Á göngu með Jesú og Harald Fry

Á göngu með Jesú og Harald Fry

Harold Fry var á pílagrímsgöngu. Á þeirri göngu fékk hann ýmis tilboð, góð og slæm. Hann barðist við að taka réttar ákvarðanir og eins og svo oft í lífinu getur liðið nokkur tími þar til við sjáum hvort það hefur tekist. Af því að lífið er pílagrímsganga - leið í brúðkaupið í för með Jesú. Á þeirri göngu mæta okkur ýmis tilboð.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesús Kristi. 

 

Thelma Dís var borin til skírnar áðan. Lítið barn, umvafið ást foreldra, systkyna og annarra ástvina var miðpunktur athafnar í kirkjunni. 

 

Það er eitthvað við nýfædd börn sem vekur með okkur kenndir sem enginn annar getur kveikt. Okkur finnst barnið stórkostlegt. Ekki af því að það hafi unnið nein afrek - ja, önnur en þau að fæðast, sem er reyndar talsvert hættuspil og því ákveðið afrek, bæði hjá barni og móður. Með því einu að fæðast  hefur barnið fangað athygli okkar og ást. Við skynjum að það er kraftaverk. Og ef ég spyrði hvað það væri við barnið sem vekur okkur þessar tilfinningar þá ættum við erfitt með að svara. Þetta er líkt og með ástina, sumt er bara og við getum ekki bútað það í sundur og skilgreint. Það er leyndardómur. 

 

Við tölum líka um skírnina sem leyndardóm. Sakramenti - helgur leyndardómur. Jesús sagði okkur að skíra,  og þegar börn eru borin til skírnar er það trú og vilji foreldranna sem ræður því. Þau vilja að barnið alist upp sem kristinn einstaklingur. Gjöf skírnarinnar er síðan barnsins að opna eftir því sem það eldist - og vonandi nota.

 

Foreldrarnir ala barnið upp og leitast við að veita því allt sem það þarfnast. 

Hvers þarfnast barn? Jú, það þarfnast matar, fata, skjóls. Í vali á því njóta þau aðstoðar ýmissa auglýsanda sem kynna vöru sína, mat, föt, skjól. Tilboðin eru mörg. Þau eru ekki öll jafngóð. Þar er foreldranna að velja og hafna.

 

En fái barnið aðeins þessar nauðsynjar, mat, föt, skjól, gerist nokkuð merkilegt:Barnið þrífst ekki. Það þroskast ekki vel. Börn þarfnast nefnilega nándar, ástar og umhyggju. Þau þarfnast hlýjunnar en líka þessa óáþreifanlega sem segir þeim að þau séu elskuð og að þau séu örugg. 

 

--

Ég las nýlega bókina um hina ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry. Hafið þið lesið hana?

 

Harold Fry er maður sem er kominn á eftirlaun. Hann er þunglyndur og ýmislegt í lífinu hefur farið öðru vísi en ætlað var. Hann fær bréf frá gamalli samstarfskonu sem er að deyja úr krabbameini. Og á leið sinni með svarbréf til hennar í póst, fær hann þá hugmynd að ganga alla leið til hennar, England á enda. Hann beit það í sig að með þessari göngu gæti hann komið í veg fyrir að vinkonan dæi. Hann var ekki göngumaður, hafði aldrei gengið lengra en að bílnum sínum, að sögn konunnar hans, en hann lagði af stað og tók eitt skref í einu. Og sendi vinkonu sinni reglulega skilaboð um hvernig miðaði.

 

Eftir því sem á gönguna líður skilur maður Harold betur. Eitt af því sem verður augljóst er að hann glímir alla æfi við það að hafa ekki fengið nægilega ást og öryggi sem barn.  Pílagrímsganga hans er því einnig uppgjör hans við líf sitt.

 

Þegar leið á söguna fréttist þessi ganga og var mörgum innblástur í fjölmiðlum. Og þegar Harold Fry var orðinn frægur fyrir að vera pílagrímur, fóru ýmsir að slást í hópinn. Þar þekkir maður margan karakterinn sem grípur sínar fimm mínútur í fjölmiðlum. Allir sögðust vera á sömu leið og Harald Fry, allir sögðust vera að þessu svo að vinkona hans, Queenie, myndi lifa. En það var ekki samhljómur.

 

Sérstaklega eftirminnilegur er mér maður sem slóst í hópinn sem einlægur pílagrímur en reyndi jafnframt stöðugt að stjórna honum. Hann reyndi líka að nota tækifærið í leiðinni og gera verkefnið flottara og meira glansverkefni, samþykkti ýmis tilboð, útvegaði þeim boli sem á stóð pílagrímur og orkudrykki sem mikilvægt var að halda á og hafa áberandi ef fjölmiðlar voru nærri. Hann var búinn að finna kostunaraðila. Hann sagðist vera á göngu með Harold en í raun var hann á allt annarri göngu, með allt öðrum reglum og Harold í besta falli truflandi og þegar verst passaði hann alls ekki í þeirri för. Harold hafði engan áhuga á þessum tilboðum.

 

--

Textarnir í dag fjölluðu um líka tilboð. Tókuð þið eftir því? Þar er tilboð í Lexíunni: 

Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins
og þér sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið,
komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.
Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð
og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?
Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti.


 

Fyrstu áheyrendur þessara orða voru gyðingar í Babýlon, herleitt fólk sem hafði þó náð að koma sér vel fyrir í nýju landi. Og í Babýlon var stór markaður og auðvelt að kaupa allt sem hugur girntist. En það var ekki allt sem sýndist. Sækist eftir því sem skiptir máli, segir spámaðurinn. Ekki kaupa eitthvað sem reynist vera eitthvað allt annað, brauð sem ekki er brauð, matur sem seður ekki.

 

Í Matteusi er tilboðið af öðrum toga. Það er boðið í brúðkaup. En heiðraðir boðsgestir hafa ekki áhuga á að mæta. Ekki þó að þeir séu þrábeðnir. Þá er öðrum boðið og húsið fyllt. 

 

Það er afskaplega skýr líking í þessum texta. Brúðkaup er iðulega líking fyrir himnaríki í Biblíunni. Brúðguminn er Guð og hann býður þjóð sinni, Gyðingum. En þjóðin hafnar tilboði hans, hafnar því að fylgja Kristi. Og fyrstu lesendur Matteusarguðspjalls, kristinn söfnuður á 1. öld, skilja að Guð hefur opnað hliðið fyrir öllum þjóðum, hann er ekki bundinn við Gyðinga, allir eiga aðgang inn í himnaríki, inn í fögnuð herrans. Þetta er einfallt og skýrt. En svo er þarna er einn sem mætir án brúðkaupsklæða. Við vitum lítið um þessi klæði annað en það að allir þeir fátæku og vesölu sem komu virtust hafa þau. Sumir telja að brúðguminn hljóti að hafa útvegað þau. Það getur verið. Aðalatriðið er að þessi maður hafði greinilega enga afsökun fyrir því að vera ekki í brúðkaupsklæðum. Hann hafði einfaldlega ekki áhuga á að fara eftir reglum boðsins og sýnir með því brúðhjónunum lítilsvirðingu. 

 

Maðurinn minnti mig á karakterinn í sögu Harolds Fry, sem reynir að taka stjórnina og breyta göngunni í eitthvað allt annað en hún var.  Kirkjusagan segir okkur líka frá ýmsum sem reyndu að leiða frumkirkjuna í aðrar áttir. Og litlu söfnuðirnar, sem fyrstir heyrðu þessa sögu lesna sem guðspjall, voru iðulega ofsóttir og drepnir. Þeir hittust í leyni og óttuðust þau innan hópsins sem gátu skaðað hann.

 

Ef þú velur, vertu þá heill í því. Veldu af réttum ástæðum.

 

Leiðbeiningarnar  í pistli dagsins sem einnig var lesinn hér áðan bendir á leiðsögn til að velja: "Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins."

Það sem blasir því við okkur er að spyrja okkur sífellt í lífinu:

Hvernig vill Guð að ég breyti? Hvert vill Guð að ég fari? Hvað vill Guð að ég geri?

 

--

Harold Fry var á pílagrímsgöngu. Á þeirri göngu fékk hann ýmis tilboð, góð og slæm. Hann barðist við að taka réttar ákvarðanir og eins og svo oft í lífinu getur liðið nokkur tími þar til við sjáum hvort það hefur tekist. Af því að lífið er pílagrímsganga - leið í brúðkaupið í för með Jesú. Á þeirri göngu mæta okkur ýmis tilboð. 

 

Þegar Thelma Dís vex úr grasi mæta henni líka tilboð. Sum góð, önnur slæm. Líkt og hjá okkur öllum mun reyna á það hvernig undirbúning hún hefur. Skírnin opnar okkur tækifæri, færir okkur tæki,  gefur okkur sjónarhorn til að meta tilboðin. Þetta sjónarhorn er Kristur, sjónarhorn hans, leiðbeiningar hans og ást hans á hverri manneskju. 

 

Megi það vera bæn okkur fyrir Thelmu Dís, fjölskyldu hennar, ástvini og ekki síður fyrir okkur öllum að við lærum að nýta okkur þá gjöf skírnarinnar, að leita vilja Guðs og láta Krist leiða okkur í lífinu.