Heilsulindir

Heilsulindir

Með því að koma til kirkju í dag ert þú að vitja vatnsins helga, skírnar þinnar.

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann. Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: Viltu verða heill?

Hinn sjúki svaraði honum: Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.

Jesús segir við hann: Statt upp, tak rekkju þína og gakk! Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

En þessi dagur var hvíldardagur, og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.

Hann svaraði þeim: Sá sem læknaði mig, sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!

Þeir spurðu hann: Hver er sá maður, sem sagði þér: Tak hana og gakk?

En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.

Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.

Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. Jh 5:1-15

Heilsa Þeim fjölgar stöðugt sem leita á vit landsins, náttúrunnar, sköpunar Guðs og vilja njóta þeirra gæða, nema þann lofsögn og prédikun sem þar er fluttur eilíflega. Óspillt náttúra, ósnortin víðerni, hreint loft, heitar uppsprettur, ferskt bergvatnið, sundlaugarnar um allt land, Bláa lónið og fleiri staðir laða til sín fólksfjölda sem er meiri en tala landsmanna allra. Þetta harðbýla land er heilsulind og hér býr ein sterkasta og heilbrigðasta þjóð í heimi.

Heilsulind. Hann hafði beðið í 38 ár við heilsulindina, afskiptur, fámáll og uppburðarlítill. Vatnið hafði líknandi áhrif og ekki spillti að engill Drottins hrærði við því endrum og sinnum og jók mönnum trú á mátt Guðs. Hann beið við vatnið. Hafði beðið lengi. Vissi af tækifærinu, vissi hvað í vatninu bjó en hann hafði sig ekki í að biðja um aðstoð við að koma sér í vatnið. Hann vissi um lausnina en nýtti sér hana ekki.

Við höfum öll verið borin á örmum að vatninu í skírnarlauginni og vígð eilífðinni, vígð þeirri veröld sem leysir þessa af hólmi, böl hennar og þjáningu, vígð eilífðinni, nýjum himni og nýrri jörð sem af þessum heimi mun vaxa í fyllingu tímans. Skírnin endurnýjast í hvert sinn sem trúin er játuð og tekið er undir lofsöng heilagrar kirkju sem sameinar lifandi og liðna í eilífri lofgjörð. En hvað gerum við með trúna? Er því ekki þannig farið með okkur mörg að við vitum af trúnni og mætti hennar en gerum lítið með hana alla jafnan. Við liggjum við lindina, höfum e.t.v. legið þar í 38 ár, sum lengur, önnur skemur, bíðum þess að eitthvað gerist, einhver komi og hristi af okkur doðann.

Jesús sá hann og hann sér þig Þannig var komið fyrir hinum sjúka sem lá við Betestalaug. Jesús sá hann, segir í textanum. Augu hans voru og eru vökul. Takið eftir þessum lykilorðum sem Jesús mælir við hinn sjúka: Viltu verða heill? Hann gengur ekki að manninum og læknar hann gegn vilja hans heldur spyr: Hvað vilt þú?

Hvað viltu að ég geri fyrir þig? Hvað viljum við að Guð geri fyrir okkur? Getur verið að margt sem við þráum verði ekki v.þ.a. við biðjum ekki? Gjörið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði, með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð, segir postulinn. Tjáið vilja ykkar, segið frá þörfum og löngunum. Það er skýlaus vilji Guðs. Og þannig þurfa samskipti að vera milli Guð og manna og líka manna á meðal. Hve oft verður ekki misskilningur á heimili, á vinnustað eða á örlagastund v.þ.a. fólk tjáir sig óskýrt eða tjáir sig alls ekki. Skilaboð Jesú voru og eru skýr: Viltu verða heill? Viltu verða heil?

Kristur vitjar okkar, hann vitjar okkar í bæninni, í orði sínu, í guðsþjónustunni, í atvikum daglegs lífs, hann vitjar okkar í öðru fólki.

„Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín. . . Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Mt 25.35-36, 40)

Kristur er þannig mitt á meðal okkar, vökul augu hans fylgja okkur og hann spyr hvort við viljum verða heil og um leið beinir hann sjónum okkar að neyð heimsins.

Heilsan felst í því að lifa öðrum Þeir eru margir sem bíða á sjúkrastofnunum og heima, bíða þess að einhver komi, einhver mæli hvatningarorð, lausnarorð, taki af þeim ómakið og hjálpi þeim að komast til heilsu. Í sumum tilfellum getur dugað að höfða til viljans eins og Jesús gerði. Í allri velferðinni skipta þau þúsundum sem eru afskipt. Geðdeildir eru yfirfullar af fólki sem fáir eða í sumum tilfellum engir heimsækja og sumir hafa legið þar í 38 ár. Og á meðan þeysum við um í önnum og eftirsókn eftir vindi, fjösum út af verðlagi og því sem kemur við pyngjuna, en hirðum lítið sem ekkert um þau sem hrópa á hjálp að ég tali nú ekki um þau sem hafa ekki getu t.þ.a. biðja um aðstoð eins og maðurinn við Betestalaugina. Jesús vitjaði hans og hann kallar okkur til að vitja þeirra sem eiga um sárt að binda. Hann beinir sjónum okkar ávalt frá okkur sjálfum og að öðrum því hann veit að lífið fær fyrst merkingu og tilgagn þegar því er lifað í fórn og í þágu annarra. Lögmálið um að öðlast með því að gefa og finna með því að tapa reynist okkur sífellt erfitt að höndla. Þannig lifði hann sjálfur, gaf og gefur fólki færi á að lifa í sér. Þetta orðaði Páll postuli svo: Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Hann leitaðist við að verða eins og Kristur, með því að deyða eigið sjálf og lifa eins og hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Lög og reglur - hagsmunir og sérhyggja Það eru fleiri hliðar á frásögunni við laugina en þær sem hér hefur verið lýst. Eftir er að geta um hvíldardaginn og það hvernig Jesús hafnar ómanneskjulegum lögum og reglum í óþökk Gyðinga sem hófu að ofsækja hann eftir þennan atburð. Kristur hefur manneskjuna ávalt í fyrirrúmi og heill hennar. Öllum afsökunum sem settar eru fram til þess að menn komist undan því að vinna miskunnar- og kærleiksverk er skilyrðislaust hafnað af honum. Okkur er svo gjarnt að reyna að komast undan því að þjóna náunganum og finnum til fjölda afsakana þegar okkur sýnist svo að við eigum í erfiðleikum með að koma öðrum til hjálpar. Gyðingarnir ömuðust við því að maðurinn bar rekkju sína sjálfan hvíldardaginn. Þeir hugsuðu ekki um hag hans eða heilsu heldur lögin og reglurnar. Þau eru mörg ólögin sem unnið hafa gegn fólki í tímans rás. Löggjafarsamkunda okkar Íslendinga er mikilvæg stofnun og fæst m.a. við það að lagfæra löggjöfina og betrumbæta til þess að tryggja að fólk verði ekki órétti beitt eða mismunun. Þar er unnið göfugt starf en um leið er hart barist á vettvangi stjórnmálanna fyrir sérhagsmunum og hyglingum handa þeim sem hverju sinni eru vinir valdsins. Þess vegna er það heilagt hlutverk kirkjunnar að vaka yfir og standa vörð um heill fólks og hamingju. Og þetta tvennt verður aldrei skilið frá hversdeginum, kjörum fólks og félagslegum aðstæðum. Manneskjan lifir og hrærist í þjóðfélaginu og það er hættuleg afstaða sem birtist stundum hjá stjórnmálamönnum sem vilja að kirkjan hugi einungis að eilífðinni en ekki þessu lífi. Slík afstaða ber vott um þröngan skilning á hlutverki kirkjunnar, hrappallegan misskilning á kristinni trú sem er í raun og sann einn mikilvægasti aflvaki framfara og mannréttinda í heiminum um aldir þó vissulega beri þar skugga á vegna breyskleika misviturra manna eins og dæmin sanna í sögunni. Kirkjan sem hreyfing fólks með réttlætiskennd í anda Krists á að vera spámannleg rödd og byltingarafl í sérhverju þjóðfélagi, hreyfing sem hafnar sinnuleysi um hag fólks og hamingju, en berst fyrir bættum kjörum allra á öllum tímum.

Skírnin og altarisgangan - heilsulindir Við erum hér saman komin í kirkju, við vatnið, við skírnarlaugina, laug endurfæðingarinnar, vatnið sem hreinsar af allri synd og læknar sálina vegna þess að helgur andi Guðs hrærir við þessu vatni og gefur því eilífan kraft. Með því að koma til kirkju í dag ert þú að vitja vatnsins helga, skírnar þinnar og þar með endurnýjar þú kraft þess þegar þú svarar spurningu Jesú játandi: Viltu verða heil, viltu verða heill? Já, ég vil verða heil, ég vil verða heill. Lifum þá játningu í erli daganna og þiggjum þau ráð sem Kristur gefur á hverjum tíma, ráð sem eru til heilla en ekki óhamingju, ráð sem leiða til hagsældar lífs og heims, lands og þjóðar, ráð sem ríma við dýrðlega sýn Krists um nýjan himinn og nýja jörð þar sem réttlætið grær og hamingjan heilsar hverju barni Guðs.