Hlýðni

Hlýðni

Á liðnu ári brást svo margt í efnahagslegu tilliti vegna óhlýðni þeirra er stjórnuðu málum. Óhlýðnin birtist í græðginni. Því fór sem fór. Það kemur alltaf að skuldadögum og þá kemur í ljós hver var hlýðinn og hver var ekki hlýðinn. Það fylgir blessun því að hlýða Guði og boðum hans. Hann veit, hvað er okkur fyrir bestu

Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Matt 2.13-15

Gleðilegt ár! Nú er fjórði dagur þessa nýja árs upp runninn – 2009 – sem er jafnframt fyrsti sunnudagur ársins. Við munum kveðja þessa hátíð eftir morgundaginn. Þá verða jól og áramót að baki og skólarnir byrjaðir aftur. Þjóðlífið fer á ný inn í hversdaginn. Sunnudagaskólinn hefst aftur að viku liðinni. Þá verður nývígður djákni Grafarvogskirkju kominn til starfa. En Gunnar Einar Steingrímsson, æskulýðsfulltrúi, verður vígður til djáknaþjónustu í Dómkirkjunni í dag kl. 14. Það eru tímamót fyrir þennan söfnuð að fá djákna til starfa. Hér eru fyrir fjórir prestar í fullu starfi. Hann verður því fimmti vígði aðilinn sem þjónar í þessum söfnuði. Djákninn sinnir kærleiks- og líknarþjónustu. Gunnar Einar mun sérstaklega sinna starfi meðal barna og unglinga. Þetta er mikið gleðiefni fyrir þennan söfnuð að fá djákna til starfa. Við óskum honum innilega til hamingju, sem og fjölskyldu hans. Við biðjum þess að störf hans verði þessum söfnuði til blessunar og Guði til dýrðar.

Þessi sunnudagur er á milli nýárs og þrettánda. Guðspjall hans fjallar um draum Jósefs. Hann skyldi taka sig upp og flýja til Egyptalands með Maríu og barnið, sem var í hættu vegna tilskipunar Heródesar um að leita uppi öll sveinbörn og fyrirfara þeim. Hann fór eftir fyrirmælum engilsins sem hafði vitrast honum í draumi og lagði strax af stað með litlu fjölskylduna sína.

Þessi viðbrögð Jósefs sýna okkur einstaka hlýðni hans. Hann var góður og grandvar maður. Hann hlýddu því orðum engilsins strax. Hann var ekkert að bíða eftir því að María vaknaði. Hann vakti hana og þau héldu af stað í skjóli myrkurs. Þetta hefur örugglega verið erfið ferð, enda leiðin löng. Þau höfðu ferðast mikið á stuttum tíma. Ferðin frá Nasaret til Betlehem var Maríu sjálfsagt mjög erfið, enda var hún þunguð og var að því komin að eignast barnið. Jósef var eins og klettur í lífi Maríu. Hann studdi hana og hefur sjálfsagt gengið sjálfur mest alla leiðina og teymt asnann, sem bar Maríu og Jesúbarnið, sem hvíldi öruggt í móðurfaðmi sínum – brjóstmylkingurinn sem þáði líkamlega næringu af lífi móður sinnar. Hann fékk einnig andlega næringu sem fólst í umhyggjunni og kærleikanum sem þessi unga móðir veitti barni sínu.

Við vitum ekki hvernig ferðin gekk til Egyptalands. Hins vegar vitum við, að það er kalt í eyðimörkinni á nóttunni. Og engin voru gistihúsin á þeim stað. Þau hafa því væntanlega sofið úti undir berum himni. En María og Jósef vernduðu litla barnið. Þau héldu á því hita. Þau hafa skipst á að vaka yfir barninu og verndað það. Jósef hefur ekki látið sitt eftir liggja. María varð að sofa. Hún var þreytt eftir fæðinguna. Það leyndust víða hættur. Villidýr á sveimi og hermenn Heródesar gátu verið á næstu grösum. En Drottinn Guð hélt almáttugri verndarhendi sinni yfir litlu fjölskyldunni. Orð spámannsins áttu eftir að rætast, er hann sagði:

Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.

Eins og fyrr sagði var það hlýðni við orð engilsins sem er svo áberandi í guðspjallinu. Hlýðni Jósefs er eftirtektarverð. Afstaða hans og breytni er eftirsóknarverð. Við ættum að taka hann okkur til fyrirmyndar. Hann hlustaði á orð engilsins og hlýddi þeim. Hugsiði ykkur, ef við myndum hlusta betur á það sem Jesús er að segja við okkur og hlýða fyrirmælum hans. En hver eru fyrirmæli Jesú kynni einhver að spyrja. Fyrirmæli hans felast í tvöfalda kærleiksboðorðinu:

Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.

Fyrirmælin er einnig að finna í Gullnu reglunni:

Allt það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

Þetta er málið. Að elska Guð og náungann og breyta rétt við fólkið í kringum okkur – að við gerum ekkert eða segjum ekkert við annað fólk sem við vildum ekki að það segði við okkur. Þetta er spurning um að koma vel fram við fólkið í kringum okkur. Þessi fyrirmæli hljóma eins og það sé ekkert mál að fara eftir þeim. En þannig er það ekki. Við vitum það. Það getur reynst erfitt að hlýða þessum fyrirmælum. Þau ná nefnilega yfir allar okkur hugsanir og athafnir. Tvöfalda kærleiksboðorðið og Gullna reglan smjúga inn á öll svið lífsins. Það er ekkert svið undanskilið. Þau fjalla um það hvernig við vinnum störfin okkar. Eru þau unnin af samviskusemi og af virðingu? Erum við að þjóna Guði og náunganum í störfum okkar? Upp í hugann kemur mynd af konu sem starfar í mötuneyti í skóla einum í Reykjavík. Hún er af erlendum uppruna. Starf hennar felst í því að skammta matinn og vaska upp. Hún gerir það af ótrúlegri virðingu og gleði. Þegar hún heldur á diskinum og skammtar matinn á hann, er það ávallt lotningarfullt andartak í hvert skipti, þar sem einbeitingin og virðingin skín í gegn. Á sama hátt ætti lífsafstaða hins trúaða manns að sjást. Það er með öðrum orðum hlýðnin við boðorð Guðs, sem skiptir öllu máli. Í fjölskyldulífinu er hún hornsteinninn. Hún birtist í kærleiksríku hjónabandi, góðu uppeldi barnanna. Hún kemur fram í skólanum, á vinnustað eða hvar sem við erum stödd hverju sinni.

Á liðnu ári brást svo margt í efnahagslegu tilliti vegna óhlýðni þeirra er stjórnuðu málum. Óhlýðnin birtist í græðginni. Því fór sem fór. Það kemur alltaf að skuldadögum og þá kemur í ljós hver var hlýðinn og hver var ekki hlýðinn. Það fylgir blessun því að hlýða Guði og boðum hans. Hann veit, hvað er okkur fyrir bestu. Hins vegar vitum við, að Guð fyrirgefur okkur ef við iðrumst og biðjum hann fyrirgefningar af öllu hjarta. Sagan um Týnda soninn minnir okkur á það. Það er enginn undanskilinn þegar talað er um óhlýðni. Við erum öll sek að meira eða minna leyti, enda sagði Páll postuli að allir menn hefðu syngað og skorti Guðs dýrð.

Öll okkar efnahagslegu mein myndu læknast ef við elskuðum náungann eins og sjálf okkur og kæmum fram við náungann eins og við viljum að hann kæmi fram við okkur. Þá myndum við hugsa um hag náungans og heill hans. Nú kann einhver að hugsa að þetta sé eitthvað sem aðeins sé til í heimi hugmyndanna, í orði en ekki á borði. Það kann að vera rétt að vissu marki. Auðvitað verður þetta ástand aldrei fullkomlega ríkjandi vegna syndugs eðlis mannsins. Þetta kallast „útópía“ í félagsvísindum. Eitthvað sem aldrei verður. Hins vegar getum við komist býsna nálægt því, ef við reynum ávallt að gera hið góða og fagra og stefna á hið fullkomna, en ekkert er fullkomið nema Drottinn Guð. En við erum sköpuð í hans mynd og eigum þess vegna að reyna að gera okkar besta.

Jósef minnir okkur á ýmislegt varðandi lífið með Kristi. Eitt er það að hann var alltaf með Kristi. Hann var í návist hans. Hann ól hann upp ásamt Maríu. Þau elskuðu hann og óttuðust bæði um hann er hann týndist 12 ára og dvaldi í musterinu, í húsi föðurins. Hann kenndi Jesú iðn sína. Hann var trésmiður. Þeir smíðuðu saman ýmsa gripi. Hann var með Jesú í mörg ár. Það eigum við líka að gera. Við eigum að vera með Jesú – vera í návist hans og bjóða hann velkominn inn í líf okkar – inn á heimili okkar, eða eins og segir svo fallega í Sálmunum:

Hversu dýmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna. Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna. Hjá þér eru uppsprettur lífsins.

Lærisveinarnir voru líka í návist hans og hjá honum voru sannarlega uppsprettur lífsins, og eru. Þessi kröftuga vera Jesú Krists. Við munum eftir sjúku konunni sem þráði það eitt að fá að snerta klæðafald Jesú. Hún hefur skynjað þennan mikla kraft og blessun sem streymdi frá honum. Og lærisveinarnir sem yfirgáfu störf sín, líf sitt, og fylgdu honum. Guðssonurinn hafði þetta seiðandi aðdráttarafl, enda nefndur Immanúel, sem merkir „Guð er með oss.“

Jósef var marg blessaður maður. Hann tók þátt í uppeldi sonar Guðs og dvaldi því í návist hans. Hann var útvalinn af Guði til þess að kenna syni Guðs og fóstra hann. Og það gerði hann af fúsleika, kærleika og hlýðni.

Jósef er í flokki með ýmsum persónum Biblíunnar, er allar eiga það sameiginlegt að hafa hlýtt Drottni. Nói var hlýðinn Guði. Hann smíðaði örkina og fór eftir fyrirmælum Drottins. Sama má segja um Abraham. Hann var trúfastur maður sem hlýddi Guði. Lærisveinarnir voru einnig hlýðnir þrátt fyrrir efa sinn og bresti. Þeir tóku að boða fagnaðarerindið og uppfylltu skipan Jesú um að gera allar þjóðir að lærisveinum.

Þess vegna erum við hér saman komin í Grafarvogskirkju í upphafi nýs árs. Það er vegna hlýðni þess góða fólks sem boðaði fagnaðarerindið forðum, þannig að það barst hingað norður eftir fyrir langa löngu. Jesús sagði, að lærisveinarnir skyldu boða fagnaðarerindið til endimarka jarðarinnar. Ísland er þannig staðsett á jarðarkringlunni, að hér eru endimörk hins byggilega heims. Það er að minnsta kosti engin byggð fyrir norðan landið. Þar er aðeins Norður-heimskautið.

Guð gefi, að við mættum öll sem eitt feta í fótspor Jósefs á þessu nýbyrjaða ári, hlusta á fyrirmæli Guðs, hlýða þeim og dvelja í návist frelsarans dag hvern, hverja stund. Ef við gerum það af heilum huga mun okkur vel farnast þrátt fyrir ýmsa tímabundna ytri erfiðleika.

Í Jesú nafni áfram enn með ári nýju, kristnir menn, það nafn um árs og ævispor sé æðsta gleði’ og blessun vor.

Dýrð sé Guði, föður og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.