Núvitund á kristnum grunni, fyrsti hluti: Lífsandinn

Núvitund á kristnum grunni, fyrsti hluti: Lífsandinn

Oft léttir á kvíða og spennu við það eitt að gefa því gaum, án þess að leita skýringa, bara finna og vera og dvelja í augnablikinu, hér og nú. Og Guð er hér með okkur, Guð er hér til að mæta okkur, Guð sem blæs okkur lífsanda í brjóst, Guð sem ER lífsandinn.
Mynd

Streymi frá núvitundarstund 1 í Grensáskirkju

Fimmtudagar eru núvitundardagar í Grensáskirkju. Þegar lífið gengur sinn vanagang mætast hér frammi að morgni konur á ýmsum aldri og stöku karl til að spjalla um lífið og tilveruna yfir prjónaskap og góðu kaffi og með´því. Við slík tækifæri er nándin góða ríkjandi, nánd vináttu, nánd augnabliksins þegar hlátur og gleði er við völd. Heldur hljóðlátara var hér í morgun enda faðmlög bönnuð og vík milli vina.

Svo þegar kvöldið gengur í garð, rúmlega sex, erum við vön að hittast nokkur saman í kapellunni og iðka núvitund á kristnum grunni áður en tólf spora hóparnir hefja sína vinnu. Við færum þá stund yfir í hádegið í dag í einfaldaðri mynd og bjóðum ykkur að njóta með okkur nærveru Guðs, nærveru hvert við annað þó í fjarlægð séum og nærveru við okkur sjálf, líkama, huga og tilfinningar, sál og anda.

Við komum okkur fyrir í þægilegri uppréttri stöðu, jarðsamband með fótunum, himnasamband með höfðinu. Gott er að láta hendur hvíla á lærum. Markmiðið er ekki endilega að slaka á, þó það gerist oft eins og af sjálfu sér þegar við förum að veita líkama okkar athygli með vakandi vitund. Núvitundaræfingu má líkja við spennandi könnunarleiðangur um líkama okkar, árvökula tengingu við tilfinningar og huga, sál og anda.

Við beinum athygli okkar að andardrættinum. Athugum hvar við finnum sterkustu áhrif andardráttarins á líkama okkar. Kannski er það við nasavængina, örlítill þrýstingur, blíðlegt kuldastreymi inn um nasirnar. Eða þá að við finnum andann neðar, í hálsinum, niður í lungu, allt niður í kviðinn sem þenst út og dregst síðan saman aftur við útöndunina. Við breytum ekki andardrættinum, bara finnum hann og meðtökum áhrif hans, jafnvel allt niður í tær, út í fingur, já upp í hvirfil. Þannig er andartakið þrungið undri og eftirvæntingu í vitund um það kraftaverk að við erum á lífi.

Í andardrættinum er lífið sjálft falið. Í Fyrstu Mósebók segir að Guð hafi mótað manninn af moldu jarðar og blásið lífsanda í nasir hans: „Þannig varð maðurinn lifandi vera“ (1Mós 2.7).  Og Prédikarinn segir af sinni jarðbundnu visku: „Og moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.“ (Préd 12.7). Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.

En hér erum við, innblásin anda Guðs, lifandi verur vegna andans sem streymir um líkama okkar. Finnum iljar okkar í gólfinu, lærin sem hvíla á stólnum, veitum athygli því sem við skynjum í fótleggjunum báðum, kannski hitatilfinning eða daufur náladofi, finnum hvernig efnið í fötunum kemur við húðina, gaumgæfum alla spennu, kynnumst tilfinningunni í neðri hluta líkamans. Kannski finnum við ekki neitt. Það er allt í lagi. Við leitumst við að beina hugsunum okkar að líkamlegri skynjun, ekki til að dæma eða leita skýringa á þeirri líðan sem við finnum heldur bara til að veita eftirtekt, sýna forvitni jafnvel.

Færum síðan athyglina ofar, upp í kviðarholið sem áfram þenst út og dregst saman með andardrættinum, líkt og blaðra sem blásið er í og tæmd af lofti. Kannski finnum við hreyfingu andardráttarins alveg aftur í bak, allan hringinn, kannski ekki. Finnum fyrir höndum og handleggjum, ekki með því að hreyfa til dæmis fingur eða sjá þá fyrir okkur heldur með því að veita athygli allri tilfinningu, skynja lífið sem í líkamanum býr, alveg út í fingurgóma. Og svo færum við hugann upp í axlir, niður bakið og aftur upp í brjóstið. Það er líklegt að við finnum óþægindi á þessu svæði, kannski spennu milli herðablaðanna eða hnút í maganum. Við veitum því athygli, aftur án þess að dæma og án þess að reka á brott, bara finna og skynja. Oft léttir á kvíða og spennu við það eitt að gefa því gaum, án þess að leita skýringa, bara finna og vera og dvelja í augnablikinu, hér og nú.

Og Guð er hér með okkur, Guð er hér til að mæta okkur, Guð sem blæs okkur lífsanda í brjóst, Guð sem ER lífsandinn. „Ég er“, svarar Guð þegar Móse spyr viðmælanda sinn að nafni við runnann sem logaði en brann þó ekki. „Ég er sá sem ég er,“ segir Guð (2Mós 3.13-14). ÉG ER.

Því segjum við á núvitundarstundunum okkar hér í Grensáskirkju einföld orð sem við tengjum andardrættinum. Á innöndun segjum við: Ég er – og á útöndun: Ég er hér. Segjum þetta saman þrisvar sinnum áður en hún Ásta lýkur stundinni með fallegum orgelleik.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                                      

Þríeinn Guð, lífgjafi þinn, lífsbjörg og lífsandi, blessi þig og varðveiti á þessari stundu og um ókomna tíð. Góðar stundir.

Þessa og fleiri hugvekjur og bænir má finna á 

http://https://www.facebook.com/Fossvogsprestakall