Kynjajöfnuður í kirkjunni

Kynjajöfnuður í kirkjunni

Kirkja sem aðeins viðurkennir karla sem presta er fátæk kirkja. Leiðtogar slíkrar kirkju hafa lítinn skilning á reynsluheimi helmings samfélagsins. Því er íslenska þjóðkirkjan stærri, opnari og betri staður í dag vegna þeirra kvenna sem ruddu brautina og hafa undanfarna hálfa öld gert kirkjuna ríkari með reynslu sinni, boðun og starfi.
Mynd
fullname - andlitsmynd Sindri Geir Óskarsson
06. október 2024

„Þetta er sögulegt“, sagði kollegi þegar við höfðum rýnt í tölur og komist að því að í fyrsta sinn í kirkjusögunni eru fleiri konur en karlar sem sinna prestsþjónustu í þjóðkirkjunni. Þrátt fyrir tæplega 500 ára sögu Lútersku kirkjunnar hér á landi eru aðeins 50 ár síðan fyrsta konan var vígð til prests hér á landi.

Fyrir stofnun sem lengi vel stóð í vegi fyrir því að konur fengju leiðtogahlutverk þá er þetta stórmál. Enn í dag neita margar kirkjudeildir að vígja konur og telja það hlutverk vera frátekið fyrir karlmenn að hafa forstöðuhlutverk í söfnuði, boða fagnaðarerindið og fara með sakramenti kirkjunnar. Þessi afstaða lifir góðu lífi þrátt fyrir að í Nýja testamentinu sé nefnd kona sem gegndi slíku hlutverki, og páskasagan sýnir okkur að Kristur valdi vinkonur sínar sem fyrstu prédikara upprisunnar. En kirkjan gengur ekki alltaf í takti við boðskapinn. Hann er takmark sem við keppumst eftir, eins vel og við mögulega getum á hverjum tíma, eftir bestu sannfæringu og eftir þeim skilningi sem okkur er gefinn.

Það er sannfæring mín að kirkja sem ætlar að taka það alvarlega að hún sé líkami Krists sé blessuð þegar fjölbreytni þjóna hennar nær að spegla samfélagið í kirkjunni. „Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin“ segir Páll postuli réttilega (1.Kor 12.17), líkami Krists er samansettur af ólíkum hópi fólks sem vinnur saman að því marki að lifa og boða veg Krists. Það gengi ekki vel ef við í kirkjunni værum öll eins, eða ef leiðtogar okkar væru einsleitur hópur. Kirkja sem aðeins viðurkennir karla sem presta er fátæk kirkja. Leiðtogar slíkrar kirkju hafa lítinn skilning á reynsluheimi helmings samfélagsins. Því er íslenska þjóðkirkjan stærri, opnari og betri staður í dag vegna þeirra kvenna sem ruddu brautina og hafa undanfarna hálfa öld gert kirkjuna ríkari með reynslu sinni, boðun og starfi.

Samkvæmt þeim tölum sem þjóðkirkjan gerir aðgengilegar á heimasíðu sinni starfa 140 prestar í kirkjunni, ýmist í söfnuðum eða í sérþjónustu, t.d. í fangelsum eða með fólki á flótta. Inni í þessari tölu eru prestar sem eru í fæðingarorlofi, veikindaleyfi eða námsleyfi og þau sem eru að sinna afleysingum, eins eru biskuparnir með í þessari tölu. Þau eru öll þjónar kirkjunnar sama þótt þau séu í leyfi.
Samkvæmt heimasíðu kirkjunnar þjóna 72 konur sem prestar í þjóðkirkjunni, þar af eru 30 þeirra sóknarprestar. Á sama tíma eru 68 karlar prestar í kirkjunni, þar af eru 31 þeirra sóknarprestar. Auk þeirra starfa 8 prestar, 5 konur og 3 karlar, á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum. Þetta er sögulegt, hlutföllin gætu ekki verið jafnari.

Til hamingju allt kirkjufólk, og takk elsku systur fyrir að gera kirkjuna að breiðari, opnari, víðsýnni og öruggari stað fyrir öll þau sem vilja leita þjónustu kirkjunnar.