Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.
Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.Lk. 16.1-9
Það fór betur en á horfðist nú í vikunni sem leið þegar tókst að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn kæmust með banvænan farm sinn um borð í flugvélar. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef þeir hefðu fengið óáreittir að vinna verk sín. Niðurstaðan varð eingöngu sú að fólk þurfti að bíða á flugvöllum víðsvegar um heiminn þar á meðal hér í Keflavík og hefur fólkið verið í fréttunum sem og fulltrúar yfirvalda. Ég minnist þess hins vegar ekki að mikil umræða hafi farið fram í samfélaginu um tilgang þeirra manna sem hugðust valda öllu þessu tjóni. Af hverju ekki? Jú, líklega vegna þess að þjóðir hins vestræna heims hafa fyrir löngu viðurkennt þá staðreynd að til er hópur manna sem virðist meira en reiðubúinn til að deyja píslarvættisdauðadaga í nafni trúarsannfæringar sinnar.
Ímyndið ykkur engin trúarbrögð
„Ímyndið ykkur engin trúarbrögð“ sagði breski líffræðingurinn sem var hér í heimsókn fyrr í sumar og vitnaði í þekktan dægurlagatexta. Um leið var varpað upp nokkurra ára gamalli mynd af útlínum New York borgar þar sem turnarnir tveir voru enn á sínum stað. Þannig var túlkun hans á vandamálum heimsins ef marka má þessa uppsetningu. Ef við tækjum í burtu þá leit mannsins að æðri tilgangi í tilverunni sem við köllum trú – eða trúarbrögð – já, þá væru að minnsta kostu turnarnir þarna enn á sínum stað og hörmungarnar allar sem í kjölfarið komu hefðu vart orðið.
Sjálfur beinir fræðimaður þessi ítrekað spjótum sínum gegn trúnni sem hann segir úrelta í ljósi nútímaþekkingar og hættulega í ljósi vitnisburðar sögunnar. Já, eru þetta ekki tvær ósamrýmanlegar andstæður – átrúnaðurinn sem sendir okkur inn á óræðar lendur til samfundar við hið almáttuga sem sprengir þann ramma sem tungumálið setur – og skynsemin, rökhugsunin sem beislar efnisheiminn og hafnar því öllu sem ekki stenst ítrustu kröfur um áreiðanleika og nákvænmi? Þeir eru margir sem halda slíku fram og benda máli sínu til stuðnins á þessa ógæfusömu einstaklinga sem fastir eru í neti haturs og ofbeldis.
Þeir benda líka á fordómana sem oft eru klæddir í trúarlegan búning og birtast í margvíslegum myndum. Menn fela gjarnan þröngsýnina bak við þann boðskap sem trúarbrögðin miðla. Þetta má meðal annars sjá á heilsíðuauglýsingu í blöðunum í gær í tilefni af skrúðgöngu samkynhneigðra þar sem þeim var réttingarmeistarar hinna svokölluðu kristnu safnaða buðust til að koma samkynhneigðum í hóp gagnkynhneigðra. Ekki kom til greina að líta svo á að fólk geti verið sátt við sína kynheigð sem skaparinn gæddi það með. Engin leið virðist vera að líta framhjá þessum fáu stöðum í ritningunni þar sem amast er við samkynhneigð þótt texta þá megi túlka í ljósi aðstæðna þess tíma er þeir voru ritaðir. Túlkun okkar á bókstaf ritningarinnar verður jú að fylgja ákveðnum lögmálum.
Samspil trúar, kærleika og skynsemi
Textar dagsins fjalla einmitt um þetta – trúna og tengsl hennar við skynsemina annars vegar og svo kærleikann hins vegar. Í texta Orðskviðanna er hvatt til þess að við leitum að skynseminni sem silfri og gröfumst eftir hyggindunum sem földum fjársjóðum. Texti þessi tilheyrir þeim flokki rita Biblíunnar sem kallast spekirit. Þar eru trúaðir einstaklingar minntir á það hversu mikilvægt það er að hafa skynsemina að leiðarljósi í lífinu. Skynsemin og trúin eru ekki andstæður samkvæmt þessum skilningi. Þær glíma ekki við sömu spurningarnar. Þær leita ekki sömu svaranna. Nei, þær eru bandamenn þar sem kemur að því að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd, skapa jákvæðar fyrirmyndir og efla einstaklinginn í leit sinni að tilgangi og lífsfyllingu.
Þetta tvennt fer ágætlega saman. Trúaður maður leitar hinna bestu leiða til þess að finna lífi sínu farveg. Og í pistli dagsins er enn ein vídd tilverunnar rædd: kærleikurinn, samskiptin við náungann og umhverfi okkar. Rétt eins og skynsemin styður við trúmanninn svo er kærleikurinn mælikvarði á trúna og vísbending um það hvort hún er heil og ósködduð eða hvort hún sprettur upp úr kreppu og fordómum.
Trúin ekki forsenda hryðjuverka
En hver væri harmleikur þessara einstaklinga sem hugðust sprengja upp tólf farþegaþotur ef þeir hefðu ekki haft trúna til að leiða sig áfram til ógæfuverka? Stæðu turnarnir tveir ekki enn óskaddaðir ef öfgafullir trúmennirnir hefðu ekki lagt í leið þessa í von um betra líf í öðrum heimi? Svo þarf í raun ekki að vera. Trúin er engin forsenda fyrir slíkum hryðjuverkum enda þekkjum við ótal önnur dæmi um hryðjuverk unnin í öðrum tilgangi en trúarlegum. Í allri þeirri gagnrýni á trúarbrögðin sem fram hefur komið undanfarin ár og tengist þeim öfgafullu söfnuðum og hópum vestan hafs og austan hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að meginþorri alls þess hóps sem lítur upp til æðri veruleika er hófsamur, umburðarlyndur og leitar allra leiða til þess að bæta hag náunga sinna nær og fjær í veröldinni.
Hófsöm trú í meirihluta
Þorri þeirra sem trúa eru hófsamir. Þeir vita og viðurkenna að skynseminni fer betur á því að leita úrlausna á þeim verkefnum sem tengjast hinu daglega lífi. Og sjálfur talar Kristur um það í guðspjallinu að börn þessa heims séu kænni í skiptum sínum við sína kynslóð en börn ljóssins. Kristin trú snýst heldur ekki um þá þætti sem lúta að hinu tímanlega. Hún fjallar um stöðu mannsins frammi fyrir Guði. Hún fjallar um tilganginn með þessu lífi okkar. Hún heldur að okkur dýrmætri fyrirmynd og hvetur okkur til þess að láta gott af okkur leiða náunganum og umhverfinu til góða.
Því má vel sjá hversu mikið hyldýpi er á milli þess fjölda sem aðhyllist hin svo kölluðu hófsömu trúarbrögð og þeirra sem andstæðingar kristni og annarra trúarbragða hampa sem mest til þess sverta ásýnd hennar og skapa tortryggni í garð trúarbragða og hvers konar átrúnaðar.
Trúin og listin
Í raun má líkja trúnni við listina. Hægt er að túlka veruleikann með ólíkum hætti og það sést best á því hvernig listamenn beita hæfni sinni til þess að skapa nýja sýn á það sem við þekkjum og höfum í kringum okkur. Enginn væri svo gersneyddur hugmyndarflugi að amast við því þegar listamaður beitir frumlegri líkingu til að orða eða túlka þann veruleika sem við getum lýst með miklu einfaldari og skýrari hætti. Enginn færi heldur að afskrá heila listgrein fyrir það þótt listamönnum séu mislagðar hendur eins og öðru fólki. Nei, hér gildir það sama. Við fellum ekki skóginn þótt finna megi fölnuð laufblað eitt eða fleiri.
Textar dagsins minna okkur á það samspil sem þarf að ríkja á milli skynsemi, kærleiksverka og átrúnaðarins. Sú samflétta er vitaskuld nærtæk og augljós og starfar vel í langflestum tilvikum. Hún skapar lifandi trú. Hún hvetur trúmanninn til þess að endurskoða hug sinn og endurmeta afstöðu sína hverju sinni. Víst hefði það þótt furðu sæta fyrir fáeinum áratugum ef haldin yrði svo kölluð Regnbogamessa í sjálfri Hallgrímskirkju eins og verður nú kl. fjögur í dag. Messan sú verður, eins og nafnið gefur til kynna, sungin og flutt með þátttöku fjölmargra samkynhneigðra einstaklinga. Er það stórkostlegt fagnaðarefni þegar endurskoðun hins trúaða birtist með svo litríkum hætti.
Lifandi trú
Eða er það afturför frá hinum sanna kristnidómi sem einhvern tímann var fráhverfur því sem greindi sig frá hinu hefðbundna? Er það til marks um lausung og hverflyndi kirkju sem í gegnum aldir og árþúsund hefur varðveitt og tryggt festu í siðferðismálum og allri menningu? Nei, þvert á móti. Þetta er afrakstur trúarstarfs sem hefur hugrekki, kjark og vilja til þess að endurskoða sjálfa sig. Þetta er samspil þess þegar trúin fær að blómstra og dafna í samspili með skynseminni – er hvetur stöðugt til endurskoðunar og með kærleikann að leiðarljósi – sem er hinn sanni mælikvarði á trúna og það sem af henni leiðir.
Þetta er með öðrum orðum lifandi trú. „Ímyndaðu þér heiminn án trúar“ – segir í laginu og líffræðingurinn hefur spurninguna eftir honum með áberandi mynd af tvíburaturnunum í New York. Já, ímyndaðu þér hvernig þetta liti allt út ef engin væri trúin. Ég svara því svo til að samfélagið væri einsleitara, daufara og grárra – sneytt þeim innblæstri og þeirri andagift sem trúin á æðri veruleika færir okkur. Fyrst og fremst færu menn þó á mis við þann sannleika sem trúarbrögðin miðla.
Samhygð
Þessi hvatning stenst enga skoðun. Trúin er aðeins einn þáttur af mörgum sem drífur ofbeldismennina áfram. Trúin er í langflestum tilfellum uppspretta góðs. Trúin hvetur okkur til þess að setja okkur í spor annarra. Hún hvetur til samhygðar. Kristin trú fjallar ekki aðeins um samskipti okkar við okkar nánustu. Nei, Kristur yfirfærir hugtakið náungi á alla þá sem í kringum okkur standa: útlendinginn, þá sem eiga um sárt að binda, þá sem eru útskúfaðir – alla þá sem skammsýnn heimurinn vill ekki við kannast sökum stéttar, kyns, kynþáttar eða hvers annars sem blindar augað og hamlar okkur gegn því að horfa inn í hjarta mannsins.
Því trúin minnir okkur á það að sjálf erum við ekki alfa og ómega alls. Trúin bendir okkur á það að önnur verðmæti eru veigameiri og dýrmætari en það tímanlega sem við sönkum að okkur. Guðspjöll kirkjunnar eru guðspjöll samhygðarinnar. Þau hvetja okkur til þess að leiða hugann að náunganum og þá ekki aðeins þeim sem næstir okkur standa – þeim sem eru eins og við, líta eins út, hugsa eins og við og hampa því sama og við gerum. Heldur einnig hinum. Hámarki nær þetta ákall Krists þegar hann segir okkur að elska jafnvel óvini okkar. Kann að vera að í þeim orðum fylgi innri mótsögn en skilaboðin eru engu að síður þau sömu: Samhygðin er lykilorðið í kristinni trú og kristinni siðfræði. Allir eru dýrmæt sköpun Guðs.
Samlíkingin við listina
Án kærleikans og verður trúin eins og lélegt listaverk. Horfið úr tengslum sínum við umhverfið, sjálfhverf eftirlíking af fordómum höfundarins og jafnvel í hróplegri andstöðu við þann tilgang listarinnar að veita nýja sýn á veruleikann og auðga hann um leið. Fjölda dæma má finna um það hvernig slík listaverk hafa verið farvegur fyrir áróður og ofbeldi hvort heldur þau eru borin áfram af heilu þjóðunum eða minni hópum. Enginn skyldi vanmeta áhrif slæmrar listar!
Með sama hætti spretta ógæfuverkin upp af því trúarumhverfi sem sjálft er afrakstur kreppu og ofbeldis sem varað hefur kynslóðum saman. Þá verður samhygðinni oft skipt út fyrir ofbeldi og tortryggni. Enginn ætti að fella dóma yfir trúarbrögðunum sem slíkum af þeim sökum. Nei, trúarbrögðin eru miklu fremur mótvægi við þá veraldarhyggju sem stýrir illu heilli gangi sögunnar á okkar dögum og hefur líklega aldrei verið meiri. Þörfin fyrir það að geta sett sig í spor annarra verður ætíð til staðar vitandi það að það er Guð en ekki maðurinn sem skipar miðpunktinn í tilverunni.
Við þörfnumst samhygðar
Sú afstaða þarf að fá grundvöll í heimi sem þarfnast samhygðar og skilnings í æ ríkari mæli frekar en þeirrar stöðugu eftirsóknar eftir frekari veraldlegum gæðum sem hefur gengið svo nærri lífríki og auðlindum þessarar jarðar. Já, ímyndið ykkur heim þar sem fólk í öllu litrófi regnbogans starfar saman að háleitum markmiðum – hver og einn í þeirri sannfæringu að lífið stefnir að æðri markmiðum og leitar jákvæðra fyrirmynda fólks sem helgaði lífi sínu þjónustusnni við aðra. Já ímyndið ykkur heim þar sem trúin starfar í samspili skynseminnar og með kærleikann að leiðarljósi. Framgangur hennar og útbreiðsla gæti orðið ein helsta von mannkyns á komandi tímum og mótvægi við eigingirni og skeytingarleysi því sem kostað hefur svo miklar fórnir sem raun ber vitni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen