Krullukynslóðin

Krullukynslóðin

Sjálfur tilheyri ég þeirri óræðu X kynslóð og svo heyrði ég það nú á dögunum að fólk er farið að tala um krullukynslóðina.

Sagt er að allar kynslóðir eigi það sameiginlegt að þykjast hafa þegið rýran hlut eftir þær sem á undan komu en hafi um leið áhyggjur af samfélaginu í höndum þeirra kynslóða sem muni taka við keflinu. 

Kynslóðabil 

Líklega er eitthvað til í þeirri kaldhæðnu speki og ef við skoðum það nánar þá eru slík harmakvein ekki ný af nálinni. Við getum fundið heimildir um viðlíka áhyggjur frá ýmsum tímum. Varðveist hefur leirtafla frá hinum fornu súmerum – væntanlega er hún 4000 ára gömul og þar er kvartað undan unga fólkinu sem bar lítið skynbragð á alvöru lífsins. 

Rómverski heimspekingurinn Markús Túllíus Cicero sló á svipaða strengi á fyrstu öld fyrir Krist þar sem hann skráði hjá sér að tímarnir séu slæmir – börn hlýði ekki foreldrum sínum og bætti því reyndar við að allir væru farnir að skrifa bækur – hvað sem kann nú að vera slæmt við það.

Víst þarf ekki að leggja mjög eyrun við tíðaranda okkar daga til að skynja svipaðar hugmyndir. Hver kynslóð þykir hafa sín einkenni og í seinni tíð hefur þeim verið gefið sérstakt heiti. Á Íslandi tölum við um eftirstríðsára-kynslóðina, sem settist að í þéttbýli, eignaðist fjölda barna og byggði upp iðnað og íbúðarhverfi. Afkomendur hennar köllum við svo, 68 kynslóðina. Hún kom með byltingarkenndar hugmyndir um breytt samfélag, þótt sitt sýnist hverjum um það, hvort efndir hafi staðið undir væntingum, þegar hún settist sjálf að völdum. 

Sjálfur tilheyri ég þeirri óræðu X kynslóð og svo heyrði ég það nú á dögunum að fólk er farið að tala um krullukynslóðina. Já, það er unga fólkið i dag eins og gjarnan er sagt. Það dregur heiti sitt af leiknum krullu eða curling. Í þeirri íþrótt renna keppendur sér hægt á skautum samsíða skífu sem látin er renna eftir svellinu og sópa í gríð og erg fyrir framan hana svo hún komist á tilskilinn stað. Sú athöfn þykir minna á það hvernig foreldrar nú til dags passa upp á afkvæmi sín, varða þeim brautina og gæta þeirra, eftir því sem þeir frekast kunna og best geta!

Börn á Biblíutímum

Hvaða kynslóð skyldi hinn tólf ára Jesús hafa tilheyrt? Ætli samfélagsbreytingar í þá tíð hafi ekki verið hægari og tilþrifaminni en svo að aðstæður hafi verið nokkuð líka frá einni kynslóð til annarrar. Víst er það þó að á þeim tíma minnti barnauppeldi lítið á krulluíþróttina göfugu. Fullorðnir hafa haft sínar skoðanir á æskufólki, þá sem endranær. 

Börn voru ekki í miklum metum í því samfélagi og sættu oft harðræði. Reynsluleysi þeirra og fákunnátta setti þau skör neðar þeim sem áttu að vera komnir til vits og ára. Um það getum við lesið í guðspjöllunum. Þekktasta frásögnin af börnum úr þeim heimildum er einmitt þegar fólkið færði börn til Jesú að hann blessaði þau og þá ávíttu lærisveinarnir fólkið og reyndu að halda börnunum frá meistara sínum. 

Það er líka svo merkilegt að þetta er einn af fáum frásögnum af Jesú þar sem við lesum um að honum hafi raunverulega sárnað. Víst mætti hann margvíslegum raunum og mótlæti í lífi sínu sem við lesum um í ritningunni. Það heyrir samt til algerra undantekninga að skrásetjarar geti þess að Jesú hafi orðið hryggur við tilsvör og framkomu fólksins í kringum sig. Það sýnir að Jesús hafði aðra skoðun á þessum málum en almennt gilti í samfélaginu.

Og já, hér hefur varðveist sögubrot, vinjetta getum við kallað það, af Jesú þar sem hann er sjálfur á barns aldri. Þetta er í rauninni frásögn mikillar skelfingar. Ég veit ekki hvort þið hafið lent í því að týnast sem börn eða missa sjónar á barni í mannmergð – en það er fátt sem hræðir meira. 

Allir foreldrar þekkja tilfinningu angistar sem fylgir því að finna ekki afkvæmi sitt. Hún blundar í okkur öllum, hvort sem við höfum af henni raunverulega reynslu eða ekki. Hún veldur því jafnvel að við sleppum seint taki af börnunum okkar. Við sem ölum upp hina svonefndu krullukynslóð þykjum þó slá öll met í þeim efnum.

Þetta er ein þessara helgisagna sem við eigum í Biblíunni, sjálfstæð saga sem á sér upphaf og endi. Ekki er til hennar vitnað síðar en hún er eins og upptaktur að því sem koma skal. Þetta er eina bernskufrásögnin af Jesú að jólaguðspjallinu frátöldu. Eins og við vitum þá birtist hann okkur fullorðinn maður á síðum ritningarinnar þar sem hann boðar og líknar og læknar.

Lykilsaga

Þessu æskusaga lýsir samskiptaleysi á milli ólíkra kynslóða Heill dagur leið áður en þau eldri áttuðu sig á því að hann var horfinn og svo fundu þau hann ekki fyrr en á þriðja degi. Og þar er ef til vill tilvísun í annan merkan atburð sem varð tveimur áratugum síðar. Við skynjum það að eitthvað er óljóst og hulið með guðssoninn. Hann fetaði aðra leið en við hefðum getað ímyndað okkur.

Þarna líða einmitt þrír dagar áður en þau finna hann og ná honum, rétt eins og því er lýsti í frásögnum af krossfestingu og upprisu. Leið þeirra lá inn í sjálft musterið í hinni helgu borg, Jerúsalem. Þar sat hann með þeim lærðu og rökræddi við þá um ritninguna og tilgang lífsins. „Mér ber að vera í húsi föður míns“ segir ungmennið og yfir orðum þess er eitthvert æðruleysi, óháð því þótt þau María og Jósef hafi á þeim tíma hlaupið um göturnar í Jerúsalem í ofsafenginni leit sinni.

Sá sem sagði þessi orð hafði þegar fundið sinn stað í tilverunni enda var Jesú ætlað mikið hlutverk í sögu mannsins. Já, fer vel á því í upphafi árs að hugleiða að við miðum tímatal okkar við fæðingu hans og lýsir það vel þeim miklu áhrifum sem hann hafði.

Hann var ekki eingöngu sá er leiddi brautina fyrir okkur með sigri sínum á dauðanum. Jesús var ekki síður fordæmi fyrir okkur sem viljum lifa innihaldsríku lífi. Sagan af því þegar þau Jósef og María náðu í skottið á Jesú er saga okkar sjálfra. Hún lýsir því hvar við eigum heima í samhengi  hlutanna – barnið eða ungmennið er sannarlega ábyrgð þeirra sem því sinna en um leið er hlutverk barnsins enn merkilegra. 

Kynslóðatorg

Við sem tökum á móti hverjum árganginum á fætur öðrum af fermingarbörnum, leggjum eyrun við orðfæri þeirra og hugmyndum. Í samtölum okkar er sannarlega margt sem við getum lært sjálf og numið. Eitt af því sem við tökum okkur fyrir hendur í fræðslunni er að leiða saman í skemmtilegum leik – sjálf fermingarbörnin og svo foreldra þeirra. Hvor hópurinn semur spurningar fyrir hinn, upp úr samtíma sinna unglingsára – hvort heldur þau eru á líðandi stundu eða áttu sér stað fyrir áratugum. Þá er mikið hlegið og við finnum að um leið og margt er ólíkt með kynslóðunum þá er þar þó sterkur og ríkur þráður sem tengir þær saman. 

Sagan af Jesú, þegar hann er á þeirra aldri er líka frásögn af samskiptum, sem eru hafin yfir alla flokkadrætti í tíma og rúmi. Eftir aðskilnaðinn mættust þau loks í musterinu, María og fylgdarlið og svo hinn ungi Jesús. Hann átti líka eftir að leggja hlykkju á leið sína til að sýna fram á skyldur okkar við yngstu kynslóðirnar. „Leyfið börnunum að koma til mín,“ sagði hann. Og í kirkjunni er okkur öllum góður staður búinn. Þar eigum við að geta fundið frið og sátt og hið rétta jafnvægi. Í helgidómnum skynjum við tengslin við skapara okkar og þar finnum við hversu ríkulegan tilgang við höfum í þessu lífi okkar, tilgang sem er ákvarðaður af Guði og birtist okkur í Jesú Kristi frelsara okkar.