Með nóttina í augunum.

Með nóttina í augunum.

„Hvað gerðist á páskum?“ Svar fermingarbarnsins var: “Á fyrstu páskum vissi fólkið ekkert um hvað mundi gerast. En við sem lifum í dag vitum það…” svarið var ekki lengra en þetta. Kjarninn í hinu ósegjanlega er að við vitum, en samt skulum við vera hlaupa við fót frá þeirri staðreynd að við vitum hvað gerðist á páskum.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
07. apríl 2020


“Skelfist ekki, hann er upprisinn” voru orð engilsins sem stóð við opna gröf Jesú árla páskadagsmorgunn. Konurnar María Magdalena og María hin sem fyrstar manna fengu að heyra fagnaðarboðskapinn brugðust öndvert við urðu skelfdar og hlupu við fót og þorðu ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því að Jesús Kristur væri upprisinn.   Glætan að einhver keypti þá frétt af þeim.  Þrátt fyrir að sú staðreynd væri mesta skúbb allra tíma.  Fyrir það fyrsta engin myndi taka þær trúanlegar og í öðru lagi þær voru konur.

Það er eitthvað svo yndislegt og mannlegt að lesa um viðbrögð kvennanna með nóttina í augunum.  Álíka fallegt og frásaga Föstudagsins langa er hryllileg.  Hryllingurinn og fegurðin náðu að snertast svo úr varð eitthvað ósegjanlegt.  Páskarnir eru nefnileg ósegjanlegir.    Eða svo hélt ég í einfaldleika mínum þar til ég las svar eins fermingarbarnsins um daginn við spurningunni; í könnunn sem við prestarnir lögðu fyrir þau:   „Hvað gerðist á páskum?“  Svar fermingarbarnsins var:   “Á fyrstu páskum vissi fólkið ekkert um hvað mundi gerast.  En við sem lifum í dag vitum það…” svarið var ekki lengra en þetta.   Kjarninn í hinu ósegjanlega er að við vitum, en samt skulum við vera hlaupa við fót frá þeirri staðreynd að við vitum hvað gerðist á páskum.

Við skulum leyfa inntaki páskana eiga sér stað og sess í huga. Þá staðreynd að freðin ásjóna Covit veirunnar roðnar undan birtu páskasólarinnar-vekur til lífsins, lyftir upp því sem í mold hafði legið. Á þetta ekki aðeins við um hamskipti náttúrunnar heldur og hugsun okkar og tilveru almennt þessi dægrin. Við höfum verið knúin til þessað snúa við þeim gildum, sem við höfum hlaðið um okkur á hvolf og uppgvötum frelsi þess að hugsun okkar er takmörkum sett. Sættum okkur við það.

Það er “vetur” hugsana hjá svo mörgum á tímum samkomubanns.  Áhyggjur af afkomu og þess sem verður. Við vitum að það verður en við vitum ekki hvað það verður. Þangað til skulum við ekki hafa áhyggjur af því hvað mun verða.

Sá atburður gerðist sem breytti öllu og við fögnum á páskum.  Við skulum ekki ætla að það gerist ekki í dag. Kann að vera að fögnuður þjóðar sé rám af kvefi væntinga um eitthvað meira og stærra. Til þess að stækka þurfum við að byrja á því að vera smá og sættum okkur við það. Verum stór í því smáa. Þá þurfum við ekki í skelfingu hugans hlaupa frá og þora ekki fyrir okkar litla að segja frá.

Þess vegna er hægt að segja að atburður páskadagsmorguns sé sístæður í lífi okkar. Um síðir sögðu konurnar frá því sem þær urðu áskynja.

Það er hægt að segja eins og fermingardrengurinn um árið “við sem í dag lifum vitum það.” Spurningin sem eftir stendur hvað gerum við, með þá vitneskju?   Guð gefi þér og þínum gleðilega páskahátíð!