Þekkirðu lykilorðin tvö?

Þekkirðu lykilorðin tvö?

En hvað segir þá kirkjan okkar um endalokin og hinsta dóm? Hvernig mun okkur reiða af í þessu drama dóms og heimsslita? Verðum við dæmd af verkum okkar? Skiptir máli hversu margar jólagjafir ég gef, hve miklu ég eyði í gjafir og góðgerðir? Krefst dauðinn þess sem lífið lánaði í líku hlutfalli og fésýslumennirnir Metúsalem og Pétur ...

Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið! Mark. 13. 31-37

Hlusta á þessa ræðuHlusta á þessa prédikun

Í gær fór ég út á hjóla sem er svo sem ekki í frásögu færandi. Ég fór stíginn með sjónum frá Ægisíðunni og fyrir enda flugvallarins og í gegnum kirkjugarðinn í Fossvogi og þaðan til baka um Öskjuhlíðina og heim. Ég fór til framtíðarlandsins eins og hann Þórður Eydal segir gjarnan um gönguferðir þeirra Kristínar í Fossvogsgarðinn – leiðina til framtíðar. Já, það bíður okkar víst allra að deyja. Og í dag er talað um endalok. Aðventan er tími alvöru a.m.k. sé tillit tekið til texta kirkjuársins en textaraðirnar eru ævafornar. Textarnir eru valdir með það fyrir augum að á tveimur árum sé farið yfir allt það helsta sem telja má til kenninga Krists. Ég verð að viðurkenna að þessir textar um endalok alls eru dálítið sérstakir og vandmeðfarnir og freistandi að hjóla bara fram hjá þeim. En það má ég ekki gera. Mér ber að glíma við þessa texta og skila einhverri túlkun á þeim til safnaðarins.

Hvað á Kristur við með orðum sínum í Markúsarguðspjalli þegar hann hvetur okkur til að vaka og vera viðbúin?

Getur verið að hann hafi rétt fyrir sér um að jörðin muni líða undir lok, farast eins og geimskip sem brennur upp í gufuhvolfinu? Er það ekki stórkostlegt að hugsa til þess hvernig jörðin gengur sinn gang um sólu? Nú er skammdegið hvað mest og þá hallar norðurhvelið frá sólu og því verða skuggarnir langir og dimman djúp. Og jörðin snýst hægt og fer sinn sólarhring á 24 tímum. En svo er hún líka á ógnarhraða á fleygiferð um geiminn þar sem hún hangir fyrir aðdráttarafl sólar eins og bolti í bandi sem sveiflað er af miklu afli. Hugsið ykkur hver fartin er á jörðinni og samt þeytist hún ekki út í buskann, hverfur ekki út í myrkan geiminn og endar í svartholi eyðingar og gleymsku. Eða hvað? Er þetta geimskip á leið til glötunar?

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Svo kvað skáldið Tómas. Og síðar í sama ljóði segir hann:

En áhyggjan vex, er menn nálgast burtferðardaginn.

Hér talar hann um jörðina sem bústað okkar, tímabundinn bústað og síðan um það að við verðum að lokum að yfirgefa hótelið og halda í hina hinstu för.

Ég man eftir því frá bernsku minni að í fréttum Ríkisútvarpsins var talað um heimsendaspá einhvers manns í fjarlægu landi. Ég man vel þegar dagurinn rann upp og ég var á leið í skólann svona 7 eða 8 ára gamall. Um hádegið átti jörðin að farast. En svo gerðist ekkert. Heimsendirinn kom ekki og lífið hélt áfram sinn vanagang. Til eru kristnir trúarhópar sem leggja ofuráherslu á endalok heimsins og taka spádóma um hinstu tíma mjög alvarlega og bókstaflega. Sumir þessara hópa eru til að mynda dyggir stuðningsmen Bandaríkjaforseta í stríðsrekstrinum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Írak og líta jafnvel svo á að þar sé forsetinn aðeins að gera skyldu sína og flýta fyrir endalokunum þegar jörðin mun eyðast og ríki Guðs verða að veruleika í allri sinni dýrð og Kristur koma aftur. Hræðileg trú og hættuleg, í það minnsta þegar menn telja sig geta haft hönd í bagga með almættinu og hannað endalokin, leikstýrt hinu hinsta drama allrar tilveru. Já, það er margt skrýtið í henni Ameríku - og reyndar víðar.

En hvað segir þá kirkjan okkar um endalokin og hinsta dóm? Hvernig mun okkur reiða af í þessu drama dóms og heimsslita? Verðum við dæmd af verkum okkar? Skiptir máli hversu margar jólagjafir ég gef, hve miklu ég eyði í gjafir og góðgerðir? Krefst dauðinn þess sem lífið lánaði í líku hlutfalli og fésýslumennirnir Metúsalem og Pétur? Verðum við krafin um allt upp í skuld? Er Guð einn allsherjar reikningshaldari sem færir allt til bókar sem við höfum gert eða látið ógert? Hann sem sér allt og veit allt, getur hann sleppt okkur í gegnum nálarauga verkaréttlætingar á efsta degi? Já, hann getur það vegna þess að dómshugmyndir í anda faríseanna þar sem gert er ráð fyrir nákvæmu bókhaldi góðverkanna er ekki hugmynd kristinnar trúar um hinsta dóm. Verkin þín skipta engu máli í því sambandi, þú færð enga vildarpunkta fyrir góðverkin þín vegna þess að ævin endist engum manni til að gera nógu gott til að yfirvinna syndina í eigin lífi og breyskleikann allan. Guð hefur farið allt aðra leið til að bjarga manninum en láta hann streða við að frelsa sig í eigin mætti vegna þess að Guð veit að maðurinn megnar það ekki í eigin mætti. Þess vegna sendi hann son sinn og þess vegna höldum við jól. Lúther fann kjarna Biblíunnar allrar og þar með þungamiðjuna í kenningu Krists í einu versi í Jóhannesarguðspjalli (3.16) þar sem segir:

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

En svo segir þar í beinu framhaldi:

Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.

Hér er lykilorð sem öllu skiptir. Við þekkjum það öll hve lykilorð skiptir miklu. Við getum ekki ræst farsímann okkar eða tölvuna, hvað þá komist í tölvubankann nema hafa lykilorð. Lykilorð þessa texta Jóhannesar er TRÚ. Hún skiptir öllu þegar kemur að hinsta andartaki lífs okkar. Og hún skiptir í reynd öllu í þessu líf hér og nú, í verkum okkar í daglegu lífi, í afstöðunni til samferðafólksins og málefna líðandi stundar, í pólitískri afstöðu okkar þegar tekist er á um siðferði og grunngildi í daglegu umræðu. Trúin skiptir öllu í lífi og dauða.

En eigum við þá að láta góðverkin lönd og leið? Erum við þá laus undan því að kaupa jólagjafir og gleðja aðra, leggja góðum málum lið eins og vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar eða öðrum þörfum verkefnum í þágu mennsku og lífs? Nei, góðverkin eru ávöxtur trúarinnar, þakkarfórn fyrir allt það sem Guð hefur þegar gefið okkur syndugu fólki. Sú manneskja sem í reynd hefur heyrt og numið orð Jesú Krists, gerir öðrum gott af hlýðni við trúna og þannig verður verkið gott. En sá sem gerir góðverkið til þess að öðlast viðurkenningu er haldinn sjálfsréttlætingu og er þar með vondur. Verkin hans fá ekki staðist.

Fagnaðarerindið, gleðitíðindin eru fólgin í því að frelsun Guðs er gjöf til okkar sem megnum ekki að borga okkur út úr skuldafangelsi syndar og dauða. Við erum börn Guðs og þurfamenn sem eiga allt undir elsku hans. Þess vegna getum við lyft höfði hátt og horft fram til endalokanna með djörfung því Guð hefur þegar frelsað okkur í Kristi. Og nú sjáum við hvað trúin er dýrmæt, hvað það er mikilvægt að eiga trú og að geta treyst fyrirheitum Guðs í heilögu orði.

En hvernig verður þetta þá með jörðina og endi alls sem er? Við vitum það öll að við munum deyja hvert og eitt. Við munum öll mæta endalokunum sem slíkum á persónulegan hátt. En hvað með endalok allrar tilverunnar? Guðfræðin talar um endalokin með orðunum heimsslit og heimsslitafræði. Á grísku heitir það eskatalógía en orðið merkir fræðin um hið hinsta – ta eskaton.

Mun jörðin farast? Mun hún farast fyrir tilverknað manna, vegna græðgi þeirra og syndar? Verður hún að lokum ofhlaðin fólki sem berast mun á banaspjót og tortíma sjálfu sér? Margt bendir til þess að öllu sem lifir á jörðu stafi hætta af eyðingu. Hamfarir geta eytt öllu. Jörðin getur orðið fyrir loftsteini og allt líf liðið undir lok. Ísöld getur aftur orðið enda þótt mannkyn óttist nú hlýnun fremur en aukinn kulda. Hvað verðum um okkur? Við vitum það ekki en orð Jesú eru merkileg og áhugaverð. Hvernig endalokin verða veit enginn nema Guð.

„Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.“

En trúin segir okkur að allt sé í almáttugri hendi Guðs.

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi, verður Guð, þótt allt á jörðu deyi. Þótt farist heimur sem hjóm og eimur, mun heilagt streyma nýtt líf um geim, Guðs á degi. (Sb 11.2)

Lífið er í hendi Guðs, jörðin og heimurinn, allt sem lífsanda dregur. Lykilorðið er TRÚ. Trúin á Guð, traustið til hans, leiðir okkur í gengum völundarhús lífsins og opnar okkur að lokum leið til himinsins heim.

Lífið er í hendi Guðs og við erum aðeins beðin um að sofna ekki á verðinum, beðin um að halda trúnni vakandi í hjarta okkar. Þess vegna er annað lykilorð sem við fáum í dag: VAKIÐ! Þessi tvö lykilorð skipta okkur öllu nú þegar við bíðum komu hans sem fæddist á jólum og bíðum endurkomu hans, bíðum dóms og endaloka alls lífs, bíðum framtíðarlandsins. Trúum og vökum! Guð kemur sjálfur og bjargar öllu sem hann elskar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.