Með lífið í lúkunum

Með lífið í lúkunum

Við erum sífellt með lífið í lúkunum. Lífið er brothætt og þegar við tökum það í eigin hendur getur brugið til beggja átta. Þess vegna er boðskapur Biblíunnar þessi: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“ (Sálm 37.5).

Í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags verður í dag fjallað um íslenska málshætti og orðatiltæki sem upprunnin eru úr Biblíunni og íslenskum þýðingum hennar. Biblían er sannarlega rík af myndmáli og málsháttum og mörg orðatiltæki má einnig rekja til þeirrar helgu bókar. Stórir hlutar Biblíunnar, aðallega Gamla testamentinu, hafa geymst á íslensku frá því fyrir siðbótaröld (t.d. í handritinu Stjórn frá 14. öld og Hómelíubókinni frá því um 1200). Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku, kom út árið 1540, og er talið að Oddur hafi stuðst við mun eldri þýðingar, líklega allt frá 12. öld (1). Málfar Biblíunnar hefur því haft mótandi áhrif á tungumálið okkar í gegn um íslenskun helgra bóka, jafnvel frá því áður en elstu Íslendingasögurnar voru festar á bók (2). Við þýðingu Guðbrandsbiblíu sem út kom árið 1584 var stuðst við þýsku þýðingu Lúthers (frá 1545) auk Stjórnar-handritsins (dæmi: „andliti til andlitis“/„augliti til auglitis“ 1Mós 32.30, 2Mós 33.11, 5Mós 5.4, 1Kor 13.12) og fleiri kaþólskra rita (3).

Að opna skilningarvitin Gríðarlegan fjársjóð, bæði fyrir tungu, menningu og trú, er að finna í Heilagri ritningu. Í dag skoðum við aðeins brot af þeim fjársjóði, sérstaklega í ljósi ritningarlestra dagsins í dag og síðustu sunnudaga. Fyrri ritningarlestur dagsins (Jes 50.4-10) hefst með tilvísun í tungu og tal, virka tjáningu, en líka hina hlið málsins, hlustun og líðan:

Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum. Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt svo að ég hlusti eins og lærisveinn. Drottinn Guð opnaði eyra mitt og ég streittist ekki á móti, færðist ekki undan.

Að vera lærisveinn felur sem sagt í sér að nema tungutak uppörvunar, að þiggja frá Guði hæfni til að tala styrk inn í aðstæður þeirra sem þess þarfnast. Myndin af Guði sem vekur eyra okkar, sem viljum tilheyra honum, er mögnuð: „að ég hlusti eins og lærisveinn.“ Þetta er uppbyggjandi líking af umbreytingu frá svefni til vöku, frá lokun til opnunar, sem er gjöf frá Guði, gjöf sem lærisveinar og lærimeyjar þurfa að þiggja, undanbragðalaust. Við eigum auðvelt með að samsama okkur þessari líkingu þar sem það að geta styrkt hin þreyttu með orðum og hlustað af alúð er jákvætt og eflandi. Í hug koma ýmsar kraftaverkafrásagnir Nýja testamentisins sem birta Jesú sem þann sem leysir haft tungunnar og gefur fólki eyru sem heyra (t.d. Mark 7.35). Að „augu manns opnist fyrir einhverju“ er af sama meiði (sbr. Matt 9.30, Post 9.18).

Að bjóða hinn vangann En í beinu framhaldi heyrum við hjá Jesaja spámanni hvernig hlutverk þess sem fylgir Skaparanum að málum getur krafist stærri fórna en lærdóms í hlustun og styrkingu. Viljum við fylgja Jesú getum við þurft að mæta aðstæðum sem eru allt annað en hagstæðar:

Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt, huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.

Þessi lestur er gefinn í dag þar sem það er sunnudagur í föstuinngang. Fastan hefst á öskudaginn, næsta miðvikudag, og þá beinum við sjónum okkar til þjáninga Jesú á göngunni til Golgata. Þarna ómar orðtækið ,,að bjóða hinn vangann“ sem við könnumst við úr Matteusarguðspjalli (5.38-39): „Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð hinum einnig hina.“

Sem dæmi um hvernig bókmenntirnar bergmála biblíulegt myndmál er hvernig Halldór K. Laxnes notar hugtakið vangi í bókinni Sjálfstætt fólk (kafli 42 ber yfirskriftina „Vinstri vángi“ og kafli 47 „Hægri vángi“). Ásta Sóllilja hefur vinstri vanga frá móður sinni og hennar skjálga auga en hægri svipinn frá festu föðurfólksins á Rauðsmýri. Spenna er á milli vangasvipanna sem um leið tákna tvær hliðar í sálarlífi stúlkunnar (bls. 305) þar sem önnur lítur til baka en hin fram, ekki ósvipað rómverska goðmagninu Janusi; verður það veiklyndið sem ræður eða styrkleikurinn sem að lokum fær yfirhöndina?

Gamalt og nýtt Í Sjálfstæðu fólki er að finna margar biblíutilvísanir, til dæmis í dæmisöguna af Miskunnsama Samverjanum sem setti hinn slasaða upp á sinn eigin eyk (Lúk 10.34): „sálin tekur allt þess konar upp á sinn eigin eyk“ (bls. 311). „Leitið og þér munuð finna“ (Matt 7.7) er klassískt dæmi (bls. 15 í bók Halldórs). Í samtali kennarans og Hallberu gömlu sem finnst fátt benda til að heimurinn fari batnandi vísar sá fyrrnefndi í réttlætissólina: „þó seint sé þá rennur þó réttlætissólin upp á endanum, gamla kona“ (bls. 347). Þetta er tilvísun í Malakí spámann (3.20): „En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu. Þá munuð þið koma út, stökkva eins og kálfar sem hleypt er úr fjósi“. Skemmtileg lýsing er líka af því þegar blessaðri kúnni er hleypt út að vori.

Þannig er það stöðugt hið gamla og nýja sem tekst á eins og í fleiri bókum Laxness og í lífinu almennt. Biblían minnir á umskiptin sem geta orðið fyrir kraft Guðs: „Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið gamla varð að engu, nýtt er orðið til“ (2Kor 5.17).

Birtuskilyrði Ritningarlesturinn úr Jesaja spámanni endar með orðunum:

Sá sem gengur í myrkri og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.

Myrkur og ljós eru þekktar myndir og sjálfsagt sammannlegar. Engu að síður eru ýmis orðatiltæki og máltæki um birtuskilyrði í yfirfærðri merkingu biblíumálsins sem hafa fengið fastan sess í íslenskri tungu, til dæmis: • Setja ljós sitt (ekki) undir mæliker heldur láta það lýsa (Matt 5.15-16): láta ljós sitt skína • Sjá ljósið í myrkrinu (Matt 4.16, Sálm 112.4, sbr. Job 25.3) • Reka út í ystu myrkur (Matt 8.12 og 25.30) Þessi síðasta tilvitnun var lokaorð guðspjallsins fyrir tveimur vikum (1. sd. í níuviknaföstu, Matt 25.14-30). Mörg orðtæki sem eru notuð í tungumálinu enn þann dag í dag eru runnin úr því guðspjalli, svo sem: • Vera trú yfir litlu (Matt 25.21) • Uppskera eins og maður sáir (Matt 25.24, 2Kor 9.6, Gal 6.7) • Grátur og gnístran tanna (Matt 8.12, 13.42 og 50, 24.51, 25.30) • Grafa pund sitt í jörðu (Matt 25.25) • Ávaxta sitt pund (Matt 25.16-17) Ávöxtun og erfiðisvinna Talandi um ávöxtun; oft er vísað í gamla auglýsingu frá Silla og Valda (hver mundi muna eftir því fyrirtæki í dag nema vegna orðalags auglýsingarinnar?): Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá/„Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá“ (Matt 7.20). „Að bera hita og þunga dagsins“ (Matt 20.12) má líka nefna í þessu samhengi. Ef við höldum okkur við gróðurlíkingar og erfiðisvinnu þá er í guðspjalli biblíudagsins (textaröð A) talað um sæði sem fellur í grýtta jörð og annað sem féll í góða jörð og bar (ríkulegan) ávöxt (Matt 13.5-8). „Að leggja hönd á plóg“ (Lúk 9.62) er líka biblíulegt orðfæri úr daglegu lífi sem speglast í dagleg tali. Svo er líka stundum talað „forboðinn ávöxt“ sem er tilvísun í fyrstu Mósebók 2.17 og 3.6 og minnt á að „Adam var ekki lengi í Paradís“ (sbr. 1Mós 3.23-24). Eftirfarandi orðtök eru líka úr Gamla testamentinu: • Dansa í kring um gullkálfinn (2Mós 32) • Salómonsdómur (1Kon 3.16-28) • Dagar einhvers eru taldir (Dan 5.26)

Matteus vinsælastur Matteusarguðspjall uppspretta fleiri orðatiltækja en aðrar bækur (4) en margt sambærilegt er einnig að finna í hinum guðspjöllunum sem nefnd eru samstofna (Lúkasar- og Markúsarguðspjall). Má nefna þekkt orðasambönd úr guðspjöllunum og Postulasögunni eins og • Fullnægja öllu réttlæti (Matt 3.15) • Hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir (Matt 19.30, 20.16) • Sjá aumur á/kenna í brjósti um (Matt 9.36, Lúk 10.33, Matt 18.27) • Gjalda keisaranum það sem keisarans er (Matt 22.21) • Láta hverjum degi nægja sína þjáningu (Matt 6.34) • Í sama mæli (Matt 7.2) • Þjóna tveimur herrum/mammon (Matt 6.24) • Hver hefur sinn kross að bera/bera sinn kross/vera þungur kross (Jóh 19.17, Matt 16.24) • Vera af sama/öðru sauðahúsi (Jóh 10.16) • Leiða einhvern í allan sannleikann (Jóh 16.13) • Fara ekki í manngreinarálit (Post 10.34) Loks má nefna að máltækið „Eitt sem ekkert, tvö sem tíu“ – oft notað í sambandi við barneignir - byggir að mati Jóns G. Friðjónssonar á Matt 18.16.

Dramb er falli næst Í Orðskviðunum og Síraksbók eru líka rætur margra orðasambanda og máltækja. Bendir til að þessar bækur, ásamt guðspjöllunum, hafi verið mest lesnar, segir Jón G. Úr Orðskviðunum má t.d. nefna: • Dramb er falli næst, hroki veit á hrun (Ok 16.18) • Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum. (Ok 16.19) • Mörg ljón á veginum (Orðskv 22.13)

Talandi um ljón: „að bjarga úr gini ljónsins“ (2Tím 4.17) og „að ganga um sem grenjandi ljón“ (1Pét 5.8) eru líka biblíuleg orðatiltæki. Meðal orðtækja og málshátta úr öðrum bréfum Nýja testamentisins og Opinberunarbók Jóhannesar má nefna að í pistil biblíudagsins var talað um „tvíeggjað sverð“ (Heb 4.12, sbr. Orðskv 5.4), orð Guðs, sem smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar (sbr. líka orðatiltækið „merg og bein“). Að eitthvað sé tvíeggjað merkir í nútímamáli að ekki sé hægt að vita fyrirfram hvernig útkoman verði. En um heildarmyndina er oft sagt „frá A til Ö“, frá upphafi til enda, sem er vísun í „alfa og ómega“ (Op Jóh 1.8 og 22.13).

Lífsháskinn Eitt sérkennilegasta orðatiltækið er þó að finna í biblíuþýðingunni sem kom út árið 1912: Að vera með lífið í lúkunum (Sálm 119.109). Þar er að baki latneska þýðing Biblíunnar frá 4. öld (Vulgata) sem segir: Anima mea in manibus meis semper, enda þýðir Viðeyjarbiblía (1841): „Mitt líf er ætíð í minni hendi (í hættu)“. Liggur beint við að segja eins og 1912-útgáfan: „Eg geng ætíð með lífið í lúkunum“. Þýðingin frá 2007 fylgir 1981-útgáfunni og segir í anda Viðeyjarbiblíu: „Líf mitt er ætíð í hættu“.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Við erum sífellt með lífið í lúkunum. Lífið er brothætt og þegar við tökum það í eigin hendur getur brugið til beggja átta. Þess vegna er boðskapur Biblíunnar þessi: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“ (Sálm 37.5). Drottinn Guð gefi þér lærisveinatungu svo að þú lærir að styrkja hin þreyttu með orðum og veki eyra þitt hvern morgun að þú hlustir eins og lærisveinn og opni augu þín og skynjun fyrir nærveru sinni í lífinu miðju.

Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. (Passíusálmur 44:19)

(1) Einar Sigurbjörnsson (2007) „Þýðingar á íslensku“ í Heilög ritning – orð Guðs og móðurmálið. Sýning og málþing í Þjóðarbókhlöðu 2007, bls. 13-23. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Sótt 13.02.15 á http://landsbokasafn.is/uploads/syningarskrar/Bibl%C3%ADus%C3%BDning_skr%C3%A1.pdf Sbr. einnig formála að útgáfu Nýja testamentis Odds frá 1988, bls. XXV-XXVI. (2) Ármann Jakobsson (1998) „Var Hákon gamli upphafsmaður Íslendingasagna?“ í Lesbók Morgunblaðsins 12.09.1998. Sótt 13.02.15 á http://www.mbl.is/greinasafn/grein/419115/ (3) Dæmi um áhrif frá Lúther nefnir Jón G. Friðjónsson orðasambandið „einhverjum vex eitthvað yfir höfuð“ (Esra 9.6). Jón G. Friðjónsson (1997) Rætur málsins. Reykjavík: Íslenska bókaútgáfan, bls. XXX. (4) Sama, bls. XVI.