Sálir læra ekkert

Sálir læra ekkert

Í þessu ljósi ætla ég loks að deila með ykkur áramótaheitinu mínu. Það er svona: Ég ætla að halda áfram að vera þessi snjalli litli kall sem ég er og reyna hvað ég get að valda sem minnstu tjóni.

Ég var á spjalli við góðan samferðarmann um daginn og gömul ljósmynd sem einhver hafði póstað á fésbókinni þar sem við vorum auðkenndir ásamt fleira fólk barst í tal. – Mér finnst þetta ekki vera ég á myndinni, sagði maðurinn. Ég veit að þetta er mynd af manni sem eitt sinn var ég, en síðan þá hef ég átt margar ævir.

Í þessu svari hans var fólginn einhver ferskur heiðarleiki og sjaldgæfur, en samtímis fór um mig köld tilfinning. Ég hafði imprað á ljósmyndinni til þess að rifja upp tengls, taka upp þráð  – Þú þekkir mig ekki, var hann að segja. Við vorum kunnugir en við erum það ekki lengur, því hvorugur er sá sem hann var. - síðan þá hef ég átt margar ævir.

Hugsaðu um það eitt augnablik. Hver þekkir þig? Hver þekkir þig í raun og sannleika? Veit einhver bragðið af því að vera þú?  E.t.v. er ekkert kvöld eins afhjúpandi og gamlárskvöld hvað þetta varðar, þegar við erum rétt búin að standa frammi fyrir sannleiksspegli jólanna og nýtt ár er fyrir dyrum með allri sinni ókomnu gleði og áhyggju. Já, hvernig er bragðið af lífinu þínu? Hvað blasir við þegar þú lokar augunum?

Hjálpumst nú að. Eitt eigum við öll sameiginlegt og það er það að við erum á hreyfingu. Ég er t.d. ekki sami maður og ég var fyrir fimm árum. Ég finn glöggt til þess. Ég man nokkurn vegin hver ég var en þessi bráðum fimmtugi karl sem ég er, honum er ég að kynnast. Við manneskjur erum svo víðfeðm og fjölbreytt og mótsagnakennd að við þekkjum okkur ekki einu sinni sjálf og höfum vart undan að kynnast lífinu eftir því sem það streymir um okkur.  Ekki satt?

Annað sameinar okkur líka, eða sundrar; Við getum öll ferðast óravegu í tíma og í rúmi á augabragði. Ég get horfið í huganum inn á bernskuheimili mitt, sest niður í gamla herberginu mínu við Sólheima 52, fundið lyktina af linolíumdúknum á gólfinu og heyrt strætó aka fram hjá glugganum með gamla ískrinu sem heyrist ekki lengur í strætisvögnum. Ég get líka flogið til Hornstranda eða Kaupmannahafnar í einni svipan og dregið að mér kunnuglegt andrúmsloftið. En svo þarf ég ekki annað en að fá magaverk og þá er ég algerlega staðbundinn í þessum litla rauðbirkna fimmtuga karlmannslíkama. Svona erum við hvert og eitt. Annars vegar erum við óbundinn og frjáls andi en hins vegar agnarsmár líkami; taugakerfi, meltingakerfi, æðakerfi, stoðkerfi...  Þó er það allra skrýtnasta enn ónefnt.

Úr vitund þinni horfir andlit eitt, sagði skáldið.

Og hann var ekki að tala um mannsandann eða líkamann, heldur þriðju eigindina sem enn flækir veruleika okkar allra. Þetta feimna og dulda sem innra með okkur býr og enginn fær að sjá og varla nokkur að þekkja.

Úr vitund þinni horfir andlit eitt

sem enginn sér og hvergi stað má finna.

Þess augnaráð er dulið dimmt og heitt

og dylur sig í skuggum kennda þinna.

(Steinn Steinarr)

Mannstu hvenær þú áttir síðast gott samtal við aðra lifandi manneskju?

Já, hvenær gerðist það síðast að þú sast á spjalli og tíminn fór að fljúga af því að samtalið var gott og það fór að birta á milli ykkar og það liðu mínútur og klukkustundir og það lá engum á og það var talað og hlegið og jafn vel grátið og gleðin yfir því að hafa átt raunverulegt sálufélag bjó með þér lengi á eftir. Hvað er langt síðan.

Sálin er varkár og passar að hreyfa ekki gardínurnar þegar hún kíkir út. Hún skimar út fyrir hurðakarminn í tryggri fjarlægð svo nekt hennar verði ekki gómuð. Þennan eiginleika eigum við öll sameiginlegan um leið og hann sundrar okkur. Sálin er feimin vegna þess að hún er nakin og hún lætur ekki sjá sig nema að uppfylltum öryggiskröfum. Helst í góðu samtali.

Svo er líka annað sem við verðum að muna um sálir: Sálir læra ekkert. Þegar við segjum, - maður breytir ekki öðru fólki, þá erum við að segja einmitt það. Sálir læra ekki. Það er ekki hægt að kenna sálinni eitt né neitt.  Hún er nakin og feimin og hún getur ekkert lært heldur einungis uppgötvað.

Það er stómál að fatta þetta og það þekkja þetta líka allir úr eigin lífi. Áttu ekki reynslu af því hvernig ný sannindi líkt og daga upp á þig. Dag einn sérðu bara ástarsamband þitt eða hjónaband í nýju ljósi og þú veist að það hafa orðið tímamót innra með þér án þess að nokkuð hafi gerst. Það var bara sálin sem gerði uppgötvun, jafnvel á meðan þú svafst. Eða hvernig þú skyndilega skildir stórfjölskylduna þína á nýjan hátt, eða sást sjálfan þig sem persónu eða sem fagmann eða sem elskhuga eða foreldri í alveg nýju ljósi og vissir að þessi nýja sýn var varanleg breyting.

Sálir læra ekki, þeim verður ekki kennt, þær uppgötva og það sem þær uppgötva eru aðal atriði, meginlínur.

Það sem andinn skynjar og augun sjá, allt sem hugurinn grípur og höndin snertir öðlast fyrst merkingu þegar sálin hefur tekið afstöðu til þess.

Hvað eru raunveruleg verðmæti? Sálin svarar því.

Hvað er fallegt? Því ansar sálin.

Hvernig vil ég verja lífi mínu? Sálin mun skera úr í þeim efnum.

Hverju er ást mín bundin? Hvað kveikir ástríðu mína? Hvers vegna geri ég það sem ég geri? Allt eru þetta spurningar sem hvorki andi minn né líkami geta svarað til hlítar, sálin verður að skera úr. Og hún gerir það þótt það taka jafn vel mannsævi eða margar ævir eins og hjá vini mínum.

Hefur þú komið að Jökulsárlóni á björtum degi og horft þaðan upp í kaldan Breiðamerkurjökulinn? Jökullinn er eins og ég og þú, allur á hægri hreyfingu sem vart verður greind þótt merki hennar sjáist berlega. Hann skríður fram hægt en örugglega uns hann fellur í lónið og jakarnir fljóta upp á slétt yfirborðið. Sagt er að það taki u.þ.b. mannsaldur fyrir jökulinn að skríða fram uns jakinn birtist marrandi á yfirborði lónsins. Einhvern veginn þannig er sannleikur lífs okkar. Búmm! Þungur dynkur í nóttinni og eitthvað veigamikið og raunverulegt fellur í lón sálarinnar. Eitthvað sem alltaf var á leið sinni en er nú komið í höfn. Og svo flýtur það upp í köldu mistri morgunsins og blasir við svo að þú veist. Já, og stundum veistu jafn vel að þú vissir og hefur alltaf vitað það sem nú er orðið ljóst.

Við erum svo víðfeðm og fjölbreytt og mótsagnakennd að við þekkjum okkur vart sjálf og höfum ekki undan að kynnast lífinu eftir því sem það berst að okkur og streymir gegnum okkur.

Reinhold Niebuhr var einn merkasti guðfræðingur síðustu aldar og er m.a. höfundur æðruleysisbænarinnar sem svo mörg okkar hafa gert að sinni möntru. Honum varð tíðrætt í skrifum sínum um þau mistök sem falin  eru í því að viðurkenna ekki líf sitt eins og það er. Hann benti einkum á tvær gildrur í þeim efnum, aðra nefndi hann hughyggju en hina náttúruhyggju. Sá sem er á valdi hughyggjunnar veðjar á andann, trúir því að það sem andinn sjái sé Guð og gerir þannig eigin upplifanir að guði og fer á mis við raunverulega Guðsþekkingu. Hinn sem er á valdi náttúruhyggjunnar veðjar á efnisheiminn og þar eð náttúran kannast ekkert við getu mannsandans til að yfirskríða (trancendera) sjálfan sig og aðstæður sínar, þá hættir maðurinn að áliti Niebuhr að þekkja sjálfan sig og njóta þess frelsis sem er einkenni persónulegrar mennskrar tilveru.[1]

Við erum í senn andi og efni og límið sem heldur veru okkar saman og ljær henni merkingu er sálin. Sá sem einblínir á andann í leit að Guði missir af Guði, sá sem einblínir á efnisheiminn í leit að manninum missir af sinni mennsku tilveru.  En þegar við sættum okkur við víðfeðmi og smæð tilveru okkar og tökum því að við erum eins og við erum af Guði gerð sem andi með nær ótakmarkaða yfirsýn í rúmi og tíma en á sömu stundu örmsár varnarlaus líkami sem er að deyja, þá eignumst við sálarró.  Frið læt ég ykkur eftir, sagði Jesús, og var að tala til sálarinnar. Frið læt ég ykkur eftir. Minn frið gef ég ykkur. Ekki gef ég ykkur eins og heimurinn gefur. Hjarta ykkar skelfist ekki né hræðist. (Jóh. 14.27)

Það er í þessum skilningi sem trúin er á sviði sálarinnar og í þessu samhengi má með fullri skynsemi ræða um frelsun sálarinnar. Þarna er líka ástæða þess að ég vel það fyrir sjálfan mig að lesa í Biblíunni minni helst á hverjum degi og biðja til Jesú. Í félagsskap við Jesú Krist flýtur sáttin við mótsagnir eigin lífs upp á lóni sálarinnar og hún fær að uppgötva betur og betur það sem höfundi æðruleysisbænarinnar lá svo mjög á hjarta, að heimurinn er ekki illur vegna takmarkana sinna og það er ekki synd að vera mótsagnakennd og takmörkuð vera. Syndin er öllu heldur sú að kannast ekki við sjálfan sig, una ekki staðreyndum lífsins og fagna ekki tilverunni eins og hún er gefin. [2]

Í þessu ljósi ætla ég loks að deila með ykkur áramótaheitinu mínu. Það er svona: Ég ætla að halda áfram að vera þessi snjalli litli kall sem ég er og reyna hvað ég get að valda sem minnstu tjóni.

Amen.


[1] Reinhold Niebuhr:  “The Nature and Destiny of Man”

Vol. I s. 68-92 (Um náttúruhyggju, hughyggju og rómatíska náttúruhyggju.) Vol. I. s. 168-169 (Um Biblíulega sköpunartrú í andstöðu við hugmyndir tvíhyggjunnar.)

Þess má geta að Niebuhr telur að rómantísk náttúruhyggja hafi komið til sögunnar sem viðleitni til að finna og bjarga einstaklingnum. En sökum þess að hún sér ekkert út fyrir þennan heim bjó hún til ‘hinn stóra einstakling’ – þjóðina.  Fasisminn og Nasisminn urðu m.a. afsprengi þeirrar guðlausu hugsunar. (Niebuhr, Vol I s. 83.)

[2] Niebuhr, Vol I s. 167