Listin að lifa í sátt og samlyndi

Listin að lifa í sátt og samlyndi

Hinn Hinn þjáði Kristur gefur til kynna að kristindómurinn getur orðið uppspretta styrks sem gerir fólki kleift að lifa þjáninguna af og berjast gegn henni.Hinn þjáði Kristur gefur til kynna að kristindómurinn getur orðið uppspretta styrks sem gerir fólki kleift að lifa þjáninguna af og berjast gegn henni. Ég held að þessi mynd að Kristi sem líðandi þjóni hafi gefið öllum þjáðum í stríðshrjáðum löndum styrk í mótlæti og huggun í sérhverri raun.

Þegar ég heyrði að Rússar hefðu hafið stríð í Evrópu með því að ráðast inn í Úkraínu sem er lýðræðislegt og fullvalda ríki þá fylltist ég heilagri reiði í garð Pútíns sem þessa afdrifaríku ákvörðun tók vegna þess að það tapa allir í stríðsátökum. Þau bitna á saklausu fólki, börnum, konum og fólki sem hefur enga burði til að verja sig af ýmsum ástæðum. Hér er mikil hætta á ferðum því að stríðsátökin geta breiðst út til ríkja í nágrenninu. Ég hef ekki trú á því að efnahagsþvinganir ríkja heimsins í garð Rússa hafi mikil áhrif því að þeir hafa búið við efnahagsþvinganir árum saman  og geta lifað með þeim. Þeir ætla sér að knésetja núverandi stjórnvöld í Úkraínu og koma á leppstjórn sem verði þeim hliðholl hér eftir. Úkraínumenn hafa fengið vopn og vistir frá nágrannaríkjum sem vilja að öðru leyti ekki blanda sér í stríðsátökin með því að senda heri til að berjast við Rússa. Það myndi bara kynda undir bálið. Þá yrði erfitt að slökkva þá elda sem kynnu að kvikna.

Í lexíu dagsins fjallar spámaðurinn Jesaja um afdrif þeirra sem kveikja elda í samfélaginu. Þar segir hann. ,,En þér sem kveikið eld og vopnist logandi örvum, gangið sjálfir inn í eigið bál, og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum. Úr minni hendi kemur þetta yfir yður, þér munuð liggja í kvölum.“ ( Jes. 50. 11)

Það er mannlegt að óska Pútín alls ills um þessar mundir en hvað segir almenningur í Rússlandi um þessa innrás?  Ákvað Pútin að fara í þetta ferðalag til að afla sér meiri vinsælda innan lands með því að reyna að hjálpa Rússum sem búsettir eru í austurhluta Úkraínu? Ef það tekst þá hefur hann treyst völd sín enn frekar. En ef almenningsálitið leggst gegn Pútin þá hætta Rússar kannski þessum stríðsrekstri og draga heri sína til baka. Vinsældir hans hafa dalað á undanförnum þremur áratugum sem hann hefur verið við völd. Nú er kannski lag fyrir almenning í landinu að þrýsta á um breytingar á stjórnarfari en ég trúi ekki öðru en að flestir vilji búa við frið og öryggi í nærumhverfi sínu.

Sumir velta fyrir sér hvort þriðja heimsstyrkjöldin sé hafin með innrás Rússa í Úkraínu. Ýmsir neita því og benda á að það sé einnig barist á banaspjótum í netheimum þar sem áróðursmaskínurnar heyja stríð sem aldrei fyrr. Þar eigast við einræðisstjórnir, Rússa og Hvíta Rússlands gegn lýðræðisríkjum um þessar mundir.

Vesturveldin og Rússar búa yfir kjarnaoddum. Við skulum nú vona að þeim verði ekki beitt í þessum hildarleik sem nú er hafinn. En mér skilst að Rússar eigi 6100 kjarnaodda.  Það þarf ekki nema eina kjarnorkusprengingu til að afmá allt líf á mjög stóru svæði í Evrópu. Guð forði okkur frá því að upplifa það á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég vona að stríðið verði ekki langvinnt vegna þess að Úkraínumenn hafa ekki mikla burði til að verja sig en ráðamenn hafa hvatt íbúa til að búa til molotóv kokteila. Vonandi verður stríðið stutt því að þá falla færri í valinn en búist var við og færri koma til með að þjást vegna afleiðinga stríðsrekstursins.

Já, ég ætla að tala meira um þjáninguna en í dag er  sunnudagur í föstuinngang og við virðum krossinn fyrir okkur, þetta þjáningarfulla pyntingartól sem hvílir á hverju altri, sem við berum í hálsmeni, sem blasir við hvarvetna á kirkjuturnum. Krossinn er eitt þekktasta logo eða merki í víðri veröld

Guðspjall dagsins segir frá upphafi ferðar. Jesús talar spámannleg orð til lærisveina sinna þar sem hann segist ætla að taka þá með sér til Jerúsalem þar sem mannssonurinn verði hæddur, húðstrýktur og líflátinn en á þriðja degi muni hann upp rísa. Þeir skildu ekki hvað hann var að tala um.

Öll guðspjöllin gera ráð fyrir því að Jesús vissi að ferðalag hans var vegferð hins líðandi þjóns sem talað er um í spádómsbók Jesaja. Hann var ekki sá Messías, sá jarðneski konungur sem fólkið vænti heldur sá er ganga þurfti veg þjáningar og sjálfsfórnar. Hann átti ekki að sigra í hinu ytra, ekki að frelsa fólkið undan yfirráðum erlendrar þjóðar, Rómverja er sátu um landið.

Hlutverk Jesú var þess í stað að sigra hjörtu mannanna, opna augu þeirra fyrir því að Guð sjálfur væri kominn inn í þeirra kjör til þess að frelsa þá undan syndabyrðinni sem þjáði þá.

Þjáning hans og dauði var ekki tilgangslaus. Við komumst aldrei til botns í því leyndardóma djúpi sem þjáning hans og dauði og upprisa hefur í för með sér fyrir okkur synduga menn. Guð hins vegar segir að hann hafi sætt heiminn við sig með því að gefa okkur son sinn sem var krossfestur til þess að mennirnrir gætu öðlast fyrirgefningu syndanna.

En hvernig gat það farið saman að vera sendur af Guði til þess að frelsa synduga menn og vera síðan deyddur af þeim? Þetta virðist vera fjarstæða. En Páll postuli minnir okkur á það í pistli dagsins í fyrra Korintubréfi að ,,orð krossins er heimska þeim er glatast en okkur sem hólpnir verðum er það kraftur Guðs.“

Það er fagnaðarerindið um ást og kærleika Guðs sem vekur fólk til þeirrar trúar, að Jesús hafi sigrað dauðann með upprisu sinni. Mörgum þykir það vera heimska jafnvel enn í dag en þeim er trúa er sú staðreynd dýrmætt haldreipi í lífsins ólgusjó þar sem mannvonskan og illgirnin virðist svo oft hafa yfirhöndina eins og við sjáum til dæmis í stríðsrekstri undanfarinna daga í Úkraínu.

Þar sem Kristur þekkir þjáningu mannanna af eigin raun þá getur hann sett sig í spor mannanna sem þjást af ýmsum orsökum. Krossinn staðfestir vissulega illskuna í heiminum og sýnir jafnframt að styrkur Guðs lítur út sem veikleiki í augum heimsins. Fyrir vikið er krossinn hneykslunarhella.

En guðfræði krossinss leggur ekki áherslu á þjáninguna heldur miklu fremur sigurinn.

Upprisuboðskapurinn birtir að þjáningin hefur ekki síðasta orðið.

Hinn Hinn þjáði Kristur gefur til kynna að kristindómurinn getur orðið uppspretta styrks sem gerir fólki kleift að lifa þjáninguna af og berjast gegn henni.Hinn þjáði Kristur gefur til kynna að kristindómurinn getur orðið uppspretta styrks sem gerir fólki kleift að lifa þjáninguna af og berjast gegn henni. Ég held að þessi mynd að Kristi sem líðandi þjóni hafi gefið öllum þjáðum í stríðshrjáðum löndum styrk í mótlæti og huggun í sérhverri raun.

Þýski guðfræðingurinn Dorothy Soelle fjallar um guðfræði krossins í bók sinni Suffering. Þar lítur hún ekki einungis á þjáningu Krists sem einangrað sögulegt fyrirbrigði heldur telur hún að þjáning Krists hafi ekki tekið enda. Hún segir að hann þjáist þar sem fólki er misþyrmt.  Það að manneskjan skuli vera sköpuð í mynd Guðs felur í sér að við erum einnig sköpuð í mynd Krists. Það að vera í mynd Krists felst í því að standa með þeim kúguðu og þeim sem minna mega sín. Ef viö tökum undir með Soelle ætti föstutíminn í kirkjunni að vera öðrum þræði helgaður öllum þjáðum. Við speglum þjáningar heimsins í þjáningum Krists. En um leið og við beinum hug og sjónum að þjáningunni vaknar spurningin.Hvað get ég lagt af mörkum?

Ferðalag okkar með Jesú og lærisveinunum til Jerúsalem á föstutimanum getur þannig orðið innlifun og virk þátttaka í þjáningu Krists sem einkennist af umhyggju og kærleika og lætur sig varða hina þjáðu.  Það er nauðsynlegt að kirkjan gefi fólki tækifæri til að tjá líðan sina, vonbrigði og þrár, líka mitt í þjáningunni. Þess vegna er fastan og sá tími þegar við fylgjumst með ferð Jesú og lærisveinanna til Jerúsalem gagnlegur fyrir sérhverja kristna manneskju.

 Já, hvað getum við lagt af mörkum í þágu fólks sem þjáist?  Mér skilst að Rauði krossinn hafi nú þegar hafið söfnun í þágu þeirra sem þjást af völdum stríðsrekstursins í Úkraínu. Við getum lagt eitthvað af mörkum í þá söfnun og beðið fyrir fólkinu sem þjáíst þar.

Þolendur kynbundins ofbeldis hafa í auknum mæli stigið fram á undanförnum árum og sagt sögu sína á samskiptamiðlum og skilað skömminn til gerenda sem er vel.

Nýverið fór af stað þáttasería um heimilisofbeldi hér á landi. Þættirnir hafa vakið mikla athygli og hafa varpað ljósi á hversu algengt mein þetta ofbeldi er í íslensku samfélagi.  Þolendur eru í flestum tilfellum konur og börn. Um er að ræða líkamlegt og andlegt ofbeldi sem við hljótum öll að fordæma. Heimilið á að vera griðastaður þeirra sem þar búa. Ofbeldi í hvaða mynd sem er á ekki að líða. Jesús Kristur líður þar sem sem fólki er misþyrmt til líkama og sálar. Hann finnur þannig til samlíðunar með okkur þegar við þjáumst sjálf vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum.

Við erum ekki laus við þjáningar af ýmsum toga. Það er mikils um vert að vera fær um að láta þjáninguna ekki buga sig, að tapa ekki mannlegri reisn þrátt fyrir hana. Það er nefnilega sitthvað að þjást eða að bugast af þjáningunni.

Sá sem þjáist finnur fyrir mennsku sinni og lærir að lifa með þjáningunni með því að tjá sig um líðan sína á hverjum tíma. Þannig getur hann smátt og smátt skilið við fortíð sína þannig að hún hafi ekk lengur lamandi áhrif á hann og um leið horft fram á veginn og tekist á við ný verkefni.

Sá sem bugast er ekki tilbúinn að horfast í augu við aðstæður sínar og þarf því meiri stuðning í þeim efnum en hinn sem er tilbúinn að tjá sig á hverjum tíma um líðan sína.

Það er mikill fjöldi fólks sem á afar slæmar æskuminningar frá upptökuheimilum ríkisins.

Einn Breiðavíkurdrengjanna lýsti því hvernig Jesús var hjá honum í ofbeldinu. Á meðan á misnotkun hans stóð þá hafði hann frelsarann fyrir sjónum sér með börnin í kringum sig. Hann sagðist hafa horft í augu Jesú og tekið um hendur hans . Þannig sagðist hann hafa getað skilið sig að einhverju leyti frá því sem var að eiga sér stað.

Þessi lýsing minnir um margt á það hvernig blökkukonur í Ameríku hafa lýst því hvernig Jesús var þeim styrkur í að takast á við misnotkun og ofbeldi.

Það er hollt fyrir hvern sem þjáist að taka sér stöðu undir krossi Krists. Krossinn getur annar vegar verið tákn um veruleika þjáningarinnar og hins vegar tákn fyrir upprisuna og vonina. 

Krossinn getur þannig verið tákn andstæðnanna í lífinu, gráts og hláturs, mistaka og sigra, dauða og lífs. Þessar andstæður hjálpa okkur að dreyma um betri veröld þar sem vald fyrirgefningarinnar tekur fram valdi harðstjórans.     Þeir sem glíma við þjáningu í kjölfar ofbeldis eiga fyrir höndum misjafnlega mikla vinnu þegar fyrirgefningin er annars vegar en sú vinna er lykillinn að auknum bata þeirra.    

 Við munum eftir Thelmu Ásdísardöttur sem heimsótti ofbeldismanninn föður sinn eftir að hafa tekið þátt í starfsemi Stígamóta um nokkurt skeið. Hún gat loks séð hann sem manneskju þrátt fyri það sem hann hafði gert henni.

Við þurfum öll á vonarboðskap kristinnar trúar að halda. Íslenska þjóðin þarf að horfa í eigin barm, íhuga og iðrast hins liðna og halda vöku sinni í samtímanum til að vernda börnin okkar sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér í dag. Og við þurfum að friðarmenningu hérlendis sem erlendis og styðja við bakið á þjóðum sem vilja stuðla að friði.

Við stöndum svo að segja í fæðingarhríð sköpunarinnar þar sem skilin milli feigs og ófeigs eru óljós.

Guð hefur falið okkur það verkefni að vera hendur sínar og fætur í þessum heimi. Það er ærið verkefni finnst okkur í þessum heimi sem okkur finnst svo oft vera óvinveittur, þar sem stígarnir eru hálir og hætturnar við hvert fótmál. En postulinn Páll segir.  ,,Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“  Guð hefur falið okkur það verkefni að framkvæma í orði og verki hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika. Ef við leggjum okkur fram við þetta þá verður heimurinn vonandi friðsamlegri.

Ég hef stundum hugsað um friðarmenningu.  Til er í Haag áætlun um frið og alþjóðabaráttu fyrir friðarfræðslu. Þar segir: ,,Friðarmenning mun verða ríkjandi þegar þegnar heims öðlast skilning á hnattrænum vandamálum, verða hæfir til að leysa ágreining og berjast fyrir réttlæti á friðsamlegan hátt, lifa samkvæmt alþjóðlegum reglum um mannréttindi og jafnræði, styðja menningarlega fjölbreytni og sýna jörðinni, sem og hver öðrum, virðingu. Slíku markmiði verður aðeins náð með skipulegri friðarfræðslu.“

Forsenda þess að friður nái að ríkja er að slík mannréttindamenning verði að veruleika. Hernaðarátök og ofbeldi stríða óhjákvæmilega gegn mannréttindum og varanlegur friður og öryggi mun ekki ríkja fyrr en öll mannréttindi verða virt.

Friður er ekki aðeins fólginn í því að vera laus við erjur og ofbeldi, heldur einnig listinni að lifa í sátt og samlyndi þannig að allir þegnar samfélagsins fái notið mannréttinda sinna. Þar ríkir jafnvægi en hebreska hugtakið shalom nær yfir þetta og merkir jafnvægi.

Upphaflega beindist friðarfræðsla að því að koma í veg fyrir að kjarnorkustríð gæti eytt öllu lífi á jörðinni en núna er áherslan lögð á hið víðtæka markmið að gera friðarmenningu að veruleika. Lögð er áhersla á að skilja hvað það er sem veldur ágreiningi og ryðja því úr vegi, svo sem fátækt og hvers kyns mismunun, sem og að kenna fólki að leysa úr ágreiningsmálum. Að finna friðsamlega lausn á ágreiningi er ekki meðfæddur hæfileiki heldur færni sem þarf að tileinka sér frá blautu barnsbeini. Eins og Mahatma Gandhi sagði: „Ef við ætlum að breiða út friðarboðskap í heiminum verðum við að tala fyrst við börnin.“

Flutt í Hafnarfjarðarkirkju 27..02.2022