Ég segi fermingarbörnunum oft þessa sögu. Hún er sannarlega ekki algóð og ég finn mig knúinn til að setja nokkra fyrirvara á, en svona er hún: Eitt sinn var ég á fyrirlestri þar sem virtur geðlæknir ræddi um hamingjuna. Erindið hófst á spurningunni um það hvort við kysum fremur að verða fyrir bíl og lamast að hluta til, eða vinna milljarð í víkingalottóinu. Svarið virðist ekki erfitt og sjaldan að valkostirnir eru jafn rækilega andstæðir eins og í þessu tilviki. Rétt eins og ég, eiga börnin ekki í nokkrum vanda með að svara spurningunni.
Lottóvinningur eða bílsslys?
Ég held áfram og rek fyrirlesturinn eftir minni. Byrjum á þeim nýríka. Hann segir upp í vinnunni, heldur æðislega veislu kaupir sér allt sem hann langar í og miklu meira. Hann fær líka heimsókn frá fólki sem vinnur við það að rannsaka hamingjuna. Já, kanna hvað það er sem gleður okkur mannina – og banka upp á hjá fólki sem orðið hefur fyrir merkilegri lífsreynslu. Aðspurður hversu hamingjusamur hann er á bilinu 1-10 er svarið einhvers staðar nálægt seinni tölunni. Sá sem varð fyrir slysi, missti máttinn í líkamanum fyllist örvæntingu og sorg og er hann fær sömu heimsókn og sömu spurningu gefur hann hamingju sinni lága einkunn, algera lágmarkseinkunn oftast nær.
Er svarið þá ekki augljóst og þarf að ræða þetta meira? Eins og gjarnan verða umræður líflegar meðal þessa einvalaliðs sem gengur til ferminga. Þetta er tími örra breytinga, þarf ekki að segja neinum það sem gengið hefur í gegnum hið svonefnda gelgjuskeið og mest af öllu þroskast í okkur heilabúið á þessum tíma. En sagan heldur áfram. Þegar ár er er liðið bankar sama rannsóknarteymi upp á hjá þeim sem datt í lukkupottinn í lottóinu og svo hinum sem þurfti nú skyndilega að heyja harða baráttu til að geta komist í gegnum hvers daginn. Já, hversu hamingjusamur myndir þú segja þig vera?
Og hér koma stóru tíðindin. Þegar árið er liðið reynist sá hópur sem varð fyrir áfallinu mælanlega og greinilega hamingjusamari heldur en sá sem vinninginn hreppti. Tilgangurinn er ekki að búa okkur undir stór tíðindi af þessum toga. Svarið varpar ljósi á mennskuna og allt sem henni fylgir. Það er jú ekki auðurinn sem slíkur sem veitir gleði. Honum fylgja margir skuggar. Tilgangsleysið kemur þegar fólk hættir að sinna skapandi störfum, hvort heldur það er í vinnu eða einfaldlega að berjast fyrir því sem gott er og eftirsóknarvert.
Einangrunin sækir svo að, þegar vinir breytast í afætur og tortryggnin ryður traustinu út. Eftir situr mannskjan umkringd hlutum sem eru ekki ávöxtur hugsunar og árangurs vinnu heldur koma bara fyrirhafnarlaus og þá er glansinn fljótur að fölna.
Sá hópur sem varð fyrir slysinu þurfti á hinn bóginn að berjast áfram til að geta rétt úr sér, leggja á sig ómælt erfiði til að genga endurheimt þó ekki væri nema hluta þeirrar færni sem áður var til staðar. Og fjölskyldan og vinirnir voru nærri, ef þau fundu fyrir samstöðu þeirra þá glæddi það lífið, ekki bara gleði heldur raunverulegu innihaldi. Já, þið spyrjið um hamingjuna – ég veit núna að ég á góða að og ég hef áorkað nokkru sem ég trúði aldrei að ég gæti gert. Hún er nú bara talsvert meiri núna en síðast þegar þið spurðuð.
Eins og ég segi, fermingarbörnin fá ekki að heyra þessa sögu nema með öllum fyrirvörum – þó fyrst og fremst þeim sem ég deili með ykkur núna. Jú, tilgangurinn er fyrst og fremst sá að spyrja hvað það er sem skiptir okkur máli. Er hamingjan andlag þess sem við óskum eða leynist hún á öðrum slóðum? Liggur svarið á óvæntum slóðum og er mögulega það sem við kennum við hamingju eitthvað allt annað en hamingja, og kannske miklu síður eftirsóknarvert?
Ólík viðbrögð
Í guðspjalli dagsins er sögð saga. Þetta er frásögn um andstæð viðbrögð manna sem hljóta lækningu á alvarlegu meini. Á þeim slóðum sem frásögnin gerðist, á mörgum Samaríu og Galíleu var að finna tvo ólíka trúarhópa – samverja og gyðinga. Á milli þeirra ríkti tortryggni, en samverjar samanstóðu af þjóðarbrotum sem sest höfðu að í landinu helga á þeim slóðum þaðan sem hluti fólks hafði verið numinn á brott í herleiðingunni til Bablýlóníu á 6. öld fyrir Krist. Þeir voru því óhreinir í augum gyðinganna, stunduðu aðra siði og virtu ekki strangar reglur um hreinlæti og fæðuval. Þá minntu þeir á þetta lægingarskeið í sögu þjóðarinnar.
Þessi hópur sem mætti Jesú var á hinn bóginn allur talinn óhreinn. Vafalítið komu þessir tíu úr hvorum flokknum fyrir sig, en líkþráin gerði þá alla útlæga úr mannlegu samfélagi. Eins og segir í lögmálinu: „Líkþrár maður, er sóttina hefir, – klæði hans skulu rifin og hár hans flakandi, hann skal hylja kamp sinn” Hann átti að hrópa ,Óhreinn, óhreinn!“ ef einhver nálgaðist hann (3 M13.45).
Ákall þeirra til Jesú ber þess merki hversu aum staða þeirra var. „Jesús, meistari, miskunna þú oss“ hrópa þeir til hans. Hinir líkþráu biðja Jesú um að virða sig viðlits. Þeir fá athygli Jesú. Já, hann brýtur reglur lögmálsins og gefur sig á tal við þá. Um leið sendir hann þau skilaboð til fylgjenda sinna hvaða augum það er sem Guð lítur okkur mennina. Biblían geymir margar frásagnir af því hvernig Guð einmitt virðir mennina viðlits þegar raunir þeirra eru sem mestar. Í útlegðinni, í neyð, í kjölfar ofbeldisverka, hamfara, sorgar og mitt í einsemdinni – þá mætir Guð manninum þar sem hann er staddur.
Hin ógæfusama einangrun var rofin. Kristur mætti þeim og gaf þeim athygli. Hann sagði þeim að fara og sýna sig prestunum en prestarnir skáru úr um það í anda þess sem fyrr er sagt hverjir væru með slíka sjúkdóma að þeir teldust óhreinir. Hver var hreinn og hver var óhreinn – þeir svöruðu því til. Fyrir vikið var það svo brýnt að prestarnir litu þá sem svo skyndilega höfðu fengið bót meina sinna, voru eins og vinningshafar í happadrætti lífsins, harmur þeirra og mein var á enda.
Hvað er eftirsóknarvert?
Þessi saga er þess vegna á sinn hátt frásögn af því, hvað er eftirsóknarvert. Sannarlega snertir hún á sömu þáttum og fyrirlesturinn sem ég endursegi gjarnan fyrir fermingarbörnunum. Undir yfirborðinu fjallar hún um samfélag, um virðingu fyrir manneskjunni, um það hvernig gildum og viðhorfum er einatt snúið á hvolf í frásögnum fagnaðarerindisins. Rétt eins og við sjálf fáum stöku sinnum að klóra okkur í kollinum yfir furðum mannlegrar tilveru.
Og í niðurlagi þessarar sögu kemur enn ein víddin, sem verður að meginefni hennar. Kastljósið beinist nú ekki að umhverfi þeirra manna sem voru útskúfaðir, hinum ytri þáttum sem þeir stjórna ekki, heldur að þeim sjálfum. Nú blasir það við að þeir eru ekki þolendur, fórnarlömb, heldur gerendur – meðvitaðir um eigin ráð og gjörðir. Og aftur skorar Jesús á hólm viðleitni okkar til að draga í dilka, greina hópa að, þá sem eru hreinir og svo hina sem teljast óhreinir fyrir uppruna sinn, siðvenjur og trú. Þessi útlendingur reyndist sá eini sem gerði hið rétta. Hann sneri aftur og þakkaði fyrir það kærleiksverk sem á honum hafði verið unnið. Hann ,,gaf Guði dýrðina” eins og segir í textanum. Setti hana í æðra samhengi og fann fyrir því hversu lofsvert það var að hann skyldi nú að nýju fá að vera hluti af samfélagi manna.
Eftir stendur áminning til okkar um að ákvörðunin býr ætíð í brjósi okkar sjálfra. Sagan gæti allt eins verið um fólk sem fær stóra vinninginn í lottóinu. Hvað gerist? Týnir fólk sér í gleðinni, hverfur það á braut frá öllu því sem gefur lífinu í rauninni tilgang? Já, því miður benda rannsóknir úr öllum heimshornum til þess, einmitt. En þessi eini hvarf aftur og færði þakkir. Og sá var ekki hluti af samfélaginu, sérstaklega var tekið fram að hann var útlendingur – stóð frá fæðingu fyrir utan – en með vali sínu valdi hann hamingjuleiðina, þakklætið sjálft. Það stendur nærri hjarta okkar eins og hamingjukönnuðir hafa leitt í ljós í rannsókn eftir rannsókn, út um gjörvallan heim. Hamingjusamt fólk kemur úr öllum stéttum og frá öllum heimshornum, en á það sameiginlegt að það kann þá list að segja takk.