En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur, og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.Jóhannes 16.5-15
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Á dögunum fengum við í heimsókn góða gesti suður frá Skáni. Þeir rötuðu lítið hér í Gautaborg og þurfti ég því að vísa þeim veginn heim til mín. Leiðsögnin var einhvern veginn svona: „Þið keyrið framhjá Ikea, akið áfram þar til þið sjáið stóra byggingu - það er Astra Zeneca. Þið beygið þar til vinstri og fylgið hraðbrautinni. Ef þið sjáið MacDonalds á hægri hönd eruð þið á réttri leið. Litlu síðar sjáið þið á vinstri hönd stóra byggingu með merki ABB. Ekkert mál, akið áfram. Svo beygið þið upp þar sem er stórt Volvoskilti, það getur ekki farið framhjá ykkur.
Ef þið hins vegar sjáið Burger King þarna á hægri hönd eruð þið komin of langt og verðið að snúa við. En ef þetta hefur gengið allt hjá ykkur akið þið yfir brúna í áttina að verslunarmiðstöð sem heitir Sisjön centrum. Þar er Bilhälls á hægri hönd og á vinstri hönd Saab og Opel. Þið akið þar á milli þeirra og inn í skóginn þar til þið sjáið mig standa við veginn og lóðsa ég ykkur síðasta spölin.“ Vörumerkin eru jú ekki fleiri þegar í skóginn er komið.
Merki um átrúnað?
Þegar fornleifafræðingar leita merkja mannvista, skoða einhvern stað þar sem viti bornir forfeður okkar höfðust við einhvern tíma í fyrndinni, munu þeir sérstaklega gefa gaum einhverjum merkjum guðsdýrkunar. Slík teikn eru víst ótvírætt merki þess þar hafi búið fólk, viti borið upprétt fólk sem horfir ekki aðeins niður fyrir sig og í kringum sig í leit að æti heldur einnig upp til einhvers sem er því æðra. Maðurinn hefur þessa sérstöðu.
Og merki þessi geta verið margvísleg. Hellaristur, útbúnaður með látnum einstaklingum, fórnarstallur eða eitthvað annað sem ekki verður útskýrt einöngu sem hefðbundin lífsbjörg og bendir til þess að maðurinn hafi gert sér hugmyndir um eitthvað sem væri honum æðra og hann liti upp til.
Nú vitum við auðvitað minnst um það hvort okkar samfélög verða viðfangsefni fornleifafræðinga í hulinni framtíð. En gaman er að velta vöngum yfir því hvað það er sem þeir myndu sérstaklega brjóta heilann um.
Ekki er ósennilegt að þeim yrði starsýnt á litskrúðug skiltin sem kæmu í ljós hvert af öðru í þeim jarðlögum sem okkar tími hefði myndað, þessi dularfullu tákn og stóru stafir. Vafalaust myndu þeir finna sömu merki í fatnaði okkar, ýmsum smátólum og bifreiðum. Sjálfsagt myndu þeir leggja saman tvo og tvo og sjá það fyrir sér að líf fólks hafi í stórum stíl snúist um það að blíðka þá guði sem á merkjunum standa. Ætli þeir fyndu ekki hugtök yfir þessa guðsdýrkun og reyndu að draga upp myndir af því hvernig hún hefði farið fram.
Þetta væri kannske ekki svo galið hjá þeim. Þessi leiðarlýsing sem þið heyrðuð þarna í upphafi var síður en svo út í bláinn. Þetta eru vitarnir sem standa upp úr, mælistikurnar sem vísa okkur veginn í dag. Hvert sem litið er í þessu samfélagi okkar ber þeim fyrir sjónir.
Þau blasa líka við okkur þegar við komum heim til Íslands, standa þarna í röðum við innkomuna í flugstöðuna. Áður en ættingjar og vinir hafa fagnað komu okkar standa þau þarna, hin alþjóðlegu vörumerki og bjóða okkur velkomin til landsins. Staðfesta það um leið og við erum lent á þessari lilu eyju úti í Atlantshafi að einnig þar séu þau út um allt. Svo ekkert fari nú á mill mála.
Stundum velti ég því fyrir mér hversu yfirþyrmandi nálægð þeirra er og um leið hversu greiðan aðgang þau hafa að hugum okkar og hjörtum. Ekki síður hitt hvort þau beini lífi okkar í einhverja stefnu - ekki aðeins þegar þau eru notuð sem vegprestar á ferðalögum heldur hitt hvort þau raunverulega stýri því hvernig við lifum lífinu í meira mæli en eðlilegt getur talist.
Að leita hins góða
Við heyrðum hér áðan lesið guðspjallið þar sem Kristur býr lærisveina sína undir þá tíma er hann yfirgefi þá. Hann hughreystir þá og heitir þeim því að þeir verði ekki skildir eftir einir heldur muni, hjálparinn, heilagur andi veita þeim leiðsögn og vera þeim innblástur í því mikla starfi sem beið þeirra. Senn yrði ekki hjálpræði mannsins bundið við ákveðinn stað og ákveðna stund heldur yrði það fært út yfir allan heiminn. Lærisveinar Krists mundu bera út boðskapinn og heilagur andi veitast öllum lýðum.
Þeir áttu að flytja boðskapinn góða sem myndi vísa fólkinu veginn. Leiðbeina því í gegnum lífið. Beina því inn á réttar brautir, hvetja það til umhyggju með náunganum, ábyrgðar á sjálfu sér og gagnvart örðum, hughreysta það og styrkja. Boðskapurinn sem heilagur andi átti að flytja, boðskapurinn um hinn krossfesta og upprisna Krist, nær til allra þátta mannsins, styrkir hann og hvetur hann til að rétta náunganum hjálparhönd. Þessi boðskapur sigraði líka heiminn.
En margur hefur þó reynt að gera innihald hans tortryggilegt og sverta hann. Honum er ýtt út úr skólakerfinu. Margur vill ekki kenna börnum sínum bænir. Ekki fræða þau um frásagnir af Kristi. Hvað þá að til hans sé leitað sem fyrirmyndar fyrir sig og sína. Kannske býr þar að baki sú draumsýn að hver og ein manneskja geti tekið sínar ákvarðanir í algeru tómarúmi. Ekkert hafi áhrif á hana og engin ölf stýri gjörðum hennar eða beini þeim á ákveðnar brautir.
En mannshugurinn starfar ekki þannig. Hann leitar stöðugt að hugtökum, leiðsögn, hvar sem hana er að finna. Og þar sem ekki til staðar jákvætt lífgefandi vegarnesti er skarð þess fyllt með öðrum boðskap. Afleiðingar þess eru hraði og hávaði. Okkur er sagt hvernig við eigum að líta út. Hvað við eigum að borða. Hvað við þurfum að eiga.
Við verðum stöðugt svöng eftir meiru og meiru. Börnin eru stöðugt útsett fyrir nýrri bylgju leikfanga með nýjum nöfnum. Barnungar unglingsstúlkur eru gerðar að söluvöru í auglýsingum. Sjálf erum við stöðugt minnt á það hversu fánýtir þeir hlutir eru sem við eigum í fórum okkar samanborið við þá sem nýkomnir eru á markaðinn.
Ég hugsa oft með mér þegar ég er með eldri einstaklingum sem senn kveðja þennan heim hversu ríkir þeir eru margir af sálmum og bænum sem þeir lærðu í æsku. Það lifir jafnvel á vörum þeirra þótt hrörnun hafi rænt þá flestum öðrum minningum. Hvaða auglýsingarstef skyldu berast af vörum okkar þegar kvöldar í okkar lífi?
Meginboðskapurinn er á þá leið að við eigum að láta allt snúast í kringum okkur sjálf. Um leið vaknar hættan á því að við gleymum allri samhygð. Látum okkur náungann í léttu rúmi liggja. Og þá höfum við týnt tilgangnum með lífinu. Markmið þess er að verða heilsteypt manneskja, sem er samkvæmt kristinni trú, að fylgja í fótspor Krists og hafa hann sem fyrirmynd.
Reynslan af Guði er rótin að allri þrá okkar eftir einhverju meiru. Þegar búið er að ýta Guði út úr lífi okkar. Taka hann burt úr skólanum. Frá rúmstokknum er við bjóðum börnum okkar góða nótt á kvöldin. Frá hversdagslegri tilveru okkar. Frá frístundum okkar. Skapast gapandi tóm sem maðurinn reynir í ómeðvitað að fylla.
Auglýsingarnar og stóru skiltin sem standa út um allt eru ekki bara orð og myndir. Þau færa okkur ákveðin skilaboð um það hvernig lífi við eigum að lifa. Þau leita í þetta tóm í hjörtum okkar sem við reynum stöðugt að fylla.
Að finna hið góða
„Syndin er að þeir trúðu ekki á mig“, segir í guðspjallinu. Syndin lætur okkur missa stjórn á lífinu. Hún stuðlar að því að okkur yfirsést munurinn á því sem er gerir líf okkar í besta falli skemmtilegra um stundarsakir, lyftir okkur upp smástund, og því sem lífið raunverulega snýst um. Hún rænir okkur þeirri tilfinningu að nú séum við búin að fá nóg. Nú þurfum við ekki meira. Hún hrópar að okkur að stöðugt þurfum við meira og meira.
Kristin trú er af allt örðum toga en sá boðskapur sem dynur hvað hæst í eyrum okkar og blasir við hvar sem við lítum. Hún er ekki yfirborðsleg heldur kafar hún niður í dýpt mannssálarinnar tekur utan um alla tilvist hans. Hún leitast ekki við að hafa not af manninum heldur býður hún honum til samfélags. Hún nálgast manninn ekki sem neytanda heldur kallar hún hann fram til ábyrgðar.
Hún býður ekki manninum undirgefni gagnvart þeim forgengilegu hlutum sem í besta falli gefa okkur stundargleði, heldur hvetur hún hann til þess að sigrast á þeim og vera herra yfir þeim. Hún snýst ekki um það sem eyðist og glatast heldur fjallar hún um sjálfan tilgang lífsins. Hún hvetur ekki til eigingirni heldur hjálpsemi.
Hún kallar ekki fram þær hliðar í okkur sem einkennast af græðgi og skeytingarleysi gagnvart umhverfinu og náunga okkar heldur stuðlar hún að því að við verðum heilsteyptari manneskjur með stjórn á lífi okkar. Hún lítur ekki á lífið sem stöðuga samkeppni og baráttu um að olnboga sig áfram í mannmergðinni, reyna að öðlast sem mest, heldur vill hún vekja með okkur örlæti og hjálpsemi til náungans.
Öll leitum við hins góða. Við missum hins vegar stundum sjónar á því hvað er gott og eltum aðra hluti. Aðeins Guð getur gefið manninum hvíld og hugarró. Leitin að sannleika, lífsfyllingu og tilgangi fylgir manninum lífið í gegn. Um það hefur hann ekkert val. Valið snýst um það hvaða leiðsögn hann velur sér til fylgdar á þeirri mikilvægu leit. Kristin trú er ekki flótti undan lífinu. Hún gefur því gildi og gefur manninum frið. Aðeins Guð getur í kærleika sínum gefið lífi okkar fullnustu.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Skúli Sigurður Ólafsson (kirkjan@telia.com) er prestur Íslendinga í Svíþjóð. Þessi prédikun var flutt við messu Íslenska safnaðarins í Svíþjóð í Skårs kirkju sunnudaginn 28. apríl kl. 14:00.