Með hvaða hugarfari?

Með hvaða hugarfari?

Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og vinna ekki sérstaklega að úrlausnum fyrir fjárvana söfnuði eftir blóðugan niðurskurð gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og huga ekki að sálarheill og högum þjóna hennar gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og halda að það sé hægt að eignast það sama embætti gengur t.d. ekki.

Dæmisagan um verkamenn í víngarði er að ófárra mati ósanngjörn og óréttlát. Það er ekki hægt að neita því svona við fyrstu sýn, en dæmisögur Jesú verða víst ekki lesnar einvörðungu með yfirborð eða veraldarhyggju að leiðarljósi. Það er þaulreynt. Það þarf að kafa dýpra vegna þess að með dæmisögunum var Jesús Kristur að útskýra og fjalla um ríki Guðs, sem spyr um meira en yfirborðsþekkingu-og sýn á lífið. Kann að vera að þetta hljómi hrokafullt en sannleikurinn má ekki líða fyrir það. Lítum fyrst aðeins á þau skilaboð sem þessi saga er ekki að flytja okkur. Það yrði torvelt að halda því fram að hér sé verið að fjalla um það hvernig við eigum að öðlast eilíft líf, því hjálpræðið verður ekki til fyrir verkin. Það myndi æra óstöðugan ef svo væri eins og sjálfur Marteinn Lúther kenndi og upplifði. Postulinn Páll styður við þetta og segir t.d. í bréfi sínu til Efesusmanna: “Því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú.”

Þú veltir kannski fyrir þér hugtakinu náð. Það er ekki alltaf útskýrt sérstaklega. En náðin birtist hvað skýrast í því þegar Guð fórnar Jesú Kristi á krossi fyrir syndir mannfólksins, svo það öðlist samfélag við Hann.

Þess má geta að unnið verður með þetta stóra hugtak með ungmennum á Norðurlandi á æskulýðsmóti á Hrafnagili síðustu helgina í þessum mánuði. Þá verður sko líf og fjör og öll uppskera og verðlaun verða einkum þakklæti og gleði. Guð gefi að svo verði. En ef við höldum áfram eftir þennan útúrdúr, þá er það nokkuð ljóst að ekki er verið að tala um umbun fyrir þjónustuna í garðinum vegna þess að misjöfn voru kjör verkamanna að degi loknum. Í því sambandi má líta til guðspjalls Jóhannesar þar sem frelsarinn sjálfur segir: “Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker.” En um hvað fjallar þá þessi saga? Hún fjallar um það að öll þau sem bregðast við náð Guðs í ríki Hans, þangað sem þau eru kölluð, eru jöfn, standa jöfn frammi fyrir Húsbóndanum. Og við skulum heldur ekki gleyma því að þarna er verið að benda á það hvernig við göngum til þjónustunnar, með hverskonar hugarfari. Það er með gleði og þakklæti.

Það er víst fremur varasamt að ganga til þjónustunnar með það í huga hverju þú hefur áorkað og hverju þú hefur fórnað. Köllun okkar til að þjóna Guði og náunganum verður nefnilega fyrir náð Guðs, ef þú hugsar um það í því samhengi þá eignast þú þakklátt hjarta, sem þjónar án þess að hugsa um umbun eða samanburð.

Húsbóndinn vekur okkur til meðvitundar um það að hugsunin um umbun og samanburð við náungann fær okkur til að setja spurningarmerki við visku og réttlæti Guðs og þar af leiðandi blossar upp afbrýðissemin. Þetta væri svona eins og ef biskupsframbjóðandi, af því að það eru nú biskupskosningar framundan í þjóðkirkjunni, færi að hnýta í mótframbjóðanda sinn og halda því fram að hann væri of ungur eða að fortíð hans væri nú alls ekki nógu fögur. Slíkt er ekki nokkrum manni til framdráttar og flestir sjá í gegnum það. Nei, við eigum að fagna öllum þeim sem kallaðir eru til þjónustunnar í ríki Guðs þótt þeir hafi ekki eins langan starfsaldur eða hafa jafnvel ekki lagt eins mikið á sig.

Umræðan um nýjan biskup og biskupskjör rímar reyndar ágætlega við þessa dæmisögu Jesú. Nú hafa nokkrir prestar gefið kost á sér til embættis biskups Íslands og óvíst að allir séu komnir fram, þar sem framboðsfrestur rennur út í lok þessa mánaðar. Það er merkilegt að sjá hversu margir finna til köllunar að sinna þessari æðstu stöðu þjóðkirkjunnar. Það eru án vafa flóknir tímar í kirkjunni og ýmislegt sem þarf að byggja upp, en kannski er það einmitt ástæðan, verkefnið er sannarlega ögrandi. Þá má ekki gleyma vígslubiskupsembættinu á Hólum í Hjaltadal, sem þarf einnig að manna á þessu ári en það er ekki síður mikilvægt og skiptir landsbyggðina mjög miklu máli. Það er því ekkert óeðlilegt að árið 2012 sé víða kallað biskupsárið mikla.

Köllun til þjónustu innan kirkjunnar er gjarnan kennd við hina ytri og hina innri. Ytri köllunin tengist starfsreynslu, námi, og hvatningu frá öðru fólki, sú hin innri tengist trú, lífsýn og lífsreynslu. Þetta á við um hverskonar þjónustu innan kirkjunnar, þjónustunni í víngarði Drottins. Þó svo að samanburður geti verið vafasamur, eins og áður hefur verið komið inn á, þá get ég ekki staðist þá freistingu að draga fyrst og fremst fram hina innri köllun, eins nauðsynleg og sú hin ytri getur verið. Innri köllunin tengist nefnilega fremur því með hvaða hugarfari viðkomandi ætlar að ganga og gengur til þjónustunnar eins og dæmisagan í dag leggur áherslu á.

Þá breytir engu hvort það er karl eða kona sem sinnir embættinu. Það að ætla sér t.d. að gegna æðsta embætti kirkjunnar og hafa sjálfan sig að markmiði gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar til þess að vekja einkum athygli á sér og sinni persónu gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og þola ekki gagnrýni gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og gera menn að sérstökum vinum eða sérstökum óvinum gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og viðurkenna ekki réttindi ákveðinna þjóðfélagshópa gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og leggja ekki sérstaka áherslu á framtíð kirkjunnar sem er barna og æskulýðsstarf gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og vinna ekki sérstaklega að úrlausnum fyrir fjárvana söfnuði eftir blóðugan niðurskurð gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og huga ekki að sálarheill og högum þjóna hennar gengur t.d. ekki. Það að ætla sér að gegna æðsta embætti kirkjunnar og halda að það sé hægt að eignast það sama embætti gengur t.d. ekki.

Það er hægt að hafa hátt um siðbótarkröfur innan íslensku þjóðkirkjunnar og ýmsir vilja meina að nú þurfi að siðbæta hana eftir allt sem á undan er gengið. Það er vel en siðferðisleg umræða hefur jú átt sér stað í kirkjunni í töluverðum mæli undanfarin ár t.d. hvað snertir málefni samkynhneigðra og svo það er viðkemur kynferðisofbeldi. Það skiptir víst máli að vera vel vakandi á siðferðisvaktinni en nú þarf kirkjan líka að vara sig á því að annað sem til hennar heyrir gleymist ekki. Brýnt mál er t.a.m. fátækt á Íslandi sem er staðreynd, bæði einstaklinga og líka safnaða, báðir aðilar þurfa að standa undir sér og reka sig svo lífið kallist sómasamlegt. Þetta er málefni sem krefst skýrari umræðu og framtíðarsýn og frekara innlegg af kirkjunnar hálfu í þjóðfélagsumræðunni. Við vitum af hjálparstarfi kirkjunnar, sem vinnur óeigingjarnt og mjög svo kærleiksríkt starf og hefur létt undir hjá mörgum heimilum innan sem utan lands og ótalmargt sem hefur verið hugsað og skipulagt á þeim vettvangi. En það má einnig efla kærleiksþjónustuna í þessu sambandi því fátæktin einangrar. Þá eflingu þarf að gera í góðu samráði og samstarfi við þjóna, safnaðastjórnir o.fl út í söfnuðunum.

Og síðan eru það sjálfir söfnuðurnir, sem þurfa jafnframt á styrk að halda til að geta gefið af sér í einu og öðru tilliti. Segjum t.a.m. litlir söfnuði á landsbyggðinni,sem þurfa að reka fleiri en eitt kirkjuhús og kosta auk þess safnaðarstarf, helgihald í bland við margvíslega aðra þjónustu, það þarf að hlúa verulega að þeim. Sóknirnar fimm innan Laufássprestakalls rækju sig ekki ef hér væri ekki unnið gríðarlegt sjálfboðaliðastarf. Hér syngja kirkjukórar við hverja messu án endurgjalds, þar er gengið til þjónustunnar af ríkum gleði-og þakkarhug. Hér hefur aðstoðarfólk í barna- og unglingastarfi stutt við án þess að fá eins og einn denar að launum og fyrirtæki og einstaklingar innan sókna hafa lagt viðhaldi og safnaðarstarfi lið. Hér hafa sóknarnefndir ásamt meðhjálpurum unnið prestakallinu gríðarlegt gagn án þess að þiggja fyrir það nokkra veraldlega umbun. Fyrir þetta ber að þakka einlæglega og biðja fyrir, þetta er ekkert sjálfsagt og ef ekki kæmi til þessa sjálfboðaliðastarfs þá rækju þessir söfnuðir sig engan veginn, það væri beinlínis af og frá. Og ekki einn einasti safnaðarmeðlimur möglar.

En kirkjuyfirvöld mega vita af þessu og biskupskandídatar mega það líka í þeirri kosningaumræðu sem nú fer af stað um stefnu kirkjunnar, framtíðarsýn og uppbyggingu. Starfið í söfnuðunum verður að virka, það verður að tryggja starfsgrundvöll safnaðanna og styrkist þeir styrkist trú fólks á kirkjunni, sem hefur án nokkurs vafa fengið á sig brotsjó með tilheyrandi úrsögnum. Það er því miður staðreynd en eitt er víst að fátt annað kallar fólk til kirkjunnar aftur en heil og ómenguð stefna í málefnum safnaðanna í ljósi nýs umhverfis í íslensku þjóðfélagi, dugnaður í safnaðastörfum og metnaður, heilindi og næmi í samskiptum innan þeirra, öflug þjónusta við æskulýðinn, vegna þess að hann er framtíðin og vingjarnlegt og sveigjanlegt viðmót gagnvart öllum þeim sem til kirkjunnar sækja. Slíkur andi getur gert annars þungt helgihald létt og létt helgihald að þvílíku ævintýri. Það verður allt magnaðra ef annars hrein ánægja býr að baki safnaðarstarfinu í heild í sinni.

Já, þetta er spurning um hugarfar, með hvaða hugarfari gengur þú til þjónustunnar? Þetta er verðug spurning til biskupskandídata, því sá eða sú sem valin verður þarf að gera það upp við sig því hlutverk biskups er stórt og mikið. Þið viljið kannski vita aðeins hvert það er í fáeinum atriðum, en það má líka kynna sér það frekar á kirkjuvefnum kirkjan.is “Biskup Íslands er æðsti embættismaður kirkjunnar. Hann hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. Biskup Íslands vígir presta og djákna og setur þeim vígslubréf. Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beitir sér fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi. Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir. Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. Biskup Íslands situr í kirkjuráði, en kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Biskup Íslands boðar til almennrar leikmannastefnu til að fjalla um málefni leikmanna, safnaða, hlutverk og störf sóknarnefnda, svo og um önnur mál er lúta að þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins og kristileg félagasamtök.”

Þetta og margt fleira tilheyrir verksviði biskups Íslands. Fleiri fá nú að kjósa sér nýjan biskup, það er búið að útvíkka lýðræðið með þeim hætti að formenn sóknarnefnda um allt land kjósa og varaformenn einnig á suðvesturhorninu. Það kemur væntanlega til vegna þess að formenn sóknarnefnda eru mjög margir á landsbyggðinni t.d. eru fimm sóknarnefndarformenn bara í Laufásprestakalli. En það er ánægjulegt að sjá aukið lýðræði í þessu samhengi, það er þróun í rétta átt því það er jú mikil ábyrgð sem því fylgir að kjósa nýjan leiðtoga í kirkjunni, hirði hirðanna, andlegan leiðtoga þjóðar.

“Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu, og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.” “Farið þið einnig í víngarðinn.” Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen.