Við og þau

Við og þau

Raunin er líka sú að kristin trú hefur breytt heiminum. En hún gerir það ekki með því að telja okkur trú um það að við séum alltaf óvart búin að velja rétta hlutskiptið, að okkar hópur sé betri öðrum hópum. „Við“ við séum betri en „þau“.


Nú erum við aftur farin að ræða um kristnifræðikennslu í grunnskólum. Sá ágæti þingmaður Birgir Þórarinsson miðflokksmaður undirbýr frumvarp þessa efnis. Hann bendir á máli sínu til stuðnings að þekking á frásögnum Biblíunnar liggi til grundvallar skilningi á stórum hluta menningar okkar. Þarna erum við Birgir sammála.

 

Áhrif Biblíunnar

 

Eftir sífelldan niðurskurð á þessum kennslugreinum að því ógleymdu að skólayfirvöld hér í Reykjavík og víðar virðast líta á kirkju og kristindóm sömu augum og sóttvarnaryfirvöld, veiruna, stendur það eftir kunnátta kynslóða á þessu sviði er hverfandi lítil. Og við sem höldum úti þjónustu frjálslyndrar þjóðkirkju höfum æ mikilvægara hlutverk að miðla áfram þeirri þekkingu, visku, boðskap og sögum sem Biblían hefur skilað af sér.

 

Biblían er jú svo margslungið rit og hefur veitt listamönnum úr öllum greinum innblástur fyrir verk sín. Og ekki bara miðlað sögum hennar í málverkum og frásögnum – heldur sett þær inn í samhengi síns tíma og fundið það hvernig þær eiga erindi við samferðafólkið þótt aðstæður hafi verið ólíkar því umhverfi þar sem sögurnar urðu til.

 

Blökkumenn í Bandaríkjunum sem strituðu á bómullarökrunum sáu í ánni Misissippi hliðstæðu við ána Níl þar sem hinn Guðs útvaldi lýður þrælaði í ánauð. Og leiðtogar þeirra áttu sér fyrirmynd í Móse sem barðist fyrir frelsun þjóðar sinnar.

 

Hér uppi á Íslandi fyrr á öldum rifjuðu yfirvöld upp sögur af miskunnsemi Krists er hann fyrirgaf brotlegum og sýndi þeim mildi fremur en refsingu. Í lagatextum, jafnvel frá hinni óvægnu 16. öld var vísað í orð Jesú um að allt sem við gerðum okkar minnstu systkinum það hefðum við gert honum.

 

Og þrátt fyrir að farg staðnaðrar hagstjórnar, kynjaskiptingar og stéttskiptingar hafi legið ofan á þessum boðskap, þá var hann þar engu að síður, ólgandi eins og kvika í undirdjúpinu. Og svo þegar tíminn kom þá losnaði hann úr læðingi með krafti og breytti lífi fólks.

 

Þannig var það í Austur Evrópu þegar bænafólk í kirkjunum hélt út á torgin og boðaði fólkinu lausn undan ánauð einræðis. Þannig var það í Suður Ameríku þar sem frelsunarguðfræðingar predikuðu um jöfnuð og réttæti og máttu margir hverjir gjalda fyrir það með lífi sínu. Þannig var það á Íslandi þegar hópur innan kirkjunnar barðist fyrir réttindum samkynhneigðra.

  

Erindið var alltaf það sama – að flytja áfram þann boðskap sem birtist okkur í hinni helgu bók – boðskap um að hver manneskja eigi sína helgi sem ekki megi rjúfa, að kærleikurinn til náungans sé æðsta köllun okkar og skylda. Að auðursöfnun og völd geti spillt einstaklingum og samfélögum.

 

Og, já hann á erindi við íslensk grunnskólabörn. Það verður að teljast mikil furða að þessar áheyrilegu sögur og áhrifamiklu – fái ekki aðgang inn í skólastofur hér á landi. Þarna er ég sammála honum Birgi, miðflokksmanni.


Illir andar og óttinn við hið óþekkta

 

Nú er fyrsti sunnudagur í föstu og genginn er í garð tími forsjálni og áminningar, nokkuð sem mannkynið er farið að skilja að er órjúfanlegur þáttur þess að geta átt farsæla framtíð og hlúa að því umhverfi sem komandi kynslóðir eiga að taka við.

 

Það er alvara yfir þessum tíma kirkjuársins og textarnir sem við fáum að leggja út af eru líka margir hverjir mergjaðir. Biblían geymir vítt litróf hugsana og skilaboða, huggun og dýrðarsöng. Og nú er tónninn alvörugefinn. Við skynjum það mögulega betur en oft áður hvað þessi hlið tilverunnar getur mótað tilveru fólks og líf. Flest hefur verið í lamasessi í nánast heilt ár. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni þennan tíma þar sem við höfum þurft að endurmeta venjur okkar og hátterni.

 

Guðspjallið á þessum fyrsta sunnudegi föstunnar talar inn í þessa hugsun. "Illir andar hlýða okkur," segja trúboðar við Jesú. Hér er vissulega talað úr hugarheimi sem er okkur framandi. Illir andar voru hluti af þeirri heimsmynd sem fólk hafði á þessum tíma. Mannshugurinn er mótaður til að greina hættur og háska. Og það sem meira er, skuggamyndir í rökkri verða oft fyrir tilstuðlan ímyndunaraflsins að andlitum og líkömum. Þannig verða ýmis fyrirbæri dauð og skaðlaus tilefni þess að fólk mótar sér hugmyndir um alls kyns ógn og skelfingu.

 

Þetta er okkur áskapað. Kynslóðirnar hafa persónugert fleira en það sem er raunverulega háskalegt. Þótt líf okkar sé nú upplýst og uppljómað af ljósum og þekkingu erum við engu að síður enn með sömu móttöku í huga okkar þegar kemur að því að túlka og meta það sem augun greina.

 

Já, við vitum hvað það var sem angraði fólk hér forðum er það leit svo á að það væri haldið einhverju því sem kallað var illir andar. En ef við rýnum inn í huga okkar nútímamanna sjáum við að enn eimir af því sama og lét fyrri kynslóðir sjá púka í hverju horni og andaverur í rökkrinu.

 

Það er svo merkilegt hvernig við mennirnir virkum. Óttinn við hið framandlega hefur enn áhrif á líf okkar og gjörðir. Það sjáum við í umræðu daganna, ásakanir gegn einstaklingum sem koma úr öðru umhverfi, líta ekki eins út. Við greinum það hversu fljótt fólk fellir dóma yfir náunganum.

 

Þetta er víst mannlegt segja fræðin. Flokkadrættir og hjarðeðlið eru greypt inn í huga okkar og sálu. Jafnvel þótt staðreyndir tali sínu máli virðist það vera þrautinni þyngra að fá okkur til að sjá heiminn með augum annarra. Dæmin úr sögunni sýna líka hversu létt verk og löðurmannlegt það virðist vera að fá fólk til að vinna hin verstu ódæðisverk, einkum í ríkjum þar sem illskan situr að völdum. Þar er ekki spurt um gott eða illt, rétt eða rangt, þar eru bara við og þau.

 

Sjálfsrýni kristninnar

 

Stundum finnst mér að erindi Biblíunnar við okkur sé meira og minna það að særa út úr okkur þá illsku sem fær okkur til að draga fólk í dilka eftir uppruna, útliti eða öðrum sérkennum. Og í því ljósi þá þykir mér það alltaf svolítið kyndugt að hópar þeir sem hafa með opinberum hætti talað fyrir því að loka landamærum fyrir fólki á flótta, bera með sér tortryggni í garð fólks af öðrum uppruna og skuli einmitt vera þeir sem vilja veg Biblíunnar sem mestan í samfélagi okkar. Því þetta er einmitt andstætt því sem biblíusögurnar boða.

 

Við Birgir erum því hjartanlega sammála um kristnifræðikennsluna en ég á oft erfitt með að hlýða á erindi samflokksmanna hans um ýmis málefni.

  

Það merkilega er að þegar við lesum frásagnir af Jesú í guðspjöllunum þá birtist okkur hárbeitt gagnrýni á ríkjandi trúarbrögð. Sömu afstöðu má finna í ritum spámanna og í bréfum postulanna. Hér áðan hlýddum við á þessi orð Páls: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar. Prófið ykkur sjálf.“ Þetta er jú lykilatriði þegar kemur að því að boða trú og flytja hana. Því ekki er allt gull sem glóir.

 

Og í Davíðssálmunum er talað um þau sem fylgja hinum góða vegi trúarinnar að þeim muni falla allt gott í skaut. Hvað felst í því? Eru hér loforð um vellystingar og auð? Nei, þetta snýst um það að uppfylla kölllun okkar, að sinna hlutverki mennskunnar, að lifa því lífi sem verðugt og ríkt að gjöfum og innihaldi.

 

Þessar sögur eiga erindi við alla. Raunin er líka sú að kristin trú hefur breytt heiminum. En hún gerir það ekki með því að telja okkur trú um það að við séum alltaf óvart búin að velja rétta hlutskiptið, að okkar hópur sé betri öðrum hópum. „Við“ við séum betri en „þau“. Nei, trúin hvetur okkur í sífellu til að líta í eigin barm og sá er einmitt tilgangur föstunnar, að við skoðum líf okkar og spyrjum hvað felist í því að ganga á vegi Drottins. Það er sísætt verkefni kristinna einstaklinga og kristinna samfélaga.