Enginn mun gera illt, enginn valda skaða

Enginn mun gera illt, enginn valda skaða

Himnaríki er líka hér og nú. Í Langholtskirkju, í Afríku, já um heim allan, það kom með litla barninu sem fæddist í fjárhúsi í hersetinni borg á jólunum fyrir löngu síðan.

Ég hlakkaði til að fá stúlkurnar í Kór Vogaskóla til að syngja í messunni í dag. En það reyndist mér vandasamt að semja prédikun út frá guðspjalli dagsins.

Þær eru ógnvekjandi myndirnar sem þar eru dregnar upp. Tákn munu verða á tungli og sólu og ájörðu angist þjóða. Það er talað um hernað, náttúruhamfarir og trúarofsóknir. Hvers vegna er þessu áhersla á heimsslit? Erum við ekki að fara að gleðjast saman? Það er annar sunnudagur í aðventu, við undirbúum hátíð ljóss og friðar. Við tökum á móti boðskapnum um litla barnið sem fæddist í fjárhúsi í Betlehem og breytti fátæku hreysi í höll. Hörð orð guðspjallsins ættu þó líklega ekki að koma okkur á óvart. Fréttir og umræður vítt og breitt í samfélaginu eru einmitt á þessum nótum. Við erum að spilla náttúrunni. Það er stríð. Náttúruhamfarir. Heimilisofbeldi. Þannig gæti ég endalaust talið.

En ég ætla ekki að gera það. Lexia dagsins, texti gamla testamentisins, er úr spádómsbók Jesaja, yndislegur texti sem ég ætla að skoða með ykkur. Þetta er vonartexti, falleg sýn á fullkominn heim. Texti himnaríkis. Það eru dregnar fram andstæður sem undir þeim kringumstæðum sem við þekkjum kalla fram ógn. Við vitum hvað gerist þegar úflur og lamb mætast, lífi lambsins er ógnað. Eða þegar bjarndýr og kýr mætast. Það hefur nú ekki svo lítið verðið fjallað um það þegar ísbirnir hafa villst hingað til lands og engin önnur leið talin fær en að drepa þá vegna ógnarinnar sem af þeim steðjar. Eitt af hlutverkunum mínum í sveitinni þegar ég var lítil stelpa var að sækja kýrnar. Þetta voru að mestu rólyndis skepnur. Þó var auðvitað til í dæminu að þær væru mannýgar, settu undir sig hausinn og gerðu sig líklegar til að stanga mig. Ef skógarbjörn hefði birst í haganum hefðu tilraunir kúnna til að bjarga sér með slíkum aðferðum orðið máttlausar. Sjáum svo fyrir okkur nýfætt barn, barn sem er á brjósti, lítið og varnarlaust og naðra, eða slanga kæmist í vöggu þess, bara tilhugsunin vekur upp óhug. Eða við hugsum okkur aðeins stærra barn sem er farið að skríða eða jafnvel taka sín fyrstu skref og það kemur að holu þar sem höggormur býr, okkur stendur alls ekki á sama. En um þetta fjallar Jesaja.Hann orðar þetta svona:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða

Enginn mun gera illt. Enginn valda skaða. Er það ekki himnaríki sem verið er að lýsa? Hvar er þá þetta himnaríki sem er svona eftirsóknarvert? Er það staður sem við förum á þegar við deyjum? Já, ég trúi því. En himnaríki er líka hér og nú. Í Langholtskirkju, í Afríku, já um heim allan, það kom með litla barninu sem fæddist í fjárhúsi í hersetinni borg á jólunum fyrir löngu síðan. Með komu sinni og dvöl mitt á meðal fólksins kenndi Jesús okkur. Með lífi sínu, starfi og framkomu við öll þau sem hann hitti. Rifjum upp gullnu regluna. Að koma fram við annað fólk eins og við viljum að það komi fram við okkur.

Hugsið ykkur ef við sem erum hér, og svo allir jarðarbúar myndu vakna einn daginn og hugsa: í dag ætla ég að koma fram við öll þau sem á vegi mínum verða einmitt eins og ég vil að þau komi fram við mig! Þá yrðri ekkert stríð. Þá væru ekki til börn sem vöknuðu svöng og færu að sofa ennþá svöng. Þá hætti fólk að vera svo ríkt að það hefði mestar áhyggjur af því að einn daginn yrði það ekki alveg svona ríkt... Þá væri enginn með kvíðahnút yfir því að jólin væru að koma og þeim fylgdi svo mikið álag að það rændi fólk svefni. Það væri ekkert einelti, ekkert ofbeldi.

Við högum okkur stundum eins og úlfar og ráðumst á aðrar manneskjur eins og þær væru lömb. Stundum þegar hópur fólks hittist mætti halda að saman væru komnar slöngur og nöðrur. Það er svo rangt og þetta er svo mikill óþarfi, ég held að Jesaja sé að benda okkur á þetta. Hann vill að ofbeldismaðurinn verði dæmdur. Hann kallar fram réttlæti. Vill að speki, skilningur, viska og máttur ríki.

Leiðin sem okkur er bent á er leið trúarinnar. Við skulum laða fram það góða og fallega í okkur sjálfum og í hverju öðru. Njótum aðventunnar. Undirbúum falleg og friðsæl jól. Sameinumst og sættumst.