar. Ætli það hafi ekki gerst með miskunnsama samverjann forðum, sem ákvað, ólíkt þeim sem á undan honum fóru, að staldra við og aðstoða mann í neyð? Síðan þá hefur miskunnsami samverjinn verið frægasta fyrirmyndin um siðferðislega ábyrgð manneskjunnar.
Nú er það svo að það eru ekkert allir sammála því að trúin hafi eitthvað með siðvitund að gera. Það er fólk sem aðhyllist manngildishyggju, svokallaðan “húmanisma” og þar gilda þau lögmál að það sé manneskjan ein, sem getur borið skynbragð á það hvað sé rétt og hvað sé rangt, það þarf engan guð til þess. Kenningar Nietzsche hljóta því að falla manngildishyggjunni vel í geð.
Samtökin Siðmennt hafa látið töluvert í sér heyra undanfarið. Það eru samtök húmanista. Þeir vilja í ljósi mannréttinda að kirkja og þau gildi, sem hún stendur fyrir, láti skólabörn í friði. Það skal tekið fram, að sá sem hér talar, ber fulla virðingu fyrir nefndum samtökum, en er hins vegar ekki sammála þeim, kenningum þeirra né því sem þau boða.
Eitt af því sem einkennir boðun þeirra er sú staðreynd að manneskjan eigi að fá að velja hvaða stefnu hún tekur í lífinu og vera frjáls í því tilliti. Börn eiga að velja sér lífsviðhorf án aðkomu opinberra stofnanna eins og kirkjunnar. Í því ljósi þarf þess vegna að ríkja algert hlutleysi, það má ekki hafa áhrif á einn né neinn, jafnvel þótt langstærsti hluti þjóðar hafi tekið þá ákvörðun að velja kristin gildi og þann sem stendur á bak við þau, með því að þiggja heilaga skírn kirkjunnar.
Hlutleysið er vandmeðfarið. Ég sé reyndar oft fyrir mér hlutleysi og tóm í einni sæng. Það þarf að þóknast öllum og þess vegna er ekki hægt að taka neina afstöðu og enginn einn þráður liggur í gegn, sem hægt er að grípa í. Og síðan er um svo margt að velja og svo margt í gangi að við, og ekki hvað síst börnin okkar, verða alveg ringluð rétt eins og á stórum markaði. Valkvíðinn í hámarki!
Frelsi einstaklingsins, mannhyggjan, afl mannsandans. Fyrir nokkru kom út bók, sem geymir fáeinar valdar prédikanir og ljóð eftir föður minn. Bókin heitir “Lífið sækir fram.” Í einni af prédikununum er kómísk frásögn, sem er lýsandi fyrir mannsmiðlægnina, og þá hyggju, sem henni fylgir.
Frásögnin bendir um leið á þá raunveru, að þó við séum alveg frábær, að þá þurfum við á æðri mætti og æðri gildum að halda, sem eru tilkomin án máttarverka mannsins, svo mikið er víst, það eru andans gildi, er krefja manninn um afstöðu til lífs og hjálpa honum að fóta sig í tilveru er úir og grúir af miður góðum áhrifum, sem geta á svo óeðlilegan hátt verið hvati þess að við stöndum einn góðan veðurdag fyrir framan skólafélaga okkar veifandi vopnum, Guð forði okkur frá því!
Umrædd frásögn úr bókinni “Lífið sækir fram” hljóðar svona:
“Þingmaður nokkur þurfti að sækja héraðshátíð í kjördæmi sínu norður í landi. Nú vildi svo til að eitthvað varð honum til tafar og því tók hann því boði fegins hendi að fljúga með lítilli eins hreyfils flugvél, sem einhver af brautryðjendum flugsins stýrði. Flogið var sjónflug og dalir þræddir, en við minnsta andblæ hristist vélarkrílið og sveiflaðist til og frá. Þegar flogið var meðfram Hafnarfjalli lét vélin sérlega illa, svo farþeginn varð fölur og fár. Hann var því þeirri stundu fegnastur, þegar lent var á túni nær ákvörðunarstað og gekk hress í bragði á fund mótsgesta. Þar sté hann brátt í ræðustól og hóf mál sitt á þessa leið: “Kæru vinir og samherjar. Glaður kem ég á ykkar fund eftir farsæla ferð. Þegar hinn vængjaði farkostur klauf loftið líkt og knörr landnemans til forna risti bylgjur úthafsins og þá sérstaklega, er loftfarið gekk á hólm við sviptivindanna nær svipmiklu Hafnarfjalli, þá kom mér þetta í hug: Hvað máttu þín, kastvindur, fyrir hinu mikla afli mannsandans?”
Faðir minn gleymdi víst ekki svipnum á gömlu konunni, sem sagði honum frá þessum atburði, en hún hafði verið þar á meðal mótsgesta. “Að láta sér þetta um munn fara,” sagði hún alvarleg, “það hljómaði sem svæsnasta guðlast, enda vakti ræðan litla hrifningu.
Manngildishyggjan ein kann að leiða til vonbrigða, ekki hvað síst í ljósi þeirra frétta, sem sagðar voru í upphafi þessarar prédikunar. Þegar máttur manneskjunnar þrýtur tekur fátt annað en trúin við, trúin á það að bjarminn standi eftir, þegar upp er staðið, og þegar búið er að takast á við hræringar og skugga lífs, það er vonin.
Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Þetta upphaf guðspjallsins hefst á ekki ósvipaðan hátt og þessi prédikun, já svart er það! En hvernig eru lok guðspjallstextans? Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. Þetta segir Kristur.
Guðspjallið endar á vonarbjarmanum. Í ljósi umræðunnar býður Kristur upp á þann bjarma, hann býður upp á sterka fyrirmynd, er hvetur til sannrar lífsvirðingar, hann er grundvöllur mannréttinda, sem byggjast á kærleika. Upp á hvað vill manngildishyggjan bjóða ef gildi trúar, kristni og kirkju á að hverfa fyrir kröfu hlutleysis? Ef þú spyrð þig, þá mega aðventa og jól snerta við þér, og tíminn sá býður upp á komu svars, sem er, var og verður.