Áhugasviðið

Áhugasviðið

Öðrum megin við múrinn grær allt í garðinum, hinum megin drottnar dauðinn. Og til marks það hversu náið sambandið er þar á milli þá lærir áhorfandinn að húsfreyjan klæðist ekki aðeins flíkunum sem áður tilheyrðu hinum myrtu gyðingum. Hún nýtir öskuna af þeim sem áburð. Leikur barnanna er við nánari aðgát ekki eins saklaus og í fyrstu kann að virðast. Þau handfjalla gulltennur sem hafa ratað inn á heimilið. Eldra systkinið lokar hið yngra inni í garðhýsinu og hvæsir eins og þegar hylkin sem tæmd eru ofan í gasklefana. Og Höss, sá sem stýrir búðunum glímir við þráláta kviðverki sem kalla fram uppköst.

„Áhugasviðið“ eða Das Interessengebiet, er heiti á þýskri kvikmynd sem ég sá um daginn með Óla syni mínum. Hún er byggð á skáldsögu frá árinu 2014 Zone of Interest eftir Martin Amis og fjallar um helförina. Já hún er enn ein slík, en sýnir okkur óvenjulega hlið á þeim hryllingi. Við kynnumst gerendunum en fórnarlömbin eru lítt sýnileg.


Útveggirnir

 

Á þessum degi þegar við minnumst þjáningar og pínu Jesú Krists er bölið okkur hugstætt. Þessi frásögn kallast á sinn hátt á við píslarsöguna sem við höfum hlýtt á hér við þessa athöfn.

 

Sviðsmyndin birtir aðeins útveggi útrýmingarbúðanna í Auschwitz sem eru rétt við lóðamörk stjórnanda búðanna, SS mannsins Rudolfs Höss og fjölskyldu hans. Þau hafa komið sér upp fallegu heimili með garði þar sem litríkar plöntur vaxa. Við sjáum ekkert af því sem fer fram hinum megin við vegginn en velmegun fólksins hvílir vitaskuld á ódæðum sem þar voru unnin.

 

Við heyrum skothvellina, angistarrópin, gufan úr lestunum stígur til himins og reykurinn stendur upp á strompum líkbrennslunnar. Við fáum að gægjast inn á fund þar sem verktakar lýsa fyrir söguhetjunni hvernig þeir hafa hannað enn öflugri ofna sem afkasta meiru en hinir gömlu. Á þeirra vörum eru líkamar fólksins eins og hver annar farmur.

 

Stundum er sagt að hryllingurinn felist í því sem við sjáum ekki, búum okkur til myndir í huganum og þær geta setið lengur í sálinni en það sem augað nemur. Þessi frásögn rær á þau mið, þetta fólk sem virðist í fyrstu ekki líklegt til að gera flugu mein.

 

Öðrum megin við múrinn grær allt í garðinum, hinum megin drottnar dauðinn. Og til marks það hversu náið sambandið er þar á milli þá lærir áhorfandinn að húsfreyjan klæðist ekki aðeins flíkunum sem áður tilheyrðu hinum myrtu gyðingum. Hún nýtir öskuna af þeim sem áburð. Leikur barnanna er við nánari aðgát ekki eins saklaus og í fyrstu kann að virðast. Þau handfjalla gulltennur sem hafa ratað inn á heimilið. Eldra systkinið lokar hið yngra inni í garðhýsinu og hvæsir eins og þegar hylkin sem tæmd eru ofan í gasklefana. Og Höss, sá sem stýrir búðunum glímir við þráláta kviðverki sem kalla fram uppköst.

 

Hann er jú ábyrgðin uppmáluð, áhyggjufullur yfir ýmsum hliðum rektsrarins en þess á milli nýtur hann þeirrar velmegunar sem staða hans hefur fært honum. Og þó, innra með honum bærist einhver óeirð, er það samviskan? Hún þarf þá að hrópa í gegnum þá brengluðu hugmyndafræði sem hávær áróðurinn endurómar – að eðlismunur sé á fólki eftir uppruna og meintum kynþætti. Að baki hryllingnum eru hugmyndir sem ganga út á það að mannúð sé veikleiki en að það sé eðlislægt manneskjunni að undiroka aðra, rétt eins og kenningasmiðir túlkuðu þróunarkenninguna. Allt annað var í andstöðu við þær reglur sem gilda í lífríkinu. „Maðurinn er hluti lífríkisins“, sagði Himmler og Höss vitnar til þeirra orða í réttlætingu sinni.


Píslarsagan

 

Píslarsagan sér að sama skapi margar hliðar. Hún fjallar sem slík ekki um afmarkaðan atburð. Hún hefur í gegnum aldirnar verið túlkuð með hliðsjón af þjáningu saklausra, ákall þeirra sem hafa stunið undan óréttlætinu hefur beinst að krossinum og sem verður tákn samlíðunar og hluttekningar hins æðsta með þeim sem eru undirokuð. Krossinn er áminning um gildi mennskunnar mitt í öllum þrengingum og kúgun. Þannig hefur baráttufólk fyrir réttlæti vísað í þessa hefð og krafist umbóta.


Því skilaboðin eru einmitt öndverð við þá réttlætingu sem Höss og skoðanabræður hans höfðu fyrir voðaverkum sínum. Þau ganga út á að hver og ein manneskja hafi gildi í sjálfu sér, ekki sem tæki til að ná fram einhverjum markmiðum, heldur sem markmið í sjálfu sér. Þar sem hinn æðsti þolir hinar verstu þrautir verða skilaboðin til alls mannkyns þau að hann taki sér stöðu með hverjum þeim sem líður órétt. Sú hugsun birtist okkur ekki síður í Gamla testamentinu.

 

Og vera má að þar hafi legið skýringin á hatri nazista á gyðingum. Þegar á fyrstu síðum Biblíunnar er gildi manneskjunnar undirstrikað og helgi hennar staðfest. Ekki sem hluti af heiminum og grimmri baráttu um yfirráð sem greina má í lífsbaráttu tegundanna. Heldur hefur hvert og eitt okkar gildi: „Sælir eru fátækir í anda því þeirra er himnaríki“, „hvað sem þið gerðuð einu minna minnstu systkina það gerðuð þér mér“. Grundvöllur þeirra hugmynda er sú afstaða að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs. Það merkir að Guð þjáist með hverjum þeim sem þolir órétt og kúgun. Upp úr þessum jarðvegi vex hugmynd okkar um réttindi fólks – mannréttindi sem eiga að falla öllum í skaut.


Áhugasviðið

 

Það var gegn þessari afstöðu sem ofbeldisöflin risu. En frásögn þessarar áhrifaríku kvikmyndar birtir okkur veikleika þeirra, sundurþykkju, hatrið sem smám saman fer að beinast inn á við, að hinum sem taka þátt í voðaverkunum, að manneskjunni sjálfri.

 

Og þá fyrst opnast dyrnar að Auschwitz. Við göngum inn um þær og nútíminn er genginn í garð. Nú eru ofnarnir, klefarnir, geymslan fyrir verðmæti fórnarlambanna orðin að safni okkur öllum til varnaðar. Á þennan hljóðláta hátt skynjum við vanmátt illskunnar og sigur hins góða. Og þó, við getum ef til vill speglað okkur sjálf í hvunndagsamstri fjölskyldunnar sem heyrir óminn af illskunni handan við veggina. Beinist sjónarhornið að okkur sjálfum? Og hvað segir bölið sjálft um afstöðu okkar til Guðs?

 

Elí Wiese sem ritaði bókina Nótt um dvöl sína í þessum búðum segir frá því þegar fangarnir voru neyddir til að horfa á þrjá úr sínum röðum hanga á gálganum. „Hvar er Guð?“ hrópaði einn áhorendanna í sífellu. Og annar benti á fórnarlömbin og sagði: „Hann er þarna. Hann hangir þarna á gálganum.“ Hvað lesum við út úr þeim orðum? Að Guð sé sjálfur dauður og að illskuöflin hafi drepið hann? Sú túlkun kemur vel heim og saman við það hvernig öll gildi og öll helgi var fótum troðin í krafti þess að við værum aðeins hluti hins eigingjarna lífheims.

 

Við getum líka lesið í það svar að þarna standi Guð með hverjum hinum þjáðu og ofsóttu. Þetta er einmitt erindið sem krossinn miðlar okkur og krefur okkur um leið að taka stöðu með hverjum þeim sem ógnaröflin kúga í óréttlátum heimi.