Skapa í mér hreint hjarta

Skapa í mér hreint hjarta

Við annan lestur erum við meðvituð um þau viðbrögð og skynjanir sem eiga sér stað í líkama okkar við að heyra þessi orð. Finnum við spennu eða slökun, gleði eða hryggð? Fara einhverjar hugsanir af stað? Við bara veitum þessu athygli án þess að dæma eða fylgja eftir tilfinningum og hugsunum. Sýnum viðbrögðum okkar eftirtekt, forvitni, og snúum síðan aftur að því orði sem talaði til okkar í byrjun.
Mynd

Kyrrðarstund í Grensáskirkju 9. júní 2020: Skapa í mér hreint hjarta


Í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda. Amen. Biðjum: 
Vaktu minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér,
sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Amen


Við komum okkur fyrir þannig að ekkert þrengi að. Finnum súrefnið flæða frjálst um líkamann. Ef einhvers staðar er spenna beinum við athyglinni þangað og gáum hvort andardrátturinn gefi mýkt inn í svæðið. Við erum í öruggu rými, stóllinn ber okkur uppi, gólfið veitir líkamanum fótfestu og höfuð er reist í átt til víðáttu himinsins. Öryggi og frelsi.

Íhugun okkar í dag er einföld. Við heyrum nokkrar línur úr Davíðssálmi 51 (vers 12-14) þrisvar sinnum og gefum okkur góða kyrrð á milli lestra.

Við fyrsta lestur veitum við því eftirtekt hvort og þá hvaða orð eða orðasamband talar sérstaklega til okkar einmitt núna. Leyfum því orði að hljóma innra með okkur í þögninni sem fylgir.

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.
Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiks anda.

Þögn

Við annan lestur erum við meðvituð um þau viðbrögð og skynjanir sem eiga sér stað í líkama okkar við að heyra þessi orð. Finnum við spennu eða slökun, gleði eða hryggð? Fara einhverjar hugsanir af stað? Við bara veitum þessu athygli án þess að dæma eða fylgja eftir tilfinningum og hugsunum. Sýnum viðbrögðum okkar eftirtekt, forvitni, og snúum síðan aftur að því orði sem talaði til okkar í byrjun. 

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.
Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiks anda.

Þögn

Við þriðja lestur gáum við hvort bænarorð sálmsins í heild verði að okkar bæn, við meðtökum þau með andardrættinum, leyfum þeim að hafa djúpstæð áhrif á vitund okkar, verum opin fyrir anda Guðs í meðvitaðri eftirvæntingu.

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.
Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiks anda.

Þögn

Guð, við þráum hreinleik hjartans. Guð, við þörfnumst þíns nýja, stöðuga anda. Vertu okkur nálægur í heilögum anda þínum, leyfðu okkur að fyllast frelsisfögnuði, gefðu okkur fúsleik til að miðla nálægð þinni með veru okkar allri.

Saman biðjum við bæn Jesú:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð, faðir, sonur og heilagur andi, varðveiti þig og þína. Góðar stundir.