Í þínu nafni uppvaknaður er ég, Jesú, Guð og maður! Lof sé þér fyrir líf og gæði, líkamans heilsu, föt og fæði, og allt það, þín óþreytt mildi aumum mér til leggja vildi. Bið ég þig, minn blíði herra, blessan þína ei lát þverra. ... (úr ‘ungmenna bænarkorni á morgni’. H.P.) Kennari nokkur bauð nemendum sínum að koma til kvöldsamkomu í skammdeginu fyrir 50 árum. Bekkjarfélagarnir voru samstæðir og áttu það sameiginlegt að unna mjög sínum kennara. Allir mættu. Þetta var spennandi kvöld. Það hafði nefnilega verið boðað til dómsdags og þess var getið í blöðum, hvað vofði yfir. Tímasetningin var nákvæm, klukkustund og mínúta tiltekin. Allir biðu nú örlaga sinna í spennu, sem í þessu tilfelli var þrungin eftirvæntingu, jafnvel galsa. Dagskráin var hlaðin heimatilbúnum viðburðum og þegar stundin rann upp, voru ljósin slökkt, allir héldust í hendur og það mátti heyra saumnál detta. Margar hugsanir þutu í gegn um huga þessara 11 ára gömlu barna, því hér stóð hópur ungs fólks frammi fyrir hinstu dögum, hinstu stund og það var ekki laust við að sumum þætti nóg um. Hvernig myndi þetta gerast? Hvað tæki við? Hefði ekki verið vissara að vera heima hjá pabba og mömmu? Það var gott að mega halda í vinarhönd. Heimsendir kom ekki þetta kvöldið. Það var mikið hlegið og léttirinn var augljós. En kennaranum hafði, af snilld sinni, enn einu sinni tekist að kenna þessum hópi svo eftirminnilega að enginn gleymdi og allir skildu nú betur að hinstu daga reikna menn ekki út, - “ekki einu sinni Sonurinn”, einsog Markús guðspjallamaður segir. Í þessu máli er það faðirinn einn sem veit.
Maður reiknar ekki út örlög sín. Það er hægt að reikna út vexti og spá í veðrið, stilla upp möguleikum í kosningum. Allt er það þó vafa undirorpið. En um leið og útreikningurinn varðar manneskjuna sjálfa og tilfinningar hennar, verður hann bæði óvissari og óræðari. Ef við reynum að setja fram líkur á því hvort hjónaband endist eitthvað eða hvort sjúklingur, sem lostinn er krabbameini lifi stutt eða lengi, þá verður dæmið strax flóknara. Þegar ógæfan dynur yfir, þegar umferðarslysið er orðin staðreynd, eða lát ungmennis vegna ofneyslu er tilkynnt, þegar komið er að barni dánu vöggudauða, svo fátt eitt sé nú nefnt af ósköpum þessa blessaða mannlífs, þá erum við ávallt jafn óviðbúin og lostin í sviphendingu kringumstæðna, sem aðeins eiga sér samsvörun í heimsendi, og verður einungis líkt við dómsdag.
Okkur er ekki ætlað að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það tekur þó ekki frá okkur þá ábyrgð að undirbúa okkur undir morgundaginn, já, lífið framundan. Þess vegna viljum við að börnin fari í skóla og hljóti eins góða menntun og mögulegt er til þess að takast á við framtíðina. Það er líka af sömu ástæðum að varað er við spádómum tækifærissinna og falsspámanna. Það er auðvelt að festast í umhugsun þess, sem spáð er í spilin, og jafnvel að lifa sig inn í spásögnina sjálfa. Þá stjórnar spádómurinn, en ekki einstaklingurinn sjálfur. Slíkt líf getur aðeins haft í för með sér kvíða, og hvers kyns fælni, og í versta tilfelli angist og örvæntingu.
Maður reiknar ekki út örlög sín. En Kristur hvetur okkur hins vegar til þess að læra á lífið og undirbúa okkur fyrir það að mæta örlögum okkar, bæði af karlmennsku og kvenlegu innsæi. Vakið. Verið raunsæ, skoðið aðstæður, spyrjið spurninga um eigin tilveru, löngun og þrár, leitið sannleikans í lífinu, hvað er réttlæti, hvað er miskunnsemi, hvað er hamingja, hvað skiptir máli, hvað er maðurinn allur sem karl og kona. Hvað er Guð?
Það mætti ætlað að spurningin um tilveru Guðs, sé hin afgerandi spurning í lífi hins vel menntaða, tæknivædda, vestræna manns. En á sama augnabliki spyr lítið barn í öðru byggðarlagi hnattarins við mömmu sína: ‘Mamma er nokkuð til að borða’, þ.e.a.s. ef barnið á þá móður á lífi. Og á sama tíma og við reynum að koma fyrir mannveru á Mars, segir drengur við pabba sinn, ´ég vil ekki fara í skólann’ og ástæðan er sú að grimmúð eineltis nær að dafna af ótrúlegum krafti í hámenningarsamfélaginu.
Guðfræðin er eins og aðrar fræðigreinar, bundin þessari tilveru, þessu lífi. Viðfangsefnið er hér. Og ef það er eitthvað sem við getum gert, þá er það að horfast í augu við ástandið, eins það er, takast á við það og reyna að gera eins vel og okkur er unnt. Kannski leyndarmálið felist í því að vera vakandi? Vakið. Hvað meinar maðurinn? Jú, vakið þýðir, að stundin núna er sú, sem skiptir sköpum. Og það kallar á athygli okkar alla, afdráttarlausa einbeitni. Þetta orð, þessi hvatning, kallar okkur til starfa og til þess að gera allt eins vel og við getum, ekki á morgun, heldur núna. Og ef við skoðum eigið líf má sjá, að við reynum ótrúlega oft að vinna okkur frest á hverju sem er. ‘Seinna, elskan mín’ segjum við svo oft, t.d við börnin, þegar hægt er að afgreiða óskina eða þörfina, eða samveruna eða samtalið - núna. Einn góðan veðurdag er það of seint, af því að jarðneskur tími á sér takmörk.
Við skiljum reyndar ekki umræðuna um heimsendi og dómsdag. Ég held það sé okkur ekki ætlað. En við fáum sannarlega forsmekk hans í því, þegar áföllin eiga sér stað og ósköp þessa heims dynja yfir, og manni finnst eins og undirstöðum lífsins sé hrundið undan fótunum. Það er ekki neinn sunnudagsgöngutúr að fara upp í ráðuneyti og leggja fram bænaskjal 25 þúsund manna um betra vegakerfi. Það er gráköld alvara. Og af því að við búum í siðuðu og efnuðu samfélagi, má búast við að okkur takist í sameiningu að verða við bæninni.
Mesta hættan er fólgin í afneituninni. Afneitun staðreynda. Afneitun Guðs. Afneitun þess að maðurinn er hluti sköpunarinnar. Afneitun þess að við erum Guðs börn og þurfum á því að halda að eiga samfélag við hann. Vissulega hefur Guð gefið okkur hæfileika og sköpunargáfu í ríkum mæli, og það er þakkarvert. En við erum ekki skaparinn sjálfur, heldur fulltrúar hans. Börnin hans
Merki hnignunarinnar kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð.
Auk mér skilning orða þinna eru þau lampi fóta minna. Gef mér jafnan gott að læra, góðlyndum við alla vera, varfærum í velgengninni, vongóðum, þó raunir finni. Ljúfi Jesú, með lífi og öndu legg ég mig í þínar höndur, þar vil ég fús að lyktum lenda. Lofaður sértu utan enda. Amen.
(úr ‘ungmenna bænarkorni á morgni’. H.P.) Maður reiknar ekki út örlög sín, en þess vegna má okkur vera ljóst hversu miklu skiptir að taka Guð með í reikninginn. Undirbúningur jóla er kannski dýrmætasta tækifærið til þess. Þegar lífsreynslan tekur á sig mynd hinna síðustu tíma, heimsendis, og birtist okkur sem sársaukafull örvænting þess er missir það sem var svo dýrmætt, verður vitundin um nálægan Guð svo dýrmæt. Þá er einmitt svo gott að mega taka undir kveðjuna, boðskap himnanna: Drottinn kemur. Guð er. Og hann er miskunnsamur. Hann skilur. Hann huggar.
Hvers vegna búum við okkur undir jólin. Ætli það sé ekki af sömu ástæðum og gamli barnaskólakennarinn taldi ástæðu til að kenna nemendum sínum þá staðreynd að heimsendir verður ekki reiknaður út, heldur getum við aðeins búið okkur undir hann með því að treysta á eitthvað gott, eins og það að mega halda í hönd þess, sem er manni nálægur og kær og treysta á það sem er varanlegt, eins og orð Guðs. Þannig gefum við okkur á vald þess, sem stendur fótum á jörðinni, en á sér upphaf og endi í eilífri nálægð og miskunn Drottins Guðs. Og einn er sá sem ‘girtur er réttlæti og trúfesti’. (Jes.11). Hann einn þekkir tímann og stundina. Hann einn hefur vald til þess að snúa heimsendi til þess sem er varanlegt og eilíft, og ósigur í sigur. Dagleg iðkun bænarinnar, dagleg umhugsun um tilvist Guðs, sífellda nálægð hans og náðarsamlegt hjálpræði hans á vegi mannlegs lífs og óhjákvæmilegs dauða, er það eina, sem við getum treyst á hinum efsta degi. Í þeirri fullvissu vonarinnar megum við lifa, gleðjast og fagna. Í þeirri náð megum við leggja mikið af mörkum til hátíðarhaldanna. Í því skjóli miskunnar megum við kenna börnum okkar að virða hann, biðja til hans og auðsýna þakklæti. Frammi fyrir augliti hans og í hans nafni megum við taka undir hróp englanna:
‘Lyftið höfðum yðar, lausn yðar er í nánd’. (Sbr Lk. 21:28). Þess vegna getum við skipst á kveðjunni, óskinni góðu og bæninni, - gleðileg jól.
Lofsyngið Drottni. Dýrð sé Guði.