Að fella múr

Að fella múr

Alvöru fólk sem var búið að fá nóg, fólk sem vildi breytingar, fólk sem hafði trú á að það gæti haft áhrif á samfélagið og sitt eigið líf; þetta var fólkið sem lét múrinn falla. Þetta er mikilvægt. Það er mikilvægt að við höfum í huga og rifjum upp hvað trú fólks er mikið afl og hvað mikill kraftur til breytinga býr innra með okkur og á meðal okkar.

Í dag, 9. nóvember, eru 25 ár síðan Berlínarmúrinn féll, múrinn sem alræðisstjórn Austur-Þýskalands reisti til að hindra þegna sína í að komast til vestursins og til að halda óæskilegum áhrifum í burtu. Af þessu tilefni höfum við fengið að fylgjast með upprifjun á þessum merkilega viðburði og hvað það var sem leiddi til þess að múrinn sem skildi að þjóð, fjölskyldur og manneskjur, með valdbeitingu og ógn, var rifinn niður og heyrði sögunni til.

Reyndar hefur verið bent á orðalagið “múrinn féll” sé ekki alls kostar rétt - því það sem gerðist var að það voru manneskjur - hugrakkar konur og karlar - sem felldu hann innan frá. “Múrinn féll” er svona ópersónuleg nálgun og skapar hugrenningatengsl að það hafi bara gerst si svona, að það hafi verið eitthvert ópersónulegt afl sem þar hafi verið að verki. En þannig var það ekki. Það var alvöru fólk sem var búið að fá nóg, fólk sem vildi breytingar, fólk sem hafði trú á að það gæti haft áhrif á samfélagið og sitt eigið líf, sem lét múrinn falla.

Þetta er mikilvægt. Það er mikilvægt að við höfum í huga og rifjum upp að hvað trú fólks er mikið afl og hvað mikill kraftur til breytinga býr innra með okkur og á meðal okkar. Það er mikilvægt að við höfum í huga að með því að hafa trú á framtíðina, trú á frelsi og trú á mikilvægi þess að vera virk og lifandi, komum við góðum hlutum til leiðar.

Kannski er það versta af öllu að hafa ekki þessa trú. Hafa ekki trúna á að ég skipti máli, að það sem ég hef fram að færa sé einhvers virði, að draumar mínir og þrár séu dýrmæt og eigi rétt á sér.

Í guðspjallinu sem við fáum til að íhuga í dag, er Jesús að hvetja lærisveinana og vini sína til að hafa þessa trú, halda fast í hana og fara með hana út í heiminn. Ekki fela hana, ekki bæla hana, ekki skammast sín fyrir hver þau eru. Ekki missa trúna á að þú skiptir máli og að þú getur haft áhrif. Og segðu frá því sem skiptir þig máli. Tjáðu þig, skapaðu, elskaðu. Vertu þú sjálf, vertu þú sjálfur og hafðu áhrif.

Farið út um allan heim, segir Jesús, og segið frá því sem skiptir máli fyrir ykkur, deilið reynslu ykkar af því sem hefur snert ykkur og gefið ykkur trúna á framtíðina, trúna á ástina, trúna sem gefur kraft til að fara á fætur á morgnana, gera það sem þarf að gera, og hafa áhrif á samfélagið sem þið tilheyrið.

Þetta er verkefnið sem Jesús gaf lærisveinum sínum og verkefnið sem Jesús gefur okkur. Við sem höfum komið hingað saman í Laugarneskirkju til að eiga samfélag um orð Guðs og leyfa því að móta okkur sem einstaklinga og samfélag, erum lærisveinar Jesú. Við urðum það í skírninni og við staðfestum það í fermingunni - og á hverjum degi þegar við leyfum okkur að finna til, vera mannleg og þora að elska. Við staðfestum það þegar við göngum saman til altaris og þiggjum brauð og vín, líkama og blóð Krists, sem tengir okkur við Guð og raungerir það sem við stöndum fyrir sem samfélag. Þetta samfélag, byggt á kærleika Guðs til manneskjunnar, er einn líkami og ein heild.

Líkami er mikilvæg líking fyrir kirkjuna - um okkur sem erum saman komin hér og nú. Við lesum um það margsinnis í Nýja testamentinu að þau sem trúa á Jesú eru líkami hans. Líkaminn er flókið fyrirbæri og samsettur úr ótal litlum smáatriðum sem samt mynda eina heild. Það er miklvægt að halda í þessa líkamsmynd sem Biblían gefur okkur. Hún minnir okkur nefnilega á að það hvernig við erum í raun og veru, skiptir máli. Tilfinningarnar okkar skipta máli, kroppurinn okkar skiptir máli, hæfileikar, geta, og verk skipta máli.

Kristin trú setur líkamann og veruleika manneskjunnar svo mikið á oddinn, að kjarni hennar liggur í trúnni á að Guð gerðist manneskja og tók sér stöðu með manneskjunni, í öllum hennar veikleikum og styrkleikum, í Jesú Kristi. Þannig að alltaf þegar við gleymum líkamanum og fjarlægjumst líkamann - líka þegar við tökum ekki tillit til sjálfrar sköpunarinnar og náttúrunnar sem við tilheyrum - erum við á villigötum. Þegar við gleymum því að standa með okkur sjálfum, standa með þörfum og velferð okkar sjálfra og þeirra sem eru í kringum okkur, missum við marks og misskiljum boðskap kristinnar trúar og fagnaðarerindisins um Jesú Krist.

Og þegar við höfum líkamsmyndina á radarnum okkar þegar við nálgumst Biblíuna og það sem við lesum þar, förum við líka að taka eftir hvað líkaminn er miðlægur og kemur mikið fyrir. Bara í textum dagsins sem við höfum heyrt, koma fyrir myndir af líkamshlutum, eins og hjartanu sem við finnum til með, munninum sem við játum með, eyrunum sem við heyrum með, fótunum sem við göngum með og augunum sem við sjáum með. Við tölum líka um skírnina sjálfa sem sakramenti, og sakramenti er eitthvað sem miðlar náð Guðs, þessum þunga, alltumlykjandi straumi lífsins, með einhverju sem er áþreifanlegt og alvöru, eins og litlu barni, fólkinu sem elskar það og vatninu sem er ausið á höfðuðið í trú á að hver einasta manneskja er elskuð af Guði og skiptir máli.

Í skírnarskipuninni gefur Jesús okkur annars vegar verkefni og hins vegar loforð. Verkefnið er að fara og boða trúna. Loforðið er að Jesús er með okkur alla daga, allt til enda veraldarinnar. Þessi texti er alltaf lesinn þegar lítið barn er borið til skírnar - og þegar fólk á öllum aldri tekur við skírninni - og segir okkur þess vegna heilmikið um hvað skírnin okkar er. Kannski getum við sagt að skírnin sé hluti af markþjálfun lífsins. Hún skilgreinir bæði forsendur og markmið, og virkjar okkur í því að koma fram með það sem við erum og hafa þannig áhrif og okkar líf og annarra.

Eitt sem mér finnst svo áhugavert í þessum mikilvæga texta, er að hann beinir athyglinni að viðbrögðum þeirra sem heyra hann og Jesús beinir orðum sínum að. Hópurinn sem hann talar við eru jú lærisveinarnir og þau sem höfðu fylgt honum og fylgst með honum, allt til þess að hann var tekinn af lífi á krossinum, lagður í gröf, en lifði svo aftur. Þannig að þau voru frekar vel með á nótunum. En samt lesum við að sumir voru í vafa um það sem Jesús sagði þeim. Og þess vegna vitum við að það eru eðlileg viðbrögð að vera í vafa, að finna einhverja fyrirstöðu og vera ekki tilbúin til að hoppa á sannfæringuna um hvað er hið rétta í stöðunni.

Kannski voru þau sem stóðu frammi fyrir múrnum í Austur Berlín 9. nóvember árið 1989, fyrir 25 árum, í vafa um það sem þau vildu trúa á. Að það væri möguleiki á frelsi, að það væri framtíð sem þau gætu átt hlut í að skapa, að þau gætu haft áhrif á eigið líf og samfélagsins alls. Samt komu þau því til leiðar, sem við höldum upp á um þessa helgi.

Fyrir mér er það kröftugur vitnisburður um mátt trúarinnar sem býr í hjartanu okkar, og máttinn sem felst í því að vera gerandi í eigin lífi. Kannski ekki alltaf á eins stórum skala og fall Berlínarmúrsins, stundum eru það bara múrarnir í okkar eigin lífi, eða í okkar eigin samfélagi sem við stöndum frammi fyrir. Hvort sem er, þá verðum við að hafa eitthvað til að trúa á. Það versta af öllu er að hafa ekki trú á framtíðina, á okkur sjálf og virðinguna gagnvart lífinu sjálfu, sköpuninni allri og manneskjunni í sinni hæð og lægð.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.