Hvatningarorð heilags anda

Hvatningarorð heilags anda

Ég trúi því að nærvera andans í okkar lífum geti verið allt að áþreifanleg og geti birst okkur ljóslifandi þegar við leitum hennar. Og ég trúi því að ef við á annað borð opnum fyrir möguleikann á að heilagur andi sé okkur nálægur og gangi lífsgönguna við hlið okkar að þá getum við eins gert ráð fyrir að þessi sami æðri kraftur muni hafi jákvæð áhrif á okkur, að hann veiti okkur eitthvað sem við gátum ekki skapað sjálf - að hann geri okkur auðmjúkari, þakklátari, nægjusamari og hógværari. Og að þessi náðargjöf sé okkur afhent án allra kvaða.

Guðspjall dagsins : Jóh. 15.26 -16.4


Friður Guðs sé með okkur öllum. 

 

Ég hafði ekki mikið vit á veröldinni og þaðan af síður vissi ég hvað ég vildi gera við líf mitt, enda bara unglingur. En þegar ég steig inn í þessar óvæntu aðstæður og kynntist þessum heimi af eigin raun þá var ekki aftur snúið. Og nú, mörgum áratugum síðar skil ég að þetta gat ekki farið öðruvísi. Það var ekki tilviljun að svo fór sem fór, mér var ætlað að feta þennan veg. 

 

Þessa frásögn heyrði ég í vikunni er ég sat við eldhúsborð eitt og hlustaði á sveitunga minn lýsa atviki sem varð síðar til þess að hún helgaði líf sitt hjúkrunarfræði og þeirri hugsjón að annast um aðra. Hennar tilfinning var og er sú að hún hafi verið leidd á réttan stað án þess að hafa sjálf tekið um það meðvitaða ákvörðun. Án þess að hafa áður leitt hugann að því sem beið hennar og án þess að neitt í hennar umhverfi ýtti á það sem verða skyldi. 

 

Og svona sögur höfum við öll heyrt og mögulega mörg upplifað sjálf, að eitthvað óvænt leiddi okkur á aðra braut en við áður gert ráð fyrir að feta. Við upplifað hjálp sem kom úr annarri átt en við væntum eða ölög okkar hafi orðið önnur en við hefðum nokkru sinni getað spáð fyrir.

 

Og þegar ég hlustaði á þessa góðu konu segja mér sína lífssögu, og hugsaði um leið um  alla litlu hlutina sem valda straumhvörfum í lífum okkar, þá er áhugavert að hugsa um orðaforðann sem við styðjumst við, lýsingarnar, tilfinninguna sem við höfum fyrir því af hverjum hlutirnir fara eins og þeir fara og hver eða hvað það er sem er við stjórnvölinn. 

_________

 

Jóhannes guðspjallamaður á orðið í dag. Guðspjallið hans í heild sinni er um margt af öðrum meiði en hin þrjú enda hefur sá er það ritaði líklega ekki vitað af því að til væru aðrar frásagnir af Kristi hér á jörð. Á meðan hin guðspjöllin þrjú bera keim hvort af öðru vegna tengslanna þeirra á milli stendur Jóhannes einn - og lýsir syni Guðs að mörgu leyti með öðrum hætti en hinir þrír. 

Það skiptir Jóhannes miklu máli að við skynjum son Guðs sem yfirnáttúrlega veru, manneskju sem gerir kraftaverk, manneskju sem er sveipuð dulúð, manneskju sem veit ætíð meira en hann gefur upp. Í guðspjallslestri dagsins í dag er Kristur að undirbúa lærisveinana fyrir hið óhjákvæmilega; að hann hverfi þeim sjónum og í framhaldinu bíði þeirra mótlæti af ýmsu tagi. Og Kristur vill ennfremur að þeir skilji og skynji að þeir verði þó aldrei einir, að heilagur andi fylgi þeim og styðji þá. 

Guðspjallamaðurinn notar orð um heilagan anda sem er best þýtt sem hjálpari. Hjálpari vegna þess að hann situr ekki hlutlaus hjá og fylgist með manneskjunni lifa lífinu heldur er virkur þátttakandi, manneskjunni til heilla. Lærisveinunum til heilla, saga þeirra var rétt að hefjast þegar Kristur reis upp til himna þótt þeir upplifðu það vissulega ekki svoleiðis. Hjálparinn úthlutaður þeim og okkur öllum er höfum þörf fyrir nærveru Jesú í okkar lífum og leitum leiða til að tengjast honum.

___________

 

Við í íslensku þjóðkirkjunni tölum almennt ekki mikið um heilagan anda. Við drögum hann helst fram í dagsljósið og  dustum af honum rykið fyrir Hvítasunnuna, en á þeim degi, sem er einmitt að viku liðinni,  minnumst við þess er heilagur andi opinberaðist þróttlitlum fylgjendum Krists og blés á ný kraft og von í líf þeirra, fyllti þá hugrekki til að halda af stað og breiða út boðskapinn um frelsara sinn öðrum til stuðnings og björgunar. 

 

Og öll höfum við uplifað slíkt, að eitthvað verði til þess að efla okkur og hvetja, fylla okkur áður óþekktum krafti til að ljúka því sem við hófum, byr í seglin til að hlúa betur að okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur eða jafnvel  hugrekki til ganga í burtu frá því sem þjónar ekki hagsmunum okkar lengur. Öll erum við jú tilneydd til að takast á við miserfið viðfangsefni á degi hverjum.  

 

Og við höfum ýmis orð yfir þennan stuðning eða þessa tilfinningu sem bærist innra með okkur - við köllum það innsæi, lífskraft, að tengjast kjarnanum okkar, við fyllumst innblæstri, styðjumst við eigið hyggjuvit, hlustum á okkar innri mann, tengjumst krafti náttúrunnar - ráðum jafnvel í drauma og lesum í bolla - allt leiðir til að skilja og skynja umhverfi okkar og okkur sjálf. Öll í leit eftir fullvissu þess að við erum ekki ein. 

________

 

Ég trúi því að nærvera andans í okkar lífum geti verið allt að því áþreifanleg og geti birst okkur ljóslifandi þegar við leitum hennar. Og ég trúi því að ef við á annað borð opnum fyrir möguleikann á að heilagur andi sé okkur nálægur og gangi lífsgönguna við hlið okkar þá getum við eins gert ráð fyrir að þessi sami æðri kraftur muni hafi jákvæð áhrif á okkur, að hann veiti okkur eitthvað sem við gátum ekki skapað sjálf - að hann geri okkur auðmjúkari, þakklátari, nægjusamari og hógværari. Og að þessi náðargjöf sé okkur afhent án allra kvaða.  

 

Ég trúi því að Guð mæti mér í formi heilags anda. Og að þessi lífskraftur viti betur en ég hvað mér er fyrir bestu, að hann ýti við mér þegar ég verð of værukær, valdi mér ónotum þegar ég geri eitthvað gegn betri vitund og gefist aldrei upp á því að benda mér á nýja farvegi og gönguleiðir. Ég trúi því að æðri máttur hvísli að mér hvatningarorð í eyra á tímum þegar auðveldara væri að gefast upp. Veiti mér nýtt sjónarhorn þegar ég sé ekki handa minna skil, breyti öngstrætum í vegamót, endastöð í nýtt upphaf. 

 

Ég trúi því að þú værir ekki hér í kirkjunni í dag ef þú teldir útilokað að tengjast æðri mætti og tilgangslaust að treysta á eitthvað annað en sjálfan þig. Þessi orð eru því ætluð þér. 

 

Og ég trúi því auk þess þessi heilagi andi, þessi hjálpari, nálgast okkur á ótal vegu en þó ekki síst í gegnum annað fólk. Sem er ein af þeim ástæðum að við erum öðrum háð, tengsl okkar við aðra veita okkur lífsnæringu sem við getum ekki verið án nema í styttri tíma og gera okkur kleift að verða meiri og betri en við hefðum getað orðið án fólksins í kringum okkur. 

Og kannski er það einmitt nú er kórónuveiran ógnar mannkyni og neyðir okkur til að hægja á okkur um stundarsakir sem við heyrum betur en áður í kraftinum sem vill vísa okkur til vegar, skynjum betur verðmæti tengsla og síðast en ekki síst, erum meðvitaðri um fólkið allt í kringum okkur sem nærir okkur og styrkir.  

__________

 

Það er óskandi að öll getum við á efri árum horft með skilningi yfir farinn veg, líkt og hjúkrunarfræðingurinn sem ég ræddi um hér í byrjun, og séð jákvæð áhrif Guðs á tilvist okkar og lífshlaup. Að við upplifum öll handleiðslu Guðs og leiðsögn andans, að við skiljum tilgang tilvistar okkar og að  sorgir okkar og raunir hafi ekki einungis tekið frá okkur heldur einnig gefið okkur eitthvað annað í staðinn. 

Megi heilagur andi gera vart við sig í þínu lífi í dag og veita þér hugarró.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.