Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Á föstudaginn langa var Jesús krossfestur. Flestir svara spurningunni um það hvað gerðist á föstudaginn langa svo. Á föstudaginn langa var Jesús krossfestur. Og mikið rétt. Það var einmitt svo. Staðfestar sögulegar heimildir segja það og vitnisburður fólksins á þeim tíma lifir enn í þeim heimildum og í guðspjöllum postulanna, þeirra, sem voru með Jesú, umgengust hann, samneyttu honum, hlustuðu á hann, spurðu hann og veittu honum andsvör. Studdu hann í baráttu sinni, slógu varnarvegg í kring um hann, lengst af, brugðust honum, - sáu hann handtekinn, hæddan, pyntaðan. Yfirgáfu hann. Sáu hann krossfestan.
Krossfesting er alvarlegt mál. Krossinn var píslar- og aftökutæki. Notað til að uppræta óvini samfélagsins. Þeir dómar sem lágu til grundvallar voru handahófskenndir og illa ígrundaðir. Fremur felldir undir áhrifum hávaða og framíkalla en byggðir á málatilbúnaði og lagatúlkun. Yfirheyrslurnar yfir Jesú staðfesta það. Þegar dómarinn Pílatus heyktist á því að kveða upp dóm yfir Jesú, hrópar lýðurinn: Krossfestu hann.
Þessa sögu lærði ég í barnaskóla. Mér fannst hún afar áhrifarík, enda var Jesús þá orðinn góður vinur og félagi, af því að hann sagði svo skemmtilegar sögur og var hjálpsamur, einkum við þá sem minna máttu sín. Kennarinn var fús á að fara yfir biblíusögurnar okkar og þetta var vinsæl grein, sem öllum krökkum gekk vel í. En mér fannst föstudagurinn langi erfiður. Samt var frí í skólanum, páskafrí, og sjálfsagt að njóta þess. Vera frjáls og vera glaður. Því ekki það?
“Mamma, hvað á ég að gera í dag?” var þá spurt. “Ekkert”, sagði mamma. “Afhverju ekki?” “Af því að Jesús var krossfestur á föstudaginn langa.” “Og hvað með það?” “Þegar einhver deyr kemur sorgin, og þegar sá sem deyr er það besta sem við höfum nokkurn tíma þekkt, þá þarf líka að hugsa um það, alveg sérstaklega.” “Á ég þá að hugsa í allan dag og gera ekki neitt?” “Þú ræður því. Þú færð matinn þinn, og þú færð hrein föt og þú getur talað og hlustað, en þetta er dagurinn, þegar Jesús var krossfestur.” “Eigum við kannski að spila?” “Nei, elskan, ekki í dag.” Undirritaður treysti sér ekki í lengri umræður og fór út. Reyndi að hugsa svolítið, en fór svo að leika sér. Og þetta var langur dagur og leiðinlegur, en samt svo eftirminnilegur, að hann hefur verið sífellt tilefni umhugsunar, íhugunar og þakklætis.
Í Hallgrímskirkju hefur listakonan Ólöf Nordal sett upp myndir af nokkrum íbúum sóknarinnar. Þær eru gifsgrímur, sem urðu til með því, að lagður var hjúpur efnisins yfir andlit sóknarbarnsins og það látið stirðna um leið og hinir smæstu andlitsdrættir mörkuðu spor sín í grímuna. Síðan var andhverfan steypt og sett upp á vegg. Svo nú má sjá hið hjúpaða andlit eins og utan frá og eins og í gegn um hjúpinn. Þá kemur nú ýmislegt athyglisvert og skemmtilegt í ljós. Hver og einn sem er hulinn slíkum myrkrahjúp, lokar ósjálfsrátt augunum og hverfur á vit hugsunar sinnar. Það kemur sterklega fram í svipbrigðum og andlitsdráttum. Og enginn er eins. Enginn hugsar eins. Fyrir áhorfandanum opnast nýr heimur íhugunar. Við þekkjum þó vel þann heim öll með einhverjum hætti. En í þessari skuggsjá hugsunar er einsog tilfinningin dýpki og skoðandinn dregst með inn í hugarheim annars einstaklings og verður margs vísari um sjálfan sig í leiðinni. Og það er eins nú sé og langur föstudagur í lífi þessa fólks, þar sem ekkert má gera, nema hugsa, íhuga. En um leið verður til eftirvænting, sem er bjarma slegin, því eftir þessa lífsreynslu hafa þau öll opnað augun og séð lífið á ný skýrari augum en áður. Það er alla vega mjög ásækin tilfinning og gaman væri að prófa þessa leið hugsunar. Láta hyljast dulúðugum hjúp og gefa sjálfum sér tíma. Eitt andartak á lífsins degi..
Sá sem stendur frammi fyrir krossi Krists, heyrir orð hans í þögninni, skynjar leiftur sögunnar í augnbotni íhugunarinnar, finnur til í slagæðunum og bláæðunum og taugahnútunum, - hann er hjúpaður Kristi sjálfum og les á nýjan hátt á eigin hjartslátt, eigin hugsun og umhverfið allt um kring, fólkið líka.
3Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni sem menn hylja fyrir andlit sitt, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. 4En vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði. Jes. 53.
Við kveinkum okkur yfir því að vera hulinn skugganum, en erum þá samt frekar og einmitt hulinn Kristi sjálfum. Við sjáum ekki raunveruleika lífs og trúar fyrr en við erum hjúpuð honum í allri sinni mynd. Og af því að krossinn er svo mikið p´ðislartól, þá verður sú mynd mjög raunveruleg, sár og þjáningarfull, þar sem hún horfir við okkur af krossinum. Vorar þjáningar eru hans þjáningar, vor harmkvæli hans harmkvæli. Það er að segja ! : Hann skilur þig. Hann skilur jafnvel þig, þó þér finnist stundum, að enginn skilji þig, þar sem þú ert í þjáningu einsemdarinnar, eða í sársauka sambúðarslita, eða atvinnuleysis, eða allsleysis, eða í fangelsi eða á leið í fangelsi, eða í óvissu um framtíðina, eða frammi fyrir dauðanum .!
Hvað er það að standa frammi fyrir krossi Krists? Er það að hlægja hæðnishlátri yfir þessum volaða manni, sem talaði um miskunn og fyrirgefningu og kærleika Guðs? Er það að fyllast skelfingu yfir afglöpum sínum, yfirsjónum, hroka, svikum og prettum? Er það að fyllast ótta við að líta í dagblöð, eða hlusta á fréttir, eða kíkja í facebook, af því að þar gæti birst einhver ófögnuður um sjálfa(n) mig, sannur eða loginn? Er það að standa niðurlægður í biðröð eftir því að fá gefins mat fyrir börnin sín í landi sem telur sig vera eitt það ríkasta í heimi, - og er það sennilega. Hver á hér að skammast sín?. Eða er það, að standa frammi fyrir krossinum, bara (!) að finna til yfir því að vera eins og ég er og hvernig ég verð, þegar ég mun hitta Drottin sjálfan og segja honum sögu mína?
5En hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða. Honum var refsað svo að vér fengjum frið og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigð(ir).
Ég held við þörfnumst langra daga þar sem ekkert má gera nema hugsa. Föstudagurinn langi nægir alveg, ef við notum hann vel og horfum auðmjúk á krossinn, en í von á þá birtu sem býr handan hans.
Sá sem hugsar með sjálfum sér, lítur í eigin barm, fær innsýn í það sem nefnist iðrun. Iðrun verður til, þegar við hryggjumst af yfirsjónum okkar. Sá sem iðrast fær löngun til að gera yfirbót. Yfirbót er að bæta ráð sitt, leitast við að sættast, bæta fyrir misgjörðir sínar og reynast þeim vel, sem brotið hefur verið á. Iðrun er fölsk, ef hún leiðir ekki af sér yfirbót.
Sá sem hugsar með sjálfum sér, lítur í eigin barm, uppgötvar harminn í brjósti sér, sem veldur sorginni, þegar áföll gengu yfir, þegar ástvinur dó, eða þegar lífsgrundvöllurinn féll, eða vonin hvarf, eða þegar sjálfsvirðingin var tekin og að engu gerð. Harmur og sorg haldast í hendur. Ótti og kvíði eru förunautar þeirra. Umgengnin við þær kenndir allar er sársaukafull og krefst mikils skilnings, samhyggðar, þekkingar og kærleika þeirra sem eru samferða á lífsleiðinni.. Sársauki okkar speglast í augum Jesú. Hann er okkar besti samferðamaður. En hver sem sá góði samferðamaður nú er í lífi mínu, þá á hann sér samsvörun í orði Jesú á krossinum: Kona, nú er hann sonur þinn, - vinur, nú er hún móðir þín. Þar eru orð framtíðarinnar í lífi sérhvers manns. Tökum því hvert annað að okkur, eins og Kristur tók okkur að sér Guði til dýrðar. (sbr. Róm. 13:7). Við verðum að leggja á brattann og við verðum að haldast í hendur. En sérhver hafi gát á sjálfum sér.
Uppi á Fimmvörðuhálsi, ofan við hjallana yfir Hrunagili og Hvannárgili, slær roða á rökkvaðan himinn kvöldsins. Brekkurnar eru skuggalegar og hraunelfan niður gilin, eins og blóðtaumar á risastóru krosstré og þegar komið er neðar í dalinn heitir þar Krossá. Skuggamegin er kalt og ógnin yfirgnæfandi og ásækin. En þegar horft er á þennan mikla skuggakross, glampa augun af roðanum handan við. Í þeim glampa lifir sannleikurinn um lifandi jörð, sem glóir eldrauð í sárið. Lifandi og iðandi kastar hún frá sér seigju blóðsins út yfir landið. Einhvern tímann, þegar ískalt jökulvatnið, hefur kælt það niður, svali fjallalækja og skúra hafa slegið yfir það svölun sinni og sólin veitt því yl að nýju og næringu, þá sprettur upp af því græn jörð og ávaxtarík. En það tekur tíma og það verður langur dagur þangað til. Það er samt fjallgöngumanninum eftirsóknarvert að komast upp á þessa fjallabrún og fá að horfa á jarðeldinn, sem staðfestu sköpunarkraftsins og vonarinnar um lifandi og farsælt framtíðarland.
Vegur trúarinnar er vegur lífsins og hann liggur á brattann. Enginn kemst hjá því að huga að þeirri slóð, sem liggur frá krossinum og að bjarma páskadagsins, - en það er fyrst handan krossins að reynir á trúna.. Það er sannarlega um mikinn “Heljarkamb” að fara. Okkur má vera ljóst að trúin er að því leyti lífshættuleg, að hún varðar líf og dauða. Íslendingar eru fjallgöngumenn af lífi og sál. Annars kæmumst við ekki um landið. En við þurfum oftar en ella að huga að hættunum og staldra við af og til, - ná áttum, hugsa, íhuga, endurskoða, iðrast. Og með orðum Hallgríms:
Steinþró míns hjarta úthöggvin sést. Heilagur andi vann það best. Líndúk trúar ég læt í té, Minn lausnari. Ilmandi smyrsl iðranin sé.
Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni skapara himins og jarðar. (Ds. 121). Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.