Verndaðu mig frá því sem ég vil

Verndaðu mig frá því sem ég vil

Til þess að finna hamingjuna þurfum við að leita á réttum stöðum og við þurfum að beita okkur sjálf aga til þess að missa ekki sjónar á markinu. Tvær mikilvægar leiðarstikur vísa okkur meðal annars veginn þangað

Biðjum með orðum Hallgríms Péturssonar:

Hafðu, Jesú, mig í minni, mæðu og dauðans hrelling stytt. Börn mín hjá þér forsjón finni, frá þeim öllum vanda hritt. Láttu standa á lífsbók þinni líka þeirra nafn sem mitt.

„Verndaðu mig frá því sem ég vil,“ segir á stóru auglýsingaskilti í borginni Las Vegas. Þessi orð standa innan um glitrandi skrautið í borginni frægu og skera sig þar heldur betur úr öllum gylliboðunum og lokkandi tilboðunum sem þar má finna á hverju strái.

Bæn um vernd

„Verndaðu mig frá því sem ég vil.“ Þetta er bæn, hugsanlega einhvers konar ákall mitt í þeim stað sem státar sig af því að bjóða upp á fleiri freistingar en aðrir staðir gera. Áletrun þessi er reyndar eftir nútímalistamanninn Jenny Holzer sem hefur lag á því að læða inn setningum á staði þar sem við eigum alls ekki von á að lesa neitt í þá áttina. Það er eitthvað óþægilegt við þessi orð – þar sem þau birtast mitt þessu í umhverfi. Borgin stendur jú í miðri eyðimörkinni og ef það væri ekki fyrir gróðafíknina og hömluleysið sem heltekur gestina, þá ætti hún sér ekki viðreisnar von.

Borgin birtir neyslusamfélagið í hnotskurn. Ljósadýrðin og háhýsin verða til fyrir það fé sem gestirnir tapa við spilaborðin. Svo einfalt er það. Litirnir og brosin eru tálsýn og það mega þeir vita sem þangað leggja leið sína. Yfirborðið er jafn fagurt og bakhliðin er dökk.

Yfirskrift föstudagsins langa

„Verndaðu mig frá því sem ég vil.“ Þessi orð gætu verið yfirskriftin á föstudeginum langa. Eða svo var það að minnsta kosti. Hér í gamla daga man ég eftir því þegar ég sat í vorbirtunni á þessum langa föstudegi og leyfði hugsununum að ferðast um kollinn því ekki var mikið annað í boði. Á þessum degi opnaðist það fyrir fólki hversu stór hluti lífs þeirra var helgaður þeim iðnaði sem mest hefur vaxið í heiminum frá iðnvæðingu – það er að segja afþreyingunni. Við gátum ekki farið í bíó, ekkert var í sjónvarpinu, leikhúsin lokuð og samkvæmt lögum var ýmis dægrastytting ekki leyfð föstudeginum langa.

Þarna vorum við sannarlega vernduð gegn því sem við viljum. Undanfarið hefur hópur fólks komið saman á Austurvelli og spilað bingó með Alþingishúsið og Dómkirkjuna í bakgrunni einmitt til þess að láta reyna á lögin. Niðurstaðan hefur verið á sama veg. Þeim er ekki framfylgt. Straumurinn æðir áfram. Afþreyingin vex og hún fyllir út í líf okkar. Hún fyllir út í tímann, dagana, helgin er horfin. Það sýnir þessi táknræna athöfn.

Dagur íhugunar

Föstudagurinn langi er runninn upp. Þetta er merkilegur dagur. Hann er sannarlega helgaður þeim sorglega atburði þegar mennirnir tóku Krist höndum, húðstrýktu hann, hæddust að honum og hengdu upp á kross. Á þessum degi sem aldrei fyrr hugleiðum við dökkar hliðar í lífi okkar. Við skyggnumst inn í sálina og finnum þar ýmsa hnökra. Við horfum yfir mannfjöldann og við spyrjum okkur hvað þar er að finna. Þar sjáum við ýmislegt, allt eftir því hvernig horft er. Sumir greina þar ef til vill stórkostleg tækifæri og víst er það að í okkur öllum býr margt fagurt og gott. Aðrir líta til þess sem tortímir og skaðar og sjá í manninum veru sem reynir eftir öllum mætti að ná meiri völdum og meiri auð þótt það kosti þjáningar og stórkostlegar fórnir.

Hvað segir Páll postuli: "Því að hið góða sem ég vil, geri ég ekki, en hið vonda sem ég vil ekki, geri ég." Þessi orð gætu líka staðið á ljósaskiltum.

Milljarður eða líkamlegt áfall?

Fræðimenn og vísindamenn kafa æ dýpra ofan í mannsálina og finna þar ýmislegt sem rennir stoðum undir það sem að framan er sagt. Ég sat fróðlegt námskeið nú í janúar þar sem virtur geðlæknir fjallaði um hamingjuna. Hann byrjaði á því að spyrja okkur hvort við vildum fremur vinna milljarð í víkingalottóinu eða stórslasast í bílslysi. Ekki erfitt val? Í framhaldi sagði hann frá rannsóknum á hamingju fólks þar sem í ljós kom að þegar þessir hópar eru spurðir um líðan sína og hamingju ári eftir atburðinn – sem var ýmist risavinningur eða stórkostlegt slys – kom sá hópur jafnvel ívið betur út sem orðið hafði fyrir áfallinu.

Þessir ólíku atburðir höfðu leitt fólk hvort í sína áttina. Hinir nýríku milljarðamæringar höfðu einangrað sig frá öðrum, enda leið þeim eins og allir væru að hafa af þeim fé. Þeir áttu ógrynni af alls kyns drasli og leikföngum af öllum stærðum og gerðum en ekkert af því hafði gefið þeim þá tilfinningu að þeir hefðu unnið raunverulega fyrir þeim. Í lífi þeirra var risastór hola sem ekkert af þessu náði að fylla í. Þeir sem glímdu við líkamstjón eftir slys höfðu á hinn bóginn fundið hvernig samfélagið í kringum þá þjappaði sér að þeim. Þeir upplifðu örlitla áfangasigra í endurhæfingu sem hafði staðið yfir í langan tíma. Þeir horfðu inn á við og fundu þar margan fjársjóðinn sem hvorki verður keyptur né seldur.

Hin drottinlega bæn

„Verndaðu mig frá því sem ég vil.“ Eru þessi orð meira lýsandi en okkur kynni að gruna í fyrstu? Er þetta ef til vill útlegging á tveimur setningum í bæn Drottins: „...vernda oss frá illu“ og „verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni“? Fær bæn þessi ekki enn sterkari hljóm ef við setjum hana í þetta samhengi?

Á föstudeginum langa ættum við að kyrra hugann. Við ættum að leita inn á við. Boðskapurinn er djúpur og merkilegur. Hann fjallar um gríðarstóra fórn sem hinn almáttugi færir svo við sjálf þurfum ekki að borga gjaldið fyrir syndir okkar og breyskleika. Hann fjallar um það hvernig Drottinn sjálfur mætir okkur í þjáningum okkar. Þetta bið ég ykkur að hugleiða. Drottinn mætir okkur ekki eins og sá sem þekkir öll svörin og veit allt um allt. Nei, hann mætir okkur eins og sá sem sjálfur hefur mátt þola óréttlæti og þjáningar. Þegar við sitjum í einsemd okkar, talar Kristur til okkar eins og sá sem hrópaði á krossinum: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Þegar við glímum við sára reynslu á líkama eða sál þá getum við leitað huggunar hjá Drottni sem var hæddur af lýðnum, dæmdur saklaus, húðstrýktur og negldur á kross:

Hafðu, Jesú, mig í minni, mæðu og dauðans hrelling stytt.

Jesús mætir okkur í lífinu með nærgætni þess sem hefur staðið á brúninni og horft niður í djúpið. Við ættum að gefa okkur næði á þessum degi til þess að hugleiða líf okkar og stefnu. Við ættum að spyrja okkur hvernig manneskjur við erum. Hvernig þróast lífið okkar og samfélagið í kringum okkur ef við höldum áfram með þessum hætti á þessum hraða.

Upplýst borg

Stundum minnir samtíminn á upplýsta borg þar sem sorgin og þjáningin býr bak við ljósaskiltin og hallirnar. Hún stendur og fellur með því að fólk taki þátt í leiknum jafnvel þótt allt það sem fyrir augunum blasir eigi rætur að rekja til þess að fólk hefur tapað og farið á mis við þau tækifæri sem það sóttist eftir. Annars væri auðurinn ekki til staðar.

En hamingjuna finnum við ekki á þeim slóðum. Til þess að finna hamingjuna þurfum við að leita á réttum stöðum og við þurfum að beita okkur sjálf aga til þess að missa ekki sjónar á markinu. Tvær mikilvægar leiðarstikur vísa okkur meðal annars veginn þangað: „Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu“. og „Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.“

Amen.

Guðspjall: Jóh 19.16-30 Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann. Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“ Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“ Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gerðu hermennirnir. En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“ Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.